Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 27  —  27. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (málsmeðferð og skilyrði).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      A-liður orðast svo: upplýsingar um fjárhagsstöðu skuldara erlendis liggja fyrir.
     b.      B-liður orðast svo: einstaklingur skuldar ekki, eða í óverulegum mæli, erlendum kröfuhöfum.
     c.      Við málsgreinina bætist nýr stafliður, svohljóðandi: einstaklingur á ekki húsnæði eða aðrar eignir með umtalsvert verðgildi utan Íslands, nema ljóst sé að eignastaða valdi ekki vandkvæðum í greiðsluaðlögunarumleitunum.

2. gr.

     a.      Í stað orðsins „lánardrottinn“ í 2. mgr. 3. gr., tvívegis í 2. mgr. 10. gr., 2. mgr. 14. gr., 6. mgr. 16. gr., 1. málsl. 3. mgr. og 2. mgr. 4. mgr. 17. gr. laganna, kemur: kröfuhafi.
     b.      Í stað orðsins „lánardrottna“ í fyrirsögn 10. gr., í d-lið 1. mgr. 12. gr., 2. málsl. 1. mgr. 13. gr., 2. mgr. 17. gr., lokamálsl. 1. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laganna kemur: kröfuhafa.
     c.      Í stað orðsins „lánardrottnum“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr., c-lið 1. mgr. 12. gr., 2. mgr. 15. gr., 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. og 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: kröfuhöfum.
     d.      Í stað orðsins „lánardrottnar“ í lokamálsl. 2. mgr. 16. gr., 1. málsl. 4. mgr. 17. gr., 2. málsl. 1. mgr. 18. gr., og 2. málsl. 30. gr. laganna kemur: kröfuhafar.
     e.      Í stað orðsins „lánardrottin“ í 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. laganna kemur: kröfuhafa.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tekin til greina“ í a-lið 1. mgr. kemur: samþykkt skv. 7. gr.
     b.      Í stað orðanna „tekin til greina“ í c-lið 1. mgr. kemur: samþykkt en sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara telst vera frestdagur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     c.      D- og e-liðir 1. mgr. falla brott.
     d.      Við f-lið 1. mgr. bætist: að öðru leyti en því að ákveða má að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. Þá má ákveða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar, að undanskildum fésektum.
     e.      Í stað 2. málsl. g-liðar 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeim greiðslum sem falla niður á greiðsluaðlögunartíma ásamt vanskilaþætti kröfunnar, sem var tilkominn við gildistöku samnings, skal bæta við höfuðstól kröfunnar. Virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum sem og almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána eða markaðskjaralána teljast ekki kröfur vegna námslána.
     f.      Við i-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó er heimilt að ákveða að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. eða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar.
     g.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: krafna sem stofnast hafa erlendis.
     h.      4. mgr. fellur brott.

4. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Synja skal um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef:
     a.      fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga þessara til að leita greiðsluaðlögunar,
     b.      fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af því hvernig fjárhagur skuldara hefur verið, hver fjárhagur skuldara er við vinnslu umsóknar eða hver er væntanleg þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar,
     c.      óleyst fjárhagsleg málefni hindra að greiðsluaðlögunarumleitanir nái fram að ganga,
     d.      aðstæður benda til að skuldari hafi á óheiðarlegan hátt stofnað til skulda með það að markmiði að leita greiðsluaðlögunar vegna þeirra eða gert aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem teljast óhæfilegar,
     e.      skuldari hefur stofnað til skulda eftir að hann sótti um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara og ekki er um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar, til framfærslu eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis,
     f.      skuldari hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu eða látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar,
     g.      skuldari hefur áður fengið samning um greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar,
     h.      skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
     i.      skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skattkrafna,
     j.      skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
     k.      skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
     l.      bú skuldara hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði héraðsdómara og skiptameðferð er ekki lokið eða gjaldþrotaskiptum á búi skuldara hefur verið lokið en fyrningarfrestur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. er ekki liðinn,
     m.      fyrri greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr.,
     n.      umboðsmaður skuldara metur það svo að greiðsluaðlögun sé ekki fallin til að leysa greiðsluvanda umsækjanda vegna krafna sem falla utan greiðsluaðlögunar.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      Við 1. málslið 1. mgr. bætist: að mati umboðsmanns skuldara.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókninni skal fylgja yfirlýsing skuldara um að hann hafi kynnt sér áhrif frestunar greiðslna skv. 11. gr.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „e-lið 1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: g-lið.

6. gr.

    Í stað orðanna ,,og getur það orðið allt að þrír mánuðir“ í 8. gr. laganna kemur: og skal það að jafnaði ekki vera lengra en fjórir mánuðir nema sérstakar aðstæður krefji.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum ,,umsjónarmann með greiðsluaðlögun“ í 1. málsl. kemur: að undangengnu mati á hæfi skv. 2. mgr.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum, um sérstakt hæfi gilda um hæfi umsjónarmanns til meðferðar máls. Áður en starfsmaður umboðsmanns skuldara eða lögmaður skv. 2. málsl. 1. mgr. er skipaður umsjónarmaður skal hann leggja mat á hvort hann sé hæfur til meðferðar viðkomandi máls. Viti hann um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans, skal hann án tafar vekja athygli umboðsmanns skuldara á þeim. Umboðsmaður skuldara metur að fengnum athugasemdum frá viðkomandi hvort hann sé hæfur til meðferðar máls. Verði umsjónarmanni á síðari stigum máls kunnugt um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans skal hann án tafar vekja athygli umboðsmanns skuldara á þeim.
                      Telji umboðsmaður skuldara umsjónarmann vanhæfan eða ekki geta annast meðferð máls af öðrum ástæðum skal hann afturkalla skipun umsjónarmanns. Áður en umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um afturköllun skipunar skal hann veita umsjónarmanni færi á að koma að athugasemdum sínum, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Umboðsmaður skuldara skal tilkynna skuldara um afturköllun skipunar umsjónarmanns. Við afturköllun skipunar skv. 1. mgr. skal umsjónarmaður án tafar afhenda umboðsmanni skuldara öll gögn er hann hefur undir höndum og málið varða. Umboðsmaður skuldara skal án tafar skipa nýjan umsjónarmann.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins ,,fjögurra“ í 1. mgr. kemur: þriggja.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef sérstakar ástæður mæla með því, getur umboðsmaður skuldara ákveðið að framangreindur frestur skuli vera fjórar vikur.
     c.      Á eftir 1. mgr., koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Í innköllun skal koma fram nafn skuldarans, kennitala og heimilisfang, að honum hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara tiltekinn dag og áskorun til kröfuhafa um að lýsa kröfum sínum með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga, rafrænt eða í bréfpósti á tiltekinn stað, innan tilgreinds kröfulýsingarfrests.
                      Kröfulýsing skal vera skrifleg þar sem tekið skal fram að um kröfulýsingu sé að ræða og í hvers þágu hún sé gerð, svo ekki verði um villst. Í henni skal tilgreina kröfu svo skýrt sem verða má, svo sem heildarfjárhæð kröfu, ásamt sundurliðun höfuðstóls, vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, ásamt afborgunarfjárhæðum ef þær eru til staðar. Í kröfulýsingu skal tilgreint reikningsnúmer, komi til þess að greitt verði af kröfu á tímabili greiðsluaðlögunar. Þau gögn skulu fylgja kröfulýsingu sem kröfur eru studdar við. Ef kröfulýsing telst ekki fullnægja framangreindum kröfum, skal umsjónarmaður skora á kröfuhafa að bæta úr, ella getur umsjónarmaður metið kröfuna vanlýsta.
                      Umsjónarmaður skal staðfesta móttöku kröfulýsingar ef eftir því er leitað.
     d.      Við 3. mgr. bætist: og er hann bundinn af niðurstöðu þeirra.
     e.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sé kröfuhafi ósammála þeirri niðurstöðu umsjónarmanns að um vanlýsta kröfu sé að ræða, er honum heimilt að beina ágreiningnum til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að honum var tilkynnt um niðurstöðuna. Úrskurðarnefndin skal taka afstöðu, innan fjögurra vikna, til þess hvort kröfulýsing teljist vanlýst á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
     f.      4. mgr. orðast svo:
                      Þeim kröfuhöfum sem vitað er um, auk ábyrgðarmanna og samskuldara skuldara, skal kunngert að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar með því að umsjónarmaður sendir þeim afrit af innkölluninni. Ásamt því að senda afrit af innköllun, skal umsjónarmaður tilkynna kröfuhöfum um frestun greiðslna skv. 11. gr. Ábyrgðarmenn og samskuldarar skulu jafnframt upplýstir um frestun greiðslna og heimild sína til greiðslu krafna á meðan frestun greiðslna stendur yfir.
     g.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fjárhagsupplýsingastofum er óheimilt að skrá upplýsingar um innkallanir, sem gefnar eru út á grundvelli þessa ákvæðis, í vanskilaskrá eða annars konar gagnasafn sem miðlað er. Þá er óheimilt að nýta upplýsingar um innkallanir í þágu skýrslu um lánshæfi að liðnu einu ári frá því að innköllun var gefin út í Lögbirtingablaði.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þann dag er umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um samþykki umsóknar skv. 7. gr. hefst tímabundin frestun greiðslna óháð því hvort greiðsluaðlögun tekur til viðkomandi krafna skv. 3. gr., sbr. þó 3. mgr.
     b.      E-liður 1. mgr. orðast svo: neita skuldara vegna fyrri vanefnda um vörur og þjónustu, sem skuldari þarf á að halda og fellur undir framfærslukostnað í greiðsluaðlögunarumleitunum, gegn greiðslu sem a-liður 1. mgr. tekur ekki til eða viðunandi tryggingum.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                      Á meðan á frestun greiðslna stendur falla almennir vextir á kröfur, sem þær hefðu borið samkvæmt samningsskilmálum, en ekki dráttarvextir. Vextirnir eru ekki gjaldkræfir á meðan á frestun stendur. Þá er óheimilt að leggja á kröfurnar vanskilagjöld eða annan innheimtukostnað. Framangreint gildir óháð niðurstöðu greiðsluaðlögunarumleitana.
     d.      Í stað orðanna ,,heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt“ í 3. mgr. kemur: umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt skv. 7. gr.
     e.      4. mgr. orðast svo:
                      Sá tími sem frestun greiðslna er í gildi skal vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti krafna sem 1. mgr. tekur til.
     f.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Taki kröfuhafi við greiðslu frá skuldara á kröfu í andstöðu við 1. mgr., á meðan á frestun greiðslna stendur, ber honum að endurgreiða greidda fjárhæð án nokkurra tafa, nema um fésektir sé að ræða.
                      Ábyrgðarmanni skuldarans og samskuldara er heimilt að greiða af kröfum á meðan á frestun greiðslna stendur.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
    Við a-lið 1. mgr. bætist: samkvæmt útreiknuðum framfærslukostnaði frá umboðsmanni skuldara.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður: Ef um fasteign er að ræða skal umsjónarmaður fela löggiltum fasteignasala, sem skuldari velur, að annast söluna.
     b.      Á eftir orðunum ,,hvernig sala fer fram“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: á öðrum eignum.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Umsjónarmaður skal leitast við að eign fari í sölu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Seljist eign ekki á því tímabili getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli eign á tímabili greiðsluaðlögunar. Heimilt er að umboðsmaður skuldara taki við hlutverki umsjónarmanns skv. 4. og 5. mgr. á tímabili greiðsluaðlögunar, hafi eftirlit með sölunni sem og aðstoði skuldara vegna sölunnar samkvæmt nánari fyrirmælum samnings til greiðsluaðlögunar.
     d.      Orðin ,,með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
     e.      Á eftir orðinu ,,umsjónarmaður“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: að höfðu samráði við þann sem annast sölu eignar,
     f.      4. mgr. orðast svo:
                      Að sölu lokinni falla niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu. Kröfuhafa er skylt að hlutast til um afmáningu veðréttinda af fasteigninni strax í kjölfar sölunnar. Sinni kröfuhafi ekki þeirri skyldu sinni, skal sýslumaður afmá veðréttindin að beiðni umsjónarmanns eða umboðsmanns skuldara, gegn staðfestingu um greiðsluaðlögun skuldara og afriti samnings um söluna.
     g.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsjónarmaður skal jafnframt óska eftir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr. ef sameigandi eignar neitar sölu eða kemur á einhvern hátt í veg fyrir fyrirhugaða sölu.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna: Við 1. mgr. bætist: og ber þá umboðsmaður skuldara kostnað sem hlýst af slíku verðmati.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýni skuldari ekki samstarfsvilja eða samþykki hann ekki tillögur umsjónarmanns sem eru í samræmi við lög þessi skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður skv. 15. gr.
     b.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í frumvarpi er jafnframt heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. um heilsufar og félagslegar aðstæður, hafi þær þýðingu fyrir greiðsluaðlögunarumleitanir.
     c.      5. mgr. orðast svo: Afborgunarfjárhæð skv. 4. mgr. skal vera föst krónutala.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Umsjónarmaður sendir frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun á sannanlegan hátt til allra kröfuhafa sem lýst hafa kröfu skv. 10. gr. og málið varðar. Umsjónarmaður sendir samhliða kröfuhöfum sem ekki lýstu kröfu tilkynningu um að greiðsluaðlögunarumleitanir gagnvart kröfuhöfum séu hafnar. Kröfuhöfum skal gefinn tveggja vikna frestur til að taka afstöðu til frumvarpsins frá því að það er sent og skal skýrlega koma fram í frumvarpi hvenær fresturinn er á enda. Ef sérstakar ástæður mæla með því getur umsjónarmaður ákveðið að framangreindur frestur skuli vera þrjár vikur.
     b.      3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðsins ,,senda tilkynningu“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: sent frumvarpið.
     d.      Í stað orðanna ,,þriggja vikna fresturinn“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: fresturinn skv. 1. mgr.
     e.      Í stað orðanna ,,þekktum lánardrottnum skuldarans“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: kröfuhöfum sem lýst hafa kröfu skv. 10. gr. og málið varðar.
     f.      Við 5. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeir kröfuhafar sem lýstu ekki kröfu skv. 10. gr. fá senda samantekt um niðurstöðu samnings. Ábyrgðarmenn og samskuldarar fá senda tilkynningu um að samningur hafi tekið gildi og hver niðurstaða samnings er gagnvart kröfum er þá varðar.
     g.      Á eftir 5. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ef skuldari undirritar ekki samning innan tveggja vikna frá því að samningur er sendur honum til undirritunar og veitir ekki fullnægjandi skýringar á ástæðum þess, skal umsjónarmaður óska eftir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr.
                      Þrátt fyrir h-lið 1. mgr. 3. gr. getur skuldari óskað eftir því við umsjónarmann að hann upplýsi þekkta erlenda kröfuhafa um niðurstöðu samnings um greiðsluaðlögun.
                      Umboðsmanni skuldara er heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í frumvarpi eða gera nauðsynlegar óverulegar breytingar á greiðsluáætlun, eftir að frumvarp telst samþykkt skv. 4. mgr. enda tilkynni hann kröfuhöfum og skuldara um þær breytingar án ástæðulauss dráttar.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Orðin ,,hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í greinargerð er heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. um heilsufar og félagslegar aðstæður, hafi þær þýðingu við framangreint mat umsjónarmanns.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Orðin ,,en í frumvarpinu skal eftirfarandi koma fram“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      a–c-liðir 1. mgr. falla brott
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í frumvarpinu skal tiltaka, eftir því sem við á, sömu upplýsingar og komu fram í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr.

17. gr.

    21. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skipting greiðslna milli kröfuhafa.

    Afborgunarfjárhæð sem skipta skal milli kröfuhafa á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun skiptist á eftirfarandi hátt:
     a.      Ef skuldari heldur eftir fasteign sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann gera full skil á kröfum sem lögveðs- eða lögtaksréttur er fyrir og gjaldfallnar voru áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt. Þegar full skil hafa verið gerð á þeim kröfum skal skuldari greiða mánaðarlegar raunafborganir af veðkröfum, sem eru innan verðmætis fasteignar skv. 14. gr., eftir veðröð. Falli veðkrafa að hluta til innan verðmætis fasteignar skv. 14. gr. skal skuldari greiða samsvarandi hlutfall af raunafborgun veðkröfunnar.
     b.      Ef skuldari heldur eftir lausafjármunum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann gera full skil á kröfum sem lögveðs- eða lögtaksréttur er fyrir og gjaldfallnar voru áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt. Þegar full skil hafa verið gerð á þeim kröfum skal skuldari greiða mánaðarlegar raunafborganir af veðkröfum, sem eru innan verðmætis lausafjármunar skv. 14. gr., eftir veðröð. Falli veðkrafa að hluta til innan verðmætis lausafjármunar skv. 14. gr. skal skuldari greiða samsvarandi hlutfall af raunafborgun veðkröfunnar.
     c.      Kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til skv. 1. mgr. 3. gr. skulu greiddar að fullu, annað hvort strax í upphafi greiðsluaðlögunar eða í samræmi við samkomulag við hlutaðeigandi kröfuhafa. Þó má ákveða að kröfur skv. f- og i-liðum 1. mgr. 3. gr. skuli greiddar skv. d-lið þessa ákvæðis, þjóni það hagsmunum skuldara.
     d.      Óveðtryggðar kröfur og sá hluti veðkrafna sem er yfir verðmæti eignar skv. 14. gr. skulu greiddar hlutfallslega eftir fjárhæð krafna.
    Kröfuhafar sem eiga kröfur sem falla undir a–c-lið 1. mgr. hafa forgang til greiðslna skv. 1. mgr. Umsjónarmanni er jafnframt heimilt að leggja til að óverulegar óveðtryggðar kröfur skuli greiddar að fullu komi til greiðslna skv. d-lið 1. mgr.
    Hafi skuldari lagt til hliðar fjármuni skv. a-lið 1. mgr. 12. gr., eða ráðstafa þarf annars konar eingreiðslu, skal umsjónarmaður ákveða skiptingu þeirra milli kröfuhafa með hliðsjón af reglum 1. mgr. og 2. mgr. sem og hagsmunum skuldara, með einni greiðslu í upphafi tímabils greiðsluaðlögunar.
    Umboðsmaður skuldara skal sjá til þess í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun að fjármálafyrirtæki miðli greiðslum samkvæmt honum.
    Umboðsmaður skuldara hefur heimild til að óska eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki sem annast greiðslumiðlun, hvort skuldari hafi staðið við greiðslur samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun.

18. gr.

    22. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Gjaldfrestur eða lægri afborganir veðlána.

    Þrátt fyrir ákvæði a- og b-liðar 1. mgr. 21. gr., er umsjónarmanni heimilt að leggja til í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun að greiddar séu tímabundið lægri mánaðargreiðslur af veðkröfum eða að veittur sé gjaldfrestur á þeim ef óveruleg eða engin greiðslugeta er til staðar, ef uppi eru sérstakar eða tímabundnar aðstæður. Skal tímabil breytts greiðslufyrirkomulags samkvæmt þessu ákvæði alla jafna ekki vera lengra en eitt ár.

19. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Greiðsla til kröfuhafa.

20. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Afmáning veðbanda og meðferð krafna í greiðsluaðlögun, með þremur nýjum greinum, 23. gr. a, 23. gr. b, og 23. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (23. gr. a.)

Afmáning veðbanda.

    Áður en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er sent til kröfuhafa skv. 17. gr. getur skuldari óskað eftir því við umsjónarmann að veðréttindi sem standa til tryggingar uppreiknuðum eftirstöðvum veðkrafna á fasteign og nema hærri fjárhæð en svarar til verðmætis fasteignarinnar, sbr. 3. og 4. mgr., verði afmáð af eigninni. Til þess að umsjónarmaður fallist á beiðnina, þarf að vera ljóst á grundvelli greiðslumats að skuldari verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu allra veðskulda, en geti þó staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem hvíla á eigninni í kjölfar afmáningar veðréttinda.
    Afmáning veðréttinda skv. 1. mgr. getur eingöngu varðað fasteign þar sem skuldari heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Ekki er heimilt að víkja frá þessu skilyrði nema með samþykki þeirra veðhafa sem hafa hagsmuna að gæta og þegar skuldari hefur lýst því yfir að hann hyggist hefja búsetu að nýju í fasteign. Ef skuldari á fasteign í óskiptri sameign með öðrum sem hefur ekki leitað greiðsluaðlögunar, er ekki hægt að leita afmáningar veðréttinda á fasteigninni.
    Í kjölfar beiðni skv. 1. mgr. skal umsjónarmaður óska eftir að löggiltur fasteignasali meti verðmæti fasteignar og ber þá umboðsmaður skuldara kostnað sem hlýst af slíku verðmati. Verðmatið skal lagt til grundvallar nema skuldari og veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta af niðurstöðu þess vilji afla á sinn kostnað annars verðmats. Skal þá meðaltal allra verðmata lagt til grundvallar.
    Veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta geta, innan viku frá því að niðurstaða um verðmat fasteignar skv. 3. mgr. lá fyrir, lýst því yfir við umsjónarmann að þeir hyggist á sinn kostnað afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna á verðmæti fasteignarinnar. Sé aflað slíkrar matsgerðar gildir niðurstaða hennar um verðmæti fasteignar.
    Ef umsjónarmaður telur að skilyrði 1. mgr. séu ekki uppfyllt, ber honum að tilkynna skuldara um þá ákvörðun. Skuldari getur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðunin barst honum og skal nefndin taka afstöðu til kærunnar innan fjögurra vikna. Ef umsjónarmaður telur að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt ber honum að tilkynna það skuldara og veðhöfum sem hafa hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun. Hlutaðeigandi veðhafar geta kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðunin barst þeim og skal nefndin taka afstöðu til kærunnar innan fjögurra vikna.
    Ef það er niðurstaða umsjónarmanns og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála að skuldari uppfylli skilyrði til að fá veðréttindi afmáð af eigninni, sbr. 1. mgr., skal umsjónarmaður óska eftir að sýslumaður hlutist til um afmáninguna, fáist frumvarp skuldara til greiðsluaðlögunar samþykkt og að því gefnu að skuldari hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt samningi. Beiðni um afmáningu veðréttinda skal send til sýslumanns að loknu greiðsluaðlögunartímabili. Með beiðni umsjónarmanns til sýslumanns skulu fylgja gögn um mat á verðmæti fasteignar skv. 3. eða 4. mgr., ákvörðun umsjónarmanns um að skuldari uppfylli skilyrði ákvæðis þessa og eftir atvikum úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála skv. 5. mgr. Sýslumaður skal þá afmá af fasteigninni veðréttindi sem standa utan þeirra marka í veðröð sem greinir í 1. mgr. Standi veðkrafa að hluta innan þeirra marka og að hluta utan skal eftirstöðvum hennar skipt að tiltölu því til samræmis og ákveður þá sýslumaður nýjan höfuðstól skuldarinnar sem veðréttindi eru fyrir. Skal sýslumaður gera yfirlýsingu sem þinglýst skal á eignina en fyrir hana greiðist ekkert gjald.
    Að lokinni afmáningu veðréttinda verða þær veðkröfur sem aflétt er af fasteign að óveðtryggðum kröfum og fer um þær eins og aðrar óveðtryggðar kröfur samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun.

    b. (23. gr. b.)

Meðferð óveðtryggðra krafna.

    Heimilt er með greiðsluaðlögun að kveða á um algera eftirgjöf óveðtryggðra krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, skilmálabreytingar, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu óveðtryggðra krafna eða allt framangreint í senn.

    c. (23. gr. c.)

Efndir krafna.

    Kröfur teljast vera efndar á tímabili greiðsluaðlögunar hvort sem skuldari greiðir af þeim í samræmi við greiðsluáætlun samnings eða veittur er gjaldfrestur á þeim.

