Ferill 1090. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2257  —  1090. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um endurmat útgjalda.

    
    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðuneytið innleitt endurmat útgjalda samkvæmt skilgreiningu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD)? Ef svo er, hvenær var það gert og hvaða árangri hefur það skilað?

    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur forystu um gerð útgjaldagreininga til að meta skilvirkni og árangur fjárveitinga úr ríkissjóði og kerfisbundið endurmat útgjalda í samstarfi við önnur ráðuneyti hefur á undanförnum árum gegnt auknu hlutverki í fjárlagaferlinu í þessu skyni. Þetta felur m.a. í sér að lagt er mat á þau stjórntæki eða þær aðgerðir sem mögulegar eru til að ná þeim árangri sem stefnt er að með sem minnstum tilkostnaði. Þetta á að gera stjórnvöldum betur kleift að hagræða og forgangsraða takmörkuðum fjármunum og styðja við og styrkja ákvarðanatöku stjórnvalda með framsetningu ólíkra valkosta í tengslum við stefnumál og mögulegra áhrifa þeirra.
    Frá árinu 2018 hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið lagt áherslu á að móta aðferðafræði endurmats útgjalda í samræmi við lög um opinber fjármál (LOF), sbr. m.a. sérstaka umfjöllun í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 (bls. 131). Leitast hefur verið við að fylgja leiðbeiningum OECD um heppilegasta verklag, auk þess sem aðferðafræðin hefur verið löguð að íslenskum aðstæðum og áherslum í LOF á sjálfbærni og gagnsæi opinberra fjármála á grundvelli mælanlegra, skýrra og auðsærra markmiða.
    Fjallað hefur verið um fyrirkomulag og framkvæmd á verklagi við endurmat útgjalda og ákveðin umgjörð var samþykkt árið 2018 af þáverandi ríkisstjórn. Í samráði við fagráðuneyti voru í kjölfarið skilgreind og valin verkefni sem talin voru ákjósanleg í fyrstu umferð til útgjaldagreiningar. Fimm verkefni voru tilgreind, en jafnframt lagt til að af þeim yrðu 2–3 valin í fyrstu umferð, eitt stærra verkefni (ársverkefni) og 1–2 minni verkefni sem gætu haft þýðingu fyrir fjármálaáætlun 2020–2024. Lögð var áhersla á að skýr tenging ætti að vera á milli útkomu endurmata og fjármálaáætlana, þ.e. að loknu endurmati ætti næsta fimm ára áætlun að endurspegla niðurstöðuna og þar með mögulega hagræðingu eða endurskipulagningu fyrir viðkomandi málefni eða verkefni. Alls hefur verið ráðist í fimm verkefni frá árinu 2019. Sjá töflu.

Tafla. Verkefni sem lúta að endurmati útgjalda.

Ár Verkefni Áætlaður ávinningur Staða máls
2019 Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi 200 m.kr. á ári Frumvarp hefur ekki verið lagt fram
Endurmat á rekstri sýslumannsembætta Verkefnið fólst í heildstæðri greiningu og endurskipulagningu vegna rekstrarvanda embættanna Frumvarp hefur ekki verið lagt fram
2020 Almannatryggingakerfið – örorku- og endurhæfingargreiðslur 1,5 ma.kr. Verið er að nýta niðurstöður endurmatsins til mótunar og fjármögnunar á nýju örorkukerfi
Framhaldsfræðsla Gagnleg greiningarvinna farið fram Greiningarefni verið notað til endurskoðunar á framhaldsfræðslunni
2021 Þjónusta við aldraða Aukin áhersla á þjónustu í heimahúsum á að geta dregið úr útgjöldum ríkissjóðs um 9,5 ma.kr. á ári að 10 árum liðnum Í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið tekið tillit til tillagna starfshópsins í stefnumótun ráðuneytisins í málefnum aldraðra

