Ferill 729. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2245  —  729. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um vernd í þágu líffræðilegrar fjölbreytni.


     1.      Til hvaða aðgerða var gripið svo að uppfylla mætti 11. Aichi-markmið um líffræðilega fjölbreytni, þar sem kveðið var á um að fyrir árið 2020 skyldu 10% alls strand- og hafsvæðis njóta verndar og 17% alls landsvæðis? Hver voru þessi hlutföll á Íslandi þegar markmiðin voru samþykkt og hver voru þau við lok þess tímabils sem Aichi-markmiðin tóku til?
    Áður en Aichi-markmiðin um vernd líffræðilegrar fjölbreytni voru samþykkt var náttúruverndaráætlun 2004–2008 samþykkt á Alþingi árið 2004. Markmið áætlunarinnar var að vernda líffræðilega fjölbreytni með því að gera tillögu um friðlýsingu svæða til að tryggja verndun þeirra tegunda fugla og plantna sem helst væru verndarþurfi á landinu, verndun helstu flokka jarðminja, mikilvægustu birkiskóga landsins og mikilvægra vatnakerfa. Árið 2009 var náttúruverndaráætlun 2009–2014 samþykkt á Alþingi. Tilgangurinn með vinnslu hennar var að koma upp neti friðlýstra svæða sem tryggðu verndun lífríkis og jarðminja sem þarfnast verndar. Árið 2018 hófst friðlýsingarátak þáverandi ríkisstjórnar. Átakið fól m.a. í sér vinnu að friðlýsingum svæða á náttúruverndaráætlunum, svæðum í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, svæðum undir álagi ferðamanna og stækkun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Að auki bárust tillögur að friðlýsingum frá heimafólki og sveitarstjórnum.
    Eftir samþykkt Aichi-markmiðanna hafa eftirfarandi svæði verið friðlýst eða stækkuð:

2011 2012 2013 2014 2016
Búsvæði tjarnaklukku á Hálsum Skerjafjörður innan marka Kópavogs Álafoss Garðahraun efra, Garðahraun neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar Glerárdalur
Hverfjall Seljahjallagil, Bláhvammur, Þrengslaborgir og nágrenni Tungufoss Bringur í Mosfellsdal
Dimmuborgir Blábjörg á Berufjarðarströnd
Viðey í Þjórsá
Kalmanshellir
2017 2019 2020 2021 2022 2023
Þjórsárver – stækkun Akurey Hlið – stækkun Látrabjarg Hellar á Þeistareykjum Bessastaðanes
Svæði í Þjórsárdal Varmárósar – stækkun Blikastaðakró – Leiruvogur
Goðafoss Garðahraun – stækkun
Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá Fitjaá
Geysir Lundey
Kerlingarfjöll Flatey – stækkun
Snæfellsjökulsþjóðgarður – stækkun
Svæði norðan Dyrfjalla og Stórurð
Gerpissvæðið
Drangar

    Auk þessara friðlýsinga voru æðplöntur, mosar og fléttur sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands friðaðar árið 2021.
    Þá hefur Vatnajökulsþjóðgarður verið stækkaður sjö sinnum og eftirfarandi svæði bæst við þjóðgarðinn:

2009 2011 2013 2014 2017 2019 2021
Dyngjufjöll, og fjalllendi á jörðum Hoffellsjökuls Langisjór og hluti Eldgjár og nágrennis Krepputunga Meiðavallaskógur við Ásbyrgi Jörðin Fell og þjóðlendur vestan Jökulsárlóns að Fjallsá Hluti Ódáðahrauns, þ.m.t. Herðubreiðarfriðlandið Sandfell og Hoffellslambatungur
Ásbyrgi Óbyggð víðerni á Bárðdælaafrétt austari

    Þann 1. janúar 2011 var stærð friðlýstra svæða að meðtöldum Breiðafirði með eyjum eftirfarandi:
    Á landi: 16.848 km2 eða 15,4% lands (103.000 km2).
    Strand- og hafsvæði 2.897 km2 eða 0,382% efnahagslögsögu Íslands (758.000 km2).
    Þann 1. janúar 2020 var stærð friðlýstra svæða að meðtöldum Breiðafirði með eyjum eftirfarandi:
    Á landi: 19.715 km2 eða 19,1% lands.
    Strand- og hafsvæði 2.908 km2 eða 0,384% efnahagslögsögu Íslands (758.000 km2).

