Ferill 790. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2294  —  790. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um tekjur af sölu losunarheimilda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða íslensku aðilar hafa haft tekjur af sölu losunarheimilda frá því að markaður fyrir þær varð virkur? Hverjar hafa verið tekjur íslenskra aðila, ríkissjóðs og fyrirtækja í opinberri eigu af sölunni? Svar óskast sundurliðað eftir öllum aðilum og eftir árum.

    Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hefur verið starfrækt innan ESB frá árinu 2005. Losunarheimildum er að hluta til úthlutað endurgjaldslaust til rekstraraðila og flugrekenda sem falla undir viðskiptakerfið og að hluta til eru þær boðnar upp. Ef rekstraraðilar eða flugrekendur eiga fleiri losunarheimildir en þeir þurfa að nota til að gera upp fyrir losun sína geta þeir selt þær á markaði og að sama skapi geta þeir keypt losunarheimildir ef upp á vantar. Upplýsingar um hvort íslenskir rekstraraðilar eða flugrekendur hafa haft tekjur af sölu losunarheimilda eru ekki opinberar enda falla þær undir þagnarskylduákvæði 38. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012. Skv. 3. mgr. 38. gr. laganna gildir trúnaður um eignarhald reikninga, stöðu losunarheimilda og millifærslur í skráningarkerfi með losunarheimildir.
    Eftir að losunarheimildir eru komnar í umferð á sameiginlega markaðnum eru viðskipti með þær heimil jafnt lögaðilum sem heyra undir gildissvið tilskipunar 2003/87/EB og öðrum lögaðilum og einstaklingum sem kjósa að eiga slík viðskipti í fjárfestingarskyni eða í öðrum tilgangi.
    Í samræmi við framangreint hefur ráðuneytið því ekki upplýsingar um mögulegar tekjur íslenskra aðila vegna sölu á losunarheimildum, né væri ráðuneytinu heimilt að veita slíkar upplýsingar, ef þær lægju fyrir.
    Íslenska ríkið hóf sölu á losunarheimildum árið 2019. Tekjur voru hærri 2019 og 2020 því það var verið að selja uppsafnaðar heimildir frá árinu 2013.
    Árlegar tekjur ríkisins af uppboði losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda koma fram í eftirfarandi töflu:

Ár Sala losunarheimilda –
tekjur ársins (millj. kr.)
2019 3.576
2020 6.067
2021 859
2022 837
Samtals 11.339