Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 78  —  78. mál.
Flutningsmenn. Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á barnalögum og lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna (einföldun regluverks).

Flm.: Hildur Sverrisdóttir, Birgir Þórarinsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Diljá Mist Einarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Jón Gunnarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Logi Einarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Bergþór Ólason, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.


I. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Kona telst móðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun ef fyrir liggur upplýst, skriflegt og vottað samþykki um móðernið bæði frá henni og móður barnsins skv. 1. mgr. áður en tæknifrjóvgun er framkvæmd.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Maður telst faðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun ef fyrir liggur upplýst, skriflegt og vottað samþykki um faðernið bæði frá honum og móður barnsins skv. 1. mgr. áður en tæknifrjóvgun er framkvæmd.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Kona telst móðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun ef fyrir liggur upplýst, skriflegt og vottað samþykki um móðernið bæði frá henni og föður eða foreldri barnsins skv. 1. mgr. áður en tæknifrjóvgun er framkvæmd.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Maður telst faðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun ef fyrir liggur upplýst, skriflegt og vottað samþykki um faðernið bæði frá honum og föður eða foreldri barnsins skv. 1. mgr. áður en tæknifrjóvgun er framkvæmd.
     c.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Einstaklingur sem breytt hefur skráningu kyns telst móðir, faðir eða foreldri barns sem getið er með tæknifrjóvgun, eftir því hvernig breyttri kynskráningu er háttað, ef fyrir liggur upplýst, skriflegt og vottað samþykki frá einstaklingnum sjálfum um að hann verði móðir, faðir eða foreldri barnsins, sem og upplýst, skriflegt og vottað samþykki frá annaðhvort móður barnsins skv. 1. mgr. 6. gr. eða föður eða foreldri þess skv. 1. mgr., eftir því sem við á, áður en tæknifrjóvgun er framkvæmd.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      A-liður 1. mgr. orðast svo: fyrir liggi upplýst, skriflegt og vottað samþykki um tæknifrjóvgun frá þeim einstaklingi sem elur barnið. Jafnframt liggi fyrir upplýst, skriflegt og vottað samþykki um tæknifrjóvgunina frá einstaklingi sem samþykkt hefur með upplýstu, skriflegu og vottuðu samþykki að verða móðir, faðir eða foreldri barnsins, til viðbótar við einstaklinginn sem elur barnið, ef við á.
     b.      Í stað orðanna „parsins eða konunnar“ í d-lið 1. mgr og 4. mgr. kemur: þess eða þeirra sem veita samþykki skv. a-lið.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Í þeim tilvikum má hvorki veita gjafa upplýsingar um þann eða þá einstaklinga sem veita samþykki skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. og fá í kjölfarið gjafakynfrumur hans, né einstaklingnum eða einstaklingunum upplýsingar um gjafann. Þá má hvorki veita gjafanum upplýsingar um barnið né barninu um gjafann.
     b.      Í stað orðanna „parið sem fékk“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: þann eða þá sem fengu.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      2.–4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Heimilt er að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun veiti aðeins einn einstaklingur samþykki sitt skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. og sá getur hvorki lagt til egg né sæði vegna skertrar frjósemi, sem og ef tveir einstaklingar veita samþykki sitt skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. og hvorugur getur lagt til egg eða sæði vegna skertrar frjósemi. Þá er ætíð heimilt að nota gjafasæði geti sá eða þeir sem hafa veitt samþykki sitt skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. ekki lagt til sæði. Samþykki tveir einstaklingar tæknifrjóvgun skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. er þeim heimilt að gefa hvor öðrum kynfrumur.
     b.      Í stað orðsins „óheimil“ í 3. mgr. kemur: heimil.

6. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Þá má geyma fósturvísa sem til stendur að gefa.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „væntanlegra foreldra“ í b-lið kemur: þess eða þeirra einstaklinga sem veita samþykki sitt skv. a-lið 1. mgr. 3. gr.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: samþykki skv. a-lið 1. mgr. 3. gr.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2024.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 152. og 153. löggjafarþingi (8. mál). Málið er nú lagt fram að nýju að mestu óbreytt, að undanskildum breytingum sem gerðar voru á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna með lögum nr. 69/2023.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, og á barnalögum, nr. 76/2003. Tillögurnar fela í sér einföldun regluverks kringum tæknifrjóvgun og aukið frelsi og traust til handa tilvonandi foreldrum sem þurfa að nýta sér tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að eignast barn og stofna fjölskyldu. Dregið er úr miðstýringu stjórnvalda þegar kemur að þessum þætti í lífi fólks og aukið svigrúm til að búa til nýtt líf.
    Lagt er til að sambúð eða hjúskapur verði ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingar geti staðið saman að tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að búa til barn. Tæknifrjóvgun eða geymsla og möguleg nýting fósturvísa sem fást með tæknifrjóvgunarferli skal ekki vera háð tilgreindu sambúðarformi þeirra einstaklinga sem standa að tæknifrjóvgun. Frekar skal byggt á upplýstu, skriflegu og vottuðu samþykki beggja einstaklinga gagnvart tæknifrjóvgunarferlinu og geymslu fósturvísa að því loknu eftir atvikum. Gengið er út frá því að foreldrar barns sem getið er með tæknifrjóvgun geti ekki verið fleiri en tveir.
    Einnig er lagt til að gjöf fósturvísa verði heimil, en þó ekki í ábataskyni. Sú heimild byggist á sama grunni og heimild til að gefa kynfrumur til tæknifrjóvgunar þriðja aðila og verði háð upplýstu, skriflegu og vottuðu samþykki gjafans. Ráðherra skal í reglugerð gera betur grein fyrir því hvernig upplýst samþykki hlutaðeigandi í tæknifrjóvgunarferli skuli uppsett og útfært.

