Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 44  —  44. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.


Flm.: Þórarinn Ingi Pétursson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að setja af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 153. löggjafarþingi ( 779. mál) og er nú endurflutt óbreytt.
    Síðustu ár hefur skortur á dýralæknum hér á landi verið mikið til umræðu. Tengist það sérstaklega þeirri miklu umræðu sem hefur átt sér stað um heilsu og velferð dýra. Á meðal dýralækna er almenn óánægja með vaktafyrirkomulag og bakvaktaálag starfsstéttarinnar og hefur svo verið um allnokkra hríð. Á það við um allt land og einskorðast ekki við eitt svæði eða dreifðari byggðir. Stórdýravaktin, sem snertir m.a. á fæðuöryggi þjóðarinnar og velferð dýra, hefur verið rekin með miklum halla undanfarin ár þar sem greiðslur úr vaktasjóðum duga skammt. Þetta hefur gert það að verkum að ekki hefur tekist að manna vaktir, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, og leita þarf til umdæma í næsta nágrenni til að manna bakvaktir.
    Í hinum dreifðari byggðum eru einstaka svæði einungis með einn dýralækni á vakt allt árið um kring, með því gríðarlega bakvaktaálagi sem því fylgir, og sums staðar á landinu eru eftirlitssvæðin svo stór að einn dýralæknir getur með engu móti sinnt starfi sínu. Skipulag vaktamála er á ábyrgð Matvælastofnunar. Það er hins vegar ljóst að stofnuninni hefur ekki tekist að sinna hlutverki sínu við að skipuleggja bakvaktir í samráði við dýralækna á öllum svæðum, og þar með tryggja nauðsynlega grunnþjónustu um land allt.
    Dýralæknar eru meðvitaðir um skyldur sínar þegar kemur að því að hjálpa dýrum í neyð. Hins vegar er dýralæknum of oft gert ómögulegt að uppfylla þær starfsskyldur sem á herðar þeirra eru lagðar. Stjórnvöld í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa öll sett af stað umfangsmikla vinnu við að greina vandann og þær áskoranir sem fylgja því að færri dýralæknar fáist í störf úti á landi og taki að sér bakvaktir. Afar mikilvægt er að farið verði í þá vinnu hér á landi og snýr markmið og efni tillögunnar að því að hrundið verði af stað heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.