Ferill 678. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2264  —  678. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðbrandi Einarssyni um lóðarleigu á lóðum í eigu ríkisins.


     1.      Hver er lóðarleiga á lóðum í eigu ríkisins í fimm stærstu sveitarfélögum landsins? Í ljósi þess að lóðarleiga er ýmist hlutfall af lóðarmati eða krónugjald á fermetra er þess óskað að framsetning verði samræmd í formi hlutfalls af lóðarmati í öllum sveitarfélögum.
    Í gildi eru almennar reglur um afgjöld fyrir afnot af landi 1 í eigu ríkissjóðs sem síðast voru endurskoðaðar árið 2020. Ríkisaðilum sem fara með umsjón lands eða lóða í eigu ríkissjóðs ber að fara eftir þessum reglum sem settar hafa verið af ráðuneytinu. Reglurnar eru einkum settar með það að markmiði að samræmd viðmið séu til staðar við leigu á jörðum og öðru landi í eigu ríkisins í dreifbýli þvert yfir landið. Meginreglan samkvæmt reglunum er að innheimt er 3,25% af fasteignamati jarða og 4% af fasteignamati lóða. Einnig er mælt fyrir um lágmarksleiguverð sem er 95.450 kr. á ári miðað við byggingarvísitölu í janúar 2023. Í reglunum kemur þó einnig fram að gjald fyrir lóðarleigu í þéttbýli skuli taka mið af gildandi verðskrá sveitarfélags í viðkomandi þéttbýli. Er það gert til að lóðarleiga ríkisins á slíkum stöðum sé samanburðarhæf við það sem viðgengst í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Lóðarleiga og fasteignaskattur í fimm stærstu sveitarfélögunum er mjög misjöfn, sbr. eftirfarandi samanburðartöflu:
    Þess má geta að ríkið hefur ráðstafað eða selt megnið af því landi sem það hefur átt í þéttbýli í stærstu sveitarfélögunum. Það heyrir því til undantekninga að land í eigu ríkisins sé leigt út með almennum hætti á stærstu þéttbýlissvæðum landsins að undanskildum Reykjanesbæ þar sem ríkissjóður á enn umtalsvert af landi. Lóðarleiga ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar er almennt 2% af lóðarmati í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins. Í öðrum sveitarfélögum hefur almennt verið miðað við að lóðarleiga í þéttbýli sé ekki lægri en nemur 1–2% af lóðarmati hverju sinni. Heildarlóðarleiga á lóðum í eigu ríkisins á Ásbrú í Reykjanesbæ, sem er í umsýslu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco), er um 222 m.kr. Heildarlóðarleiga sem Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) innheimtir af eignum í umsjón þeirrar stofnunar yfir landið allt er hins vegar um 202 m.kr.

     2.      Hver er lóðarleiga á lóðum í eigu ríkisins að meðaltali í hverjum landshluta, sem hlutfall af lóðarmati?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið er meginreglan sú að innheimt er 3,25% af fasteignamati jarða og 4% af fasteignamati lóða og gildir það fyrir allt landið. Meðalhlutfall lóðarleigu sem innheimt er af Kadeco, sem er eingöngu innan þéttbýlis, er 2% og 3,23% hjá FSRE.
1     www.fsre.is/media/audlindir/Reglur-um-jardaafgjold-fra-juni-2020.pdf