Ferill 1154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2226  —  1154. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um greiðsluþátttöku heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum.


     1.      Hversu margir dvöldu á dvalar- og hjúkrunarheimilum á árunum 2018–2022 og hversu margir heimilismenn þurftu að taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á sama tímabili? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Eftirfarandi tafla sýnir þann fjölda sem dvaldi um lengri eða skemmri tíma á dvalar- og hjúkrunarheimilum á árunum 2018–2022:

2018 3.560
2019 3.635
2020 3.690
2021 3.704
2022 3.841

    Umbeðnar upplýsingar varðandi hversu margir heimilismenn þurftu að taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á sama tímabili liggja ekki fyrir hjá heilbrigðisráðuneyti, en Tryggingastofnun framkvæmir útreikninga vegna þátttöku í dvalarkostnaði þeirra sem búa á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Heyrir stofnunin undir félags- og vinnumarkaðsráðherra.

     2.      Hvernig er dvalarkostnaður skv. 2. mgr. 22. laga nr. 125/1999 ákvarðaður, þ.e. hvaða útreikningar liggja þar að baki?
    Í reglugerð nr. 1112/2006, ásamt síðari breytingum, um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, koma fram þær forsendur sem liggja til grundvallar við útreikninga fyrir hvern og einn einstakling sem dvelur á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Helstu þættir sem liggja til grundvallar útreikninga eru hjúskaparstaða og tekjur.

     3.      Er útreikningur dvalarkostnaðar skv. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 125/1999 samræmdur á milli hjúkrunarheimila, eða getur verið munur á kostnaði hjúkrunarheimila? Ef svo er, hvers vegna?
    Já, útreikningur dvalarkostnaðar er samræmdur á milli hjúkrunarheimila.

     4.      Hver er hámarksfjárhæð sem heimilismaður getur þurft að greiða í dvalarkostnað skv. 22. gr. laga nr. 125/1999?
    Upphæðin kemur fram í reglugerð nr. 1112/2006, ásamt síðari breytingum, um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, og er nú 525.849 kr. á mánuði.

     5.      Hversu margir heimilismenn greiddu hámarksgreiðslu dvalarkostnaðar á árunum 2018–2022? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Umbeðnar upplýsingar liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu þar sem Tryggingastofnun framkvæmir útreikninga vegna þátttöku í dvalarkostnaði þeirra sem búa á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Heyrir stofnunin undir félags- og vinnumarkaðsráðherra.

     6.      Hver var meðalkostnaður dvalarheimila á mánuði vegna vistunar heimilismanns á árunum 2018–2022? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Vísað er til gagna sem komu fram í skýrslu verkefnastjórnar sem ráðherra skipaði 20. júlí 2020 til að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Greiningin byggðist einkum á svörum rekstraraðila heimilanna við fyrirspurnum sem beint var til þeirra í nóvember sama ár. Spurt var um einstaka kostnaðar- og tekjuliði, þá þjónustu sem veitt er og þá sem þiggja hana, m.a. hjúkrunarþyngd, og ýmsar breytur sem snúa að húsnæði, rekstraraðila, staðsetningu og öðrum þáttum. Beðið var um upplýsingar fyrir árin 2017 til 2019 og fyrri helming ársins 2020. Verkefnastjórnin fékk KPMG til að annast gagnavinnuna samkvæmt verklýsingu stjórnarinnar. Svör bárust frá 89% heimilanna en nokkuð misítarleg.
    Kafli 2.4. fjallar ítarlega um þá þætti sem rekstrarkostnaður heimilanna tekur til, en þar kemur eftirfarandi fram:
    Rekstrargjöld heimila sem fá daggjaldagreiðslur voru samtals 31,1 milljarður kr. árið 2019. Langstærsti útgjaldaliðurinn var launagreiðslur og voru laun og launatengd gjöld 77% af heildarrekstrarkostnaði heimilanna. Önnur rekstrargjöld skiptust á fjölmarga liði og var húsnæðiskostnaður stærstur þeirra og stoðþjónusta næststærsti liðurinn. Rekstrargjöld á hvert rými árið 2019 voru að jafnaði 14,2 millj. kr., eða tæpar 1,2 millj. kr. á mánuði. Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar eru það rúmar 1,5 millj. kr. á verðlagi í júní 2023. Hagstofan notar til grundvallar útreikningnum birt gildi vísitölu framfærslukostnaðar og vísitölu neysluverðs. Því ber að hafa í huga eins og fram hefur komið að laun nema um 77% af rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila. Launahækkanir og misjafnt vægi starfshópa endurspegla því ekki endilega raunverulega hækkun rekstrargjalda heimilanna milli áranna 2019 og 2023.
    Gögn um rekstrarútgjöld dvalar- og hjúkrunarheimila varðandi önnur ár en fram koma í skýrslunni liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu.

     7.      Telur ráðherra að til greina komi að sérstaklega verði litið til þess ef maki heimilismanns er tekjulágur þannig að það komi til lækkunar á greiðsluþátttöku hans?
    Ráðherra telur þörf á að endurskoða í heild sinni fyrirkomulag dvalarkostnaðar á hjúkrunarheimilum ásamt kostnaðargreiningu þjónustunnar í samhengi við endurskoðun á rekstrarfyrirkomulagi hjúkrunarheimila. Í kjölfar samninga Sjúkratrygginga Íslands um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu voru settir á fót vinnuhópar með hagaðilum sem falið var að endurskoða annars vegar mats- og greiðslukerfi til hjúkrunarheimila og hins vegar fyrirkomulag húsnæðismála hjúkrunarheimila. Tillögur vinnuhópana að breytingum berast ráðherra um miðjan september.