Ferill 1105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2241  —  1105. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um kynjahlutfall í háskólanámi.


     1.      Hvert var kynjahlutfall nýskráðra háskólanema á Íslandi árin 2016–2022?
    Kynjahlutfall nýskráðra háskólanema er um 40% karlar og 60% konur, sbr. eftirfarandi yfirlit yfir nýskráningar nemenda sem innritast í fyrsta sinn í grunnnám háskóla skipt eftir skólaárum og kyni. Athygli er vakin á að hlutfallið breytist lítið yfir allt tímabilið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kynjahlutfall karla er breytilegt eftir háskólum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hlutfall karla er áberandi langhæst í Háskólanum í Reykjavík. Skýringar á breytileika á milli einstakra háskóla má að líkindum að stærstum hluta rekja til áherslugreina þeirra. Meginfagsvið Háskólans í Reykjavík eru verkfræði, tæknifræði, tölvunarfræði, byggingafræði og iðnfræði sem eru hefðbundnar karllægar greinar samkvæmt greiningum Eurostudent. Hlutfall kvenna er samkvæmt sömu gögnum hærra en karla á sviðum menntunar, hugvísinda og lista, heilsu og velferðar og félagsvísinda.

     2.      Hefur kynjahlutfall nýskráðra háskólanema á Íslandi verið borið saman við hlutfallið í öðrum löndum innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar? Ef svo er, hvernig kemur sá samanburður út?
    Þegar skoðuð er þróun undanfarna áratugi í Evrópu má sjá miklar breytingar í þátttöku kvenna í æðri menntun. Á tímabilinu 1970 til aldamóta hækkaði hlutfall kvenna frá því að vera um 28% í 50%. Þróunin hefur síðan haldið áfram og núna er algeng kynjaskipting 60% konur á móti 40% karlar. Eflaust eru fjölmargar skýringar á þessari þróun en hin seinni ár má að minnsta kosti að hluta finna skýringu í auknum fjölbreytileika námsleiða á sviðum heilbrigðis- og velferðarmála og félagsvísinda. Þegar Eurostudent-flokkun námssviða er skoðuð ( www.eurostudent.eu/publications), má sjá að hæst er hlutfall kvenna í námi á sviðum menntunar (72%), hugvísinda og lista (68%), heilsu og velferðar (65%), félagsvísinda (63%). Lægstu hlutdeildina er aftur á móti að finna í upplýsinga- og fjarskiptatækni (17%) og verkfræði (29%).
    Í gagnagrunni Eurostat ( www.eurostudent.eu/publications) er að finna eftirfarandi niðurstöður könnunar um kynjahlutföll í háskólum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hlutföllin eru breytileg eftir löndum samkvæmt framangreindri könnun Eurostudent. Konur eru alls staðar í meiri hluta háskólanema, með einni undantekningu. Ísland er hér með hæst hlutfall kvenna í háskólum og eru hlutföllin svipuð í Noregi, Svíþjóð og hér á landi. Hafa ber í huga að gögnin byggjast á þeim sem svara spurningakönnun og því er á þeim sú takmörkun, en myndin virðist vera nokkuð skýr

     3.      Hvert var kynjahlutfall útskrifaðra háskólanema á Íslandi árin 2016–2021?
    Eftirfarandi tafla sýnir kynjahlutfall útskrifaðra nemenda í íslenskum háskólum brotið niður á námsstig. Töluverður breytileiki er eftir námsstigum, þannig er t.d. hlutfall í útskrifast af meistarastigi 70% konur á móti 30 % karlar.
    Kynjahlutföll eru misjöfn eftir námsstigum þ.e. hvort er um að ræða grunndiplómanám, bakkalárnám, viðbótarnám á meistarastigi, meistaranám eða doktorsnám.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Litlar breytingar eru á hlutföllunum á milli áranna 2016–2022.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ef lagðar eru saman allar brautskráningar (öll námsstig) eru kynjahlutföllin eftirfarandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     4.      Telur ráðherra kynjahlutfall við skráningu og útskrift ásættanlegt? Ef ekki, hyggst ráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess að stuðla að jafnara kynjahlutfalli?
    Hlutfall karla af nýskráðum nemendum í háskóla er um 40% (39,7% haust 2022) og er næstum óbreytt allt tímabilið 2016–2022. Hlutfall brautskráninga karla á sama tímabili er lægra eða um 34%. Hér er mikilvægt að hafa í huga að þessi hlutföll eru mjög breytileg eftir námsstigum.
    Í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025, sbr. þingskjal 1530, 982. mál á 153. löggjafarþingi, er meðal stefnumótandi aðgerða (liður 1.8) lögð áhersla á aukið jafnrétti í háskólum með sérstaka áherslu á að fá fleiri unga karla í háskólanám. Um framtíðaráskoranir í háskóla og vísindastarfi segir m.a.: „Aðsókn í háskólanám er mun meiri á meðal ungra kvenna en karla og lætur nærri að 2/3 nemenda séu konur. Á sama tíma hefur sókn kvenna aukist í störf sem áður voru talin hefðbundin karlastörf og verulega hefur skort á að takist hafi að laða karlmenn inn á námsbrautir sem hafa lengst af höfðað mest til kvenna, svo sem menntavísindi og tiltekinn hluta heilbrigðisvísinda. Rúmlega 30% karlmanna á aldrinum 16–74 ára hafa lokið háskólaprófi hér á landi og það hlutfall nokkuð lægra en á öðrum Norðurlöndum. Íslendingar af erlendum uppruna, sem fer ört fjölgandi, skila sér illa inn í háskólakerfið en sú þróun getur leitt til alvarlegrar stéttaskiptingar sem nauðsynlegt er að sporna við“.
    Á vormánuðum 2023 var farið af stað með sérstakt átak þar sem fjölbreyttir hópar ungs fólks og þá sérstaklega ungir karlar voru hvattir til að sækja um í háskóla. Átakið var til viðbótar við markaðssetningu háskólanna sjálfra. Sérstök áhersla var lögð á að heimurinn stækki við að fara í háskóla og að með háskólanámi fjölgi einstaklingar tækifærum sínum til fjölbreyttari starfa í samfélaginu. Aukning er í fjölda umsókna í háskóla í haust og er fjölgun umsókna karla 13%. Átakið sem fór af stað í apríl 2023 virðist því hafa skilað árangri.