Ferill 1163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2290  —  1163. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um framvindu krabbameinsáætlunar.


     1.      Hvernig hefur verið unnið að því að ná fram fyrirliggjandi markmiðum krabbameinsáætlunar frá árinu 2016?
    Unnið hefur verið nokkuð markvisst í því að ná fram fyrirliggjandi markmiðum krabbameinsáætlunar. Ákveðið var 2019 að gildistími áætlunarinnar yrði til ársins 2030 til samræmis við tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu sem lá fyrir Alþingi og var samþykkt í júní sama ár. Heilbrigðisráðuneytið kynnti krabbameinsáætlun fyrir heilbrigðisstofnunum landsins sem hafa það hlutverk að móta aðgerðir til framkvæmda. Ráðuneytið tiltók forgangsmarkmið sem heilbrigðisstofnanir skyldu leggja áherslu á og tilheyrandi tillögur að aðgerðum voru kynntar þeim stofnunum sem gegna meginhlutverki í framkvæmd þeirra. Stofnunum var þannig falið að koma aðgerðum í framkvæmd eða gera ráðuneytinu grein fyrir hindrunum við að koma viðkomandi aðgerðum í framkvæmd og ná skilgreindum árangursviðmiðum. Áætlunin yrði jafnframt tekin til skoðunar við gerð fjármálaáætlunar á hverju ári.
    Aðgerðirnar í krabbameinsáætlun eru afar viðamiklar og taka á fjölmörgum þáttum sem í dag falla undir heilbrigðisstefnu stjórnvalda ásamt lýðheilsustefnu og endurhæfingarstefnu. Margar af aðgerðunum eru komnar til framkvæmda, ýmist af hendi heilbrigðisráðuneytisins eða undirstofnana, eða eru í vinnslu. Þeir innviðir sem nefndir eru í krabbameinsáætlun eru flestir fyrir hendi í heilbrigðiskerfinu en margar aðgerðanna snúa að skipulagi eða veitingu þjónustunnar, frá sjónarhorni sjúklinga, aðstandenda, heilbrigðisstarfsfólks eða kerfisins.

     2.      Hver er staða framkvæmda samkvæmt áætluninni? Hvaða tilteknu þáttum hennar hefur verið fylgt eftir?
    Staða aðgerða í krabbameinsáætlun er metin reglulega og síðasta stöðumat var tekið í janúar 2023. Fjölmargar aðgerðir falla einnig undir aðrar stefnur eins og m.a. lýðheilsustefnu og heilbrigðisstefnu að einhverju eða öllu leyti. Af 65 aðgerðum taldist 29 vera lokið, 15 hafnar, 5 í undirbúningi, 5 í bið og 11 merktar í „annarri stöðu“. Slík merking á við um þær aðgerðir sem þarf að endurskoða, eiga ekki lengur við, falla undir aðrar stefnur og aðgerðaáætlanir eða er talið fýsilegast að sameina við aðra aðgerð í krabbameinsáætluninni.

     3.      Hafa tilteknar aðgerðir hennar verið kostnaðargreindar?
    Fjölmargar aðgerðir sem tilteknar eru í krabbameinsáætlun eru nú þegar komnar til framkvæmda og hafa verið kostnaðarmetnar eftir þörfum í aðdraganda innleiðingarinnar. Má þar nefna t.d. stofnun skimunarráðs og endurhæfingarráðs, mælingar á Human Papilloma-veiru í skimun fyrir leghálskrabbameini, bætt aðgengi að leghálssýnatöku í heilsugæslu, efling þverfaglegra teyma með stofnun Brjóstamiðstöðvar o.fl. Nýlegt verkefni sem er í vinnslu er að koma á fót lýðgrundaðri skimun á krabbameini í ristli og endaþarmi og hefur verið gerð ítarleg kostnaðargreining á því verkefni og sótt um fjármagn því tengt í fjármálaáætlun.

     4.      Hvaða eyrnamerkt fjármagn hefur sérstaklega fylgt henni?
    Þar sem ekki var gerð eiginleg mótuð og kostnaðargreind aðgerðaáætlun í kjölfar krabbameinsáætlunarinnar á sínum tíma hefur ekki verið eyrnamerkt fast fjármagn fyrir hana. Fjölmörg verkefni sem tilgreind eru í áætluninni hafa jafnt og þétt verið fjármögnuð. Einnig hafa verkefni verið fjármögnuð sem falla undir eða eru í takt við heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu.

