Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 66  —  66. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um friðlýsingu nærumhverfis Stjórnarráðshússins.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Tómas A. Tómasson, Eyjólfur Ármannsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Jakob Frímann Magnússon, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að lóð í eigu ríkisins við Stjórnarráðshúsið og annað nærumhverfi þess verði friðlýst.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessa efnis var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi (590. mál).
    Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg er eitt hinna gömlu steinhúsa frá 18. öld og skipar sér í hóp merkra menningarminja í íslenskri byggingarsögu. Húsið er friðað.
    Lagt er til að lóð ríkisins við Stjórnarráðshúsið og annað nærumhverfi þess verði friðlýst, en í því felst að ekki verður reist bygging í næsta nágrenni þess sem raskað gæti stöðu þess eða varpað skugga á það að einhverju leyti. Fyrirhuguð stækkun Stjórnarráðshússins yrði þannig óheimil með samþykkt þessarar tillögu.
    Gömlu steinhúsin frá 18. öld, þ.m.t. Stjórnarráðshúsið, hafa öll notið verndar í þeim skilningi að þeim hefur verið viðhaldið og þau endurreist eins og efni standa til. Þau eru öll meðal merkustu minja íslensks húsakosts. Öll eru þau teiknuð af framúrskarandi dönskum arkitektum og reist af kunnáttumönnum þar sem handbragðið lofar meistarann. Um gildi og sögu umræddra húsa er vísað til bókarinnar Steinhúsin gömlu á Íslandi eftir Helge Finsen og Esbjørn Hiort sem kom út árið 1978 í þýðingu dr. Kristjáns Eldjárns, þáverandi forseta lýðveldisins. Um myrkan en merkan hluta sögu hússins má vísa til nýrrar bókar Hauks Más Helgasonar, Tugthúsið, sem vakið hefur verðskuldaða athygli.
    Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar ber að falla frá öllum áformum um nýbyggingu á reit Stjórnarráðshússins. Stjórnarráðshúsið hýsir nú forsætisráðuneytið og rúmar ekki lengur alla þá starfsemi sem þar fer fram. Við því er brýnt að bregðast með því að finna ráðuneytinu hentug húsakynni. Kanna mætti til að mynda hvort safnahúsið við Hverfisgötu gæti nýst í þessu sambandi, en við blasa einnig aðrir kostir eins og t.d. nýbygging Landsbanka Íslands við Austurhöfn.
    Friðlýsing lóðar ríkisins við Stjórnarráðshúsið er brýnt menningarsögulegt viðfangsefni. Ekki má undan dragast að tryggja húsinu og umhverfi þess öryggi sem sæmir sögu þess og menningarlegu gildi í landinu.