Ferill 1161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2289  —  1161. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um forsendur og endurskoðun krabbameinsáætlunar.


     1.      Telur ráðherra forsendur krabbameinsáætlunar frá 2016 standast, í ljósi þess að spár benda til að fjölgun krabbameinstilfella verði umtalsverð, m.a. vegna þess að hlutfall aldraðra hefur hækkað?
    Ákveðið var að ráðast í gerð íslenskrar krabbameinsáætlunar árið 2011 þar sem ljóst var að búast mætti við mikilli fjölgun einstaklinga sem greinast með krabbamein. Tillaga að krabbameinsáætlun sem gefin var út árið 2016 var umfangsmikið verkefni og var ætlað að skerpa sýn, móta markmið og aðgerðir til að stilla saman strengi þeirra sem koma að baráttunni við krabbamein. Fjöldi manns kom því að gerð áætlunarinnar, bæði beint og sem ráðgefandi aðilar.
    Í leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá 2022 um gerð krabbameinsáætlana segir að krabbameinsáætlun sé lýðheilsuáætlun þjóðar eða ríkis sem miði að því að fækka nýgreiningum og draga úr dánartíðni vegna krabbameina og bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein með kerfisbundinni innleiðingu gagnreyndra aðgerða á vettvangi forvarna, snemmgreiningar, meðferðar og líknar með jafnræði þegnanna og hagkvæmni að leiðarljósi.
    Krabbameinsáætlunin frá árinu 2016 var gefin út þegar ekki var búið að gefa út almenna heilbrigðisstefnu né lýðheilsustefnu og því eru þær aðgerðir sem eru í áætluninni mjög yfirgripsmiklar og eiga ekki einungis við um krabbamein.
    Þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar við gerð krabbameinsáætlunar sem gefin var út árið 2016 standast enn. Spár gerðu ráð fyrir mikilli fjölgun krabbameinstilfella, m.a. vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar.

     2.      Hyggst ráðherra endurskoða áætlunina?
    Innan heilbrigðisráðuneytisins er vinna við endurskoðun áætlunarinnar í gangi. Áætlunin er í stöðugri rýni út frá stefnum á borð við heilbrigðisstefnu, lýðheilsustefnu og endurhæfingarstefnu heilbrigðisráðuneytisins. Þá er einnig horft til krabbameinsáætlunar Evrópusambandsins í þessu samhengi og hversu hröð þróunin hefur verið í lífvísindum, lyfjaþróun og tæknilausnum.