Ferill 1144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2292  —  1144. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur um fjárveitingar til heilsugæslu.


     1.      Hvernig hafa fjárveitingar til heilsugæslu þróast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá árinu 2008 og hvernig munu þær þróast á tímabili fjármálaáætlunar 2024–2028?
    Fjárveitingar til heilsugæslu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa aukist um 54% frá árinu 2008. Í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafa fjárveitingar til heilsugæslu á föstu verðlagi aukist um 37% frá árinu 2017, í takti við sérstaka áherslu ríkisstjórnarinnar um að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað heilbrigðiskerfisins. Á fjárlögum ársins 2023 kom 2 milljarða kr. viðbótarfjárveiting til að halda áfram á þeirri vegferð að styrkja grunnþjónustu heilsugæslunnar.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir fjárframlög til heilsugæslu árin 2008–2023 samkvæmt fjárlögum.

Ár Fjárhæð í millj. kr. Landsframleiðsla Hlutfall
2008 10.281,8 1.589.625 0,65%
2009 11.267,3 1.626.391 0,69%
2010 11.433,8 1.980.967 0,58%
2011 11.876,4 1.765.009 0,67%
2012 13.229,3 1.845.160 0,72%
2013 13.846,7 1.970.146 0,70%
2014 14.956,0 2.086.360 0,72%
2015 15.996,5 2.310.848 0,69%
2016 18.464,7 2.512.055 0,74%
2017 20.736,9 2.641.959 0,78%
2018 22.947,7 2.844.055 0,81%
2019 26.157,4 3.023.930 0,87%
2020 28.255,1 2.918.755 0,97%
2021 30.668,2 3.244.901 0,95%
2022 33.931,3 3.766.415 0,90%
2023 39.181,0 *4.190.000 0,94%
*Hagspá Hagstofunnar fyrir árið 2023.

    Á tímabili fjármálaáætlunar 2024–2028 mun fjárveiting til málefnasviðs heilsugæslu aukast um tæplega 4,9 milljarða kr.

     2.      Eru fjárveitingar til heilsugæslu eyrnamerktar tilteknum verkefnum? Ef svo er, hvaða þarfagreining liggur að baki þeim verkefnum? Svar óskast sundurliðað eftir verkefnum.
    Verkefnin á málefnasviði heilsugæslu eru fjölbreytt og þróast stöðugt í takti við framþróun á sviði heilbrigðisvísinda og síbreytilegar þarfir samfélagsins. Innan fjármögnunarlíkans heilsugæslu eru fjárveitingar til grunnþjónustu heilsugæslunnar og ýmissa annarra þjónustuþátta í rekstri heilsugæslustöðva. Starfshópur um endurskoðun á fjármögnunarlíkani heilsugæslustöðvanna hóf störf í byrjun árs 2022 og styður við þróun líkansins. Starfshópurinn skilar ráðherra reglulega skýrslu með tillögum að breytingum á fjármögnunarlíkani heilsugæslunnar. Í fjármögnunarlíkaninu eru ýmis verkefni og þjónusta skilgreind sérstaklega eins og til að mynda geðheilbrigðisþjónusta, skólahjúkrun og heilsueflandi móttaka (verkefni í þróun) svo eitthvað sé nefnt. Sjá nánar í lýsingu fjármögnunarlíkana heilsugæslu. 1
    Fjárveitingar til sérstakra verkefna utan fjármögnunarlíkans heilsugæslunnar, svo sem til geðheilsuteyma heilsugæslunnar, til heimahjúkrunar og til Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu eru eyrnamerktar tilteknum verkefnum. Slík verkefni eiga rætur að rekja til stefnumótunar ráðuneytisins og eru liður í því að hrinda í framkvæmd stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum.
    Samkvæmt lögum skal ráðherra marka stefnu um heilbrigðisþjónustu og sjá til þess að henni sé framfylgt. Það felur í sér að ráðherra er bæði heimilt og skylt að líta til árangurs heilbrigðiskerfisins til skemmri og lengri tíma og grípa til aðgerða til þess að bæta árangur ef nauðsyn krefur. Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2019.
    Ráðherra leggur áherslu á að eiga í góðu samráði við notendur og veitendur heilbrigðisþjónustu í allri stefnumótun ráðuneytisins.
    Í ráðuneytinu starfa sérfræðingar á ýmsum sviðum heilbrigðismála sem ásamt undirstofnunum ráðuneytisins aðstoða við að leggja mat á einstök verkefni í samhengi við stefnu.