    Litið hefur verið á þau verkefni sem valin hafa verið sem tilraunaverkefni á meðan aðferðafræðin er enn í þróun. Við val á verkefnum sem hófust 2019 var horft til þess að annað verkefnið var vel afmarkað og sneri að tilfærsluútgjöldum (endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar) en hitt var margþætt og fjallaði um rekstrarútgjöld (rekstur sýslumannsembætta). Við samþykkt beggja verkefnanna var lögð áhersla á aukna hagkvæmni og bætta þjónustu. Greining á starfsemi sýslumannsembættanna átti þó einkum að hafa að markmiði að rekstur þeirra gæti verið innan fjárheimilda þar sem embættin höfðu síðustu ár glímt við töluverðan hallarekstur.
    Vinnuhópur um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar skilaði tillögum til stýrinefndar verkefnisins og í kjölfarið til ráðherranefndar um ríkisfjármál. Í framhaldinu áformaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að vinna frumvarp til breytinga á lögum í samræmi við tillögur vinnuhópsins og tryggja þannig bætta nýtingu og lækkun fjármuna til endurgreiðslna en stefnt var að árlegri lækkun ríkisútgjalda um 200 m.kr. frá og með árinu 2020. Ekki hefur enn verið ráðist í þær breytingar sem starfshópurinn lagði til en þær niðurstöður sem liggja fyrir eru hins vegar mikilvægt innlegg í stefnumótun málaflokksins sem nú heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið.
    Endurmat á rekstri sýslumannsembætta skilaði hugmyndum að mögulegri hagræðingu og bættri þjónustu en ljóst var að þeim hugmyndum yrði ekki hrint í framkvæmd nema með skipulagsbreytingum, fjárfestingu í nýrri upplýsingatækni og frekari verkaskiptingu milli embættanna. Ljóst var að hugmyndirnar myndu leiða til fækkunar starfsmanna, auk þess sem störfum hjá embættunum gæti fækkað vegna hallareksturs og hugmynda um að afturkalla eða færa frá þeim verkefni sem þau hafa sinnt fyrir aðra ríkisaðila (svo sem ríkisskattstjóra, SÍ, TR og utanríkisráðuneytið). Þrátt fyrir niðurstöður endurmatsins hefur enn ekki verið ráðist í þær breytingar sem lagðar voru til en vinnan hefur engu að síður verið lögð að nokkru leyti til grundvallar breytingum sem gerðar hafa verið í framhaldinu hjá sýslumannsembættunum.
    Á árinu 2020 var ákveðið að ráðast í þrjú verkefni en það voru endurmat í fyrsta lagi á örorkuhluta almannatryggingakerfisins, í öðru lagi á framhaldsfræðslu og í þriðja lagi á þjónustu við aldraða. Það síðastnefnda hófst ekki í reynd fyrr en árið 2021. Öllum þessum verkefnum var lokið að mestu leyti á árinu 2022. Niðurstöður endurmats á örorkuhluta almannatryggingakerfisins hafa verið nýttar og komið að gagni í vinnu nefndar sem hefur verið að störfum og er ætlað að móta tillögur að nýju örorkukerfi. Einnig stendur til að nýta tillögur verkefnisins til fjármögnunar á fyrirhuguðum kerfisbreytingum en það felur m.a. í sér að nýta framlög úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna til að draga úr kostnaði við nýtt örorkukerfi. Þá sýndi endurmatið jafnframt ávinninginn af því að hefja snemmtæka íhlutun fyrr í veikindaferlinu en nú er. Gert er ráð fyrir að sú aðgerð geti dregið úr kostnaði örorkukerfisins um 1,5 ma.kr. ári hverju.
    Niðurstöður á endurmati útgjalda í þjónustu við aldraða sýndi að of mikil áhersla hefur verið lögð á dýra þjónustu innan stofnana en mun minni á heimaþjónustu sem er kostnaðarminna úrræði. Lagt er til að áhersla verði lögð á að auka virknigetu aldraðra þannig að þeim verði gert kleift að búa lengur á eigin heimili í stað þess að flytjast á stofnanir. Einnig að þeir hafi sérstakan þjónustustjóra sem fylgir hverjum öldruðum einstaklingi sem bæði annast vöktunina og leiðbeinir og aðstoðar vegna viðeigandi þjónustu. Í heilbrigðisráðuneytinu er tekið tillit til þessa í stefnumótun ráðuneytisins í málefnum aldraðra. Með breyttum áherslum í þá veru að þjónusta við aldraða eigi sér stað í auknum mæli í heimahúsum á að vera hægt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs en fram kemur í skýrslunni að heildarsparnaður í útgjöldum gæti numið a.m.k. 9,5 ma.kr. á ári eftir 10 ár.
    Starfshópur um endurmat útgjalda framhaldsfræðslu var skipaður árið 2020 en hópnum var falið að útskýra inntak þjónustunnar og fjárhagslegt umfang. Vinna hópsins fólst m.a. í því að greina umbótatækifæri til að fá betri yfirsýn yfir flæði fjármagns, skilvirka notkun þess og árangursmælikvarða. Hópurinn skoðaði tengsl markmiða og árangurs og greindi hlutverk hagsmunaaðila ásamt styrkleikum og veikleikum ásamt því að taka saman tölfræði og ýmsar greiningar á framhaldsfræðslukerfinu. Vinnan leiddi m.a. til þess að framhaldsfræðslan var færð frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og lagði ákveðinn grunn að stefnumótun í málaflokknum. Verkefnið skilaði tölfræði og kortlagningu á kerfinu sem hægt verður að nýta sem efnivið inn í heildstæðari athugun samkvæmt verklagi útgjaldaendurmats.