21. gr.

    24. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Breyting á samningi um greiðsluaðlögun að kröfu skuldara.

    Skuldari getur óskað eftir því við umboðsmann skuldara að hann samþykki að veittur sé gjaldfrestur á allt að þremur gjalddögum samkvæmt samningi, án þess að breytingin sé borin undir kröfuhafa, ef upp koma sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi. Skal þá tímabil greiðsluaðlögunar lengjast sem nemur þeim gjalddögum sem veittur er frestur á. Beiðni um slíka breytingu skal berast umboðsmanni skuldara áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um breytinguna innan tveggja vikna frá því að beiðni berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun á beiðninni getur skuldari kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst honum.
    Sé þörf á annars konar breytingu en 1. mgr. heimilar getur skuldari óskað eftir því við umboðsmann skuldara, áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda, að hann hafi milligöngu um breytingu á samningi gagnvart kröfuhöfum, ef upp koma sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða sem leiða til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings.
    Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um hvort hefja skuli milligöngu um samningaviðræður við kröfuhafa innan mánaðar frá því að beiðni berst skv. 2. mgr. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun á beiðninni getur skuldari kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst honum.
    Fallist umboðsmaður skuldara á að hefja milligöngu um samningaviðræður skal tillaga um breytingu samin í samráði við skuldara og í samræmi við ákvæði þessara laga. Tillaga um breytingu á samningi skal send til allra kröfuhafa sem lýstu kröfu skv. 10. gr. Í tillögu um breytingu á samningi er umboðsmanni skuldara heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar hafi þær þýðingu í samningaviðræðum. Kröfuhöfum skal gefinn tveggja vikna frestur til að taka afstöðu til tillögunnar frá því að hún var send. Hafi kröfuhafi athugasemdir við tillöguna eða leggist hann gegn henni skal hann láta umboðsmann skuldara í té skriflegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni innan frestsins sem hann nýtur til að taka afstöðu til tillögunnar. Kröfuhafi sem hefur fengið senda tillöguna og hefur ekki lýst yfir við umboðsmann skuldara að hann leggist gegn tillögunni áður en tveggja vikna fresturinn rann út telst hafa samþykkt hana. Ef tillagan telst samþykkt, tekur hún þá þegar gildi. Skal tilkynning um breytingu samnings send til allra kröfuhafa.
    Ef tillagan telst ekki samþykkt, getur skuldari lagt fram kröfu til umboðsmanns skuldara að skilmálum samnings verði breytt í samræmi við tillöguna sem send var til kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um kröfuna innan tveggja vikna frá því að hún barst. Við mat á því hvort samþykkja beri kröfu skuldara skal umboðsmaður skuldara líta til þess hvort komið hafi fram upplýsingar sem leiða til þess að hafna beri breytingunni og hvert sé viðhorf þeirra kröfuhafa sem hafa andmælt tillögunni. Umboðsmanni skuldara er heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar í ákvörðun hafi þær haft þýðingu við matið. Ákvörðun umboðsmanns skuldara geta skuldari eða kröfuhafar sem lýstu kröfu skv. 10. gr. kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst þeim. Að fengnum úrskurði nefndarinnar er heimilt að höfða einkamál til ógildingar á ákvörðuninni.
    Verði skuldara á tímabili greiðsluaðlögunar gert kunnugt um kröfu sem stofnaðist áður en umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt verður krafan felld undir greiðsluaðlögunina, ef umboðsmaður skuldara telur það hafa óveruleg áhrif gagnvart öðrum kröfuhöfum. Sé greiðslum miðlað samkvæmt samningi, skal einungis greiða af kröfunni frá þeim tíma sem krafan var kynnt skuldara og þá í samræmi við það sem greitt er af samsvarandi kröfum. Umboðsmaður skuldara skal senda tilkynningu til kröfuhafa um breytinguna. Ef það er mat umboðsmanns skuldara að það sé íþyngjandi gagnvart kröfuhöfum að fella slíka kröfu undir greiðsluaðlögunina án samþykkis kröfuhafa, getur skuldari lagt fram beiðni í samræmi við 2. mgr.
    Hafi fjárhagsstaða skuldara batnað á þann veg að skuldari hefur tök á að greiða að fullu allar kröfur sem greiðsluaðlögunarsamningur tekur til, er honum heimilt að óska eftir því við umboðsmann skuldara að samningi verði breytt því til samræmis. Skal umboðsmaður skuldara senda ákvörðun um breytingu samnings til allra kröfuhafa að fenginni staðfestingu frá skuldara um bættan fjárhag.
    Skuldara er heimilt, án milligöngu umboðsmanns skuldara, að ná fram breytingum á samningi um greiðsluaðlögun með samningum við alla kröfuhafa, hvort sem þeir lýstu kröfu skv. 10. gr. eða ekki. Ef kröfuhafar fallast á breytingu samnings, skal skuldari veita umboðsmanni skuldara staðfestingu á að samkomulag hafi náðst við alla kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara skal svo í kjölfarið senda tilkynningu um breytingu samnings til allra kröfuhafa og tekur hún þá þegar gildi.

22. gr.

    25. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Breyting á samningi um greiðsluaðlögun að kröfu kröfuhafa.

    Kröfuhafi, sem greiðsluaðlögun tekur til, getur krafist þess að gerð verði breyting á samningi um greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Hafi fjárhagsstaðan batnað vegna þess að skuldari hefur fengið í hendur háa fjárhæð getur kröfuhafi krafist þess að samningnum verði breytt á þann veg að skuldara sé skylt að skipta fénu að hluta eða að fullu milli kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um kröfuna innan mánaðar frá því að hún berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara geta skuldari og kröfuhafar kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst þeim.
    Ef upp koma aðstæður sem veita kröfuhöfum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun skv. 1. mgr., skal skuldari innan eins mánaðar og á tryggan hátt upplýsa kröfuhafa um þær aðstæður.

23. gr.

    26. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Ógilding samnings um greiðsluaðlögun.

    Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef vanskil hafa verið á samningi í sex mánuði og ekki liggur fyrir að skuldari hafi óskað eftir breytingu á samningi. Umboðsmaður skuldara skal tilkynna kröfuhöfum um ógildingu samnings að fengnum upplýsingum um vanskil skuldara frá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki sem annast miðlun greiðslna.
    Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fellur frá á tímabili greiðsluaðlögunar. Ef samningur er ógiltur af þeim sökum, er óheimilt að leggja dráttarvexti eða annan innheimtukostnað á kröfur sem samningur tekur til vegna þess tímabils sem greiðsluaðlögun stóð yfir, hafi skuldari staðið við greiðslur samkvæmt samningnum.
    Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta.
    Kröfuhöfum er heimilt að hafa uppi kröfu um riftun eða ógildingu samnings um greiðsluaðlögun fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldaranum. Sé fallist á slíka kröfu, ber kröfuhafa að tilkynna umboðsmanni skuldara um það. Umboðsmanni skuldara er heimilt að tilkynna öðrum kröfuhöfum um niðurstöðuna.

24. gr.

    27. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. fellur niður skal umboðsmaður skuldara óska eftir aflýsingu athugasemdarinnar.
     b.      3. og 4. mgr. falla brott.

26. gr.

    29. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Brottfall tímabundinnar frestunar greiðslna.

    Tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. fellur niður þegar:
     a.      Skuldari dregur umsókn sína um greiðsluaðlögun til baka skv. 5. mgr. 7. gr.
     b.      Umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr. Hafi skuldari kært ákvörðunina haldast áhrif 11. gr., þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir.
     c.      Samningur um greiðsluaðlögun hefur ekki komist á og skuldari hefur lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji ekki leita nauðasamnings eða eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
     d.      Samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi skv. 5. mgr. 17. gr.
     e.      Umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skv. 2. mgr. 18. gr. Hafi skuldari kært ákvörðunina haldast áhrif 11. gr., þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir.
     f.      Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar eða tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna tekur gildi.
     g.      Skuldari fellur frá.
    Umboðsmaður skuldara skal tilkynna kröfuhöfum þegar tímabundin frestun greiðslna fellur niður samkvæmt 1. mgr., að undanskildum tilfellum skv. d- og f-lið. Þá skal umboðsmaður skuldara tilkynna ábyrgðarmönnum og samskuldurum þegar tímabundin frestun greiðslna fellur niður skv. 1. mgr.

27. gr.

    Eftirfarandi breyting verður á 30. gr. laganna:
    Við 2. málsl. bætist: m.a. af endurútreikningi krafna við lok greiðsluaðlögunar.

28. gr.

    34. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Meðferð persónuupplýsinga.

    Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal embætti umboðsmanns skuldara gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Embættið skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra.

29. gr.

    Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Heimild innheimtuaðila sekta.

    Samningur um greiðsluaðlögun takmarkar ekki heimildir innheimtuaðila sekta samkvæmt ákvæðum laga um fullnustu refsinga, þ.m.t. til að beita innheimtuúrræðum og taka ákvörðun um að vararefsing sektar skuli afplánuð.

30. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II falla brott.

31. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og eiga við um umsóknir sem eru til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara við gildistökuna. Hafi umsókn verið samþykkt fyrir gildistöku laga þessara fer um framhald greiðsluaðlögunarumleitana eftir ákvæðum laganna fyrir breytingu. Ákvæði 21. og 22. gr. laga þessara eiga þó við um umsóknir sem samþykktar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara.

32. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014, með síðari breytingum:
                  a.      2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
                      Fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum þessum verður ekki veitt, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef:
                      a.      fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af því hvernig fjárhagur skuldara hefur verið, hver fjárhagur skuldara er við vinnslu umsóknar eða hver er væntanleg þróun fjárhags hans,
                      b.      aðstæður benda til að skuldari hafi á óheiðarlegan hátt stofnað til skulda með það að markmiði að leita gjaldþrotaskipta vegna þeirra eða gert aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem teljast óhæfilegar,
                      c.      skuldari hefur stofnað til skulda eftir að hann sótti um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara og ekki er um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar, til framfærslu eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis,
                      d.      skuldari hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu eða látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar,
                      e.      skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
                      f.      umtalsverðar kröfur á hendur skuldara eru fésektir, kröfur vegna skaðabótaskyldu eða skattkröfur,
                      g.      skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
                      h.      skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
                      i.      greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga,
                      j.      skuldari hefur áður fengið umsókn um fjárhagsaðstoð samþykkta á grundvelli laga þessara.
                  b.      Á eftir 2. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Yfirlýsing um veitta fjárhagsaðstoð skv. 2. mgr., skal afhenda héraðsdómi innan þriggja mánaða frá því að umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um hana ella fellur fjárhagsaðstoðin niður.
                  c.      Í stað orðanna „ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga“ í 6. gr. laganna kemur: til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.
                  d.      8. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða í lögunum falla brott.
     2.      Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. a laganna:
                      1.      Við a-lið 1. mgr. bætist: að öðru leyti en því að ákveða má að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Þá má ákveða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar, að undanskildum fésektum.
                      2.      B-liður 1. mgr. orðast svo: krafna Menntasjóðs námsmanna vegna námslána að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma. Þeim greiðslum sem falla niður á greiðsluaðlögunartíma ásamt vanskilaþætti kröfunnar sem var tilkominn við gildistöku samnings, skal bæta við höfuðstól kröfunnar. Virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum sem og almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána eða markaðskjaralána teljast ekki kröfur vegna námslána.
                      3.      Við d-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Þó má ákveða að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, eða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar.
                  b.      Á eftir 1. mgr. 63. gr. b kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar takmarkar ekki heimildir innheimtuaðila sekta samkvæmt ákvæðum laga um fullnustu refsinga, þ.m.t. til að beita innheimtuúrræðum og taka ákvörðun um að vararefsing sektar skuli afplánuð.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem glíma við verulega fjárhagserfiðleika og er markmið laganna að gera þeim kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Frumvarpið var unnið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í nánu samráði við embætti umboðsmanns skuldara, sem annast framkvæmd úrræðisins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett árið 2010, þar sem knýjandi þörf var fyrir úrræði til að takast á við þann vanda sem til kom vegna bankahrunsins árið 2008 og efnahagskreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. Markmiðið með lagasetningunni var jafnframt að lögfesta varanlegt úrræði til framtíðar fyrir einstaklinga í verulegum greiðsluerfiðleikum en Ísland innleiddi síðast allra Norðurlandaþjóða slíkt úrræði. Mikil reynsla hefur skapast og hafa yfir 8.700 umsóknir um greiðsluaðlögun borist embætti umboðsmanns skuldara frá upphafi. Á bak við hverja umsókn getur verið annars vegar einstaklingur og hins vegar sambýlisfólk/hjón og eru því fleiri einstaklingar sem hafa sótt um úrræðið en fjöldi umsókna segir til um. Því er ljóst að um mikilvægt úrræði er að ræða fyrir einstaklinga í fjárhagserfiðleikum.
    Lögin hafa enn ekki sætt endurskoðun en að mati embættis umboðsmanns skuldara er mikil þörf fyrir endurskoðun laganna. Hjá embættinu hefur byggst upp mikil og góð þekking og reynsla á framkvæmd laganna, hvaða ákvæði þeirra gagnast vel og jafnframt hvaða ákvæðum laganna þyrfti að breyta, fella brott eða bæta við lögin til að þau nýtist sem best til að stuðla að þeim markmiðum sem þeim er ætlað að ná.
    Markmiðið með breytingunum er að betrumbæta úrræðið, gera það heildstæðara og gera málsmeðferðina skýrari og skilvirkari, umsækjendum til hagsbóta. Úrelt lagaákvæði verði felld brott, breytingar gerðar á málsmeðferð og meðferð krafna er standa utan greiðsluaðlögunar og einnig verða gerðar umbætur og orðalagsbreytingar til að gera ákvæðin skýrari.
    Úrræðið um greiðsluaðlögun einstaklinga hefur sannað gildi sitt en löggjöfin þarf að þróast í takt við breytt umhverfi og þarfir umsækjenda, sem margir eru úr öðrum samfélagshópum og í annarri stöðu en áður var. Þegar lögin voru sett árið 2010 voru margir umsækjenda um greiðsluaðlögun fasteignaeigendur sem voru í vanda vegna húsnæðislána og yfirveðsetningar. Nú eru flestir umsækjendur á leigumarkaði og margir eru öryrkjar. Með frumvarpinu eru lagðar til ákveðnar breytingar með það að markmiði að fleiri geti leitað greiðsluaðlögunar. Þetta er m.a. gert með því að rýmka skilyrði um búsetu og lögheimili á Íslandi og breytingu á aðstæðum sem geta leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun. Þá er lagt til að málsmeðferð vegna breytinga á samningum til greiðsluaðlögunar verði breytt skuldurum í hag til að auðvelda einstaklingum að standa í skilum við samninga og fá samningi sínum breytt þegar þörf er á.
    Í frumvarpinu er jafnframt stefnt að því að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu þegar greiðslubyrði veðlána fer hækkandi vegna hás vaxtastigs og er því lagt til nýtt ákvæði um gjaldfrest eða lægri afborganir veðlána. Um nýmæli er að ræða þess efnis að umsjónarmanni greiðsluaðlögunar verði heimilt að leggja til í samningi um greiðsluaðlögun að greidd verði tímabundið lægri mánaðargreiðsla af veðkröfum eða veittur gjaldfrestur á þeim, ef óveruleg eða engin greiðslugeta er til staðar og uppi eru sérstakar eða tímabundnar aðstæður. Skal þá tímabil breytts greiðslufyrirkomulags samkvæmt ákvæðinu alla jafna ekki vera lengra en eitt ár.
    Einnig eru lagðar til breytingar á málsmeðferð vegna yfirveðsettra fasteigna, með vísan til þeirrar reynslu sem hefur skapast, en mæta þarf vanda þeirra sem glíma við yfirveðsetningu og geta ekki staðið undir skuldbindingum sínum til framtíðar. Í frumvarpinu er því lagt til að tenging við lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009, verði felld brott. Einstaklingar þurfi því ekki lengur að óska eftir því hjá sýslumanni að afmá veðbönd af yfirveðsettum eignum, þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar. Þess í stað er lagt til að hlutverk sýslumanns færist yfir til umboðsmanns skuldara samkvæmt nýjum reglum um að afmá veðréttindi. Lagt er til að mat á yfirveðsetningu fasteignar fari fram á sama tíma og greiðsluaðlögunarumleitanir standa yfir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að úrræðið um greiðsluaðlögun einstaklinga verði gert heildstæðara en nú er og að málsmeðferðin verði skýrari og skilvirkari. Í því skyni eru lagðar til nokkuð umfangsmiklar breytingar á ýmsum ákvæðum gildandi laga, nýjum ákvæðum bætt við og úrelt ákvæði eða ákvæði sem reynslan hefur sýnt að nýtast ekki sem skyldi eru felld brott.

3.1. Breyting á meðferð ákveðinna krafna sem standa utan greiðsluaðlögunar.
    Lagt er til að gerðar verði breytingar á núverandi f-lið og i-lið 1. mgr. 3. gr. með það að markmiði að gera greiðsluaðlögun að heildstæðara úrræði. Lagt er til að heimilt verði að kveða á um tiltekna meðferð krafna sem heyra undir þessa stafliði þrátt fyrir að um sé að ræða kröfur sem standa utan greiðsluaðlögunar. Þessar kröfur eru fésektir, kröfur vegna virðisaukaskatts, kröfur um afdregna vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda, kröfur um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi og meðlagskröfur. Með breytingunni verður því heimilt að ákveða í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun að greitt verði af hlutaðeigandi kröfum í samræmi við hvernig greitt er af óveðtryggðum kröfum skv. 21. gr. laganna. Þá verður heimilt að kveða á um gjaldfrest á þeim að undanskildum fésektum. Þar sem kröfurnar standa utan greiðsluaðlögunar, er óheimilt að kveða á um annars konar meðferð en að framan greinir, svo sem eftirgjöf.
    Þá er lagt til að virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum teljist ekki kröfur vegna námslána og séu því kröfur sem falli innan greiðsluaðlögunar á sama hátt og almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila á námslánum, ofgreiðslu námslána og markaðskjaralána. Markmiðið með þessari breytingu er að koma til móts við ábyrgðarmenn sem eru í greiðsluerfiðleikum vegna þessara skuldbindinga og ljóst að um fyrirsjáanlega framtíð geti þeir ekki staðið í skilum með þær. Gefst þeim þá kostur á að leita greiðsluaðlögunar, þar sem kveðið verður á um meðferð þessara skuldbindinga en engar lögbundnar lausnir eru fyrir hendi í dag fyrir þessa einstaklinga.

3.2. Breytingar á synjunarliðum.
    Í 6. gr. laganna er fjallað um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Lagt er til að ákvæðinu verði ekki lengur skipt upp í tvær málsgreinar, eftir því hvort um skyldu- eða heimildarsynjun er að ræða, heldur verði aðstæður sem leiða til synjunar taldar upp í fjórtán stafliðum. Embætti umboðsmanns skuldara mun þá hafa heimild til að samþykkja umsókn, þrátt fyrir að grundvöllur fyrir synjun liggi fyrir, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Með sérstökum aðstæðum er einkum átt við veikindi eða erfiðar félagslegar aðstæður, en talið er mikilvægt að umboðsmaður skuldara leggi heildstætt mat á hvert mál fyrir sig.
    Ákveðnir synjunarliðir eru nýir eða taka breytingum en aðrir eru óbreyttir. Þá eru synjunarliðir felldir brott. Í stað d-liðar 2. mgr. 6. gr. laganna er lagt til að lögfestur verði nýr synjunarliður, sem tekur til skattkrafna, þannig að heimilt verði að synja hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skattkrafna. Ákvæðið verður eingöngu afmarkað við skattkröfur skuldara en ekki skattkröfur félags sem skuldari er í fyrirsvari fyrir. Tilgangur þessarar breytingar er að rýmka skilyrðin svo að fleiri einstaklingar fái möguleika til að leita greiðsluaðlögunar. Gildandi d-liður 2. mgr. 6. gr. laganna , þar sem kveðið er á um að synja beri um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd og er því lagt til að kröfur sem falla hér undir, m.a. vörsluskattar, verði skoðaðar út frá öðrum, nýjum ákvæðum. Þá er lagt til að settur verði nýr synjunarliður þess efnis að umboðsmaður skuldara geti synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, ef hann metur það svo að greiðsluaðlögun sé ekki fallin til að leysa greiðsluvanda umsækjanda vegna krafna sem falla utan greiðsluaðlögunar. Kröfur sem falla undir d-lið 2. mgr., á borð við fésektir, vörsluskatta og endurkröfur ríkissjóðs vegna greiðslu skaðabóta, geta því komið til skoðunar á grundvelli þessa ásamt öðrum kröfum sem standa utan greiðsluaðlögunar. Í ljósi þess að skuldari þarf að greiða að fullu kröfur sem standa utan greiðsluaðlögunar, þarf að meta heildstætt hvort greiðsluaðlögun geti leyst fjárhagsvanda þegar slíkar kröfur hvíla á skuldara.
    Þá er lagt til að b-liður 2. mgr. 6. gr. laganna falli brott. Samkvæmt honum ber að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Markmiðið með breytingunni er að veita fleirum heimild til að leita greiðsluaðlögunar, en aðrir synjunarliður geta þó tekið til þeirra aðstæðna þegar skuldari hefur sýnt af sér ámælisverða háttsemi.

3.3. Breyting á meðferð veðskulda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum um meðferð veðskulda sem hvíla á fasteign eða bifreið skuldara. Lagt er til að umboðsmaður skuldara fái heimild til að kveða á um lægri greiðslur af veðkröfum í samningi til greiðsluaðlögunar eða gjaldfrest af veðlánum ef þörf er á, ef skuldari getur ekki mætt raunafborgunum veðlána. Skal slíkt tímabil þó alla jafna ekki vara lengur en eitt ár. Tilgangur með slíkri heimild er að mæta sérstökum aðstæðum, á borð við hátt vaxtastig eða tímabundnum aðstæðum skuldara eins og tekjuleysi.
    Þá er lagt til að sett verði ný ákvæði til hagsbóta fyrir skuldara um hvernig veðréttindi á fasteignum verði afmáð, þegar fasteignir teljast yfirveðsettar. Markmiðið með því er að leiðrétta veðsetningu fasteignar út frá markaðsverðmæti hennar svo fasteign sé ekki lengur yfirveðsett ef skuldari er í þeirri stöðu að geta ekki greitt af öllum veðskuldum sínum. Samkvæmt gildandi lögum fer um afmáningu veðréttinda samkvæmt lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009, en í frumvarpi þessu er tenging við þau lög felld brott. Samkvæmt nýjum ákvæðum skal málsmeðferð umsóknar um afmáningu veðréttinda fara fram á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir standa yfir, í stað þess að hún fari fram við lok greiðsluaðlögunar. Hlutverk sýslumanns samkvæmt lögum nr. 50/2009 færist yfir til umboðsmanns skuldara, sem mun leggja mat á slíkar umsóknir út frá lögbundnum skilyrðum.