     3.      Hvernig er auknum fjárveitingum til heilsugæslu á milli ára varið samkvæmt fjármálaáætlun 2024–2028? Svar óskast sundurliðað eftir fjárfestingum og verkefnum.
    Eftirfarandi tafla sýnir sundurliðun á nýjum verkefnum í fjármálaáætlun 2024–2028. Fjárhæðir eru í millj. kr.

Viðfang 2024 2025 2026 2027 2028 Samtals Samantekt
08-500-110
Heilsugæslustöðvar, almennt
700,0 713,0 725,0 738,0 752,0 3.628,0 Raunvöxtur, fjölgun íbúa og öldrun þjóðarinnar.
08-500-110
Heilsugæslustöðvar, almennt
800,0 800,0 0,0 0,0 0,0 1.600,0 Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga.
08-500-110
Heilsugæslustöðvar, almennt
100,0 100,0 0,0 0,0 0,0 200,0 Geðheilbrigðisstefna, aukin þjónusta í samræmi við áætlun.
08-900-125 M 24.10
Óskipt fjárveiting
400,0 100,0 0,0 500,0 0,0 1.000,0 Heilbrigðismál: Öldrun þjóðarinnar, vinna niður biðlista o.fl.
08-500-110
Heilsugæslustöðvar, almennt
400,0 0,0 0,0 0,0 0,0 400,0 Móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
08-500-110
Heilsugæslustöðvar, almennt
0,0 0,0 -260,0 0,0 0,0 -260,0 Niðurfellt: FA: Stuðningur við aðgerðir sem tengjast félags- og heilsufarslegum afleiðingum COVID-19.
08-500-601
Tæki og búnaður
-650,0 -521,8 0,0 0,0 0,0 -1.171,8 Bygging tveggja heilsugæslustöðva á Akureyri.
08-500-601
Tæki og búnaður
-200,0 0,0 0,0 0,0 0,0 -200,0 Ný heilsugæslustöð í Reykjanesbæ.

     4.      Telur ráðherra rétt að reiknilíkan fjárveitinga til heilsugæslu verði endurskoðað? Ef svo er, hvaða viðmið og forgangsröðun telur ráðherra rétt að hafa til hliðsjónar í þeirri vinnu? Er gert ráð fyrir fjárveitingum vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna fjölda ferðamanna og aðgengis að þjónustu vegna mögulegra samgöngutakmarkana?
    Fjármögnunarlíkan heilsugæslu er í stöðugri þróun og endurskoðun og hefur verið frá því það tók gildi árið 2017 á höfuðborgarsvæðinu og árið 2021 á landsbyggðinni. Ráðherra leggur áherslu á að fjárveitingar til heilsugæslustöðva taki mið af þörf fyrir þjónustu heilsugæslu í samfélaginu. Í janúar 2022 setti ráðherra á laggirnar starfshóp með það að markmiði að skila tillögum að breytingum á lýsingu líkansins. Hópurinn var að störfum nær allt árið 2022 og skilaði tveimur skýrslum til ráðherra. Hluti þeirra breytinga og viðbóta sem hópurinn lagði til tóku gildi nú í janúar 2023. Þar má helst nefna aukið vægi félagsþarfavísitölu, breytt greiðslufyrirkomulag vegna vísitölunnar og uppfærslu á útreikningi hennar, breytt greiðslufyrirkomulag vegna túlkaþjónustu, greiðslur fyrir stofnun miðlægs lyfjakorts, ný gæðaviðmið í stað fjögurra sem falla út og breyttan útreikning á hlutdeild veittrar þjónustu. Þá var bætt við sérstöku virðisaukaskattsálagi fyrir einkareknar heilsugæslustöðvar sem fá ekki endurgreiddan virðisaukaskatt á sama hátt og opinberar stöðvar. Ráðgert er að aðrar breytingar sem lagðar voru til taki gildi í ársbyrjun 2024. Má þar nefna tvö ný gæðaviðmið sem snúa að ávísunum ávanabindandi verkjalyfja, róandi lyfja og svefnlyfja.
    Greiðslur til heilsugæslustöðva í gegnum fjármögnunarlíkanið ná eingöngu til sjúkratryggðra einstaklinga. Áfram er gert ráð fyrir að einstaklingar sem ekki eru sjúkratryggðir greiði sjálfir fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

1     Lýsing fjármögnunarlíkans HH 2023:
     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Lýsing%20fjármögnunarlíkans%20HH%202023_janúar.pdf
    Fjármögnunarlíkan heilsugæslu á landsbyggðinni:
     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Fjármögnunarlíkan%20heilsugæslu%20á%20landsbyggðinn i%202023_janúar.pdf