Ferill 769. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2225  —  769. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um veikindafjarvistir barna.


     1.      Er upplýsingum safnað á landsvísu um umfang veikindafjarvista barna frá leikskólum og grunnskólum?
    Haldið er utan um upplýsingar um veikindafjarvistir barna á vettvangi hvers grunnskóla í samræmi við reglugerð nr. 897/2009, um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. Aftur á móti er slíkum upplýsingum ekki safnað miðlægt frá leikskólum og grunnskólum af mennta- og barnamálaráðuneyti eða Hagstofu Íslands.
    Unnið er að því í mennta- og barnamálaráðuneyti að bæta gagnaöflun um málefni barna. Liður í því er undirbúningur miðlægs nemendaskráningarkerfis sem nú fer fram innan ráðuneytisins. Nemendaskráningarkerfinu er ætlað að gefa stjórnvöldum skýra mynd af skráningu barna í grunnskóla og mun kerfið halda utan um skráningu barna í skóla í öllum sveitarfélögum á landinu og bera saman við þjóðskrá. Þannig fæst yfirsýn yfir að skólaskylda barna sé tryggð, t.d. við flutning milli sveitarfélaga og við upphaf skólagöngu. Þegar slík nemendaskráning liggur fyrir er hægt að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að bæta miðlægu yfirliti yfir fjarvistaskráningu barna ofan á nemendaskráningu.
    Í heimsfaraldri COVID-19 safnaði ráðuneytið upplýsingum frá landlæknisembættinu um fjölda barna í sóttkví og einangrun, ásamt því að óskað var eftir upplýsingum frá sveitarfélögum um fjölda kennslustunda sem féll niður vegna sóttkvíar, einangrunar eða veikinda kennara. Var gögnunum safnað í gagnagrunn sem gaf mynd af því hvar helst á landinu börn mættu ekki í skóla á hverjum og einum tíma. Í þessari vinnu kom fram hversu mikilvægt það væri að ráðuneytið hefði mjög skýrar lagaheimildir til að sækja tölfræðigögn sem þessi til sveitarfélaganna. Er nú unnið að frumvarpi í ráðuneytinu til að skýra heimildir stjórnvalda til að afla gagna um farsæld og velferð barna.
    Að auki er unnið að því að efla gagnaöflun innan ráðuneytisins með Íslensku æskulýðsrannsókninni, sem lögð er fyrir börn í 4.–10. bekk um allt land árlega. Um er að ræða umfangsmikla gagnaöflun sem horfir til fjölda atriða sem lúta að líðan og högum barna og ungmenna. Þar er m.a. spurt hvort börnin hafi sleppt því að mæta í skóla án þess að vera veik eða með leyfi. Skýrslur með niðurstöðum könnunarinnar eru afhentar skólastjórnendum ásamt því að niðurstöður eru afhentar ráðuneytinu til frekari úrvinnslu, m.a. til notkunar í nýtt mælaborð um velferð barna sem birt verður á haustmánuðum. Gögnin eru einnig notuð sem grundvöllur stefnumótunar ráðuneytisins og til að sinna eftirlitshlutverki þess.

     2.      Ef svo er, hefur heimsfaraldur kórónuveiru haft áhrif á slíkar fjarvistir?
    Þar sem upplýsingum um veikindafjarvistir barna frá leikskólum og grunnskólum hefur ekki verið safnað miðlægt liggja ekki fyrir upplýsingar um þróun veikindafjarvista eftir að samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs COVID-19 var létt.
    Á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir átti mennta- og barnamálaráðuneyti, áður mennta- og menningarmálaráðuneyti, í virku samráði við skólasamfélagið um viðbrögð við heimsfaraldri. Setti ráðuneytið m.a. á fót vöktunarteymi um skóla- og frístundastarf og sóttvarnaráðstafanir í janúar 2022, en um var að ræða samvinnuverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðisráðuneytis, Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennarasambands Íslands, almannavarnadeildar höfuðborgarsvæðisins og Skólameistarafélags Íslands. Vöktunarteymið hafði það hlutverk að stuðla að markvissum viðbrögðum við áskorunum skólastarfs í heimsfaraldri, m.a. fjarvistum nemenda frá námi, tryggja sem best velferð barna og ungmenna og standa vörð um lögbundinn rétt þeirra til menntunar. Hlutverk þess var einnig að finna leiðir að því að verja skólastarf gegn áhrifum heimsfaraldurs og tryggja nauðsynlegan og samræmdan stuðning við skóla- og frístundastarf á landsvísu. Fyrsti fundur fór fram 3. janúar 2022 og fundaði vöktunarteymið daglega fyrstu vikur þess árs. Einnig átti ráðherra reglulega samráðsfundi í heimsfaraldri með víðari hópi helstu hagsmunaaðila skólamála til að fara yfir álitaefni sem kynnu að vera uppi. Á þessum fundum var jafnan farið yfir stöðu skráninga barna í sóttkví eða einangrun og fylgst náið með þróun hennar eftir því sem leið á faraldurinn.

     3.      Hefur samráð verið haft við heilbrigðisráðuneyti vegna aukinna fjarvista af þessum toga?
    Mennta- og barnamálaráðuneyti var í samráði við heilbrigðisráðuneyti meðan á heimsfaraldrinum stóð meðal annars vegna stöðu barna og ungmenna í leik- og grunnskólum. Ekki hefur verið um að ræða formlegt samráð um veikindafjarvistir barna eftir að heimsfaraldri lauk en ráðuneytin eiga með sér víðtækt samráð um ýmis málefni sem tengjast börnum og ungmennum.