3.4. Breytingar á málsmeðferð í kjölfar samþykkis umsóknar.
    Nokkrar breytingar eru lagðar til á málsmeðferð sem varða kröfuhafa. Lagt er til að skýrt komi fram hvaða efniskröfur eru gerðar til kröfulýsinga og að umboðsmaður skuldara hafi heimild til að telja kröfu vanlýsta ef þeim kröfum er ekki mætt. Þá er lagt til að eingöngu þeir kröfuhafar sem lýstu kröfum fái afhent frumvarp til greiðsluaðlögunar. Hafi kröfuhafi ekki lýst kröfu fær hann senda tilkynningu um að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar. Ekki er talin þörf á að senda þeim kröfuhöfum frumvarpið sem ekki hafa andmælarétt gagnvart því. Ef samningur tekur gildi fá eingöngu þeir kröfuhafar sem lýstu kröfu afrit af samningnum. Aðrir kröfuhafar fá senda samantekt um niðurstöðu samnings sem varðar þá.
    Þá er lagt til að ákveðnir frestir verði styttir. Annars vegar verði innköllunarfrestur krafna í Lögbirtingablaði styttur í þrjár vikur og hins vegar verði andmælafrestur kröfuhafa gagnvart frumvarpi til greiðsluaðlögunar styttur í tvær vikur. Talið er að styttri frestir séu nægjanlegir gagnvart kröfuhöfum, en þó verði heimild til að hafa frestina lengri sé talin þörf á vegna fjölda mála sem eru í vinnslu hjá embættinu.

3.5. Breytt málsmeðferð vegna breytinga eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun.
    Samkvæmt gildandi lögum getur skuldari ekki krafist breytinga á samningi um greiðsluaðlögun fyrr en hann hefur fullreynt að ná þeim fram sjálfur með samningum við alla kröfuhafa. Í ljósi reynslu embættis umboðsmanns skuldara er þessi krafa ekki til hagsbóta fyrir hagsmuni skuldara, sem óska alla jafna eftir aðstoð embættisins við milligöngu um breytingu á samningi. Til að mæta betur þörfum skuldara í þessu efni eru lagðar til breytingar á ákvæðum um málsmeðferð þegar skuldari óskar eftir breytingu á samningi. Þá verði kveðið á um það nýmæli að skuldari geti óskað eftir því við umboðsmann skuldara að veittur sé gjaldfrestur á allt að þremur gjalddögum samkvæmt samningi, án þess að breytingin sé borin undir kröfuhafa, ef upp koma sérstakar og ófyrirsjáanlegar aðstæður sem koma í veg fyrir að unnt sé að uppfylla skyldur samkvæmt samningi. Framangreind heimild yrði mjög til hagsbóta fyrir skuldara, ásamt því að leiða til ákveðins hagræðis við meðferð breytinga.
    Þá er lögð til sú breyting að samningar um greiðsluaðlögun falli sjálfkrafa úr gildi ef vanskil hafa verið á samningi í sex mánuði og ekki liggur fyrir að skuldari hafi óskað eftir breytingu á samningi. Þessi breyting myndi leiða til mun meiri skilvirkni fyrir kröfuhafa en samkvæmt gildandi ákvæði þurfa kröfuhafar að hafa uppi kröfu um ógildingu samnings vegna vanskila fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldara. Samhliða þessari breytingu fái umboðsmaður skuldara heimild til að afla upplýsinga frá greiðslumiðlunarbönkum um vanskil samninga, m.a. í þeim tilgangi að veita skuldara ráðgjöf um rétt til breytinga á samningi. Embætti umboðsmanns skuldara mun því fylgjast með þeim samningum sem lenda í vanskilum og leiðbeina skuldurum eftir atvikum um að óska eftir breytingu á samningi til að koma í veg fyrir að samningar verði ógiltir.

4. Samræmi við stjórnarskrá.
    Við vinnslu frumvarpsins hefur sérstaklega verið farið yfir það hvernig áformaðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga samrýmast ákvæðum stjórnarskrár. Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að eignarrétturinn sé friðhelgur. Engan megi skylda til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji og til þess þurfi lagafyrirmæli. Óbein eignarréttindi á borð við veðréttindi í eign njóta friðhelgi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Nýtt fyrirkomulag við að afmá veðréttindi vegna yfirveðsettra fasteigna, sem mælt er fyrir um í nýjum kafla, VI. kafla A, er ekki talið ganga of nærri friðhelgi eignarréttar samkvæmt stjórnarskrá. Skuldarar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá beiðni um að afmá veðréttindi samþykkta. Veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta geta kært stjórnvaldsákvörðun embættis umboðsmanns skuldara um að samþykkja slíka beiðni til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá gilda ákveðnar reglur um hvernig skuli meta andvirði eignarinnar. Með umræddum breytingum er tekið mið af fyrirkomulagi þegar veðréttindi eru afmáð skv. 12. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009, og reynslu þess fyrirkomulags. Í stað þess að sýslumaður taki stjórnvaldsákvörðunina færist ákvörðunarvaldið til umboðsmanns skuldara og kæruleiðin verður til úrskurðarnefndar velferðarmála í stað þess að ágreiningi sé beint til héraðsdóms. Ákveðin skilyrði gilda áfram gagnvart skuldara, sem voru í lögum nr. 50/2009. Skuldari þarf að geta sýnt fram á að hann verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu allra veðskulda en geti þó staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem hvíla á eigninni í kjölfar þess að veðréttindi eru afmáð. Ef skilyrði eru uppfyllt fyrir því að afmá veðréttindi mun það ekki ná fram að ganga fyrr en frumvarp til greiðsluaðlögunar hefur verið samþykkt af kröfuhöfum og að því gefnu að skuldari hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt samningi. Það að afmá veðréttindi hefur því eingöngu áhrif gagnvart kröfuhöfum sem teljast ekki lengur eiga tryggðar kröfur, þar sem fullnusta verður ekki fengin af andvirði eignarinnar fyrir þeim kröfum. Er því talið réttlætanlegt að sá hluti krafna sem telst ótryggður geti farið undir skilmála samnings um greiðsluaðlögun. Nýju reglurnar gilda eingöngu um umsóknir sem verða samþykktar eftir gildistöku breytinganna, verði frumvarpið að lögum. Veðhafar þurfa þá að lýsa kröfum í kjölfar innköllunar, ef þeir vilja njóta andmælaréttar gagnvart frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Ef þeir lýsa ekki kröfu verða þeir bundnir af samningi um greiðsluaðlögun, sem kveður á um meðferð afmáðrar veðkröfu, sé það niðurstaðan að afmá eigi veðréttindi. Slíkt er ekki framkvæmt fyrr en að loknu greiðsluaðlögunartímabili, hafi skuldari staðið við greiðslur samkvæmt samningi.

5. Samráð.
    Áform um fyrirhugaðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, mál nr. S-113/2023, og voru til umsagnar frá 20. júní til 20. júlí 2023. Alls bárust fimm umsagnir frá fjórum umsagnaraðilum. Það var sammerkt með umsögnunum að almennt var litið jákvætt á það að gera ætti breytingar á lögunum eins og gerð var grein fyrir í áformaskjalinu.
    Fulltrúar ýmissa hagaðila komu á samráðsfundi um efni frumvarpsins og almennt voru undirtektir við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu góðar. Gagnlegar ábendingar komu fram og hefur verið tekið tillit til þeirra í frumvarpinu eftir því sem við hefur átt. Fulltrúar eftirtalinna aðila komu á alls níu samráðsfundi: Úrskurðarnefndar velferðarmála, Samtaka fjármálafyrirtækja og Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka, dómsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar, Skattsins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga, Hagsmunasamtaka heimilanna, Menntasjóðs námsmanna og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga voru birt í samráðsgátt, mál nr. S-175/2023, og voru til umsagnar frá 28. september 2023 til 13. október 2023.
    Alls bárust átta umsagnir um frumvarpsdrögin frá Alþýðusambandi Íslands, Creditinfo Lánstrausti hf., Hagsmunasamtökum heimilanna, Menntasjóði námsmanna, Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja, Öryrkjabandalagi Íslands og einum einstaklingi.
    Alþýðusamband Íslands (ASÍ) vísar til tillagna allt frá 1994 um samofið félagslegt og fjárhagslegt úrræði til að mæta skuldavanda einstaklinga og fjölskyldna sem tæki jöfnum höndum til veðkrafna og annarra krafna. Meðal annars yrði hægt að beita úrræðinu þannig að heimilt yrði að fara inn í samningsbundna skilmála veðkrafna innan verðmætis veðsettra eigna til að gera þessar kröfur með skilmálabreytingum þannig að skuldari gæti greitt þær. ASÍ telur það fagnaðarefni að þetta frumvarp samrýmist umræddum tillögum frá 1994 og hvetur Alþingi til að flýta afgreiðslu þess eins og mest má.
    Creditinfo Lánstraust hf. (Creditinfo) lagði til að g-liður 8. gr. verði felldur brott úr frumvarpinu þar sem óþarft sé að setja sérreglur um innkallanir vegna greiðsluaðlögunar umfram þær sem gildi nú þegar um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa. Í umsögninni er einnig bent á að upplýsingar um innkallanir vegna greiðsluaðlögunar veiti áreiðanlegar vísbendingar um líkur á því að einstaklingur muni efna lánssamning. Creditinfo lagði einnig til að í stað þess að tala um „lánshæfismat“ í g-lið 8. gr. frumvarpsins komi „skýrsla um lánshæfi“. Það orðalag sé í samræmi við reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálaefni og lánstraust, nr. 606/2023. Í umsögninni er lagt til að verði ekki fallist á að fella g-lið 8. gr. frumvarpsins brott verði ákvæðinu breytt þannig að skráning upplýsinga um innkallanir verið heimil en miðlun þeirra upplýsinga hins vegar óheimil. Að lokum er lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að tímalengd verði tvö ár, eins og segi í drögum að greinargerð. Orðalagi ákvæðisins hefur nú verið breytt til samræmis við framangreindar athugasemdir þannig að skýrt kemur fram að það er miðlun upplýsinga um innkallanir sem ekki er leyfð og orðalagið „skýrsla um lánshæfi“ er komið í stað orðsins „lánshæfismat“. Tímafresturinn var ranglega tilgreindur tvö ár í athugasemdum við ákvæðið og hefur það verið lagfært.
    Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna er almennt jákvæð gagnvart frumvarpinu. Samtökin hefðu þó talið að fresturinn sem kveðið er á um í 18. gr. frumvarpsins mætti vera tvö ár. Niðurstaðan er sú að ekki sé ástæða til að lengja umræddan frest enda alls óvíst að lengri frestur myndi þjóna hagsmunum skuldara.
    Menntasjóður námsmanna lýsti í sinni umsögn andstöðu við 2. málsl. e-liðar 3. gr. frumvarpsins um að ábyrgðarskuldbindingar á námslánum skuli ekki teljast kröfur vegna námslána. Í umsögninni er það lagt til að bæta orðinu „virkar“ fremst í málsliðinn, verði ákvæðið ekki fellt brott úr frumvarpinu. Í ljósi þeirra tilvika sem upp hafa komið og reynslunnar af úrræði greiðsluaðlögunar að öðru leyti er talið mikilvægt að kröfur vegna ábyrgða á námslánum falli undir greiðsluaðlögun til þess að lögin nái betur markmiði sínu. Orðinu „virkar“ er bætt við 2. málsl. e-liðar 3. gr. frumvarpsins í samræmi við tillögu Menntasjóðs.
    Í umsögn Persónuverndar eru áréttuð almenn sjónarmið um mikilvægi þess að huga að vernd persónuupplýsinga við vinnslu þeirra. Fjallað er um mikilvægi þess að afmarka vel viðkvæmar persónuupplýsingar sem heimilt er að miðla og um sjónarmið um nauðsyn og meðalhóf, bent er á fræðsluskyldu ábyrgðaraðila og ítrekuð sjónarmið um öryggi persónuupplýsinga. Brugðist hefur verið við athugasemdum með því að fjalla nánar um það í greinargerð hvernig miðlun upplýsinga skuli fara fram.
    Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gera athugasemdir við ýmis ákvæði frumvarpsins og hefur verið brugðist við þeim á eftirfarandi hátt: Orðið „umtalsvert“ í c-lið 1. gr. frumvarpsins hefur verið skýrt nánar í greinargerð. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á 19. gr. a, sem kveður á um það þegar veðbönd eru afmáð. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur nú skýrt fram að meginreglan sé sú þegar veðréttindi eru afmáð skv. 1. mgr. að það geti aðeins varðað fasteign þar sem skuldari heldur heimili og á skráð lögheimili. Aðeins sé hægt að víkja frá þessu skilyrði í undantekningartilvikum og þá með samþykki veðhafa sem hafa hagsmuna að gæta. Einnig hefur verið bætt við í 4. mgr. 19. gr. a ákvæði um heimild veðhafa sem hafa hagsmuna að gæta til að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna á eigin kostnað. Ef það er gert gildir sú niðurstaða um verðmæti fasteignarinnar. Enn fremur hefur, í samræmi við athugasemdir SFF, verið bætt við í 6. mgr. 19. gr. a skilyrði fyrir því að veðréttindi séu afmáð að skuldari hafi staðið við greiðsluaðlögunarsamninginn. Í 2. málsl. 6. mgr. kemur einnig skýrt fram að beiðni um að afmá veðréttindi verði ekki send sýslumanni fyrr en að loknu tímabili greiðsluaðlögunar. Jafnframt hefur orðið „samfellt“ verið fellt út úr 22. gr. í samræmi við tillögu SFF.
    Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) kemur fram stuðningur við efni frumvarpsins. Samtökin telja brýnt að koma á réttindagæslu fyrir fatlað fólk í greiðsluvanda. Fötlun geti valdið því að einstaklingur geri sér ekki grein fyrir umfangi skuldbindinga sinna og standi því ekki í skilum. Samtökin telja nauðsynlegt að tryggja réttindagæslumann sem væri málsvari þessa viðkvæma hóps og sæi til þess að greiðsluaðlögunarsamningar fengju sanngjarna meðferð og væri fylgt eftir. Til að bregðast við ábendingu ÖBÍ um að sérstakur vandi kunni að vera uppi hjá fötluðu fólki í greiðsluvanda þá mun embætti umboðsmanns skuldara setja í verklagsreglur sínar að við afgreiðslu og vinnslu umsókna frá fötluðum einstaklingum skuli litið til Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sérstaklega ákvæða um viðeigandi aðlögun. Að öðru leyti þarfnast umsögnin ekki viðbragða.
    Í umsögn einstaklings um frumvarpið er bent á að ef greiðslubyrði hækkar verulega umfram viðmið um lánveitingu vegna ástæðna sem lántaka verði ekki kennt um, svo sem verðbólgu, atvinnuleysis eða heilsubrests, ætti lánveitanda að vera skylt að skuldbreyta láni þannig að greiðslubyrði lántaka verði innan viðmiðs um greiðslugetu hans. Í umsögninni kemur jafnframt fram sú skoðun að samfélagsleg ábyrgð feli í sér að lánveitandi beri einnig áhættu af breytingum á lánum til einstaklinga vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Umsögnin þarfnast ekki viðbragða.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem leiða til þess að úrræðið um greiðsluaðlögun einstaklinga verður heildstæðara og enn betur til þess fallið að aðstoða fólk í greiðsluvanda við að ná betri tökum á fjármálum sínum. Ekki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til hafi áhrif á stjórnsýslu ríkisins eða sveitarfélaga.
    Hvað varðar mat á fjárhagslegum áhrifaþáttum fyrir ríkið þá er hvorki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á tekjur né útgjöld. Það er ekki gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga hafi áhrif á fyrirkomulag ríkisfjármála, reikningshaldslegan grundvöll þeirra, skattkerfi, þjónustugjöld, útboð og eignaumsýslu ríkisins. Embætti umboðsmanns skuldara er fjármagnað af fjármálafyrirtækjum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, með greiðslu sérstaks gjalds sem rennur í ríkissjóð í samræmi við ákvæði laganna. Nánar er kveðið á um greiðslu kostnaðar við rekstur embættis umboðsmanns skuldara í lögum nr. 166/2011. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum sem hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.
    Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá embætti umboðsmanns skuldara um greiðsluaðlögun voru konur 54% þeirra sem leituðu greiðsluaðlögunar árið 2021 en karlar 46%. Langflestir umsækjenda bjuggu í leiguhúsnæði, eða 75% (leiga og félagsleg leiga). Öryrkjar voru 50% þeirra sem leituðu greiðsluaðlögunar árið 2021, 60% höfðu aðeins lokið grunnskólaprófi og 67% voru á aldrinum 18–39 ára. Á árinu 2022 var 231 mál vegna greiðsluaðlögunar í vinnslu. Konur voru 66% þeirra sem leituðu eftir að komast inn í úrræðið en karlar 34%. Þetta ár voru 76% í leiguhúsnæði (leiga/félagsleg leiga). Öryrkjar voru 45% umsækjenda, 56% höfðu aðeins lokið grunnskólaprófi og 62% voru á aldrinum 18–39 ára. Það sem af er árs 2023 eru 157 mál vegna greiðsluaðlögunar komin til vinnslu. Konur eru 61% þeirra sem leita í úrræðið og karlar 39%. Enn er stærstur hluti umsækjenda í leiguhúsnæði eða 68% (leiga/félagsleg leiga). Öryrkjar eru 44% umsækjenda 2023, 59% hafa aðeins lokið grunnskólaprófi og 61% eru á aldrinum 18–39 ára.
    Miðað við framangreindar tölulegar upplýsingar frá embætti umboðsmanns skuldara eru líkur á því að efni frumvarpsins hafi meiri áhrif á konur en karla þar sem fleiri konur leita greiðsluaðlögunar en karlar. Einnig eru líkur til þess að það hafi áhrif á ákveðna samfélagshópa, eins og öryrkja og fólk á leigumarkaði. Jafnframt mun efni frumvarpsins hafa meiri áhrif á yngra fólk en eldra þar sem yngra fólk leitar greiðsluaðlögunar í meira mæli en eldra fólk. Allar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu ættu að hafa jákvæð áhrif á framangreinda hópa þar sem markmiðið með þeim breytingum sem lagðar eru til er að gera úrræðið um greiðsluaðlögun betra, byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur síðan því var komið á, skilvirkara og heildstæðara fyrir fólk sem á í fjárhagsvanda.
    Í frumvarpinu er kveðið á um heimildir embættis umboðsmanns skuldara til þess að líta til og miðla persónuupplýsingum um umsækjendur í ákveðnum tilvikum í tilteknum tilgangi. Í 28. gr. frumvarpsins og skýringum með því ákvæði er það áréttað að embætti umboðsmanns skuldara skuli fylgja skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Sérstaklega er áréttað að embættið skuli gæta öryggis við sendingu og meðferð persónuupplýsinga og að sett verði öryggisstefna, áhættumat verði framkvæmt og gerðar aðrar öryggisráðstafanir í samræmi við meginreglur um persónuvernd.
    Þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að hafa áhrif á þá hópa sem tilgreindir eru hér að framan og eru að takast á við erfiða fjárhagsstöðu. Með því að auka skilvirkni vinnslu greiðsluaðlögunar, rýmka skilyrði inn í úrræðið og með því að gera það að heildstæðari lausn en nú er mun það hafa jákvæð áhrif á stöðu þeirra einstaklinga og hópa sem minnst hafa milli handanna. Sérstaklega er hér um að ræða öryrkja, fólk á leigumarkaði, atvinnuleitendur og fólk sem er yngra en 39 ára, en þetta eru þeir hópar sem leita til embættis umboðsmanns skuldara í hvað mestum mæli. Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér ívilnandi breytingar á regluverki um framkvæmd greiðsluaðlögunar og það hefur ekki áhrif á stöðu ríkisfjármála.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 4. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að eingöngu sé heimilt að víkja frá lögheimilis- og búsetuskilyrði þeirra ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda, hefur áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt og eingöngu sé leitað greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi eða greiðsluaðlögun er eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíla á fasteign hér á landi.
    Lagt er til að gerð verði breyting á þessum skilyrðum þar sem reynslan hefur m.a. sýnt að einstaklingar geta átt erfitt með að sanna að búseta erlendis hafi verið áætluð tímabundið í upphafi. Með breytingunni er ekki lengur gert að skilyrði að búsetan erlendis sé tímabundin og vegna tilgreindra ástæðna. Þess í stað er lögð áhersla á að uppfyllt séu skilyrði, sem fela í sér að hægt sé að leysa fjárhagsvanda viðkomandi á Íslandi, þrátt fyrir búsetu erlendis. Í a-lið er því lagt til að það verði sett sem skilyrði að fjárhagsstaða skuldara erlendis sé skýr og allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir um hana. Því hvíla skyldur á skuldara að veita allar nauðsynlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína sem umboðsmaður skuldara óskar eftir, t.d. skattframtöl sem og upplýsingar um tekjur og framfærslukostnað. Ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara þurfi að afla þessara upplýsinga frá opinberum aðilum og/eða einkaaðilum í því ríki sem skuldari býr.
    Í b-lið er lagt til að það verði skilyrði að einstaklingur skuldi ekki, eða í litlum mæli erlendum kröfuhöfum, enda er í breytingalagafrumvarpi þessu lagt til skýrt ákvæði um að erlendir kröfuhafar standi utan greiðsluaðlögunar.
    Í c-lið er að lokum lagt til að það verði sett sem skilyrði að skuldari geti ekki átt húsnæði eða aðrar eignir með umtalsvert verðgildi utan Íslands, nema ljóst sé að eignarstaða muni ekki valda vandkvæðum í greiðsluaðlögunarumleitunum. Ef skuldari ætti húsnæði erlendis eða aðrar eignir með umtalsvert verðgildi, væri vandkvæðum bundið fyrir umsjónarmann eða umboðsmann skuldara að verðmeta þær eða koma að sölu þeirra. Með öðrum eignum með umtalsvert verðgildi er t.d. átt við bifreið, ferðavagn eða annars konar farartæki, þar sem líkur eru á að sala þessara eigna skipti máli við úrlausn á fjárhagsvanda. Meta þarf hvert tilfelli fyrir sig en skuldari kann að geta sýnt fram á óverulegt verðgildi eignarinnar. Ef eignir skuldara hafa ekki áhrif á greiðsluaðlögunarumleitanir, t.d. þar sem eingöngu er leitað eftir gjaldfresti á kröfum en ekki eftirgjöf, þá kann greiðsluaðlögun að ná fram að ganga.
    Ákvæðið er samið að norskri fyrirmynd en mikil reynsla er komin á úrræði greiðsluaðlögunar í Noregi, en lög um greiðsluaðlögun komu fyrst til framkvæmda þar í landi árið 1993.

Um 2. gr.

    Í gildandi lögum er ýmist notað hugtakið lánardrottinn eða kröfuhafi. Rétt þykir að samræma hugtakanotkun og er því lagt til að nota aðeins hugtakið kröfuhafi, í viðeigandi beygingarmyndum, og taka breytingartillögurnar mið af því.

