Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 55  —  55. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld.


Flm.: Ingibjörg Isaksen, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Björn Leví Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flýta þróun rafrænna samskipta og einfalda ferli umsókna hjá sýslumanni um sérstök útgjöld. Áhersla verði lögð á að auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna um sérstök útgjöld.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er byggð á tillögu sem lögð var fram á 153. löggjafarþingi (299. mál) um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns, en er nú endurflutt með uppfærðri greinargerð.
    Umsóknir um sérstök útgjöld geta verið erfitt og íþyngjandi ferli. Flutningsmenn telja að í samræmi við tækniframfarir ætti umsækjandi samhliða því að leggja fram kröfur um sérstök útgjöld að geta veitt sýslumanni heimild til gagnaöflunar hjá öðrum stjórnvöldum sem málið varðar. Til grundvallar þessum hugmyndum má leggja hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, markmið hins opinbera um betri þjónustu og aukið réttaröryggi.
    Flutningsmenn telja að kröfur hins opinbera til borgara um framlagningu fylgiskjala við málsmeðferð í málum barna umtalsverðar og íþyngjandi, sérstaklega á tímum þar sem stafrænar lausnir og rafræn stjórnsýsla fer vaxandi. Af þeim sökum leggja flutningsmenn til að flýta ætti og hraða þróun rafrænna samskipta og auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna. Sem lið í þeirri vinnu telja flutningsmenn mikilvægt að skoða hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu málsaðila við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Samhliða verði tryggt að sýslumannsembættunum sé gert kleift að afla viðkomandi gagna með stafrænum hætti, eftir atvikum fyrir milligöngu Stafræns Íslands.
    Tvær umsagnir bárust um tillöguna þegar hún var lögð fram á 153. löggjafarþingi, frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og Persónuvernd. Í umsögn sýslumannsins segir: „Ítrekað er að sýslumaður er mjög hlynntur öllum breytingum sem kunna að einfalda málsmeðferð hjá sýslumönnum. Þá er sérstaklega tekið er fram að öll sömu sjónarmið um eiga við um ýmis önnur mál sem rekin eru hjá sýslumönnum, bæði skv. barnalögum en eins samkvæmt öðrum lögum t.d. lögum um ættleiðingar nr. 130/1999. Eðlilegt er að allar breytingar hvað þetta varðar taki einnig til annarra mála en beiðnir um sérstök útgjöld.“
    Taka þarf tillit við vinnslu málsins til þeirra athugasemda sem bárust frá Persónuvernd um málið. Nauðsynlegt er að tryggt verði að hverjar þær breytingar sem kunna að vera gerðar við samþykkt þessarar tillögu á lögum og/eða reglugerðum fullnægi kröfum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679. Meðal annars þarf að tryggja skýrar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga, bæði almennra og viðkvæmra, og að heimildirnar afmarkist við aðeins upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir framgang málsins. Þá þarf að tryggja að öryggi upplýsinganna sé tryggt frá fyrsta degi, ekki síst ef kemur til vinnslu í rafrænum upplýsingakerfum eða öðrum stafrænum lausnum.
    Áform um breytingar á réttarfarslöggjöf varðandi stafræna miðlun gagna og stafræna birtingu eru í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda en með þeim breytingum er áætlað að breyta réttarfarslöggjöf á þann hátt að hún standi ekki í vegi fyrir að unnt sé að miðla gögnum stafrænt á milli stofnana réttarvörslukerfisins. Flutningsmenn telja að framangreind áform muni aðeins styrkja tillögu þessa frekar enda eiga stafrænar umbætur ávallt að hafa það að markmiði að kerfi verði einfaldari í notkun og notendavænni.