     5.      Hvaða fjármagn er veitt til fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs forvarna eins og þær eru skilgreindar af hálfu stjórnvalda?
    Fyrsta stigs forvarnir, til að mynda fræðsla, slysavarnir og fleira, eru að miklu leyti veittar af stofnunum eins og heilsugæslu og embætti landlæknis en litið er svo á að það sé hluti af þeim verkefnum sem þessum stofnunum er ætlað að veita fyrir þær fjárveitingar sem þær fá í fjárlögum hvers árs.
    Skimanir fyrir krabbameinum teljast til annars stigs forvarna og er nú bæði skimað fyrir leghálskrabbameini á heilsugæslustöðvum og brjóstakrabbameini á Brjóstamiðstöð Landspítala. Kostnaður við leghálsskimanir er rúmlega 430 m.kr. á ári og við brjóstaskimanir um 115 m.kr. á ári. Stefnt er að því að hefja ristilskimanir strax á næsta ári. Einnig eru Sjúkratryggingar með þjónustusamning við endurhæfingarúrræði sem styðja við einstaklinga sem eru eða hafa þurft að kljást við krabbamein. Sem dæmi má nefna Ljósið, HL-stöðina og fleiri úrræði.
    Þriðja stigs forvarnir eru svo veittar inni á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum en það eru fyrst og fremst meðferðir og endurhæfing sem miðast við að koma í veg fyrir að sjúkdómar fái að þróast áfram og leiði til örorku eða dauða og að einstaklingar nái sem mest upp fyrri færni eftir erfið veikindi. Slíkt er talið vera hluti af verkefnum sjúkrastofnana sem þær veita fyrir þær fjárveitingar sem þær fá í fjárlögum hvers árs.

     6.      Hefur fjármagn verið veitt til að fjölga heilbrigðisstarfsfólki og til að bæta starfsaðstöðu á krabbameinslækningadeild?
    Töluvert fjármagn hefur verið veitt til Landspítala, m.a. til að bæta mönnun og starfsaðstöðu starfsfólks, má þar t.d. nefna 2 ma.kr. viðbótarfjárveitingu sem spítalinn fékk inn í rekstrargrunn sinn í fjárlögum 2023. Landspítala er gert að forgangsraða þeim fjármunum sem honum er úthlutað eftir því hvar þörfin er mest, ekki er tiltekið sérstaklega hvernig fjármagnið skiptist milli deilda/sviða.
    Innan heilbrigðisráðuneytisins er unnið að þeim þáttum sem undir ráðuneytið heyra og geta haft áhrif á mönnun í heilbrigðisþjónustu almennt, eins og starfsumhverfi, endurnýjun tækja, nýsköpun, tæknivæðingu og eflingu fjarheilbrigðisþjónustu, auk ýmissa þátta sem snúa að menntun heilbrigðisstarfsmanna.
    Landsráð um menntun og mönnun var stofnað í maí 2021 og stofnun ráðsins er mikilvægur liður í því að tryggja að nægur fjöldi hæfs starfsfólks verði starfandi innan heilbrigðisþjónustunnar til framtíðar og menntun fullnægi þörfum hverju sinni. Hlutverk þess er að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana heilbrigðisráðherra á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á þessu sviði þvert á menntastofnanir, fagfélög, sjúklingasamtök og aðra hagsmunaaðila.
    Þá má benda á að í heilbrigðisráðuneytinu fer nú fram vinna við umfangsmikla mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem mun hjálpa ráðuneytinu við að kortleggja mönnunina í dag og þörfina til framtíðar. Nálgunin miðast við að móta framtíðarsýn yfir gögn og greiningar sem heilbrigðisráðuneytið þarf að búa yfir til að ná yfirsýn yfir mönnun heilbrigðisstétta.
    Mikilvægur hluti annars áfanga í heildaruppbyggingu nýs Landspítala er að finna krabbameinslækningum framtíðarstaðsetningu og góða aðstöðu sem nýtist nú og til framtíðar. Breytingar á húsnæði Landspítala, m.a. dag- og göngudeildarþjónustu sjúklinga, eru til endurmats í þeirri heildarskoðun sem nú stendur yfir vegna annars áfanga uppbyggingar Landspítala. Þarfagreining er í vinnslu þar sem lögð verður áhersla á að meta þarfir krabbameinsþjónustunnar til skemmri og lengri tíma. Gert er ráð fyrir í núverandi deiliskipulagi að byggt sé allt að 20.000 fermetra húsnæði sem rúmar m.a. dag- og göngudeildir. Þá er endurmat á eldri byggingum hafið og einnig eru innan lóðarinnar ný tækifæri til endurskipulags sem skapa fleiri kosti til framtíðar. Stefnt er að því að á fyrri hluta ársins 2024 liggi endurmatsskýrslan fyrir og valkostir við lausn þeirra þarfa sem fyrir liggja.