Um 3. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar til samræmis við önnur ákvæði laganna. Þá er lagt til að við c-lið 1. mgr. 3. gr. laganna bætist skýring á hugtakinu frestdagur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti og er sú tillaga í takt við núverandi túlkun og framkvæmd. Lagt er til að d- og e-liðir falli brott. Varðandi e-lið 1. mgr., þá hefur ákvæðið valdið vandræðum í framkvæmd við mat á hvaða kröfur teljist að óverulegri fjárhæð og skuli standa utan greiðsluaðlögunar. Er því lögð til sú breyting að þessar kröfur falli innan greiðsluaðlögunar en umsjónarmaður hafi heimild á grundvelli 21. gr. til að leggja til að óverulegar óveðtryggðar kröfur skuli greiddar að fullu komi til greiðslna á þeim, sjá nánari skýringar í athugasemdum við 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins um hvað teljist óverulegar fjárhæðir.
    Lagt er til að gerðar verði breytingar á f-lið og i-lið 1. mgr. með það að markmiði að gera greiðsluaðlögun að heildstæðara úrræði. Lagt er til að heimilt verði að kveða á um tiltekna meðferð á kröfum sem heyra undir þessa stafliði, þrátt fyrir að um sé að ræða kröfur sem standa utan greiðsluaðlögunar. Með breytingunni verður því heimilt að ákveða í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun að greitt verði af hlutaðeigandi kröfum í samræmi við hvernig greitt er af óveðtryggðum kröfum skv. 21. gr. laganna. Einnig verður heimilt að kveða á um gjaldfrest á þeim, að undanskildum fésektum. Það telst til hagsbóta fyrir skuldara að þurfa ekki að semja sérstaklega um ákveðnar afborganir af framangreindum kröfum sem standa utan greiðsluaðlögunar og að greiðslum sé miðlað til kröfuhafans af greiðslumiðlunarbanka. Eingöngu er um að ræða heimildarákvæði og því getur umsjónarmaður ákveðið að nýta ekki þessa heimild, þannig að skuldari þurfi að semja sjálfur um afborgunarfjárhæðir við kröfuhafa sem standa utan greiðsluaðlögunar. Það telst jafnframt mikilvægt að hægt sé að kveða á um gjaldfrest af þessum kröfum ef niðurstaða greiðslumats er sú að skuldari er með óverulega eða enga greiðslugetu. Ekki verður heimilt að kveða á um gjaldfrest af fésektum vegna eðlis þeirra krafna og heimildar innheimtuaðila til að beita vararefsingu. Gert er ráð fyrir að kröfuhafar, sem ákvæðið varðar, hafi andmælarétt gagnvart slíkum tillögum um meðferð krafnanna, hafi þeir lýst kröfu skv. 10. gr., en geti þó ekki komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun nái fram að ganga að öðru leyti. Ef þeir andmæla tillögu umsjónarmanns um meðferð kröfunnar, skal samið sérstaklega við hlutaðeigandi kröfuhafa um greiðslu kröfunnar, hvort sem það felur í sér eingreiðslu eða mánaðarlegar afborganir. Skal tekið tillit til þess samkomulags í samningi um greiðsluaðlögun.
    Lagt er til að við g-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður sem kveður á um hvernig fara skuli með vanskil og uppsafnaðar afborganir á námslánum. Tilgangur breytingarinnar er að tryggja skýra meðferð krafna vegna námslána þegar skuldari fær samning um greiðsluaðlögun. Samkvæmt ákvæðinu ber að bæta vanskilaþætti kröfunnar sem var tilkominn áður en samningur tók gildi við höfuðstól kröfunnar, hvort sem það voru uppsöfnuð vanskil áður en skuldari leitaði greiðsluaðlögunar eða uppsafnaðar afborganir á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Afborgunum og vöxtum sem falla niður á tímabili greiðsluaðlögunar, skal jafnframt bætt við höfuðstól kröfunnar. Hafi lánið verið gjaldfellt skal draga gjaldfellingu lánsins til baka. Þegar skuldari lýkur tímabili greiðsluaðlögunar, skal krafan vera í skilum og skuldari á að geta greitt hefðbundnar afborganir að nýju.
    Í g-lið 1. mgr. 3. gr. kemur fram að almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána og markaðskjaralána teljist ekki kröfur vegna námslána. Til viðbótar við þessar kröfur er lagt til það nýmæli að kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum teljist ekki kröfur vegna námslána. Að mati embættis umboðsmanns skuldara, byggt á reynslu af framkvæmd gildandi laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, er brýn þörf fyrir að greiðsluaðlögun taki til þessara krafna, þar sem engar aðrar lögbundnar lausnir eru til staðar fyrir ábyrgðarmenn sem lenda í greiðsluerfiðleikum vegna þessara skuldbindinga. Er því lagt til að þessar kröfur falli undir greiðsluaðlögun séu þær virkar á hendur ábyrgðarmanni.
    Lagt er til að 4. mgr. falli brott en jafnframt er lagt til að sambærilegt ákvæði verði í nýrri 23. gr. b, en það taki þó eingöngu til óveðtryggðra krafna.

Um 4. gr.

    Hér er fjallað um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Lagðar eru til töluverðar breytingar á ákvæðinu frá því sem nú er, sem taka mið af yfir áratugs reynslu embættis umboðsmanns skuldara af ákvörðunartöku á grundvelli ákvæðisins. Lagt er til að ekki verði lengur fjallað um annars vegar skyldu til synjunar á umsókn og hins vegar heimildar til að synja umsókn. Skilin milli skyldu- og heimildarsynjana eru óljós en mótast hefur ákveðin framkvæmd, sem úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest, þar sem heimildarsynjanir hafa þróast í svokallaðar skyldusynjanir, út frá ákveðnum forsendum. Því er hér lagt til að breyta ákvæðinu á þann veg að telja upp í fjórtán stafliðum þær aðstæður sem leiða til synjunar. Sumir stafliðir eru nýir en aðrir halda sér óbreyttir eða taka ákveðnum breytingum. Umboðsmaður skuldara mun einnig hafa heimild til að samþykkja umsókn, þrátt fyrir að synjunargrundvöllur liggi fyrir, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi en umboðsmanni skuldara ber að leggja heildstætt mat á málið og meta hvort sérstakar aðstæður skuldara eigi að leiða til þess að samþykkja beri umsóknina. Ýmsar sérstakar aðstæður geta komið til en hér er einkum vísað til veikinda, erfiðra félagslegra aðstæðna og eftir atvikum hás aldurs skuldara. Í einhverjum tilfellum kann mat umboðsmanns skuldara að vera á þann veg að synja beri máli, þrátt fyrir sérstakar aðstæður skuldara, þar sem þau atvik sem leiða eiga til synjunar vega þyngra í matinu og ekki telst því hæfilegt að samþykkja umsókn.
    Lagt er til að a-liður 1. mgr. 6. gr. laganna haldi sér óbreyttur en í honum segir að það skuli leiða til synjunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Ekki er þörf á að breyta þessum staflið, enda telst hann nauðsynlegur, t.d. þegar meta á grunnskilyrði laganna á grundvelli 2. gr.
    Lagt er til að breyting verði gerð á b-lið 1. mgr. 6. gr., með það að markmiði að gera ákvæðið skýrara. Samkvæmt orðalagi núverandi b-liðar skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Með breytingunni er lagt til að orðalagið verði á þann veg að það skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af því hvernig fjárhagur skuldara hefur verið, hver fjárhagur skuldara er við vinnslu umsóknar eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Með þessari breytingu er áréttuð núverandi framkvæmd og túlkun á stafliðnum, um að það þurfi að vera ljóst hver fjárhagur skuldara hefur verið, svo hægt sé að meta aðrar synjunarástæður, t.d. hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Rannsókn á fjárhag hefur því þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 6. gr. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar. Það er mjög mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Stafliðurinn tekur t.d. á þeim aðstæðum þegar skuldari hefur ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða veitingu upplýsinga sem honum er einum unnt að afla eða gefa. Skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Ýmsar aðstæður geta leitt til þess að fjárhagur skuldara telst óglöggur, t.d. ef skuldari veitir ekki fullnægjandi skýringar á mismun á milli veltu og uppgefinna tekna, skuldari hefur ekki talið fram til skatts tekjur sínar og óljóst er hverjar framtíðartekjur verða, skuldari staðfestir ekki með gögnum upplýsingar um framfærslukostnað sem honum er einum unnt að veita, skuldari hefur selt eignir en hann afhendir ekki gögn um söluhagnað, skuldari hefur ekki skilað skattframtölum eða skuldari hefur óglögg tengsl við félög. Þá hefur og verið talið rétt að líta til 4. og 5. gr. laganna í þessu sambandi. Í 4. gr. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála og fyrrum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hefur verið litið svo á að þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna, séu grundvallarupplýsingar til þess að hægt sé að vinna að samningi um greiðsluaðlögun og meta hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar í samræmi við 12. gr. Hefur verið litið svo á að á skuldara hvíli skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verði ekki lagt efnislegt mat á það hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Rannsóknarskylda stjórnvalda er ekki talin leysa umsækjendur um greiðsluaðlögun undan þeirri skyldu.
    Lagt er til að við 6. gr. bætist nýr c-liður þess efnis að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef óleyst fjárhagsleg málefni hindra að greiðsluaðlögunarumleitanir nái fram að ganga. Ákvæðið er samið að norskri fyrirmynd en að mati umboðsmanns skuldara hefur vantað slíka synjunarástæðu í lögin. Ákvæðið tekur til ýmiss konar aðstæðna. Sem dæmi um slíkar aðstæður má nefna þegar skuldari er í miðju skilnaðarferli og ekki hefur verið gengið frá fjárskiptum. Sambúðarslit einstaklinga í óvígðri sambúð gætu einnig haft í för með sér slíkar aðstæður. Þar sem hjón bera almennt ekki sameiginlega skuldaábyrgð, þyrfti að skoða hvert tilfelli fyrir sig, m.a. hvort eignaskipti séu óútkljáð. Ákvæðið tekur jafnframt til þeirra aðstæðna þegar skuldari stendur í málaferlum sem varða fjárhagsleg málefni hans og valda því að ekki er hægt að greiða úr fjárhagsvanda viðkomandi í greiðsluaðlögunarumleitunum. Einnig ef skuldari telur að ákveðnar skuldir séu umdeildar eða vill ekki viðurkenna tilvist þeirra. Þá gæti ákvæðið tekið til þeirra aðstæðna þegar sakamál er til meðferðar á hendur skuldara og óljóst er hvort skuldari þurfi að greiða sakarkostnað, sektir eða skaðabótakröfur. Allar framangreindar aðstæður eiga það sammerkt að ekki er hægt að leysa fjárhagsvanda þegar slík óleyst fjárhagsleg málefni eru fyrir hendi. Fjárhagurinn getur líka talist óglöggur við slíkar aðstæður og gæti því b-liður jafnframt komið til skoðunar.
    Lagt er til að gerð verði breyting á orðalagi núverandi c-liðar 1. mgr., sem verði d-liður, með það að markmiði að gera ákvæðið skýrara og afmarkaðra. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð með núverandi c-lið hefur hann það að markmiði að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar sem hefur ráðstafað tekjum sínum umfram efni til ónauðsynlegra hluta og látið ógert að greiða af þeim skuldbindingum sem hann hafði áður gengist undir, í því skyni að fá þær skuldbindingar lækkaðar eða niðurfelldar með greiðsluaðlögun. Er rakið í athugasemdum að ákvæðið eigi fyrst og fremst við um skuldara sem hefur haft svo háar tekjur að ljóst megi vera að honum hafi verið unnt að ráðstafa þeim til greiðslu skuldbindinga sinna og eðlilegrar framfærslu sinnar og fjölskyldu. Að mati embættis umboðsmanns skuldara tekur annar synjunarliður til þessara aðstæðna, þ.e. þegar meta skal hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að greiða af skuldbindingum sínum. Með vísan til reynslu embættisins er erfitt að sanna að ráðstafanir skuldara, á borð við framangreint dæmi, bendi ótvírætt til þess að skuldari hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar. Því er lagt til að orðalag ákvæðisins verði frekar á þann veg að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef aðstæður benda til að skuldari hafi á óheiðarlegan hátt stofnað til skulda með það að markmiði að leita greiðsluaðlögunar vegna þeirra eða gert aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem teljast óhæfilegar. Við mat á því hvort synja beri á grundvelli þessa liðar ber sérstaklega að skoða hvort stofnað hafi verið til ónauðsynlegra skulda rétt áður en sótt var um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara og hvort ekkert hafi verið greitt af þeim kröfum, en þær aðstæður gætu bent til að þessi synjunarliður ætti við. Ekki er hægt að rekja með tæmandi hætti fjárhagslegar ráðstafanir sem teljast óhæfilegar en sem dæmi má nefna aðstæður sem benda til að skuldari hafi sýnt af sér óheiðarlega eða sviksamlega háttsemi.
    Lagt er til að nýjum staflið, e-lið, verði bætt við ákvæðið sem taki til þeirra aðstæðna þegar stofnað hefur verið til skulda eftir að skuldari sótti um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara og ekki er um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar, til framfærslu eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis. Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að hafa ákvæði sem tekur sérstaklega á þessum aðstæðum, en það telst ámælisverð háttsemi hjá skuldara að stofna til ónauðsynlegra skulda eftir að hafa leitað sér aðstoðar vegna fjárhagsvanda. Í einhverjum tilfellum gætu slíkar aðstæður leitt til þess að hinn nýi d-liður ætti einnig við.
    Í núverandi d-lið 1. mgr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Lagt er til að breyting verði gerð á orðalagi þessa synjunarliðar, sem verði f-liður, á þann veg að fellt er brott hið huglæga mat á hvort skuldari hafi með ásetningi eða grófri vanrækslu viðhaft háttsemi sína. Erfitt er að færa sönnur á ásetning eða grófa vanrækslu í þessu sambandi og hefur ákvæðið því verið lítið notað í framkvæmd. Orðalagið sem lagt er til er því á þann veg að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu eða látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar, en núverandi d-liður tekur ekki til slíkra aðstæðna. Hér koma því til skoðunar tilvik þegar ljóst er að skuldari hefur greint rangt eða villandi frá upplýsingum sem skipta máli við meðferð málsins eða ekki greint frá slíkum upplýsingum, og engar ástæður eru fyrir hendi sem réttlæta það. Ýmsar ástæður geta leitt til þess að viðkomandi skuldari greinir rangt eða villandi frá eða lætur hjá líða að greina frá upplýsingum. Í einhverjum tilfellum má ætla að tilgangurinn sé að fá umsókn um greiðsluaðlögun samþykkta eða að hafa áhrif á greiðsluaðlögunarumleitanir. Þá geta komið upp tilvik þar sem kröfuhafar veita umsjónarmanni upplýsingar um að skuldari hafi veitt rangar eða villandi upplýsingar, eða látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar, sem getur leitt til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli 15. gr. Varðandi mat á því hvenær umboðsmaður skuldara eða umsjónarmaður teljist hafa nægilega sönnun fyrir því að ákvæðið eigi við, þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig og hvort um sé að ræða upplýsingar sem hafi þýðingu varðandi framgang málsins. Hér koma t.d. til skoðunar tilvik þar sem skuldari hefur fengið skýrar spurningar og svarað þeim eða staðfest að fyrirliggjandi gögn eða útreikningar á fjárhagsstöðu séu réttir en við rannsókn málsins kemur í ljós að viðkomandi greindi rangt eða villandi frá eða lét hjá líða að greina frá upplýsingum og engar skýringar sem afsaka það eru fyrir hendi. Það er mikilvægt að skuldari komi heiðarlega fram við vinnslu málsins og veiti réttar og skýrar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína, hvort sem það eru upplýsingar um eignir, skuldir, tekjur, framfærslukostnað eða annað. Ekki er hægt að tilgreina með tæmandi hætti hvers konar tilvik geti fallið undir ákvæðið. Undir ákvæðið geta fallið tilvik á borð við ef skuldari stofnar til sambúðar í greiðsluaðlögunarferli og lætur ekki vita af því eða skuldari veitir ekki upplýsingar um að hann sé byrjaður að afla sér aukatekna. Það fellur í hlut embættis umboðsmanns skuldara og eftir atvikum umsjónarmanns að meta hvert mál fyrir sig og hvort háttsemi skuldara í þessu sambandi teljist það ámælisverð að synja beri málinu eða fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir, eða hvort hægt sé að halda áfram með málið á grundvelli nýrra upplýsinga.
    Í e-lið 1. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um að synja skuli umsókn ef skuldari hefur áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar á síðustu þremur árum. Þó sé umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn í slíkum tilvikum ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Lagt er til að breyting verði á orðalagi þessa ákvæðis, sem verði g-liður, á þann veg að skýrt sé kveðið á um að ákvæðið taki til samþykkts samnings um greiðsluaðlögun. Er fellt brott hið óljósa orðalag um að skuldari hafi fengið samþykkta greiðsluaðlögun, þar sem það gæti bæði tekið til þeirra aðstæðna þegar skuldari fær samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun eða samþykktan samning um greiðsluaðlögun. Þá er lagt til að ekki sé lengur miðað við að skuldari hafi fengið samning um greiðsluaðlögun eða nauðasamning á síðustu þremur árum. Að mati embættis umboðsmanns skuldara eru engin rök sem liggja til grundvallar þessum tímamörkum. Ástæðan fyrir því að þau voru upphaflega sett var að gæta samræmis við ákvæði um nauðasamninga í lögum um gjaldþrotaskipti. Að mati embættisins ætti almenna reglan að vera sú að einstaklingar leiti eingöngu greiðsluaðlögunar einu sinni, nema sérstakar aðstæður séu uppi. Er sú tillaga í samræmi við ákvæði í norsku greiðsluaðlögunarlögunum. Með sérstökum aðstæðum þá er einkum átt við þau tilvik þegar fyrri samningur um greiðsluaðlögun hefur ekki leyst fjárhagsvanda viðkomandi, eða veikindi eða félagslegar aðstæður skuldara mæla með að viðkomandi fái að leita aftur greiðsluaðlögunar. Þá getur komið til skoðunar hvaða niðurstöðu skuldari fékk þegar hann leitaði greiðsluaðlögunar í fyrsta sinn. Hafi t.d. skuldari fengið eingöngu gjaldfrest á kröfum sínum en enga eftirgjöf geta rök mælt með því að viðkomandi fái að leita greiðsluaðlögunar að nýju. Einnig ef langur tími hefur liðið frá fyrra greiðsluaðlögunarmáli og mikil þörf er fyrir úrræðið. Ekki er talið nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um undantekningu á grundvelli sérstakra aðstæðna í synjunarliðnum sjálfum, þar sem jafnframt er í frumvarpinu lagt til að slík heimild verði til staðar gagnvart öllum synjunarliðum í 6. gr. Þá fellur jafnframt brott 3. málsl. e-liðar 1. mgr., um að heimilt sé að samþykkja umsókn hafi einstaklingur fengið nauðasamning til greiðsluaðlögunar fyrir gildistöku laganna.
    Lagt er til að a- og b-liðir 2. mgr. ákvæðisins falli brott. A-liður 2. mgr. hefur ekki verið mikið notaður í framkvæmd þar sem túlkun á hvað teljast nýlegar skuldir hefur valdið vandkvæðum. Þess í stað er lagt til að hinir nýju áðurnefndu d- og e-liðir taki til þeirra aðstæðna sem teljast óhæfilegar, þ.e. þegar aðstæður benda til að skuldari hafi á óheiðarlegan hátt stofnað til skulda með það að markmiði að leita greiðsluaðlögunar vegna þeirra, eða stofnað hafi verið til skulda eftir að skuldari sótti um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara og ekki sé um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar, til framfærslu eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis. Mat samkvæmt b-lið 2. mgr. hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd, þar sem erfitt getur reynst að reikna út greiðslugetu skuldara aftur í tímann með tilliti til framfærslukostnaðar. Reynslan hjá embætti umboðsmanns skuldara hefur leitt í ljós að um of strangan synjunarlið sé að ræða og með því að fella stafliðinn brott megi telja líkur með því að fleiri fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Það skal þó áréttað að hafi skuldari sýnt af sér ámælisverða háttsemi í tengslum við stofnun skulda hafa aðrir stafliðir getað tekið til þeirra aðstæðna, svo sem c-liður 2. mgr. Breytingin er ætluð til að veita fleiri einstaklingum tækifæri til að leita samninga við kröfuhafa sína, þrátt fyrir að þeir hafi mögulega stofnað til skulda þegar þeir voru ófærir um að standa við skuldbindingar sínar, en háttsemin telst ekki það ámælisverð að aðrir synjunarliðir komi til skoðunar. Með breytingunni er ábyrgðin á lántökunni ekki lengur að öllu leyti á herðum lántaka, þar sem kröfuhafar geta jafnframt tekið ábyrgð með því að semja við viðkomandi með samningi um greiðsluaðlögun.
    Lagt er til að gildandi c-liður 2. mgr., sem verður h-liður nýrrar 6. gr., haldist óbreyttur en túlkun hans hefur ekki valdið vandkvæðum í framkvæmd. Stafliðurinn tekur til þeirra aðstæðna þegar skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Þetta ákvæði tekur t.d. til þeirra aðstæðna þegar einstaklingar fara offari í skuldsetningu og engar sérstakar ástæður réttlæta það. Þrátt fyrir niðurfellingu á núverandi b-lið 2. mgr., getur athugun á skuldsetningu, líkt og framan greinir, komið til skoðunar samkvæmt þessum staflið. Skuldari þarf að hafa hagað fjármálum sínum á það ámælisverðan hátt að talið er óhæfilegt að veita viðkomandi heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þessi stafliður getur jafnframt tekið til annars konar háttsemi, er varðar fjárhagsleg málefni, en skuldsetningu. Miðað er við að vandi skuldara sé rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Hér skal þó hafa í huga að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hlýtur vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að ákvæðið eigi við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun.
    Lagt er til að d-liður 2. mgr. falli brott. Samkvæmt stafliðnum ber að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hefur verið túlkað svo í framkvæmd að skattaskuldir sem leitt geti til refsingar, girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Í úrskurðum hefur verið staðfest að ákvæðið eigi einnig við um þá sem bera ábyrgð á skilum vörsluskatta fyrir félög. Því hefur verið litið svo á að ekki skipti máli hvort gjaldandinn sé einstaklingur eða lögaðili, þar sem lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sé sú sama hvort sem einstaklingurinn er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir. Þá hefur ákvæðið tekið til fésekta og endurkrafna ríkissjóðs vegna greiðslu skaðabóta. Ákvæðið hefur valdið vandræðum varðandi hvar mörkin eiga að vera um hvað sé skuldbinding sem einhverju nemi miðað við fjárhag. Úrskurðarframkvæmd hefur tekið mið af því hver fjárhæðin er í hlutfalli við heildarskuldbindingar. Að mati embættis umboðsmanns skuldara er ósanngjarnt að miða við hvað skuldbindingin er í hlutfalli við heildarskuldir viðkomandi, þar sem hlutfallið lækkar eftir því sem fleiri kröfur hvíla á skuldara. Viðmið sem byggjast á slíkri reiknireglu er því ekki til hagsbóta fyrir þá sem eru með litla skuldsetningu. Að tillögu umboðsmanns skuldara er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott en skuldir sem annars hefðu fallið undir þennan staflið verði skoðaðar út frá öðrum stafliðum ákvæðisins. Nánar tiltekið yrði mat á fjárhæð skattaskulda, hvort sem það eru vörsluskattar, þing- og sveitarsjóðsgjöld eða aðrir skattar, fært undir nýjan i-lið sem að hluta til tekur mið af núverandi g-lið 2. mgr., sem fellur brott. G-liður 2. mgr. er á þann veg að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Hefur stafliðurinn einkum verið notaður í framkvæmd þegar talið er þörf á synjun vegna óhóflegra þing- og sveitarsjóðsgjalda. Lagt er til að hinn nýi i-liður taki eingöngu til þeirra aðstæðna þegar skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skattkrafna. Þá verður ákvæðið afmarkað við skattkröfur sem skuldari sjálfur er gjaldandi að, ekki skattkröfur félags, sem skuldari er í fyrirsvari fyrir. Markmið þessarar breytingar er að veita fleirum heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem ósanngirni felist í því að synja umsóknum skuldara vegna ógreiddra vörsluskatta félags, þar sem gjaldandinn er önnur lögpersóna. Ýmsar ástæður geta legið að baki þess að fyrirsvarsmaður félags hafi ekki greitt vörsluskatta fyrir hönd félagsins, en að mati umboðsmanns skuldara á skoðun á ógreiddum vörslusköttum félags að vera undanskilin í mati á fjárhag þess einstaklings sem leitar greiðsluaðlögunar. Með vísan til þeirrar reynslu sem hefur skapast hjá embætti umboðsmanns skuldara er talið óþarft að hafa ákvæði um að synja beri um greiðsluaðlögun, þegar skuldir eru þess eðlis að ósanngjarnt sé að greiðsluaðlögun nái til þeirra, þar sem aðstæðurnar sem lágu að baki setningu ákvæðisins eiga ekki lengur við og það hefur ekki verið notað af neinu ráði á þessum grundvelli. Varðandi viðmið um hvenær hinn nýi i-liður telst eiga við ber að líta til þess hvort skattkröfurnar sé tilkomnar af háttsemi skuldara sem teljast má ámælisverð. Miða skal við höfuðstól krafna, hvort sem um er að ræða svokallaða vörsluskatta eða annars konar skatta. Þar sem hið nýja ákvæði tekur á skattkröfum í heild sinni, er ekki lagt til að gerður sé greinarmunur á óhóflegum vörslusköttum og svo annars konar sköttum. Það er því ekki lagt til að notaður sé strangari mælikvarði á fjárhæð vörsluskatta, í ljósi mögulegrar refsiábyrgðar, þar sem erfitt er að hafa mismunandi mælikvarða eftir því hvers eðlis skattkrafan er. Við mat á hinum nýja i-lið skal því líta til hvort fjárhæðin sem slík telst óhófleg og hvort skuldari hafi sýnt af sér ámælisverða háttsemi í tengslum við tilurð skuldarinnar. Skal taka mið af úrskurðum, þar sem lagt hefur verið mat á fjárhæð þing- og sveitarsjóðsgjalda á grundvelli g-liðar 2. mgr., þar sem vísað hefur verið til almenns mælikvarða og miðað við hvaða fjárhæð teljist út af fyrir sig há. Þá getur komið til skoðunar við mat á skattkröfum hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að greiða af þeim eftir því sem honum var framast unnt. Tekið skal fram að vægara mat gildir við mat á þeim synjunarlið eftir því sem kröfurnar eru eldri og erfiðara reynist að reikna út greiðslugetu viðkomandi á þeim tíma þegar kröfurnar voru stofnaðar. Þrátt fyrir að þær aðstæður séu uppi að telja megi að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skattkrafna kunna sérstakar aðstæður, á borð við veikindi, erfiðar félagslegar aðstæður, aldur skuldara o.fl., að réttlæta að veitt sé heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Veiting heimildar til að leita greiðsluaðlögunar byggist því alltaf á heildarmati á aðstæðum skuldara.
    Þar sem lagt er til að d-liður 2. mgr. falli brott, er til viðbótar við framangreindan i-lið, sem tekur til skattkrafna, lagt til að nýr stafliður, n-liður, komi til skoðunar við mat á m.a. fésektum og kröfum vegna skaðabótaskyldu. Nánar tiltekið er orðalag n-liðar á þann veg að umboðsmaður skuldara geti synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, ef hann metur það svo að greiðsluaðlögun sé ekki fallin til að leysa greiðsluvanda umsækjanda vegna krafna sem falla utan greiðsluaðlögunar. Að mati umboðsmanns skuldara er mikilvægt að hafa slíkt synjunarákvæði, þar sem ákveðnar kröfur standa utan greiðsluaðlögunar skv. 3. gr., sem felur m.a. í sér að óheimilt er að kveða á um eftirgjöf á þeim. Hér koma til skoðunar tilvik þar sem augljóst er að greiðsluaðlögun leysir ekki vanda viðkomandi, með tilliti til mats á greiðslugetu skuldara til framtíðar og ómögulegt er fyrir skuldara að standa undir þessum kröfum um fyrirsjáanlega framtíð. Vissulega geta komið upp tilvik, þar sem viðkomandi er á mörkunum, með tilliti til mats á greiðslugetu, að geta staðið undir kröfum utan greiðsluaðlögunar og kann í slíkum tilvikum að vera eðlilegt að samþykkja umsókn viðkomandi. Við það mat skal m.a. líta til þess hvort greiðsluaðlögun geti leyst vanda skuldara að öðru leyti, þannig að viðkomandi verði mögulega betur í stakk búinn til að standa undir kröfum utan greiðsluaðlögunar að loknu greiðsluaðlögunartímabili. Skal umboðsmaður skuldara meta heildstætt hvert mál, með tilliti til þeirra afborgunarfjárhæða sem hægt er að semja um hjá hlutaðeigandi kröfuhöfum sem standa utan greiðsluaðlögunar og heildarfjárhæða þeirra skuldbindinga sem standa utan greiðsluaðlögunar. Við það mat er hægt að líta til þess hversu erfiðlega skuldara muni reynast að greiða kröfur utan greiðsluaðlögunar, út frá því hvort kröfurnar bera dráttarvexti eða ekki.
    Lagt er til að við ákvæðið bætist nýr liður, l-liður, um að heimilt sé að synja skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, hafi bú skuldara verið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði héraðsdómara og skiptameðferð sé ekki lokið eða gjaldþrotaskiptum á búi skuldara sé lokið en fyrningarfrestur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. er ekki liðinn. Hefur vantað slíkt synjunarákvæði í lögin, en það telst ekki þjóna tilgangi að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef framangreindar aðstæður eru uppi.
    Lagt er til að við ákvæðið bætist nýr liður, m-liður, þess efnis að heimilt sé að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrri greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr. Hér er m.a. vísað til þeirra aðstæðna þegar skuldari hefur áður fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar en greiðsluaðlögunarumleitanir hans verið felldar niður, þar sem talið hefur verið að hann hefði brugðist skyldum sínum. Að mati umboðsmanns er nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði því það telst ekki réttlætanlegt að skuldari geti brotið gegn skyldum í greiðsluskjóli og svo sótt aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Gagnvart þessum synjunarlið, sem og öðrum, geta þó sérstakar aðstæður réttlætt að skuldara verði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Getur komið til skoðunar hversu langur tími er liðinn frá því að greiðsluaðlögunarumleitanir voru felldar niður, en vægara mat skal gilda eftir því sem lengri tími líður frá niðurfellingu umleitana. Þá getur einnig komið til skoðunar hversu ámælisverð háttsemi skuldara var þegar hann braut gegn skyldum sínum og hversu brýn þörf er fyrir að leita greiðsluaðlögunar að nýju. Sambærileg sjónarmið geta einnig átt við þegar einstaklingar sækja aftur um greiðsluaðlögun þrátt fyrir að hafa fengið synjun á umsókn. Hafi fyrri greiðsluaðlögunarumleitanir verið felldar niður á grundvelli samskiptaleysis skuldara ber að meta hvert tilfelli fyrir sig og leita skýringa skuldara. Hafi greiðsluaðlögunarumleitanir verið felldar niður í ljósi afstöðu skuldara til sölu eignar ber að kanna að nýju afstöðu skuldara til sölunnar, séu sams konar aðstæður uppi. Afstaðan kann þá að ráða því hvort veitt verði heimild til að leita greiðsluaðlögunar í annað sinn.

