Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2267  —  23. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Hafsteinsdóttur um fjárhæðarmarkmið.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Eru starfsmönnum eða teymum á eftirlitssviði Skattsins sett fjárhæðarmarkmið við endurákvörðun skatta?

    Meginverkefni skatteftirlits er að tryggja að staðin séu skil á þeim fjármunum í ríkissjóð í formi skatta sem lög kveða á um. Árangur skatteftirlits er því nátengdur þeim fjárhæðum sem ríkissjóði áskotnast í kjölfar aðgerða eftirlitsins í formi endurálagningar skatta. Markmið eftirlitssviðs Skattsins og þar með þeirra starfsmanna sem þar starfa taka af þessu mið, þ.m.t. markmið um fjárhæðir endurálagningar. Óhjákvæmilegt er m.a. vegna takmarkaðs mannafla við eftirlit að forgangsraða einstökum málum eða málaflokkum. Að jafnaði tekur alvarleiki skattundanskota m.a. mið af fjárhæð undanskotanna, svo sem sjá má glöggt af 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er tiltekur að brot teljist meiri háttar lúti það til að mynda að verulegum fjárhæðum. Þó að málum eða málaflokkum er lúta að hærri fjárhæðum beri þannig að jafnaði að forgangsraða fram yfir aðra er lúta að lægri fjárhæðum er með aðgerðum skatteftirlits enn fremur að því stefnt að stemma stigu við ætluðum brotum, m.a. með því að tryggja ákveðna hlítni við skattalög og -reglur. Á það m.a. við um skil á tilteknum gögnum og upplýsingum sem nauðsynlegar eru fyrir almenna skattframkvæmd og -álagningu. Hafa áherslur og markmið við skatteftirlit enn fremur tekið af þessu.