Ferill 1172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2287  —  1172. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um skerðingar lífeyris almannatrygginga.


     1.      Hversu mikið hafa greiðslur úr ríkissjóði til lífeyrisþega lækkað vegna fjármagnstekna maka þeirra eða barna samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007? Svar óskast sundurliðað eftir árum sl. þrjú ár ásamt áætlun yfirstandandi árs. Enn fremur er óskað eftir sundurliðun eftir greiðsluflokkum almannatrygginga og því hvort um er að ræða fjármagnstekjur maka, barna eða lífeyrisþeganna sjálfra.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Tryggingastofnun eru fjármagnstekjur samsköttunaraðila taldar fram saman í skattframtali og því ekki sundurliðaðar á einstaklinga. Getur Tryggingastofnun því ekki séð hvor aðilinn sé eigandi þess andlags sem skapar fjármagnstekjurnar eða hvort um sameign sé að ræða. Helmingur fjármagnstekna er reiknaður hvorum aðila fyrir sig og kemur einungis hluti lífeyrisþegans til útreiknings fjármagnstekna. Er það einnig í samræmi við 5. mgr. 22. gr. og 6. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar þar sem fram kemur að tekjur maka lífeyrisþega hafa ekki áhrif á útreikning á fjárhæð lífeyris. Þó skulu fjármagnstekjur, þ.e. tekjur skv. C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, skiptast til helminga milli hjóna við útreikning lífeyris. Skiptir ekki máli hvort þeirra er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Teljast því fjármagnstekjur maka ekki hafa áhrif á útreikning á fjárhæð bóta og þar af leiðandi hafa greiðslur til lífeyrisþega ekki lækkað vegna tekna maka, sbr. einnig svar- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni á yfirstandandi löggjafarþingi á þingskjali 1610, 667. mál.
    Hvað varðar fjármagnstekjur barna þá eru fjárhæðir í þeim reit á skattframtali sem inniheldur vexti af innstæðum og verðbréfum barna ekki sóttar af Tryggingastofnun. Fjármagnstekjur barna hafa því ekki lækkað greiðslur til lífeyrisþega séu þær skráðar þannig á skattframtal.

     2.      Hver yrði árlegur útgjaldaauki ríkissjóðs við almannatryggingakerfið miðað við fjárlög fyrir árið 2023 ef hætt yrði að skerða greiðslur almannatrygginga vegna eigin tekna lífeyrisþega? Svar óskast sundurliðað eftir tegund tekna lífeyrisþega annars vegar og greiðsluflokkum almannatrygginga hins vegar.

    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Tryggingastofnun yrði árlegur útgjaldaauki ríkissjóðs fyrir árið 2023 um 85,2 milljarðar kr. ef eigin tekjur lífeyrisþega hefðu ekki áhrif til lækkunar á greiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar og á greiðslum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Sú aðferð var notuð að byggja á tölum fyrir janúarmánuð 2023 og margfalda þær með tólf.
    Í töflu 1 er sundurliðun eftir helstu greiðsluflokkum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Hver dálkur sýnir kostnað ríkissjóðs af því ef tilteknar tekjur yrðu undanþegnar við útreikning á fjárhæð greiðslna almannatrygginga. Þannig sýnir fyrsti dálkurinn útgjaldaauka ríkissjóðs ef tekjur hefðu ekki áhrif á fjárhæð greiðslna, annar dálkur sýnir útgjaldaauka ef lífeyrissjóðstekjur væru undanskildar við útreikning á fjárhæð greiðslna og aðrar reglur óbreyttar og hið sama á við um dálkana þar á eftir.

Tafla 1: Áætluð árleg kostnaðarhækkun ríkissjóðs í milljónum króna, ef tilteknar tekjutengingar yrðu afnumdar, sundurliðað eftir greiðsluflokkum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hver yrði árlegur útgjaldaauki ríkissjóðs við almannatryggingakerfið miðað við fjárlög fyrir árið 2023 ef örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hefðu eitt frítekjumark fyrir alla greiðsluflokka sem miðaði annars vegar við 4.200.000 kr. og hins vegar 6.000.000 kr. á ári, óháð tegund tekna? Svar óskast sundurliðað eftir tegund tekna lífeyrisþega annars vegar og greiðsluflokkum almannatrygginga hins vegar.

    Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar yrði árlegur útgjaldaauki ríkissjóðs fyrir árið 2023 ef örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hefðu eitt frítekjumark, 4.200.000 kr. á ári fyrir alla greiðsluflokka, alls um 16,6 milljarðar kr., en alls um 19 milljarðar kr. ef frítekjumarkið væri 6.000.000 kr. á ári fyrir alla greiðsluflokka.
    Í töflu 2 er sundurliðun eftir greiðsluflokkum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 2: Árlegur kostnaður ríkissjóðs ef örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hefðu eitt frítekjumark fyrir alla greiðsluflokka óháð tegund tekna, annars vegar 4.200.000 kr. og hins vegar 6.000.000 kr. á ári.