Um 5. gr.

    Lögð er til viðbót við niðurlag 1. mgr. 7. mgr. Með breytingatillögunni er verið að árétta, að það sé embættis umboðsmanns skuldara að meta hvenær umsókn teljist liggja fyrir fullbúin, með tilliti til þeirrar upplýsingaöflunar sem þarf að fara fram áður en unnt er að taka ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
    Þá er lagt til að við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem kveður á um að umsókninni skuli fylgja yfirlýsing skuldara um að hann hafi kynnt sér áhrif frestunar greiðslna skv. 11. gr. Ástæðan fyrir því að þessi viðbót er lögð til er að reglulega hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingur uppfyllir skilyrði fyrir að fá umsókn sína samþykkta, en viðkomandi svarar hvorki tölvupósti né síma þegar embættið hyggst kynna fyrir viðkomandi þýðingu þess að fá samþykkta umsókn. Að mati umboðsmanns er nauðsynlegt að viðkomandi gerir sér grein fyrir áhrifum greiðsluskjóls í kjölfar samþykktar, m.a. vegna þess að kreditkortum og yfirdráttarreikningum er lokað. Þá er innköllun birt í Lögbirtingablaði sem getur leitt til skráningar hjá kröfuhöfum um greiðsluaðlögunina. Er því lagt til að einstaklingar þurfi að staðfesta, t.d. með svörun tölvupósts, að hafa kynnt sér áhrif frestunar greiðslna áður en hægt er að samþykkja umsókn. Það þjónar hagsmunum skuldara best ef hann fær fræðslu um áhrif greiðsluskjóls, skömmu áður en umsókn er samþykkt, sem hann getur svo staðfest að hafa kynnt sér. Ef viðkomandi veitir ekki slíka staðfestingu er hægt að synja umsókninni á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Um 6. gr.

    Lagt er til að breyting verði á tímamörkum 8. gr. laganna en nú er tilgreint að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana geti orðið allt að þrír mánuðir. Þess í stað er lagt til að tímabilið skuli að jafnaði ekki vera lengra en fjórir mánuðir nema sérstakar aðstæður krefji. Reynslan við framkvæmd laganna hefur sýnt að þrír mánuðir eru í sumum tilvikum ekki nægilega langur tími til að koma á samningi um greiðsluaðlögun en mál geta verið misjöfn að umfangi. Sem dæmi má nefna að samningaviðræður við kröfuhafa geta dregist á langinn vegna ýmissa ástæðna eða að ákveðið er að selja eignir áður en frumvarp til greiðsluaðlögunar er sent til kröfuhafa. Alla jafna verður meginreglan sú að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana vari ekki lengra en fjóra mánuði en geti engu síður verið lengra eða styttra eftir atvikum.

Um 7. gr.

    Lagt er til að settar verði skýrar reglur um hæfi umsjónarmanna og hver málsmeðferðin eigi að vera við mat á hæfi. Er í því skyni lagt til að við 9. gr. bætist tvær nýjar málsgreinar. Er í frumvarpinu lagt til að ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi gildi um hæfi umsjónarmanns til meðferðar máls en hinar sérstöku hæfisreglur hafa ekki eingöngu það að markmiði að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á efni stjórnvaldsákvarðana, heldur er þeim einnig ætla að stuðla að því að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt. Samkvæmt tillögunni ber tilvonandi umsjónarmanni að leggja mat á hvort hann sé hæfur til meðferðar viðkomandi máls. Viti umsjónarmaður um ástæður sem kunna að valda vanhæfi ber honum án nokkurra tafa að vekja athygli umboðsmanns skuldara á þeim, sem metur svo í kjölfarið hvort viðkomandi sé hæfur til meðferðar máls. Komi í ljós eftir að umsjónarmaður er skipaður að hann er vanhæfur ber embættinu að afturkalla skipun umsjónarmanns og skipa nýjan umsjónarmann þegar í stað.

Um 8. gr.

    Lagt er til að innköllunarfrestur í Lögbirtingablaði verði styttur úr fjórum vikum í þrjár vikur til að hraða málsmeðferð. Það er jafnframt álit umboðsmanns skuldara, út frá reynslu, að almennt sé ekki þörf á lengri fresti en þrjár vikur. Þó verði heimilt að ákveða að fresturinn skuli vera fjórar vikur ef sérstakar ástæður mæla með því. Með sérstökum ástæðum er einkum átt við ef fjöldi mála er slíkur að talin er þörf á að koma til móts við kröfuhafa með því að lengja frestinn almennt í öllum málum í tiltekinn tíma. Ekki er gert ráð fyrir að heimildin verði nýtt í einstaka máli og því er almenna reglan að fresturinn skuli vera þrjár vikur.
    Þá er lagt til að bætt verði við ákvæðið skýrum reglum um hvert skuli vera efni innköllunar sem birt er í Lögbirtingablaði, sem og hvaða efniskröfum kröfulýsing þurfi að fullnægja. Þá er lagt til að umsjónarmaður fái heimild til að meta kröfu vanlýsta uppfylli hún ekki kröfur ákvæðisins. Sé kröfuhafi ósammála þeirri niðurstöðu umsjónarmanns að um vanlýsta kröfu sé að ræða, hvort sem krafan var talin berast of seint eða ekki uppfylla efniskröfur ákvæðisins, verði kröfuhafa heimilt að beina ágreiningnum til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að honum var tilkynnt um niðurstöðuna. Er því gert ráð fyrir að umsjónarmaður tilkynni það án tafar, og áður en frumvarp til greiðsluaðlögunar er sent til kröfuhafa, ef hann telur kröfu vera vanlýsta. Sé niðurstaðan kærð til úrskurðarnefndar skal bíða eftir niðurstöðu hennar áður en frumvarp er sent til kröfuhafa.
    Þá er lagt til að réttaráhrif vanlýstrar kröfu séu skýrt áréttuð í 3. mgr., sem verður 6. mgr., á þann veg að tilgreina að kröfuhafi sé bundinn af niðurstöðu greiðsluaðlögunarumleitana lýsi hann ekki kröfu, en í því felst að honum ber að hlíta efni samnings um greiðsluaðlögun varðandi meðferð kröfunnar.
    Í f-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar á núverandi 4. mgr., auk þess sem kveðið er á um það nýmæli að tilkynna skuli ábyrgðarmönnum og samskuldurum skuldara um heimild sína til greiðslu krafna á meðan frestun greiðslna stendur yfir. Talið er mikilvægt að þeim sé greint frá þessu þar sem frestun greiðslna nær eingöngu til skuldara en ekki þeirra sem eru ábyrgir fyrir skuldinni, eða eru samskuldarar. Greiðsluskjól skuldara getur ekki girt fyrir þeirra rétt til að greiða af skuldbindingunum.
    Þá er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þess efnis að fjárhagsupplýsingastofum sé óheimilt að skrá upplýsingar um innkallanir í vanskilaskrá eða annars konar gagnasafn þar sem upplýsingum er miðlað. Nánar tiltekið felur ákvæðið í sér að óheimilt er að skrá upplýsingar um innköllunina eða þær upplýsingar sem hún tiltekur, hvort sem það er í vanskilaskrá, skrá um opinberar gjörðir eða annars konar gagnasafn sem notað er til að miðla upplýsingum. Hins vegar er fjárhagsupplýsingastofu heimilt að skrá upplýsingar um innköllunina í gagnasafn, sem ekki er miðlað, í þeim tilgangi að nýta þær upplýsingar í þágu skýrslu um lánshæfi. Sú framkvæmd er við lýði að eina fjárhagsupplýsingastofan sem er starfandi á Íslandi, Creditinfo Lánstraust hf., á grundvelli reglugerðar um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust nr. 606/2023, setur á vanskilaskrá sína færslu um að innköllun hafi verið gefin út í Lögbirtingablaði vegna greiðsluaðlögunar. Hún er svo afskráð þegar samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi en getur haft áhrif á skýrslu um lánshæfi í tiltekinn tíma frá afskráningu. Umboðsmaður skuldara hefur í umsögn um núgildandi skilmála í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa mótmælt að heimilt sé að skrá færslu um innköllunina í vanskilaskrá. Að mati umboðsmanns skuldara er það letjandi gagnvart úrræðinu að einstaklingur fái færslu skráða á vanskilaskrá vegna þess að viðkomandi fékk heimild til að leita greiðsluaðlögunar með það að markmiði að fá lausn á fjárhagsvanda sínum. Í sumum tilvikum eru einstaklingar ekki með neinar aðrar skráningar á vanskilaskrá þegar heimild er veitt til að leita greiðsluaðlögunar. Skráning á vanskilaskrá vegna greiðsluaðlögunar getur líka leitt til þess að einstaklingar lenda í vandræðum með leiguhúsnæði en leigusalar hafa í auknum mæli litið til skráningar á vanskilaskrá.
    Með ákvæðinu er jafnframt lagt til að fjárhagsupplýsingastofur geti ekki nýtt upplýsingar um innkallanir í þágu lánshæfismats að liðnu einu ári frá því að innköllunin var gefin út. Fjárhagsupplýsingastofur geta því nýtt þær upplýsingar að einstaklingur hafi fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar í þágu skýrslu um lánshæfi, en mega ekki skrá þær upplýsingar í skrár sem veitt er aðgengi að og miðla þeim upplýsingum. Hæfilegt er talið að fjárhagsupplýsingastofur hafi heimild til að nýta þessar upplýsingar í eitt ár. Með þessari tillögu er komið til móts við hagsmuni lánveitenda og hagsmuni þeirra sem leita greiðsluaðlögunar með því að greiðsluaðlögun geti eingöngu haft áhrif á lánshæfismat skuldara í eitt ár.

Um 9. gr.

    Lögð er til breyting á orðalagi 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna í þeim tilgangi að gera ákvæðið skýrara. Nánar tiltekið er lagt til að orðalagið verði á þann veg að þann dag er umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um samþykkt umsóknar hefjist tímabundin frestun greiðslna, óháð því hvort greiðsluaðlögun taki til viðkomandi krafna skv. 3. gr., sbr. þó 3. mgr. Með breytingunni er tekinn af allur vafi um að greiðsluskjól hefjist sama dag og ákvörðun er tekin um samþykki umsóknar, þannig að ef krafa er á gjalddaga þann sama dag og ákvörðun er tekin um samþykki fellur krafan utan greiðsluaðlögunar, sbr. 3. mgr. Í framkvæmd hafa komið upp nokkur vafatilvik um hvernig beri að túlka gildandi lagaákvæði hvað þetta varðar. Þá er tillögunni ætlað að taka af allan vafa um það að kröfuhafar sem standa utan greiðsluaðlögunar séu jafnframt bundnir af frestun greiðslna, enda er markmiðið með hinu svokallaða greiðsluskjóli að skapa ráðrúm fyrir endurskipulagningu skulda. Slík endurskipulagning nær ekki markmiði sínu ef kröfuhafar utan greiðsluaðlögunar geta innheimt kröfur sínar á meðan.
    Lagt er til að orðalag e-liðar 1. mgr. verði á þann veg að á meðan frestun greiðslna varir sé kröfuhöfum óheimilt að neita skuldara vegna fyrri vanefnda um vörur og þjónustu sem skuldari þarf á að halda og fellur undir framfærslukostnað í greiðsluaðlögunarumleitunum, gegn greiðslu sem a-liður 1. mgr. tekur ekki til eða viðunandi tryggingum. Markmiðið með breytingunni er að gera liðinn skýrari með því að skilgreina nánar hvað fellur undir vörur og þjónustu sem skuldari þarf á halda. Með breytingunni er því ljóst að vörur og þjónusta sem ákvæðið tekur til er það sem getur fallið undir framfærslukostnað samkvæmt skilgreiningu umboðsmanns skuldara. Með vörum og þjónustu er því átt við þjónustu vegna hita og rafmagns, net- og símaþjónustu, veitingu trygginga vegna bifreiða eða heimilis, o.s.frv. Ef skuldari greiðir reikninga sem falla til í greiðsluskjóli, svo sem eftir að tímabundin frestun greiðslna er veitt, er óheimilt að neita viðkomandi um þjónustu eða vörur sem skuldari þarf á að halda og falla undir framangreinda skilgreiningu.
    Lagt er til breytt orðalag 2. mgr. til þess að taka af allan vafa um að á meðan frestun greiðslna stendur falla ekki dráttarvextir á kröfur, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 159/2017 sem túlkaði orðalag núgildandi lagaákvæðis. Nánar tiltekið er lagt til að orðalagið verði á þann veg að á meðan frestun greiðslna stendur falli almennir vextir á kröfur, sem þær hefðu borið samkvæmt samningsskilmálum, en ekki dráttarvextir. Með breytingunni er áréttað að óheimilt sé að reikna dráttarvexti á kröfur þann tíma sem greiðsludráttur varir, þar sem skuldara er óheimilt að greiða af kröfum sínum í greiðsluskjóli og heldur því af lögmætum ástæðum eftir greiðslum. Þá er lagt til að ákvæðið kveði á um að óheimilt sé að leggja á kröfur í greiðsluskjóli hvers konar vanskilagjöld eða innheimtukostnað. Ákvæðið gildir óháð niðurstöðu greiðsluaðlögunarumleitana þannig að ef greiðsluaðlögunarumleitanir eru felldar niður, skuldari afturkallar umsókn sína eða ef ekki næst samningur um greiðsluaðlögun í máli skuldara er óheimilt að láta kröfurnar bera dráttarvexti, vanskilagjöld eða annan innheimtukostnað vegna þess tíma sem frestun greiðslna stóð yfir.
    Í e-lið er lagt til að 4. mgr. sé breytt á þann veg að sá tími sem frestun greiðslna er í gildi sé undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti allra krafna sem frestun greiðslna tekur til, ekki eingöngu lögveða. Þetta felur í sér að kröfur sem skuldara er óheimilt að greiða af í svokölluðu greiðsluskjóli, hvort sem þær eru kröfur sem standa innan eða utan úrræðisins, fyrnast ekki meðan tímabundin frestun greiðslna varir.
    Í f-lið er lagt til að við bætist tvær nýjar málsgreinar. Í fyrri málsgreininni er kveðið á um að kröfuhafa sé skylt að endurgreiða greidda fjárhæð sem óheimilt er að taka við í greiðsluskjóli, nema um fésekt sé að ræða. Nauðsynlegt er að tilgreina í lögunum að slík skylda hvíli á kröfuhafa. Hafi skuldari greitt fésekt á meðan frestun greiðslna varir, ber innheimtuaðila þó ekki að endurgreiða greidda fjárhæð í ljósi þess að með greiðslu sektar hefur refsing komið til framkvæmdar. Í síðari málsgreininni er tekinn af allur vafi um að ábyrgðarmanni skuldarans og samskuldara sé heimilt að greiða af kröfum á meðan frestun greiðslna varir, enda engin rök sem mæla gegn því að ábyrgðarmaður eða samskuldari geti greitt á meðan frestun greiðslna varir hjá skuldara, til að gæta hagsmuna sinna, og ber því kröfuhöfum að taka við slíkum greiðslum.

Um 10. gr.

    Með viðbót við a-lið 1. mgr. 12. gr. er áréttuð núverandi framkvæmd, þ.e. að það beri að leggja til grundvallar útreiknaðan framfærslukostnað frá umboðsmanni skuldara við mat á því hvað skuldari getur lagt mikið til hliðar af tekjum sínum í greiðsluskjóli.

Um 11. gr.

    Lagt er til að í 2. mgr. 13. gr. laganna komi fram skýrt ákvæði um að þegar sala fer fram á fasteign skuli skuldari velja löggiltan fasteignasala sem annist söluna. Talið er mikilvægt að skuldari fái sjálfur að velja fasteignasölu sem hann vill vera í viðskiptum við. Umsjónarmaður ákveður hins vegar hvernig sala fer fram á öðrum eignum og getur annast söluna sjálfur, nema hann feli það öðrum.
    Í c-lið er lagt til nýtt ákvæði þar sem skýrt er tilgreint hvenær eign skuli fara í sölu og hvernig framkvæmdin skuli vera ef eign selst ekki á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Nánar tiltekið er lagt til að umsjónarmaður skuli leitast við að eign fari í sölu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana en seljist eign ekki á því tímabili geti umsjónarmaður ákveðið að eignin skuli seljast á tímabili greiðsluaðlögunar. Þar sem umsjónarmaður lýkur almennt störfum sínum þegar samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi er lagt til að embætti umboðsmanns skuldara taki við hlutverki umsjónarmanns samkvæmt ákvæðum 4. og 5. mgr. ákvæðisins á tímabili greiðsluaðlögunar, hafi eftirlit með sölunni og aðstoði skuldara vegna sölunnar samkvæmt nánari fyrirmælum samningsins.
    Í d-lið er lagt til að tímamörkin á hvenær umsjónarmaður skuli gera þeim sem njóta veðréttar í eign viðvart um ákvörðun um sölu hennar, þ.e. tveggja vikna fyrirvari, falli brott úr ákvæðinu, þar sem það hefur þótt hamlandi í framkvæmd að þurfa að bíða í tvær vikur þar til hægt er að hefja söluferli fasteignarinnar.
    Þá er í f-lið lögð til sú breyting á 4. mgr., sem verður 5. mgr., að kröfuhöfum verði skylt að hlutast til um afmáningu veðréttinda af fasteign í kjölfar sölunnar, í stað þess að umsjónarmaður þurfi að óska eftir þeirri aflýsingu hjá sýslumanni. Ef hins vegar kröfuhafar sinna ekki þeirri skyldu sinni getur umsjónarmaður eða umboðsmaður skuldara óskað eftir því að sýslumaður afmái veðréttindin, gegn staðfestingu um greiðsluaðlögun skuldara og afriti samnings um söluna.
    Í g-lið er lagt til að sett verði nýtt ákvæði í 5. mgr., sem verður 6. mgr., um að umsjónarmaður skuli óska eftir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr. ef sameigandi eignar neitar sölu eða kemur á einhvern hátt í veg fyrir fyrirhugaða sölu. Þetta er lagt til í ljósi reynslunnar af núgildandi ákvæðum laganna, en ákvæði sem þetta hefur vantað í lögin þar sem þau tilvik hafa komið upp að skuldari hindrar ekki sjálfur að sala fari fram, heldur sameigandi eignarinnar. Slík heimild yrði ekki nýtt nema ljóst væri að mati umsjónarmanns, að nauðsynlegt væri að selja eign í ferli greiðsluaðlögunar.