Löggjöf í öðrum löndum.
    Við gerð frumvarpsins var löggjöf annarra landa skoðuð þegar kemur að tæknifrjóvgun og þeim skilyrðum sem gerð eru til einstaklinga sem leita þeirrar heilbrigðisþjónustu til að eignast barn.

Bretland.
    Í Bretlandi er ekki gerð krafa í lögum um tæknifrjóvgun að þeir einstaklingar sem standa saman að tæknifrjóvgun séu í sambúð eða hjúskap. Bæði sæðisgjafi og móttakandi þurfa hins vegar að lýsa því yfir að á milli þeirra sé náið líkamlegt samband og er sú yfirlýsing forsenda skilgreiningar á því hvað telst par í skilningi laganna. Í breskri löggjöf byggist ráðstöfun fósturvísa einnig á samþykki hlutaðeigandi og eru ítarlegar kröfur um samþykki vegna ýmissa ráðstafana sem tengjast tæknifrjóvgun og afturköllun þess í lögunum.
    Gjöf fósturvísa er heimil samkvæmt breskum lögum. Þeim sem búa yfir fósturvísi sem ekki er ætlunin að nota standa þrjár leiðir til boða: a) gefa fósturvísinn konu eða pari sem á í frjósemisvanda, b) gefa fósturvísinn til rannsókna og c) gefa fósturvísinn til þjálfunar heilbrigðisstarfsfólks. Þessar leiðir hvíla allar á skýru samþykki þeirra sem eiga í hlut.

Danmörk.
    Í Danmörku er ekki gerð krafa um það í lögum að þeir einstaklingar sem standa að tæknifrjóvgun séu í sambúð eða hjúskap. Löggjafinn hefur í raun eftirlátið fólki að ákveða sjálft hvenær tengsl þeirra við annan einstakling séu slík að þeir teljist par. Ekki eru notuð hugtök í lögunum sem jafna má til hjúskapar eða sambúðar.
    Heimilt er að gefa fósturvísa samkvæmt dönskum lögum, en ekki í ábataskyni. Sú heimild var leidd í lög þar í landi árið 2017. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum kemur fram að markmiðið með breytingu laganna sé að breyta þjónustu heilbrigðiskerfisins hvað varðar meðferð fósturvísa til samræmis við ráðandi viðhorf til þessara mála.

Spánn.
    Á Spáni er þess ekki krafist í lögum að einstaklingar sem standa saman að tæknifrjóvgun séu í sambúð eða hjúskap. Sömuleiðis er þess ekki krafist í lögum að eyða skuli fósturvísum í geymslu ef þeir sem að tæknifrjóvgun stóðu slíta sambandi sínu. Konan eða báðir foreldrar verða að veita upplýst samþykki fyrir notkun fósturvísa sinna hvort sem er til gjafar eða rannsókna. Þá er heimilt að gefa fósturvísa en þó ekki í ábataskyni.

Markmið frumvarpsins.
    Það er mikilvægt að þeir einstaklingar sem leggja þurfa upp í langt, erfitt og kostnaðarsamt ferli tæknifrjóvgunar til að freista þess að eignast barn og stofna fjölskyldu upplifi að umgjörð laganna og reglur um tæknifrjóvgun séu gerðar með hag þeirra fyrir brjósti og að þeim sé treyst fyrir verkefninu.
    Frumvarp þetta miðar að því að fullorðnu fólki skuli treyst til að haga lífi sínu eins og það vill svo fremi að það sé öðrum að skaðlausu. Reglurnar skulu vera eins skýrar og einfaldar og kostur er. Lög og reglur eru fyrir fólk og löggjafinn á ekki að vera hræddur við að endurskoða þær í takt við tímann og auka tækifæri fólks til að stofna fjölskyldu.