Ferill 1036. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2248  —  1036. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur um stöðugildi lækna og hjúkrunarfræðinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mörg voru stöðugildi lækna og hjúkrunarfræðinga árin 2017–2022? Svar óskast sundurliðað eftir heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum, öldrunarheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum.
     2.      Í hversu mörgum þessara stöðugilda var fastráðið starfsfólk á sama bili? Svar óskast sundurliðað eftir læknum og hjúkrunarfræðingum.
     3.      Í hversu mörgum þessara stöðugilda var lausráðið starfsfólk eða verktakar á sama bili? Svar óskast sundurliðað eftir læknum og hjúkrunarfræðingum.
     4.      Hversu mörg þessara stöðugilda voru ómönnuð á sama bili? Svar óskast sundurliðað eftir læknum og hjúkrunarfræðingum.
     5.      Í hversu mörgum þessara stöðugilda voru nemar á sama bili? Svar óskast sundurliðað eftir læknum og hjúkrunarfræðingum.


    Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir framangreindum upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH), Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE), Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST), Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN), Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU), Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Þá óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) vegna þeirra aðila sem starfa samkvæmt samningi við SÍ. Svör bárust ekki frá öllum framangreindum aðilum.
    Eftir yfirferð á gögnunum varð ráðuneytinu ljóst að til að svara fyrirspurninni þyrfti að ráðast í mikla greiningarvinnu og ítarlega staðlaða upplýsingaöflun frá heilbrigðisstofnunum. Er það mat ráðuneytisins að vinna við að ljúka fyrirspurninni sé umfram það sem lagt sé til grundvallar í 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Umfang vinnu við að svara fyrirspurninni sé þess eðlis að það eigi fremur við um skýrslu skv. 54. gr. þingskapalaga.
    Umfangsmikil vinna í heilbrigðisráðuneytinu er þegar hafin við mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið, sem miðar að því að móta framtíðarsýn ráðuneytisins um gögn og greiningar, ná yfirsýn yfir mönnun heilbrigðisstétta og undirbyggja mönnunaráætlun til framtíðar. Niðurstaða þeirrar greiningar mun í framtíðinni aðstoða við að svara þingfyrirspurnum sem þessum.
    Þá hefur ráðherra nú sett af stað umfangsmikið verkefni um framtíð læknisþjónustu á Íslandi, sem verður unnið í nánu samstarfi við haghafa.