Um 12. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 14. gr. laganna þannig að í ákvæðinu komi skýrt fram hver skuli bera kostnað af því verðmati sem óskað er eftir á grundvelli ákvæðisins, en í framkvæmd hefur vafi verið uppi um það. Er því lagt til að umboðsmaður skuldara skuli bera kostnaðinn, þegar ákveðið er að afla verðmats þeirra eigna sem skuldara er ekki gert að selja. Í gildandi ákvæði kemur fram að lánardrottinn sem ekki unir mati, sem umsjónarmaður aflar, geti á eigin kostnað fengið dómkvaddan matsmann til að meta verðmæti eignar. Sé slíkrar matsgerðar aflað skal hún ráða niðurstöðu um verðmæti eignarinnar. Ef skuldari óskar eftir afmáningu veðréttinda af fasteign skv. 23. gr. a gilda sérreglur þess ákvæðis varðandi mat á verðmæti fasteignar.

Um 13. gr.

    Í a-lið er lagt til að við 1. mgr. 16. gr. laganna bætist ákvæði um að umsjónarmaður skuli óska eftir því við embætti umboðsmanns skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður, ef skuldari sýnir ekki samstarfsvilja við gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun eða samþykkir ekki tillögur umsjónarmanns sem eru í samræmi við lögin. Í lögin hefur vantað slíkt ákvæði, en í framkvæmd hafa t.d. komið upp tilvik þar sem ekki næst í skuldara við frumvarpsvinnsluna eða hann svarar því ekki hvort hann samþykki efni frumvarpsins. Þá er ljóst að tillögur umsjónarmanns um lausn á fjárhagsvanda skuldara þurfa að vera í samræmi við ákvæði laganna, þar sem reiknuð er út greiðslugeta skuldara miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og tiltekinn útlagðan kostnað, ásamt því að lagt er mat á framtíðargreiðslugetu út frá aðstæðum skuldara. Umsjónarmaður skal hafa samráð við skuldara við vinnslu frumvarpsins og skal skuldari fá að koma á framfæri sínum sjónarmiðum, sem umsjónarmaður skal leggja mat á. Í frumvarpinu skal m.a. greina frá greiðslugetu á tímabili greiðsluaðlögunar, lengd tímabils og tillögum um meðferð krafna. Skuldari kann að koma á framfæri athugasemdum, t.d. varðandi takmarkað aflahæfi og félagslegar aðstæður. Ef skuldari samþykkir ekki efni frumvarpsins og umsjónarmaður telur að óréttmæt sjónarmið liggi að baki eða tillögur skuldara um lausn á fjárhagsvanda sínum gangi gegn ákvæðum laganna eða séu með öllu óraunhæfar ber honum að leggja til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana.
    Jafnframt er lagt til að við 2. mgr. verði bætt heimild til að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. um heilsufar og félagslegar aðstæður, hafi þær þýðingu fyrir greiðsluaðlögunarumleitanir. Að mati embættis umboðsmanns skuldara er mjög mikilvægt að hafa slíka heimild í lögum þar sem skuldari hefur verulega hagsmuni af því að fá samning til greiðsluaðlögunar og er því mikilvægt að geta veitt kröfuhöfum upplýsingar sem auka líkur á að þeir samþykki samning. Umsjónarmaður skal eingöngu greina frá viðeigandi og nauðsynlegum upplýsingum og tryggja þannig meðalhóf. Mikil reynsla embættisins af samningaviðræðum við kröfuhafa hefur sýnt að nauðsynlegt getur reynst að upplýsa kröfuhafa um heilsufar og félagslegar aðstæður, upp að vissu marki, svo þeir hafi heildstæða mynd af aðstæðum skuldara, með tilliti til greiðslugetu og fjárhagslegra aðstæðna að öðru leyti. Þá geta slíkar upplýsingar veitt skýringar á ástæðum greiðsluerfiðleika. Í framkvæmd er unnið eftir ströngum vinnureglum við meðferð og miðlun þessara upplýsinga og er frumvarp ávallt yfirlesið af skuldara áður en því er miðlað til kröfuhafa. Getur skuldari því ávallt komið á framfæri athugasemdum um þær upplýsingar sem miðlað er til kröfuhafa. Vilji skuldari ekki greina frá viðkvæmum upplýsingum, sem ekki eru fjárhagslegs eðlis, skal umsjónarmaður ekki miðla slíkum upplýsingum í frumvarpi. Í ákveðnum tilfellum geta upplýsingar talist viðkvæms eðlis en nauðsynlegt er að miðla þeim þar sem þær varða fjárhag viðkomandi, t.d. upplýsingum um að viðkomandi þiggi örorkubætur. Sé heimild ákvæðisins nýtt skal umsjónarmaður eingöngu miðla upplýsingum almenns eðlis, t.d. um að skuldari glími við veikindi án þess að greina nánar frá eðli þeirra veikinda, ef markmið með miðlun upplýsinganna telst náð með slíkri lýsingu. Almennt skal umboðsmaður skuldara gæta þess að verja skuldara eins mikið og unnt er frá því að viðkvæmum persónuupplýsingum um hann sé miðlað til margra mismunandi kröfuhafa. Í einhverjum tilfellum kann þó að vera mat umsjónarmanns, að höfðu samráði við skuldara, að nauðsynlegt sé að miðla ítarlegri upplýsingum.
    Samkvæmt 5. mgr. skal afborgunarfjárhæð bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum sem svara til þess hvernig skuldari hyggst afla tekna til að standa undir greiðslu hennar. Frá gildistöku laganna var ljóst að það var vandkvæðum bundið að tengja afborgunarfjárhæðir hjá greiðslumiðlunarbönkum við launavísitölu. Var talið ótækt að skuldarar þyrftu að þola ítrekaðar breytingar á afborgunarfjárhæðinni á tímabili greiðsluaðlögunar, þar sem hækkanir gætu leitt til þess að vanskil yrðu á samningum. Hefur því í mörg ár verið kveðið á um það í samningum að afborgunarfjárhæð skuli vera föst krónutala. Er því lagt til í c-lið að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þetta.

Um 14. gr.

    Í 17. gr. laganna er kveðið á um framkvæmd við samþykki frumvarps til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt ákvæðinu skal umsjónarmaður senda frumvarp á sannanlegan hátt til allra kröfuhafa sem þekktir eru og málið varðar. Í a-lið er lagt til að breyting verði á ákvæðinu þannig að umsjónarmaður sendir frumvarp eingöngu til þeirra kröfuhafa sem lýst hafa kröfu skv. 10. gr. og málið varðar. Ástæða þessarar tillögu er sú að ekki er talin þörf fyrir að senda þeim kröfuhöfum frumvarpið sem hafa engan andmælarétt gagnvart því. Þessi fyrirhugaða breyting er jafnframt í samræmi við meðalhófsreglu varðandi vinnslu persónuupplýsinga. Frumvarp til greiðsluaðlögunar hefur oft að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, annars vegar upplýsingar sem geta talist viðkvæms eðlis, eins og fjárhagsupplýsingar, og hins vegar viðkvæmar upplýsingar samkvæmt skilgreiningu persónuverndarlaga. Hafi kröfuhafi sem stendur utan greiðsluaðlögunar á grundvelli 3. gr. lýst kröfu, skal frumvarpið jafnframt sent til hans ef í því er kveðið á um meðferð kröfunnar, sbr. heimildir í f-, g- og i-liðum 1. mgr. 3. gr. Þessi ákvæði veita umsjónarmanni heimild til að kveða á um ákveðna meðferð krafnanna í greiðsluaðlögun, þrátt fyrir að kröfurnar standi utan greiðsluaðlögunar. Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi kröfuhafar, sem standa utan greiðsluaðlögunar, hafi andmælarétt gagnvart slíkum tillögum um meðferð krafnanna, hafi þeir lýst kröfu, en geti þó ekki komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun nái fram að ganga að öðru leyti. Hafi kröfuhafi sem stendur utan greiðsluaðlögunar á grundvelli 3. gr. lýst kröfu en frumvarpið kveður ekki á um meðferð kröfunnar, skal frumvarpið ekki sent til hans. Þá er lagt til að umsjónarmaður sendi samhliða kröfuhöfum sem ekki lýstu kröfu tilkynningu um að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar. Yrðu þeir þannig upplýstir um framgang málsins og gætu jafnframt komið á framfæri leiðréttingu gagnvart umsjónarmanni, ef þeir telja sig hafa lýst kröfu og eiga rétt á að fá afrit af frumvarpinu.
    Í gildandi lagaákvæði er kröfuhöfum gefinn þriggja vikna frestur til að taka afstöðu til frumvarpsins frá því að það er sent. Lagt er til að þessi frestur verði styttur í tvær vikur til að hraða málsmeðferð, þar sem reynslan hefur sýnt að kröfuhafar hafa ekki þörf fyrir svo langan frest. Hins vegar er lagt til að umsjónarmaður geti ákveðið að fresturinn sé þrjár vikur, ef sérstakar ástæður mæla með því. Með sérstökum ástæðum er einkum átt við ef fjöldi mála yrði slíkur að talin væri þörf á að koma til móts við kröfuhafa, með því að lengja frestinn almennt í öllum málum í tiltekinn tíma. Ekki er gert ráð fyrir að heimildin verði nýtt í einstaka máli og því er almenna reglan að fresturinn skuli vera tvær vikur.
    Í b-lið er lagt til að 3. málsl. 3. mgr. falli brott en efni þess málsliðar hefur frá setningu laganna ekki verið í samræmi við 2. mgr. 3. gr.
    Í samræmi við breytingu á 1. mgr. er lagt til að undirritaður samningur verði eingöngu sendur kröfuhöfum sem lýstu kröfu skv. 10. gr. og málið varðar, sbr. umfjöllun hér að framan. Þeir kröfuhafar sem lýstu ekki kröfu skv. 10. gr. fá aftur á móti senda samantekt um niðurstöðu samnings. Slík samantekt snýr þá eingöngu að meðferð kröfunnar gagnvart hlutaðeigandi kröfuhafa, einkum upplýsingar um greiðslur á tímabili greiðsluaðlögunar og hvort samningur kveði á um eftirgjöf kröfunnar. Jafnframt er lagt til að ábyrgðarmenn og samskuldarar fái senda tilkynningu um að samningur hafi tekið gildi og hver niðurstaða samnings er gagnvart kröfum er þá varðar. Það hefur vantað slíka heimild í lögin enda hafa ábyrgðarmenn og samskuldarar frá gildistöku laganna ávallt fengið upplýsingar um að skuldari hafi fengið samþykki til að leita greiðsluaðlögunar. Telst því eðlilegt að þeir fái jafnframt upplýsingar um hvenær samningur hafi tekið gildi, þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta.
    Í g-lið er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þess efnis að ef skuldari undirritar ekki samning innan tveggja vikna frá því að samningur er sendur honum til undirritunar og veitir ekki fullnægjandi skýringar á ástæðum þess, skuli umsjónarmaður óska eftir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr. Að mati umboðsmanns skuldara er þörf fyrir ákvæði sem kveður skýrt á um hvernig málsmeðferð skuli vera við þessar aðstæður. Þar sem frestun greiðslna varir þar til samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi er ekki hægt að veita skuldara ótakmarkaðan frest til að undirrita samning sem hefur verið samþykktur af kröfuhöfum. Jafnframt er lagt til að við ákvæðið bætist ný heimild þess efnis að skuldari geti óskað eftir því við umsjónarmann að hann upplýsi þekkta erlenda kröfuhafa um niðurstöðu samnings um greiðsluaðlögun, þrátt fyrir að erlendir kröfuhafar standi utan greiðsluaðlögunar. Frumvarp til greiðsluaðlögunar yrði aldrei sent í upphafi til erlendra kröfuhafa, þrátt fyrir að þeir myndu lýsa kröfu, þar sem greiðsluaðlögun tekur ekki til slíkra krafna. Þessi heimild myndi veita umsjónarmanni heimild til að miðla og senda samning um greiðsluaðlögun til slíks kröfuhafa, sé það vilji skuldara. Ýmsar ástæður geta legið að baki slíkri beiðni, t.d. að skuldari vilji upplýsa erlendan kröfuhafa um fjárhagsstöðu sína eða óska eftir að erlendur kröfuhafi fallist á sams konar meðferð kröfunnar og kveðið er á um í samningi. Þá er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í frumvarpi eða gera nauðsynlegar breytingar á greiðsluáætlun, eftir að frumvarp telst samþykkt, enda tilkynni hann kröfuhöfum og skuldara um þær breytingar án ástæðulauss dráttar. Talið er mikilvægt að embættið hafi slíka heimild, en upp geta komið ýmis tilvik, t.d. að dagsetningar séu rangt skráðar, rangur greiðslumiðlunarbanki tilgreindur eða breyta þurfi dagsetningu fyrsta gjalddaga samkvæmt samningi. Ekki er hér átt við efnislegar breytingar sem hafa áhrif á meðferð krafna eða annars konar rétt kröfuhafa samkvæmt samningi.

Um 15. gr.

    Í a-lið er lagt til að fellt verði brott úr gildandi ákvæði að skoða beri hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, við mat á því hvort mælt sé með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Ákvæðið samrýmist ekki framkvæmd og breytingum á ákvæði 16. gr., þar sem skuldari getur ekki leitað eftir eftirgjöf skulda umfram það sem eðlilegt er talið að mati umsjónarmanns.
    Þá er í b-lið lagt til að við 1. mgr. bætist heimild til að tilgreina í greinargerð nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. um heilsufar og félagslegar aðstæður, hafi þær þýðingu við mat umsjónarmanns. Nauðsynlegt er að embætti umboðsmanns skuldara hafi slíka lagaheimild og er vísað í umfjöllun um sams konar heimild sem lögð er til í ákvæði 16. gr. Til viðbótar ber að nefna að þar sem greinargerð er lögð fyrir héraðsdóm sem tekur afstöðu til kröfu um staðfestingu nauðasamnings, geta slíkar upplýsingar verið nauðsynlegar svo að héraðsdómur geti lagt heildstætt mat á kröfuna. Staðfesting á slíkri kröfu getur verið lokatækifæri skuldara að ná heildstæðum samningi við sína kröfuhafa og því oft miklir hagsmunir í húfi.

Um 16. gr.

    Lagt er til að upptalning í a–c-lið um hvað skuli koma fram í frumvarpi til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar falli brott. Þess í stað verði bætt við ákvæðið að í frumvarpinu skuli tiltaka, eftir því sem við á, sömu upplýsingar og komu fram í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr., þar sem það er í samræmi við þá framkvæmd sem viðhöfð er.

Um 17. gr.

    Ákvæði 21. gr. fjallar um skiptingu greiðslna milli kröfuhafa. Lagðar eru til ýmsar efnisbreytingar sem og breytingar á orðalagi. Grunnreglur ákvæðisins verða þó þær sömu og verið hefur, varðandi greiðslur til veðhafa, kröfuhafa utan greiðsluaðlögunar og kröfuhafa sem eiga óveðtryggðar kröfur. Þó er lagt til að fellt verði brott úr ákvæðinu að fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina. Jafnframt er fellt brott úr ákvæðinu að þegar greiddar eru lægri mánaðargreiðslur af veðkröfum skuli þær ekki vera lægri en sem nemur 60% af hæfilegri leigu. Það hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd að finna út hvað skuli vera hæfilegt leiguverð auk þess að það tengja leiguverð við afborganir veðkrafna á tímabili greiðsluaðlögunar, telst að mati umboðsmanns ekki eðlileg reikniregla sem þjóni hagsmunum skuldara.
    Þá er lagt til að tenging við lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009, í a-lið 1. mgr. 21. gr. verði felld brott. Einstaklingar þurfi því ekki lengur að óska eftir því hjá sýslumanni að veðbönd verði máð af yfirveðsettum eignum þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar. Þess í stað er í frumvarpinu lagt til að settur verði nýr kafli í lögin, VI. kafli A, þar sem hlutverk sýslumanns færist yfir til umboðsmanns skuldara samkvæmt nýjum reglum um afmáningu veðréttinda.
    Hið nýja ákvæði 21. gr. felur í sér skýrar efnisreglur um hvernig beri að skipta fjármunum milli kröfuhafa, þ.e. þeirri afborgunarfjárhæð, sem reiknuð hefur verið út á grundvelli 16. gr. og er miðlað til kröfuhafa mánaðarlega, og þeim fjármunum sem miðla skal til kröfuhafa í eingreiðslu. Slíkir fjármunir geta t.d. verið tilkomnir vegna þess sparnaðar sem skuldari lagði til hliðar meðan frestun greiðslna stóð yfir eða vegna sölu eignar.
    Samkvæmt 2. mgr. er lagt til að veðkröfur sem hvíla á eignum sem skuldari heldur eftir, ásamt kröfum sem greiðsluaðlögun tekur ekki til skv. 1. mgr. 3. gr. hafi forgang til greiðslna skv. 1. mgr., þ.e. þeirrar afborgunarfjárhæðar sem miðlað er mánaðarlega. Ákvæðið er að mestu efnislega samhljóma gildandi ákvæði, að teknu tilliti til framangreindra breytinga. Samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. skal skuldari, sem heldur eftir eign sem veðkröfur hvíla á, ávallt gera full skil á kröfum, sem lögveðs- eða lögtaksréttur er fyrir og gjaldfallnar voru áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt, áður en greiddar eru mánaðarlegar raunafborganir af veðkröfunum sjálfum, sem eru innan verðmætis eignarinnar. Heimilt yrði að láta bílasamninga fá sama forgang til mánaðarlegra greiðslna og bílalán, þrátt fyrir að ákvæðið taki eingöngu til veðkrafna, þar sem slíkir samningar eru af sama meiði.
    Í b-lið 1. mgr. gildandi ákvæðis kemur fram að kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til, sbr. 1. mgr. 3. gr., skulu greiðast að fullu. Lögð er til breyting á þessu, í nýjum c-lið 1. mgr. er orðalag á þann veg að kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til skv. 1. mgr. 3. gr. skulu greiddar að fullu, annað hvort strax í upphafi greiðsluaðlögunar eða í samræmi við samkomulag við hlutaðeigandi kröfuhafa. Með vísun til að þær skuli greiddar strax í upphafi greiðsluaðlögunar er átt við þau tilvik þegar fjárhæð kröfunnar telst það óveruleg að hægt er að nýta afborgunarfjárhæð skv. 16. gr. strax á fyrsta mánuði greiðsluaðlögunar, eða mögulega fyrstu mánuðum tímabils, til að greiða kröfuna upp. Ákvörðun um slíka uppgreiðslu kann að ráðast af ýmsum þáttum, einkum hvort greiða þarf jafnframt af lögveðskröfum og veðkröfum en það leiðir síður til að fyrstu mánuðir tímabils séu notaðir til að greiða upp kröfur utan greiðsluaðlögunar. Ef ekki er hægt að greiða kröfu utan greiðsluaðlögunar strax í upphafi skal í samningi um greiðsluaðlögun lagt til grundvallar samkomulag um mánaðarlegar greiðslur við hlutaðeigandi kröfuhafa. Breyting á orðalaginu er í takt við túlkun á gildandi lagaákvæði. Í 2. málsl. c-liðar 1. mgr. er lagt til það nýmæli að heimilt verði að ákveða að kröfur skv. f- og i-liðum 1. mgr. 3. gr. skuli greiddar skv. d-lið 21. gr., þjóni það hagsmunum skuldara. Með vísun til krafna samkvæmt þessum stafliðum er átt við fésektir, kröfur um vangoldinn virðisaukaskatt, kröfur um afdregna vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda, kröfur um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi og meðlagskröfur Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Allar kröfurnar standa utan greiðsluaðlögunar. Með þessari breytingu verður því heimilt að ákveða í frumvarpi að greitt verði af hlutaðeigandi kröfum í samræmi við hvernig greitt er af óveðtryggðum kröfum innan greiðsluaðlögunar, þ.e. að kröfuhafar fái greitt hlutfallslega eftir fjárhæð krafna sinna. Eingöngu er um að ræða heimildarákvæði og því getur umsjónarmaður ákveðið að nýta ekki þessa heimild. Í sumum tilfellum getur verið hagstætt fyrir skuldara að þurfa ekki að semja sérstaklega um afborganir af framangreindum kröfum sem standa utan greiðsluaðlögunar og að greiðslum sé miðlað til kröfuhafans af greiðslumiðlunarbanka. Í einhverjum tilfellum getur verið betra fyrir skuldara að greiða sem fyrst upp kröfur sem standa utan greiðsluaðlögunar. Heimildin skal að jafnaði ekki nýtt ef hún felur í sér að kröfuhafar utan greiðsluaðlögunar fá greiddar óverulegar fjárhæðir á tímabili greiðsluaðlögunar, í ljósi hárrar heildarfjárhæðar óveðtryggðra krafna innan greiðsluaðlögunar. Þá geta fleiri þættir leitt til þess að heimildin verði ekki nýtt, t.d. kann að vera ákveðið að sparnaði í greiðsluskjóli verði ráðstafað til að greiða upp kröfur utan greiðsluaðlögunar eða talið að það þjóni ekki greiðsluaðlögunarumleitunum að hlutaðeigandi kröfuhafar utan greiðsluaðlögunar fái greitt hlutfallslega eftir fjárhæð. Umsjónarmaður getur því metið hvort hann nýti heimildina út frá hagsmunum skuldara hverju sinni. Þrátt fyrir að umsjónarmaður nýti heimildina, getur það gerst síðar í ferlinu að kröfuhafar innan greiðsluaðlögunar eða hlutaðeigandi kröfuhafar utan greiðsluaðlögunar mótmæli því að hinir síðarnefndu fái greitt í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. eða að gjaldfrestur verði á kröfunum á tímabili greiðsluaðlögunar. Í f- og i-liðum 1. mgr. 3. gr. er jafnframt að finna nýja heimild til að kveða á um gjaldfrest á kröfum sem stafliðirnir taka til að undanskildum fésektum. Gert er ráð fyrir að eingöngu sé kveðið á um gjaldfrest af framangreindum kröfum sem standa utan greiðsluaðlögunar ef niðurstaða greiðslumats er sú að skuldari sé með óverulega eða enga greiðslugetu.
    Lagt er til að í 2. mgr. komi fram það nýmæli að umsjónarmanni sé heimilt að leggja til að óverulegar óveðtryggðar kröfur skuli greiddar að fullu komi til greiðslna á óveðtryggðum kröfum. Er þessi tillaga í samræmi við breytingu á 3. gr. laganna, þar sem fellt er brott ákvæði um að kröfur að óverulegri fjárhæð standi utan greiðsluaðlögunar. Þess í stað er lagt til í 2. mgr. að þær standi innan greiðsluaðlögunar, en heimilt sé að ákveða í greiðsluáætlun að þær séu greiddar að fullu. Er þá gert ráð fyrir að það sé jafnan gert í upphafi greiðsluaðlögunartímabils. Er hér eingöngu átt við kröfur sem teljast óverulegar. Er þá miðað við að krafan teljist það lág að ótækt teljist að hún fái greitt hlutfallslega eftir fjárhæð á tímabili greiðsluaðlögunar, út frá þeirri vinnu sem leggst á greiðslumiðlunarbanka við að miðla greiðslum. Að jafnaði getur það átt við um kröfur sem eru nokkrar þúsundir króna.
    Í 3. mgr. er lagt til það nýmæli að sett verði skýrt ákvæði um meðferð þeirra fjármuna sem skuldari hefur lagt til hliðar í greiðsluskjóli eða þegar ráðstafa þarf annars konar eingreiðslu. Samkvæmt ákvæðinu skal umsjónarmaður ákveða skiptingu fjármuna milli kröfuhafa með hliðsjón af reglum 1. mgr. og 2. mgr. ákvæðisins og hagsmunum skuldara, með einni greiðslu í upphafi tímabils greiðsluaðlögunar. Það getur t.d. þjónað hagsmunum skuldara að greiða upp kröfur sem standa utan greiðsluaðlögunar, svo sem fésektir, einkum til að koma í veg fyrir að beitt verði vararefsingu. Þessu til stuðnings skal vísað til að í c-lið 1. mgr. kemur fram að kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til skv. 1. mgr. 3. gr. skulu greiddar að fullu, annað hvort strax í upphafi greiðsluaðlögunar, ef hægt er, eða í samræmi við samkomulag við kröfuhafa. Ef einstaklingur er í vanskilum með lögveðskröfur kann jafnframt að þjóna hagsmunum hans að greiða þær upp með eingreiðslu eða að hluta séu fjármunir til staðar. Þá kann að vera hagstætt fyrir skuldara að gera upp að hluta eða öllu leyti fjárnám sem hvílir á eign skuldara. Meta þarf hvert og eitt mál út frá aðstæðum skuldara. Almenna reglan skal engu að síður vera sú að hafa skal hliðsjón af reglum 1. mgr. og 2. mgr. ákvæðisins við ráðstöfun eingreiðslu, sem felur í sér að veðkröfur og kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til hafa forgang til eingreiðslunnar. Skal þá almennt miða við að eingreiðsla fari upp í þær raunafborganir af veðkröfum innan verðmætis eignar, sem veðhafar hefðu fengið greitt, ef ekki hefði komið til greiðsluskjóls. Séu fjármunir enn til staðar, þegar búið er að mæta þeim afborgunum og mögulega greiða kröfuhöfum utan greiðsluaðlögunar, skal fjármunum ráðstafað til óveðtryggðra krafna og þess hluta veðkrafna sem eru yfir verðmæti eignar, hlutfallslega eftir fjárhæð krafna.
    Í 5. mgr. er lagt til það nýmæli að umboðsmaður skuldara hafi heimild til að óska eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki um hvort skuldari hafi staðið við greiðslur samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun. Er það gert m.a. til að veita skuldara ráðgjöf um rétt til breytinga á samningi samkvæmt VII. kafla laganna. Að mati umboðsmanns skuldara er mikilvægt að embættið hafi slíka heimild til að geta haft samband við einstaklinga sem eru í vanskilum með samninga um greiðsluaðlögun, sem mögulega hafa ekki brugðist við aðstæðum og óskað eftir breytingu á samningi, þegar sá réttur er til staðar. Jafnframt er mikilvægt að embættið hafi heimild til að fá upplýsingar um vanskil samninga, þar sem umboðsmaður skuldara fær nýtt hlutverk samkvæmt nýju ákvæði sem lagt er til í 23. gr. frumvarpsins, sem verður 26. gr., þess efnis að tilkynna kröfuhöfum um ógildingu samnings, ef vanskil hafa verið á samningi í sex mánuði. Það er því mikilvægt að embættið geti nálgast upplýsingar um vanskil samninga til að hafa samband við skuldara að fyrra bragði og þannig mögulega hindrað ógildingu samninga. Einnig þarf umboðsmaður skuldara að kanna hvort skuldari hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt samningi, áður en beiðni um afmáningu veðréttinda er send til sýslumanns.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 18. gr.

