Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 13  —  13. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna (fæðingarorlof, atvinnuleysistryggingar og námslán).

Flm.: Gísli Rafn Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020.
1. gr.

    Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjárhæð fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi skal nema sömu upphæð og grunnatvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

II. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
2. gr.

    6. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Orðin „og lokið því“ í 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.
4. gr.

    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Framfærslulán skal ekki vera lægra fyrir hvern mánuð í 100% námi en sem nemur grunnatvinnuleysisbótum skv. 2. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „44“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: 24.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að greiða námslán miðað við fulla námsframvindu þótt hún hafi ekki verið uppfyllt. Þær einingar sem út af standa skulu skráðar og getur námsmaður nýtt sér slíkt svigrúm fyrir allt að 60 ECTS-einingar eða ígildi þeirra við nám sem er lánshæft skv. II. kafla.

6. gr.

    Í stað tölunnar „30“ í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: 40.

7. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Niðurfelling námslána.

    Heimilt er að fella niður námslán, að hluta eða öllu leyti, vegna verulegra fjárhagsörðugleika lántaka, alvarlegra og varanlegra veikinda lántaka, eða annarra sérstakra ástæðna. Ráðherra er heimilt að útfæra nánari skilyrði um hlutfall niðurfellingar, að fenginni umsögn stjórnar Menntasjóðs námsmanna og Landssamtaka íslenskra stúdenta.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2024.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara skal ráðherra semja reglur um starfsnám stúdenta í háskólanámi. Reglurnar skulu birtar eigi síðar en 1. september 2024.

Greinargerð.


    Stuðningur við nemendur er fjárfesting í framtíðinni og aðgengi að námi óháð efnahag, aldri og félagslegri stöðu er forsenda framþróunar. Því er nauðsynlegt að ráðast í breytingar á ýmsum ákvæðum til hagsbóta fyrir stúdenta er lúta að fæðingarorlofi, atvinnuleysistryggingum og Menntasjóði námsmanna. Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu. Samkvæmt könnun Eurostudent VII, sem tekur saman og greinir gögn varðandi félagsmálaþætti nemenda í framhaldsnámi í Evrópu, hefur námsfólk hérlendis almennt meiri áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni en nemendur annars staðar í Evrópu. Að mati flutningsmanna þessa frumvarps uppfyllir Menntasjóður námsmanna ekki hlutverk sitt í núverandi lagaumhverfi og regluverki. Ef ná á markmiði stjórnvalda um að fjölga háskólanemum og gera hugvitið að stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar verður að efla stuðning við nemendur. Markmið þessa frumvarps er því að draga úr þeirri óvissu sem margir stúdentar búa við til að tryggja afkomu þeirra, öryggi og frelsi til að ákvarða frekara nám og starf í kjölfar náms út frá áhuga og ástríðu hvers og eins.

Fæðingarstyrkur.
    Námsfólk á ekki rétt á fæðingarorlofi heldur er úthlutað sérstökum fæðingarstyrk. Lagt er til að hækka fæðingarstyrk námsmanna, en hann dugar ekki til framfærslu í núverandi mynd. Ef tekið er dæmi um einstætt foreldri með einn nýbura, búsett á höfuðborgarsvæðinu, án bifreiðar, þá eru mánaðarleg heildarútgjöld án húsnæðis 236.808 kr. Leiguverð í dag fyrir 2–3 herbergja íbúð er í kringum 200.000–300.000 kr. á mánuði. Það er augljóst að þetta er dæmi sem gengur ekki upp. Því er lagt til að fæðingarstyrkur skuli nema grunnatvinnuleysisbótum.

Atvinnuleysistryggingar.
    Í kjölfar hrunsins voru gerðar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu með lögum nr. 134/2009 á þann veg að námsfólk átti ekki lengur rétt á atvinnuleysistryggingum í námshléum. Þrátt fyrir það greiðir námsfólk enn atvinnutryggingagjald í Atvinnuleysistryggingasjóð af launum sínum. Því er ekkert kerfi sem grípur námsfólk sem fær t.d. ekki sumarvinnu og ekki eru greidd námslán yfir sumartímann nema fólk sé í sumarnámi. Afkoma þess er því ótrygg og getur valdið brottfalli úr námi. Markmið þessa frumvarps er að koma lögunum í sama horf og var fyrir hrun.

