Ferill 966. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 2266  —  966. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um lánshæfismat Íslands.


     1.      Tekur ráðherra undir það mat seðlabankastjóra að lánshæfismat Íslands sé of lágt?
    Færa má gild rök fyrir því að Ísland njóti ekki sannmælis þegar kemur að lánahæfismati sé litið til samanburðar við aðrar þjóðir. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hefur frá árinu 2019 verið A hjá lánshæfismatsfyrirtækjunum Fitch, Moody's og S&P. Hafði einkunnin þá hækkað jafnt og þétt nokkur ár í röð eftir því sem hagkerfið styrktist á ný eftir fjármálakreppuna haustið 2008, samhliða því að skuldir hins opinbera lækkuðu og ytri staða þjóðarbúsins styrktist. Einkunnin hélst svo óbreytt þrátt fyrir afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveirunnar á efnahags- og ríkisfjármál. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs er í meðallagi vestrænna ríkja. Er það þrátt fyrir þá staðreynd að í alþjóðlegum samanburði eru opinberar skuldir lágar, lýðfræðilegar áskoranir ekki sérstaklega íþyngjandi, auðlindir eru ríkulegar og nýttar með ábyrgum hætti, menntunarstig hátt, eignir lífeyrissjóða miklar í alþjóðlegum samanburði, erlend staða þjóðarbúsins sterk, stofnanir öflugar og landsframleiðsla á mann há.
    Við mat á lánshæfi byggja lánshæfismatsfyrirtækin að miklu leyti á tölfræðilegum breytum og reikniverkum þar sem smæð hagkerfisins, sem kann m.a. að leiða til sveiflukenndara og einhæfara efnahagslífs, heldur aftur af lánshæfiseinkunninni. Sá viðnámsþróttur sem íslenska hagkerfið hefur sýnt eftir heimsfaraldurinn, þar sem ríkissjóður gat tekið á sig gríðarleg útgjöld og mildað hagsveifluna á grunni sterkrar erlendrar stöðu hagkerfisins, hlýtur að vera til þess fallinn að draga úr áhyggjum matsfyrirtækjanna af næmni hagkerfisins fyrir ytri sveiflum. Á þeim grunni, og að teknu tilliti til fjölbreyttra styrkleika íslenska hagkerfisins, eru sterk rök fyrir því að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hækki enn á næstu misserum. Eftirfylgni með meginmarkmiðum stefnunnar í opinberum fjármálum, festa, varfærni og fyrirhyggja, skiptir þar höfuðmáli með stöðugan bata í afkomu og lækkandi skuldahlutfall.

     2.      Telur ráðherra að lánskjör Íslands séu nægilega góð? Ef ekki, hverjar telur hann ástæður þessara slæmu lánskjara Íslands vera?
    Lánskjör ríkissjóðs taka mið af vaxtastigi og markaðsaðstæðum hverju sinni, bæði hérlendis og erlendis. Vaxtakjör á alþjóðamörkuðum hafa verið ríkissjóði hagstæð síðustu misseri. Síðasta útgáfa ríkissjóðs erlendis ber 0% vexti, en ráðist var í hana þegar aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum voru aðrar en síðar varð. Vaxtastig bæði vestan hafs og austan hefur hækkað hratt síðustu mánuði en vaxtaálag ríkissjóðs, sem segir raunverulega til um lánskjör landsins, hefur lítillega hækkað vegna aukinnar óvissu á alþjóðamörkuðum. Hérlendis hefur svipuð þróun átt sér stað. Seðlabankinn hefur hækkað skammtímavexti til að vinna gegn verðbólgu og of háum verðbólguvæntingum. Þær vaxtahækkanir og verðbólguvæntingar birtast í vaxtakjörum ríkissjóðs. Langtímastefna ríkissjóðs í lánamálum miðar að því að lágmarka lántökukostnað og tekur mið af bestu framkvæmd eins og hún er skilgreind af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD.

     3.      Hefur ráðherra sett sér markmið um að fá betra lánshæfismat nú þegar fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 hefur verið lögð fram?
    Efnahagsbatinn og afkomubati opinberra fjármála hafa verið langt umfram björtustu spár eftir heimsfaraldurinn. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 birtist með skýrum hætti hvernig ríkisstjórnin hyggst vinna áfram á sömu braut með stöðugum afkomubata.
    Þær breytingar sem gerðar hafa verið á umgjörð opinberu fjármálanna á síðustu árum, þá einkanlega gildistaka laga um opinber fjármál, hafa skapað aukið traust á efnahag, stöðu og framvindu ríkisfjármálanna og þannig stuðlað að bættu lánshæfismati. Skynsamleg stefnumörkun í ríkisfjármálum, festa í framkvæmd hennar, árangur í skuldalækkun og fjölbreyttara hagkerfi sem stuðlað er að með fjölþættum og ólíkum hætti ættu að óbreyttu að skila sér í betra lánshæfismati. Í þessu sambandi má nefna að lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's birti mat á lánshæfi ríkissjóðs í maí; matið var óbreytt en horfum var breytt úr stöðugum í jákvæðar. Matsfyrirtækið Moody's staðfesti um miðjan júlí sl. einnig fyrra mat sitt samhliða því að breyta horfum sömuleiðis úr stöðugum í jákvæðar.