    Í 22. gr. laganna er kveðið á um meðferð umdeildra krafna. Ákvæðið hefur aldrei verið notað í framkvæmd þar sem ýmsir vankantar eru á því. Ágallarnir eru m.a. að ekki er talið hægt að leggja þá ábyrgð á umsjónarmann að meta kröfu umdeilda, þar sem ákveðin réttaráhrif fylgja þeirri ákvörðun samkvæmt ákvæðinu. Þá er ekki gert ráð fyrir þeim aðstæðum í ákvæðinu að skuldari hafi ekki fjármuni til reiðu til að skipta á milli kröfuhafa. Kveðið er á um að ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að fá skorið úr um gildi kröfunnar innan sex mánaða frá því að samningur um greiðsluaðlögun komst á, skuli umboðsmaður skuldara skipta fjármunum til annarra kröfuhafa. Í ákvæðinu er hins vegar ekki tilgreint hvaða stöðu hin umdeilda krafa hefur, þ.e. hvort litið sé svo á að hún sé gild eða fallin niður. Með vísan til mats embættis umboðsmanns skuldara er því lagt til að fella ákvæðið brott. Jafnframt er lagt til í frumvarpi þessu að ef skuldari lýsir því yfir að krafa sé umdeild og hann ætli að fá skorið úr um gildi hennar, þá geti það leitt til synjunar, þar sem óleyst fjárhagsleg málefni geta hindrað að greiðsluaðlögunarumleitanir nái fram að ganga. Er því lagt til að sett verði nýtt ákvæði í 22. gr. um gjaldfrest eða lægri afborganir veðlána, þar sem heimild til að greiða lægri afborganir er felld úr ákvæði 21. gr. samkvæmt frumvarpi þessu.
    Hið nýja ákvæði 22. gr. felur í sér nýmæli þess efnis að umsjónarmanni verði heimilt að leggja til í frumvarpi að greidd verði tímabundið lægri mánaðargreiðsla til greiðslu veðkrafna, eða veittur gjaldfrestur á þeim ef óveruleg eða engin greiðslugeta er til staðar, ef uppi eru sérstakar eða tímabundnar aðstæður. Skal tímabil breytts greiðslufyrirkomulags samkvæmt þessu ákvæði alla jafna ekki vera lengra en eitt ár. Með tímabundið lægri mánaðargreiðslu er átt við að ef greiðslugeta skuldara dugar ekki til að greiða raunafborganir af veðkröfum sem eru innan verðmætis eignarinnar, sbr. 21. gr., megi leggja til að skuldari greiði lægri greiðslur sem nemi þeirri fjárhæð sem hann hefur tök á, sbr. útreiknaða mánaðarlega greiðslugetu skv. 16. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um að greiðslurnar þurfi að nema ákveðinni lágmarksfjárhæð, þar sem rök eru ekki fyrir því að binda ákvæðið við slíka reiknireglu, sbr. umfjöllun í skýringum við 17. gr. frumvarpsins um gildandi lagaákvæði, sem tengir lágmarksgreiðslu við 60% af hæfilegu leiguverði. Ákvæðið felur jafnframt í sér það nýmæli að hægt sé að kveða á um gjaldfrest á veðkröfum, en lögin eru ekki skýr hvað það varðar.
    Það yrði skilyrði samkvæmt ákvæðinu að uppi væru sérstakar eða tímabundnar aðstæður. Með vísun til sérstakra aðstæðna er átt við ef greiðslubyrði af veðlánum hækkar mikið af ástæðum sem skuldari ber ekki ábyrgð á, t.d. í kjölfar tíðra vaxtahækkana. Ákvæðið gæti þannig t.d. átt við þá einstaklinga sem ráða ekki við greiðslu óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum, annað hvort vegna þess að breytilegir vextir hafi hækkað mikið, eða tímabili fastra vaxta sé lokið og vaxtahækkun á veðlánum í kjölfarið teljist óviðráðanleg. Einnig kunna einstaklingar að vera í þeirri stöðu að hafa samið um fasta vexti á veðlánum í kjölfar hækkunar á breytilegum vöxtum en geta ekki mætt greiðslubyrði þeirra lána til lengri tíma. Með því að nýta heimild ákvæðisins til að mæta einstaklingum, sem standa frammi fyrir framangreindum aðstæðum, væri einstaklingum veitt ákveðið ráðrúm til að vera í skilum, sem og gefið færi á að fresta að endurfjármagna í verðtryggð lán, með þeirri von að vextir lækki aftur að liðnu ári.
    Með tímabundnum aðstæðum er einkum átt við sams konar aðstæður og gildandi löggjöf tekur til. Undir tímabundnar aðstæður geta því fallið tilvik þegar ætla má að skuldari sé í tímabundnum greiðsluerfiðleikum vegna tekjulækkunar sem getur stafað af t.d. veikindum eða atvinnuleysi, þar sem líkur eru á að fjárhagur batni aftur.
    Samkvæmt ákvæðinu skal tímabil breytts greiðslufyrirkomulags alla jafna ekki vera lengra en eitt ár. Teljast það hæfileg tímamörk, þar sem alla jafna ætti ekki að nýta slíka heimild til lengri tíma. Í því sambandi ber að hafa í huga að einstaklingar sem eru með gjaldfrest á veðlánum eða greiða lægri afborganir þurfa á móti að þola hækkanir á höfuðstól vegna þeirra aðgerða og því er fólki eingöngu tímabundið veitt ráðrúm í erfiðum aðstæðum. Almennt þyrfti þá að taka á vandanum með öðrum leiðum sé hann enn til staðar að liðnu tímabilinu.
    Sé heimild ákvæðisins nýtt varðandi veðlán sem hvíla á fasteign skuldara er almennt miðað við fasteign þar sem skuldari heldur heimili og á lögheimili. Ákvæðið er þó ekki takmarkað við fasteignalán og getur einnig tekið til bílalána.

Um 19. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 20. gr.

    Lagt er til að settur verði nýr kafli í lögin, VI. kafli A, sem heitir Afmáning veðbanda og meðferð krafna í greiðsluaðlögun, með þremur nýjum greinum. Eins og að framan greinir er lögð til sú breyting á 21. gr. að einstaklingar þurfa ekki lengur að óska eftir afmáningu veðréttinda af fasteign þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar eftir reglum 12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Samkvæmt hinu síðarnefnda ákvæði annast embætti sýslumanna meðferð beiðna um afmáningu veðréttinda af yfirveðsettum eignum en með breytingunni mun hlutverk sýslumanns færast til umboðsmanns skuldara. Ef skuldari leitar hins vegar eftir tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á grundvelli laga nr. 50/2009, kann að reyna á hlutverk sýslumanns samkvæmt þeim lögum. Ástæða breytingarinnar er sú að embætti sýslumanna teljast almennt ekki í stakk búin til að framkvæma greiðslumat sem þörf er á við mat á skilyrðum þess hvort afmáning veðbanda fari fram. Telst það eðlileg breyting að mat á hvort veita skuli afmáningu veðréttinda fari fram hjá embætti umboðsmanns skuldara, sem hvort eð er hefur lagt mat á greiðslugetu skuldara og er með allar upplýsingar um fjárhag hans, í kjölfar víðtækrar gagnaöflunar sem fer fram við málsmeðferðina. Þessu til stuðnings ber jafnframt að benda á að í mörg ár óskuðu einstaklingar eftir því að embætti umboðsmanns skuldara framkvæmdi greiðslumatið sem lagt var til grundvallar við málsmeðferð hjá sýslumanni.
    Í a-lið er lagt til að í nýju ákvæði, 23. gr. a, verði kveðið á um að í kjölfar beiðni um að veðréttindi verði afmáð verði málsmeðferð önnur en kemur fram í 12. gr. laga nr. 50/2009. Lagt er til að skuldari geti óskað eftir því við umsjónarmann, áður en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er sent til kröfuhafa skv. 17. gr., að veðréttindi, sem standa til tryggingar veðkröfum og nema hærri fjárhæð en svarar til verðmætis fasteignarinnar, verði afmáð af eigninni. Að mati embættis umboðsmanns skuldara væri eðlileg málsmeðferð að leggja mat á yfirveðsetningu fasteignar á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir standa yfir, í stað þess að gera það við lok tímabils greiðsluaðlögunar. Ef þörf er á að afmá slík veðréttindi myndu veðkröfur breytast í óveðtryggðar kröfur, sem hægt yrði að semja um í samningi til greiðsluaðlögunar. Vandkvæði geta fylgt því að þurfa að meta fjárhag aftur við lok greiðsluaðlögunar, auk þess sem það er kostnaðarsamara fyrir hlutaðeigandi stjórnvald sem þarf að afla nýrra fjárhagsupplýsinga um viðkomandi. Þess í stað liggja allar upplýsingar fyrir um fjárhagsstöðu skuldara ef hann óskar eftir afmáningu veðréttinda. Misbrestur hefur verið á að einstaklingar hafi sótt um að veðbönd verði afmáð innan réttra tímamarka við lok greiðsluaðlögunar og hafa sumir misst af rétti sínum til að leggja fram beiðni um afmáningu. Til þess að umsjónarmaður fallist á beiðnina, þarf að vera ljóst á grundvelli greiðslumats að skuldari verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu allra veðskulda, en geti þó staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem hvíla á eigninni í kjölfar afmáningar veðréttinda. Þessi skilyrði eru þau sömu og koma nú fram í 12. gr. laga nr. 50/2009. Við mat á hvenær skuldari telst um fyrirséða framtíð ófær nægir ekki að greiðsluerfiðleikar skuldara séu tímabundnir, t.d. vegna tímabundins atvinnuleysis, heldur þarf að vera nokkurn veginn ljóst, á grundvelli mats á aðstæðum skuldara, að ekki sé að vænta breytinga á tekjum þannig að skuldari geti staðið undir öllum veðskuldum að fullu. Þá þarf að vera ljóst að viðkomandi hafi þó greiðslugetu til að standa undir veðskuldum sem hvíla áfram á eigninni í kjölfar afmáningar þeirra veðréttinda sem eru umfram 100% af verðmæti eignarinnar. Ef skuldari gæti ekki staðið undir þeim veðskuldum bæri að hafna beiðninni og kæmi þá jafnframt til skoðunar hvort skuldari geti haldið eign sinni eða leggja þurfi til sölu hennar. Upp geta komið þau tilvik að skuldari hefur ekki tök á að greiða að fullu af öllum veðskuldum sínum fyrir afmáningu, en hann gæti þó greitt meira en eingöngu af þeim veðskuldum sem myndu hvíla á eigninni eftir afmáningu veðréttinda. Þrátt fyrir að greiðslugeta skuldara sé þá hærri en sem nemur afborgunum veðskulda miðað við 100% veðsetningu, skal engu að síður samþykkja beiðni skuldara um afmáningu teljist hann ekki geta greitt af öllum veðskuldum sínum fyrir afmáningu.
    Umsjónarmaður máls skal leiðbeina skuldara sem kann að vera með yfirveðsetta eign um þann rétt sinn að óska eftir afmáningu veðréttinda. Í 2. mgr. a-liðar er lagt til að afmáning veðréttinda geti eingöngu varðað fasteign þar sem skuldari heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Ekki telst tækt að kröfuhafar þurfi að afmá veðréttindi af fasteign nema í þeim tilgangi að aðstoða skuldara að halda heimili sínu. Vissulega geta verið uppi tilvik þar sem skuldari er eingöngu tímabundið búsettur annars staðar vegna sérgreindra ástæðna. Í slíkum tilvikum væri möguleiki að afla sérstaks samþykkis þeirra veðhafa sem hafa hagsmuna að gæta, með tilliti til þeirra veðréttinda sem yrðu afmáð, fyrir því að afmáningarferli þessa ákvæðis taki til fasteignarinnar. Skuldari þarf þá jafnframt að lýsa því yfir að hann hyggst hefja búsetu að nýju í fasteigninni. Í ákvæðinu er jafnframt mælt fyrir um að skuldari geti ekki óskað eftir afmáningu veðréttinda á fasteign eigi hann fasteign í óskiptri sameign með öðrum sem hefur ekki leitað greiðsluaðlögunar.
    Í 3. mgr. a-liðar er lagt til að þegar skuldari hefur lagt fram beiðni um afmáningu, skuli umsjónarmaður óska eftir að löggiltur fasteignasali meti verðmæti fasteignar og ber þá umboðsmaður skuldara kostnað af slíku verðmati. Skal verðmatið lagt til grundvallar nema skuldari og veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta af niðurstöðu þess vilji á sinn kostnað afla annars verðmats. Veðhafi telst ekki hafa hagsmuna að gæta nema það reyni á afmáningu veðréttinda vegna þeirra veðkrafna sem hann á. Afli skuldari og/eða veðhafar annars verðmats, skal meðaltal verðmatanna lagt til grundvallar.
    Í 4. mgr. a-liðar er lagt til að veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta, sbr. framangreint, geti innan viku frá því að niðurstaða um verðmat fasteignar skv. 3. mgr. lá fyrir, lýst því yfir við umsjónarmann að þeir hyggist á sinn kostnað afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna á verðmæti fasteignarinnar. Sé aflað slíkrar matsgerðar gildir niðurstaða hennar um verðmæti eignarinnar en ekki meðaltal þeirra mata sem aflað var á grundvelli 3. mgr. Gert er ráð fyrir að ef fleiri veðhafar en einn vilja afla slíkrar matsgerðar sameinist þeir um að afla matsgerðar, svo ekki liggi fyrir fleiri en ein.
    Í 5. mgr. a-liðar er kveðið á um kærurétt skuldara telji umsjónarmaður að ekki séu skilyrði uppfyllt fyrir afmáningu veðréttinda. Veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta gætu samkvæmt ákvæðinu jafnframt kært ákvörðun embættis umboðsmanns skuldara um að skuldari uppfylli skilyrði fyrir afmáningu veðréttinda. Slíkur kæruréttur er óháður því hvort hlutaðeigandi veðhafi hafi lýst kröfu eða ekki. Þá er lagt til í 6. mgr. að ef sú niðurstaða fæst að beiðnin um afmáningu veðréttinda skuli ná fram að ganga skuli umsjónarmaður óska eftir að sýslumaður hlutist til um afmáningu veðréttinda. Umsjónarmaður skal þó ekki óska eftir að sýslumaður þinglýsi nýjum höfuðstól skuldarinnar sem veðréttindi eru fyrir, nema frumvarp til greiðsluaðlögunar hafi verið samþykkt af kröfuhöfum og að því gefnu að skuldari hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt samningi. Beiðni um afmáningu veðréttinda er því eingöngu send til sýslumanns að loknu greiðsluaðlögunartímabili, en grundvöllur afmáningarinnar er niðurstaða verðmats sem framkvæmt var samkvæmt ákvæðinu og greint er frá í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður skal í frumvarpinu miða við hvaða kröfur teljast óveðtryggðar út frá verðmati fasteignarinnar ef afmáning veðréttinda fer fram. Er því í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun fyrir fram samið um hver meðferð afmáðra krafna verður, ef samningur fæst samþykktur. Ástæða þess að ekki skal óska eftir að sýslumaður framkvæmi sjálfa afmáninguna á meðan umleitanir standa yfir, er að sú staða gæti komið upp að kröfuhafi komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun nái að ganga. Það væri ekki réttlætanlegt með tilliti til hagsmuna veðhafa að afmá veðréttindi af fasteign skuldara fyrr en ljóst er að frumvarp til greiðsluaðlögunar er samþykkt. Afmáning veðréttinda er því alltaf bundin því skilyrði að samningur nái fram að ganga. Þá telst það mikilvægt skilyrði að skuldari hafi staðið við greiðslur samkvæmt samningi. Ef frumvarp til greiðsluaðlögunar fæst ekki samþykkt, getur skuldari leitað nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, og/eða tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009. Skuldari getur þó sótt um afmáningu veðréttinda við lok tímabundinnar greiðsluaðlögunar skv. 12. gr. laga nr. 50/2009, sé þörf á.
    Í b-lið ákvæðisins, 23. gr b., er lagt til að verði sérstök grein um meðferð óveðtryggðra krafna. Sambærilegt ákvæði er nú í 3. gr. laganna sem lagt er til í frumvarpi þessu að fellt verði brott. Ákvæðið tekur eingöngu til óveðtryggðra krafna, í ljósi þess að önnur ný ákvæði kveða á um meðferð veðlána.
    Þá er í c-lið, 23. gr. c, lagt til að það verði sérstök grein um hvað felist í efndum krafna á grundvelli samnings til greiðsluaðlögunar. Í gildandi 21. gr. kemur fram að efndir kröfu í samræmi við samning um greiðsluaðlögun hafi sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu. Reynslan hefur sýnt að ákvæðið hefur ekki vægi gagnvart kröfuhöfum þegar á það hefur reynt og því er lagt til að breyting verði á orðalagi þess og að ákvæðið færist í VI. kafla A. Nánar tiltekið er lagt til að orðalagið verði á þann veg að kröfur teljist vera efndar á tímabili greiðsluaðlögunar hvort sem skuldari greiðir af þeim í samræmi við greiðsluáætlun samnings eða veittur er gjaldfrestur á þeim. Í ákvæðinu felst að hafi kröfuhafi gjaldfellt kröfu sína, ber honum að draga þá gjaldfellingu til baka. Þá er með öllu óheimilt af hálfu kröfuhafa að líta svo á að skuldari hafi ekki efnt upphaflega samningsskilmála og að heimilt sé ganga að ábyrgðarmanni fyrir greiðslu kröfunnar á tímabili greiðsluaðlögunar.

Um 21. gr.