Námslán.
    Stúdentar hafa ítrekað kallað eftir hærri framfærslulánum þar sem núverandi fjárhæðir hrökkva hvorki fyrir húsnæðis- né framfærslukostnaði. Grunnframfærslukostnaður námsmanns í eigin húsnæði eða á leigumarkaði er samkvæmt Menntasjóði námsmanna 149.905 kr. á mánuði, ef aðeins er miðað við skólaárið. Ef heildarfjárhæð námslána er dreift yfir almanaksárið, þ.m.t. námshlé, er fjárhæðin 112.430 kr. á mánuði. Heildarútgjöld bíllauss einstaklings, án húsnæðisliðar, eru 167.096 kr. á mánuði. Leiga fyrir einstaklingsherbergi á stúdentagörðum er í kringum 118.000 kr. á mánuði. Staðan er því þannig nú að stúdentar geta ekki framfleytt sér án þess að vinna með námi, með tilheyrandi álagi og auknum líkum á brottfalli úr námi. Þessi staða er óásættanleg, sérstaklega þegar haft er í huga að um er að ræða lán en ekki styrk. Því er lagt til að grunnframfærsla námsmanna skuli taka mið af grunnatvinnuleysisbótum fyrir fullt nám. Fjárhæðin skerðist í samræmi við lækkað námshlutfall.
    Þá er mælt fyrir um að lágmarkseiningafjöldi til að fá lánsrétt lækki úr 44 einingum í 24 einingar. Sumar námsleiðir eru þannig upp byggðar að fall í aðeins einum áfanga getur valdið því að nemandi hefur ekki lengur rétt til námslána, ekki einu sinni að hluta. Þetta fyrirkomulag skapar kvíða hjá nemendum, einkum í prófatíð. Ástæða þess að miðað er við 24 einingar er að námsfólk fær ekki atvinnuleysisbætur stundi það nám sem nemur 12 einingum eða fleiri á önn og í núgildandi lögum er lágmarksnámsframvinda til lánsréttar miðuð við 22 einingar. Það er því ekkert opinbert kerfi sem grípur námsfólk sem stundar nám og lýkur einingum á þessu einingabili. Betur færi ef þessi kerfi spiluðu saman. Að mati flutningsmanna eru þessi skilyrði óþarflega ströng og réttara að miða við 24 eininga námsframvindu á ári, þ.e. 12 einingar á önn. Fjárhæð grunnframfærslu myndi skerðast hlutfallslega miðað við námshlutfall líkt og verið hefur.
    Þá er mælt fyrir þeirri nýjung í 6. gr. frumvarpsins að norskri fyrirmynd að hægt sé að fá greitt út fullt námslán þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði um lágmarksnámsframvindu. Sem dæmi má nefna að ef námsmaður skráir sig í 30 eininga nám á einni önn en lýkur aðeins 20 þá getur hann eftir sem áður fengið námslán miðað við 30 eininga nám. Þær 10 einingar sem út af standa yrðu skráðar. Þessi heimild takmarkast við 60 útafstandandi einingar að hámarki. Með þessari breytingu yrði enn hvati í kerfinu til að ljúka námi á réttum tíma, því annars fær námsmaður ekki afskrifaðan hluta lána sinna. Það er því ekki ástæða til að ætla að fólk nýti sér slíka heimild nema nauðsyn krefji.
    Að lokum er lagt til að hækka styrkhlutfall lána úr 30% í 40%, að gefnum þeim skilyrðum sem lögin setja. Í Noregi er námsstyrkur veittur í formi 25% niðurfellingar á höfuðstól láns í lok hverrar annar, í hlutfalli við fjölda þreyttra eininga, til viðbótar við 15% niðurfellingu við námslok. Markmiðið með breytingunni er að með þeim hætti færist kjör íslenskra námsmanna nær því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þessa er áætlaður 1.221 millj. kr.

Starfsnám.
    Á undanförnum árum hefur ýmiss konar starfsnám háskólanema aukist. Margt af því námi er ólaunað og það sem er verra er að regluverki um slíkt starfsnám er verulega ábótavant. Sett hefur verið ítarleg reglugerð um vinnustaðanám á framhaldsskólastigi, nr. 180/2021, en sams konar reglur er ekki að finna um starfsnám á háskólastigi. Nauðsynlegt er að ráðherra bregðist við og setji skýrt regluverk um slíkt starfsnám til að tryggja réttindi stúdenta.