     2.      Hvaða aðgerða á að grípa til svo að uppfylla megi svokallað 30x30-markmið, sem samþykkt var á 15. fundi aðildarríkja að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, þar sem kveðið er á um að fyrir árið 2030 skuli 30% alls hafsvæðis njóta verndar og 30% alls landsvæðis? Hver voru þessi hlutföll á Íslandi þegar markmiðin voru samþykkt?
    Hvað varðar landsvæði þá hefur Náttúrufræðistofnun eins og kunnugt er sett fram tillögur að svæðum á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Þær tillögur eru settar fram með hliðsjón af markmiðum náttúruverndarlaga um að lögð skuli áhersla á að byggja upp skipulegt net verndarsvæða sem stuðli að vernd líffræðilegrar fjölbreytni, jarðbreytileika og fjölbreytni landslags. Hvað viðkemur upplýsingum um hvar sú vinna stendur er vísað í svar ráðherra við fyrirspurn fyrirspyrjanda á 152. löggjafarþingi (292. mál) um stöðu vinnu vegna undirbúnings framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár.
    Hvað varðar hafið þá hefur matvælaráðuneytið sett af stað vinnu um verndarráðstafanir í hafi sem taka mið af markmiðum samþykktum á 15. fundi aðildarríkja að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Ný reglugerð um verndun viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa var staðfest í febrúar 2023 og er markmið reglugerðarinnar að tryggja nauðsynlegar verndarráðstafanir vegna viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa með tilliti til fiskveiða, líffræðilegrar fjölbreytni, verndunar vistkerfa og varúðarnálgunar. Í reglugerðinni eru skilgreind þrjú ný svæði þar sem botnveiðar eru nú óheimilar. Að auki hafa verið færð inn í sömu reglugerð svæði sem áður voru í reglugerð um friðunarsvæði við Ísland. Við gildistöku þessarar reglugerðar eru botnveiðar bannaðar samtals á sautján svæðum í fiskveiðilandhelgi Íslands, en svæðin taka til tæplega 2% af fiskveiðilandhelginni. Reglugerðin byggist á vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
    Matvælaráðherra skipaði stýrihóp í apríl 2023 sem ætlað er að skilgreina áherslur um verndun hafsvæða innan íslenskrar lögsögu til samræmis við markmið alþjóðasamninga. Hópurinn mun rýna stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins og er áhersla lögð á virka svæðisvernd í hafi (e. other effective area based conservation measures, OECM). Einnig verða afmörkuð svæði sem hafa mikið verndargildi, svæði með vistfræðilega sérstöðu og svæði sem eru í hættu á að vera raskað. Hópurinn mun einnig gera tillögur að svæðum sem þarfnast verndunar. Hópurinn á að horfa til þess markmiðs alþjóðlegra samninga að a.m.k. 30% heimshafanna verði innan verndarsvæða eða njóti annarrar virkrar svæðisbundinnar verndar og verði stefnt að verndun innan efnahagslögsögu Íslands í samræmi við fyrrgreind markmið. Lögð er áhersla á að markmið verndunar séu skýr, að árangur sé tryggður með vöktun og eftirliti, unnið verði á vísindalegum grunni og í samráði við haghafa.
    Þann 1. janúar 2023 var stærð friðlýstra svæða að meðtöldum Breiðafirði með eyjum eftirfarandi:
    Á landi: 20.674 km2 eða 20,1% lands.
    Í hafi: 2.964 km2 eða 0,393% efnahagslögsögu Íslands.