Ferill 1164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2276  —  1164. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um framkvæmd krabbameinsáætlunar og stofnun krabbameinsmiðstöðvar.


     1.      Hver fer með það verkefni að móta framkvæmd og eftirfylgni krabbameinsáætlunar, í ljósi þess að í henni kemur fram það markmið að íslenskt samfélag búi yfir heildstæðri áætlun sem liggi til grundvallar stefnumótun fyrir þjónustu við fólk sem glímir við krabbamein og að starfað sé í samræmi við þá áætlun á öllum þjónustustigum?
    Tillaga að krabbameinsáætlun til ársins 2020 var lögð fram af þverfaglegum ráðgjafarhópi árið 2016. Tillögurnar, sem eru viðamiklar og ná yfir alla þætti heilbrigðiskerfisins, voru ekki mótaðar til framkvæmda né kostnaðargreindar. Ekki hafði verið tekin formleg afstaða til innleiðingar á tillögum krabbameinsáætlunar og þeirra verkefna sem sett eru fram í áætluninni fyrr en heilbrigðisráðherra ákvað í febrúar 2019 að unnið yrði að framkvæmd verkefna í samræmi við tillögur ráðgjafarhóps.
    Heilbrigðisráðuneytið kynnti árið 2019 krabbameinsáætlun fyrir heilbrigðisstofnunum landsins sem hafa það hlutverk að móta aðgerðir til framkvæmda. Ráðuneytið kynnti forgangsmarkmið sem heilbrigðisstofnanir skyldu leggja áherslu á og tilheyrandi tillögur að aðgerðum kynntar þeim stofnunum sem gegna meginhlutverki í framkvæmd þeirra. Stofnunum var þannig falið að koma aðgerðum í framkvæmd eða gera ráðuneytinu grein fyrir hindrunum við að koma viðkomandi aðgerðum í framkvæmd og ná skilgreindum árangursviðmiðum.
    Síðan þá hefur heilbrigðisráðherra lagt fram heilbrigðisstefnu til samþykktar á Alþingi árið 2019 og lýðheilsustefnu árið 2021. Heilbrigðisráðherra ákvað að framkvæmd íslenskrar krabbameinsáætlunar yrði til ársins 2030 til samræmis við samþykkta heilbrigðisstefnu.
    Markmið heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu er að mæta margs konar áskorunum, þ.m.t. eru forvarnir og meðhöndlun langvinnra sjúkdóma eins og krabbameina. Til að hrinda heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu í framkvæmd eru gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu aðila sem að málum koma. Þannig hafa aðgerðaáætlanir og framkvæmd aðgerða samkvæmt heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu verið hluti af innleiðingu verkefna í takt við tillögur krabbameinsáætlunar.
    Flestar tillögur að aðgerðum í krabbameinsáætlun eiga sér samhljóm í heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og tillögur krabbameinsáætlunar hafa fjölmargar fléttast inn í árlegar aðgerðaáætlanir heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu, sem unnar eru og lagðar fram í takt við árlega fjármálaáætlun og samþykkt fjárlög. Krabbameinsáætlun er jafnframt fylgt eftir af heilbrigðisráðuneytinu og tekin til skoðunar við gerð fjármálaáætlunar á ári hverju.
    Heilbrigðisráðuneytið horfir einnig til krabbameinsáætlunar Evrópusambandsins og vinnur að því að endurmeta og bæta krabbameinsáætlun og vinna að mótun heildstæðrar áætlunar varðandi krabbamein á öllum þjónustustigum.

     2.      Hafa verið stigin skref í átt að því að stofna íslenska krabbameinsmiðstöð svipaða þeim sem þekkjast í nágrannaríkjum Íslands?
    Stofnun einnar sérstakrar íslenskrar krabbameinsmiðstöðvar hefur ekki verið undirbúin en hópur innan Landspítala hefur lagt mat á starfsemi krabbameinsþjónustu spítalans samanborið við grunnviðmið Organization of European Cancer Institutes (OECI) sem veitir vottun fyrir krabbameinsmiðstöðvar í öllum löndum Evrópu. Niðurstöður skoðunarinnar styðja við að Landspítalinn uppfylli flesta þjónustuþætti í samstarfi við aðrar lykilstofnanir sem sinna rannsóknum og vísindastarfi. Verið er að skoða hvers konar fyrirkomulag gæti hentað á íslenskri krabbameinsmiðstöð, m.a. út frá stefnu stjórnvalda um skipulag og stjórnun ríkisstofnana.