    Í 24. gr. laganna er fjallað um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun að kröfu skuldara. Lagðar eru til töluverðar breytingar á ákvæðinu í takt við þá framkvæmd sem hefur þróast á þeim málum sem fara í breytingaferli, auk þess finna má í ákvæðinu nýmæli. Nánar tiltekið er kveðið á um það nýmæli í 1. mgr. að skuldari geti óskað eftir því við embætti umboðsmanns skuldara að það samþykki að veittur verði gjaldfrestur á allt að þremur gjalddögum samkvæmt samningi, án þess að breytingin sé borin undir kröfuhafa, ef upp koma sérstakar og ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi. Skal þá tímabil greiðsluaðlögunar lengjast sem nemur þeim gjalddögum sem veittur er frestur á. Í ljósi þess að tímabil greiðsluaðlögunar lengist og um fáa mánuði er að ræða, telst það inngrip í efndir á kröfum sem hér um ræðir svo lítilvægt að embætti umboðsmanns skuldara geti tekið ákvörðun um breytinguna einhliða og njóta kröfuhafar ekki andmælaréttar gagnvart þeirri ákvörðun. Skuldari myndi þó alltaf geta kært synjun um slíka breytingu til úrskurðarnefndar velferðarmála. Að mati umboðsmanns skuldara myndi slík heimild stuðla að aukinni skilvirkni í breytingarmálum, þar sem reynslan hefur sýnt að algengt sé í breytingarmálum að einstaklingar þurfi eingöngu á tímabundnum gjaldfresti að halda. Er þá miðað við að einstaklingur geti eingöngu sótt um frestun á þremur gjalddögum samanlagt á tímabili greiðsluaðlögunar. Það færi svo eftir aðstæðum hvort skuldari óskar þrisvar sinnum eftir frestun á einum gjalddaga samkvæmt samningi eða þurfi t.d. á gjaldfresti að halda samfellt í tvo mánuði eða þrjá.
    Sé þörf á annars konar breytingu en framangreindri, er lagt til að skuldari geti óskað eftir því við embætti umboðsmanns skuldara, áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda, að það hafi milligöngu um breytingu á samningi gagnvart kröfuhöfum. Yrði það þá skilyrði að upp hafi komið sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veiki getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða sem leiða til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings. Í gildandi ákvæði er eingöngu miðað við ófyrirsjáanlegar aðstæður en hér er lagt til að sérstakar aðstæður yrðu einnig skoðaðar. Margvíslegar breytingar geta orðið á högum skuldara sem kunna að réttlæta breytingar á greiðsluaðlögun og er ekki hægt að telja þær aðstæður upp tæmandi. Með ófyrirsjáanlegum aðstæðum er t.d. átt við tekjulækkun hjá skuldara í kjölfar veikinda eða atvinnuleysis eða að skuldari þurfi að mæta ófyrirséðum nauðsynlegum kostnaði. Undir sérstakar aðstæður geta fallið tilvik, þar sem svo miklar hækkanir hafa orðið á almennum framfærslukostnaði að ekki telst ásættanlegt að skuldari sé skuldbundinn að greiða umsamda afborgunarfjárhæð samkvæmt samningi. Ákvæðinu er ekki ætlað að taka til tilvika þar sem hefðbundnar sveiflur eru á hækkun framfærslukostnaðar, heldur eingöngu tilvika þar sem ljóst er að um mikinn forsendubrest er að ræða. Meta þarf hvert og eitt mál fyrir sig, en mikilvægt er að embættið afli nýrra tekjuupplýsinga við málsmeðferðina.
    Líkt og framan greinir er hægt að óska eftir breytingu ef framangreindar aðstæður veikja getu til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða leiða til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings. Með breytingum á skilmálum samnings er átt við ef þörf er á að lengja samningstímabil eða semja um eftirgjöf krafna, þar sem upphaflegu forsendur stóðust ekki, t.d. þegar vonir stóðu til að hagur skuldara myndi vænkast en það gekk ekki eftir og ekki má vænta frekari breytinga á fjárhagsstöðu. Samkvæmt gildandi lagaákvæði er ekki unnt að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun fyrr en skuldari hefur fullreynt að ná þeim fram með samningum við alla kröfuhafa. Náist slíkt samkomulag skal það lagt fyrir umboðsmann skuldara og taka breytingarnar ekki gildi fyrr en umboðsmaður skuldara hefur samþykkt þær. Það kom fljótt í ljós þegar reyndi á fyrstu málin í breytingaferli á grundvelli laganna að illa gekk fyrir skuldara að ná fram breytingum við sína kröfuhafa, einkum ef um marga kröfuhafa var að ræða í málinu. Þróaðist framkvæmdin því í þann farveg að skuldarar lögðu fram beiðni um að embætti umboðsmanns skuldara annaðist milligöngu um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun. Er því lagt til með hinu nýja ákvæði að einstaklingar þurfi ekki sjálfir að ná fram breytingum í frjálsum viðræðum, heldur að umboðsmaður skuldara annist milligönguna.
    Lagt er til að í 4. mgr. sé kveðið á um að tillaga um breytingu sé samin í samráði við skuldara og í samræmi við ákvæði laganna, fallist umboðsmaður skuldara á að hefja milligöngu um samningaviðræður. Það að tillagan sé samin í samræmi við ákvæði laganna, felur í sér að skuldari getur ekki lagt til tillögur sem eru ónauðsynlegar, svo sem eftirgjöf skulda, ef ekki er talin þörf á því út frá útreikningi á greiðslugetu viðkomandi. Markmið greiðsluaðlögunar er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Þá er lagt til að tillagan um breytingu sé eingöngu send til allra kröfuhafa sem lýstu kröfu skv. 10. gr., sbr. þær breytingar sem lagðar eru til á 17. gr. laganna. Er talið eðlilegt að eingöngu þeir kröfuhafar sem höfðu upphaflega andmælarétt gagnvart frumvarpi til greiðsluaðlögunar, hafi andmælarétt gagnvart tillögu um breytingu á samningi. Kröfuhafi sem lýsir ekki við umboðsmann skuldara að hann leggist gegn tillögunni telst hafa samþykkt hana. Ef tillagan telst samþykkt af öllum þeim kröfuhöfum sem lýstu kröfu, tekur hún þá þegar gildi.
    Í 5. mgr. er lagt til að ef tillagan telst ekki samþykkt þá geti skuldari engu að síður, líkt og heimilt er samkvæmt núgildandi lögum, lagt fram kröfu til umboðsmanns að skilmálum samnings verði breytt í samræmi við tillöguna. Embættið þarf að leggja sérstakt mat á hvort slík krafa sé samþykkt, þar sem samþykkt krafa felur í sér þvingaða breytingu. Kröfuhafar hafa þó alltaf rétt til að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndar. Við mat á kröfunni ber að líta til þess hvort komið hafi fram upplýsingar sem leiða til þess að hafna beri breytingunni og hvert sé viðhorf þeirra kröfuhafa sem hafa andmælt tillögunni. Fallist umboðsmaður á kröfuna, tekur breytingin ekki gildi fyrr en kærufrestur er liðinn eða niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir. Synji embættið kröfunni getur skuldari kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar.
    Lagt er til að í 6. mgr. verði kveðið á um hver málsmeðferðin skuli vera þegar skuldara er á tímabili greiðsluaðlögunar gert kunnugt um kröfu sem stofnaðist áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt. Samkvæmt ákvæðinu verður krafan felld undir greiðsluaðlögunina, ef umboðsmaður skuldara telur það hafa óveruleg áhrif gagnvart öðrum kröfuhöfum. Er það breyting frá gildandi lagaákvæði, þar sem krafan er sjálfkrafa felld undir greiðsluaðlögunina. Með vísun til óverulegra áhrifa er átt við þau tilvik þegar samningur kveður á um gjaldfrest eða hlutdeild kröfunnar í afborgunarfjárhæð verður það lág að það telst ekki íþyngjandi gagnvart öðrum kröfuhöfum. Í ákvæðinu er svo kveðið á um að ef það er mat umboðsmanns skuldara að það sé íþyngjandi gagnvart kröfuhöfum að fella slíka kröfu undir greiðsluaðlögunina án samþykkis kröfuhafa, getur skuldari lagt fram beiðni í samræmi við 2. mgr. Það telst ekki réttlætanlegt að kröfuhafi sem hefur samþykkt frumvarp til greiðsluaðlögunar á ákveðnum forsendum, m.a. áætluðum greiðslum á tímabili greiðsluaðlögunar, þurfi svo að fallast á það, án þess að geta mótmælt því, að hlutdeild hans í afborgunarfjárhæð lækki það mikið að íþyngjandi telst, vegna kröfu sem á að fella undir greiðsluaðlögunina. Í slíkum tilvikum þarf skuldari að fara í gegnum formlegt breytingaferli ætli hann að fá kröfuna fellda undir greiðsluaðlögunina.
    Í 7. mgr. er lagt til það nýmæli að hafi fjárhagsstaða skuldara batnað á þann veg að skuldari hefur tök á að greiða að fullu allar kröfur sem greiðsluaðlögunarsamningur tekur til, sé honum heimilt að óska eftir því við umboðsmann að samningi verði breytt á þann veg. Að mati umboðsmanns hefur vantað slíkt ákvæði í lögin, þar sem einstaka sinnum koma upp þau tilvik að fjárhagur skuldara batnar það mikið að viðkomandi getur greitt allar kröfur samkvæmt samningi. Ekki telst tækt að skuldari sé bundinn við samning við slíkar aðstæður. Er þá lagt til að embættið geti sent ákvörðun um breytingu samnings til kröfuhafa að fenginni staðfestingu frá skuldara um að hann eigi fjármuni til að greiða upp allar kröfur samningsins.
    Í 8. mgr. er lagt til að kveðið sé á um almenna heimild skuldara til að ná sjálfur fram breytingum á samningi við kröfuhafa, án milligöngu umboðsmanns skuldara. Óski hann þess þarf hann að ná fram breytingum við alla kröfuhafa, ekki eingöngu þá sem lýstu kröfu. Með slíku skilyrði er komið í veg fyrir að kröfuhafar sem lýstu ekki kröfu, þurfi að þola óeðlilegar breytingar sem eru e.t.v. ekki í samræmi við ákvæði laganna eða til hagsbóta fyrir ákveðna kröfuhafa. Talið er ásættanlegt að ef allir kröfuhafar eru samþykkir framlögðum tillögum geti skuldari náð fram þeim breytingum sem hann óskar.

Um 22. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 25. gr., þar sem ákvæði um riftun eða ógildingu samnings falla brott. Þess í stað verði sérákvæði í 26. gr. um ógildingu samnings. Ákvæðið kveður þó áfram á um málsmeðferð vegna breytinga á samningi að kröfu kröfuhafa og er efnislega samhljóma eldra ákvæði.
    Þá er lagt til að ákvæði 27. gr. laganna, um upplýsingaskyldu skuldara gagnvart kröfuhöfum, færist í 2. mgr. 25. gr. en upplýsingaskyldan verði eingöngu bundin við þær aðstæður sem veita kröfuhöfum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun, en ekki ógildingu eða riftun hans, í ljósi nýrra ákvæða um ógildingu samnings í 26. gr.

Um 23. gr.

    Lögð er til sú breyting að kröfuhafar þurfi ekki lengur að hafa uppi kröfu um ógildingu samnings vegna vanskila á samningi til greiðsluaðlögunar fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldara. Þess í stað er lagt til að samningar um greiðsluaðlögun falli sjálfkrafa úr gildi ef vanskil hafa verið á samningi í sex mánuði og ekki liggur fyrir að skuldari hafi óskað eftir breytingu á samningi. Kveðið er á um að umboðsmaður skuli tilkynna kröfuhöfum um ógildingu samnings að fengnum upplýsingum um vanskil skuldara frá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki sem annast miðlun greiðslna. Umboðsmaður skuldara mun samkvæmt tillögunni hafa heimild til að fá upplýsingar um vanskil samninga og getur sett sig í samband við skuldara til að veita honum ráðgjöf um rétt til breytinga, sbr. breytingar á ákvæði 21. gr. Með þessu móti getur embættið reynt að fækka þeim málum, þar sem samningar um greiðsluaðlögun verða ógiltir. Teljast sex mánuðir hæfileg tímamörk fyrir skuldara til koma gjalddögum í skil samkvæmt samningi eða óska eftir breytingu. Í því sambandi ber jafnframt að taka tillit til hagsmuna kröfuhafa af því að hefja innheimtu að nýju.
    Í 2. mgr. er lagt til að samningur um greiðsluaðlögun falli sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fellur frá á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 3. mgr. 25. gr. laganna er kveðið á um að samningur falli sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta án þess að erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans. Ákveðin vandkvæði eru talin vera á þessu ákvæði m.a. þar sem erfingjar hafa tiltekinn tíma til að taka afstöðu til þess hvort þeir ætli að fá leyfi til einkaskipta og á meðan getur samningur um greiðsluaðlögun verið í vanskilum. Þykir því eðlilegast að samningur falli sjálfkrafa úr gildi við andlát. Ef samningur er ógiltur af þeim sökum er kveðið á um að óheimilt sé að leggja dráttarvexti eða annan innheimtukostnað á kröfur sem samningur tekur til, vegna þess tímabils sem greiðsluskjól stóð yfir, hafi skuldari staðið við greiðslur samkvæmt samningnum.
    Í 4. mgr. er lagt til að kröfuhöfum sé heimilt að hafa uppi kröfu um ógildingu samnings um greiðsluaðlögun fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldara. Lagt er til það nýmæli, að sé fallist á kröfu um ógildingu samnings, beri að tilkynna umboðsmanni skuldara um það. Ástæða þess er að sé samningur ógiltur að kröfu eins kröfuhafa, þá eru aðrir kröfuhafar ekki upplýstir um það. Í ákvæðinu er því lagt til að umboðsmaður skuldara miðli þeim upplýsingum til annarra kröfuhafa.

Um 24. gr.

    Lagt er til að 27. gr. laganna falli brott þar sem kveðið verður á um upplýsingaskyldu skuldara í 25. gr.
    

Um 25. gr.

    Lagt er til að bætt verði við 1. mgr. 28. gr. laganna nýjum málslið um að þegar tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. falli niður skuli umboðsmaður skuldara óska eftir aflýsingu athugasemdar sem skráð var í þinglýsingabækur. Að mati umboðsmanns er réttast að aflýsa athugasemdinni á þessum tímapunkti, en ekki þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið, líkt og mælt er fyrir um í 29. gr., þar sem engin þörf er fyrir að hafa slíka athugasemd þegar viðkomandi er ekki í greiðsluskjóli.
    Lagt er til að 3. mgr. 28. gr. falli brott, þar sem ekki er talin þörf fyrir slíkt ákvæði og ekki hefur reynt á þýðingu þess í framkvæmd. Þá er lagt til að 4. mgr. falli brott, þar sem engin rök eru fyrir því að skrá athugasemdir í þinglýsingabækur vegna veðsettra eigna á tímabili greiðsluaðlögunar. Þrátt fyrir að samningur um greiðsluaðlögun hafi tekið gildi er einstaklingum í sjálfsvald sett að selja eignir sínir á tímabili greiðsluaðlögunar og hægt er að gera fjárnám í þeim ef skilyrði til þess eru uppfyllt.

Um 26. gr.

    Lagt er til að sett verði nýtt ákvæði í 29. gr., þar sem ekki er lengur þörf fyrir sérstakt ákvæði sem tilgreinir hvenær skuli afmá athugasemdir úr þinglýsingabókum í ljósi þeirrar breytingar sem gerð er á 28. gr. Þess í stað er lagt til að 29. gr. kveði á um hvenær frestun greiðslna skv. 11. gr. falli niður.
    Þá er í 2. mgr. lagt til að skýrt verði kveðið á um tilkynningarskyldu umboðsmanns skuldara um lok greiðsluskjóls gagnvart kröfuhöfum, ábyrgðarmönnum og samskuldurum skuldarans. Að mati embættis umboðsmanns skuldara hefur vantað skýrt ákvæði í lögin þess efnis.

Um 27. gr.

    Í 2. málsl. 30. gr. segir að lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá fellur af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Lagt er til að við málsliðinn bætist að kröfuhafar beri jafnframt kostnað af endurútreikningi krafna við lok greiðsluaðlögunar. Að mati embættis umboðsmanns skuldara er þörf á þessari viðbót við lagaákvæðið svo tekinn sé af allur vafi um að kostnaður, sem fellur til við að reikna út fjárhæð eftirstöðva með tilliti til greiðslna á tímabili greiðsluaðlögunar og mögulega hlutfallslegrar eftirgjafar, falli á kröfuhafa en ekki skuldara. Óheimilt er því að leggja innheimtukostnað á kröfur við lok greiðsluaðlögunar vegna þessa útreiknings.

Um 28. gr.

    Lagt er til að 34. gr. falli brott, sem felur í sér reglugerðarheimild. Ekki er talin þörf fyrir slíka heimild, í ljósi þeirra breytinga sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi.
    Í ljósi viðamikillar vinnslu embættis umboðsmanns skuldara með persónuupplýsingar einstaklinga, þar á meðal viðkvæmar persónuupplýsingar, er lagt til að sett verði nýtt efnislegt ákvæði um upplýsingaöryggi, í þeim tilgangi að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við meðferð slíkra upplýsinga. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að embættið skuli gæta þess að fylgja skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Er sérstaklega tilgreint að embættið skuli gæta öryggis við sendingu og meðferð persónuupplýsinga, að sett verði öryggisstefna, framkvæmt áhættumat og aðrar öryggisráðstafanir gerðar í samræmi við meginreglur um persónuvernd.

Um 29. gr.

    Lagt er til að sett verði nýtt ákvæði sem kveður á um að samningur um greiðsluaðlögun takmarki ekki heimildir innheimtuaðila sekta til að beita ákvæðum laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, þ.m.t. til að beita innheimtuúrræðum og taka ákvörðun um að vararefsing sektar skuli afplánuð. Í þessu felst að þrátt fyrir að samið hafi verið um greiðslu sektar með samningi um greiðsluaðlögun, sbr. heimild f-liðar 1. mgr. 3. gr. laganna, er innheimtuaðila heimilt að beita ákvæðum laga um fullnustu refsinga telji hann þörf á, t.d. ef það er mat innheimtuaðila að beita þurfi vararefsingu með tilliti til fyrningartíma kröfu eða þegar eignakönnun leiðir í ljós að hægt er að tryggja fullnustu kröfunnar með aðför.

Um 30. gr.

    Lagt er til að ákvæði I og II til bráðabirgða falli brott, þar sem þau eiga ekki lengur við.

Um 31. gr.

    Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi og eigi við um umsóknir sem eru til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara við gildistöku laganna og hafa ekki verið samþykktar. Hafi umsókn verið samþykkt fyrir gildistöku laga þessara fari um framhald málsmeðferðar eftir ákvæðum laga um greiðsluaðlögun einstaklinga fyrir breytingu. Þó munu ákvæði 21. og 22. gr. laga þessara einnig eiga við um umsóknir sem samþykktar hafa verið fyrir gildistöku þeirra. Talið er mikilvægt að ný málsmeðferðarákvæði í 21. gr., um breytingar á samningi um greiðsluaðlögun, geti tekið til þeirra samninga sem tekið hafa gildi og greiðsluaðlögun er ekki lokið eða umsókna sem samþykktar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara og eru til meðferðar. Ekki er talið að það feli í sér íþyngjandi afturvirkni gagnvart kröfuhöfum, þar sem telja má að hinar nýju málsmeðferðarreglur feli í sér að mestu nánari útfærslu á heimild sem embætti umboðsmanns skuldara hefur nú þegar til breytinga á samningi um greiðsluaðlögun. Ákvæði 22. gr., um breytingu á samningi að kröfu kröfuhafa, er efnislega samhljóma gildandi ákvæði.

Um 32. gr.

Um 1. tölul.
    Lagðar eru til breytingar á lögum um greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014.
Um a-lið.
    Í a-lið eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 3. gr. laganna og eru þær að mestu til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, en miðað er við að það verði samræmd framkvæmd við túlkun samhljóma synjunarliða, hvort sem umsækjandi leitar greiðsluaðlögunar eða fjárhagsaðstoðar til greiðslu skiptatryggingar. Talið er mikilvægt að heimilt sé að samþykkja umsókn, þrátt fyrir að synjunargrundvöllur sé uppi, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Umboðsmanni skuldara ber að leggja heildstætt mat á málið og meta hvort sérstakar aðstæður skuldara réttlæta að umsóknin sé samþykkt. Með sérstökum aðstæðum er hér einkum vísað til veikinda, erfiðra félagslegra aðstæðna og eftir atvikum hás aldurs skuldara. Í einhverjum tilfellum kann mat umboðsmanns skuldara að vera á þann veg að synja beri máli, þrátt fyrir sérstakar aðstæður skuldara, þar sem þau atvik sem leiða eiga til synjunar vega þyngra í matinu og ekki telst því hæfilegt að samþykkja umsóknina. Í lögin hefur vantað skýrt ákvæði um heimild til að synja í ljósi þess að fyrirliggjandi gögn gefa ekki glögga mynd af því hver fjárhagur skuldara hefur verið, hver fjárhagur er við vinnslu umsóknar eða væntanlegri þróun hans. Þá telur embættið mikilvægt að bæta við heimild til að synja á þeirri ástæðu að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, í samræmi við sams konar ákvæði í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Öfugt við breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga er talið mikilvægt að heimilt sé að synja umsókn um fjárhagsaðstoð ef á skuldara hvíla umtalsverðar fésektir eða kröfur vegna skaðabótaskyldu. Ástæða þess er sú að þessar kröfur geta fyrnst í kjölfar gjaldþrotaskipta en í greiðsluaðlögun er gert ráð fyrir að þessar kröfur séu greiddar að fullu, enda standa þær utan úrræðisins. Þá skal jafnframt synja ef viðkomandi stofnaði til umtalsverðra skattkrafna, en í lögum um greiðsluaðlögun eru óhóflegar skattkröfur jafnframt synjunargrundvöllur. Telst ekki réttlætanlegt að embættið greiði fjárhagsaðstoð svo skuldari geti leitað gjaldþrotaskipta vegna framangreindra krafna, ef þær teljast umtalsverðar. Varðandi viðmið um hvenær framangreindar kröfur teljast umtalsverðar skal miða við höfuðstól þeirra krafna sem bera vexti en fésektir bera ekki vexti. Notaður skal almennur mælikvarði þar sem miðað er við hvaða fjárhæð teljist út af fyrir sig það há að ekki sé forsvaranlegt að embættið samþykki umsókn skuldara. Ekki er lagt til að notaður sé of strangur mælikvarði hvað þetta varðar. Embættinu er stætt á að nota mismunandi mælikvarða, eftir því hvort um sé að ræða fésektir, kröfur vegna skaðabótaskyldu eða skattkröfur í ljósi þess að kröfurnar eru ólíkar í eðli sínu, varðandi stofnun og tilurð. Ekki skal þó gera greinarmun á ólíkum skattkröfum. Í samræmi við breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga skal skoðun á ógreiddum vörslusköttum félags, sem skuldari er í fyrirsvari fyrir, vera undanskilin mati á fjárhag þess einstaklings sem leitar fjárhagsaðstoðar. Þá skal synja hafi skuldari áður fengið umsókn um fjárhagsaðstoð samþykkta á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Telst ekki hæfilegt nema sérstakar aðstæður séu uppi, að skuldari geti fengið samþykkta fjárhagsaðstoð oftar en einu sinni.
Um b-lið.
    Í b-lið er lagt til að ný málsgrein bætist við 5. gr. laganna. Talið er mikilvægt að sett séu tímamörk á það hvenær umsækjandi geti nýtt sér samþykkta fjárhagsaðstoð. Lagt er til að þau tímamörk verði þrír mánuðir frá því að umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um fjárhagsaðstoðina, ella falli hún niður. Samkvæmt gildandi lögum eru engin tímamörk hvað þetta varðar og hefur það valdið vandkvæðum í framkvæmd. Einnig er það óeðlilegt að embætti umboðsmanns skuldara sé skuldbundið til að mæta slíkum greiðslum um ófyrirsjáanlega framtíð.
Um c-lið.
    Í c-lið er lagt til að kæruheimild færist til úrskurðarnefndar velferðarmála í samræmi kæruheimild samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Ástæða þess að lagt er til að kæruheimild færist þangað frá ráðuneytinu er að tryggja samræmda framkvæmd við túlkun synjunarástæðna, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna.
Um 2. tölul.
    Lagðar eru til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
Um a-lið.
    Lagðar eru til breytingar a-, b- og d-lið 1. mgr. 63. gr. a laganna, til að gæta samræmis við þær breytingar sem gerðar eru á sams konar ákvæðum í 3. gr. þessa frumvarps.. Mikilvægt er að samræmi sé á heimildum varðandi meðferð krafna í lögum um greiðsluaðlögun og lögum um gjaldþrotaskipti, þegar ekki næst samningur til greiðsluaðlögunar og þörf er á að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Um b-lið.
    Lagt er til að sett verði nýtt ákvæði sem kveður á um að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar takmarki ekki heimildir innheimtuaðila sekta til að beita ákvæðum laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, þ.m.t. til að beita innheimtuúrræðum og taka ákvörðun um að vararefsing sektar skuli afplánuð. Í þessu felst að þrátt fyrir að samið hafi verið um greiðslu sektar með nauðasamningi, sbr. heimild a-liðar 1. mgr. 63. gr. a, er innheimtuaðila heimilt að beita ákvæðum laga um fullnustu refsinga, telji hann þörf á, t.d. ef það er mat innheimtuaðila að beita þurfi vararefsingu með tilliti til fyrningartíma kröfu eða þegar eignakönnun leiðir í ljós að hægt er að tryggja fullnustu kröfunnar með aðför.