Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
2. uppprentun.

Þingskjal 83  —  83. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.


Flm.: Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi Pétursson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Logi Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Björn Leví Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að móta stefnu og aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri með tilliti til vísinda og mennta. Samhliða því markmiði verði stuðlað að bættri heilbrigðisþjónustu á upptökusvæði sjúkrahússins ásamt því að laða að sérhæft heilbrigðisstarfsfólk. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:
     1.      Samstarf við Landspítala og tengdar menntastofnanir verði aukið með það að markmiði að veita Sjúkrahúsinu á Akureyri viðurkenningu á verkefnum tengdum háskólasjúkrahúsi.
     2.      Staða Sjúkrahússins á Akureyri í rannsóknum, þróun og kennslu verði styrkt.
    Starfshópurinn kostnaðargreini og meti ávinning af þeim tillögum sem lagðar eru fram.
    Ráðherra leggi niðurstöður starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 1. september 2024.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi (710. mál) og er nú endurflutt óbreytt. Sjúkrahúsið á Akureyri veitir í dag almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu þar sem áhersla er lögð á bráðaþjónustu og helstu sérgreinameðferðir. Það er annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins og gegnir lykilhlutverki í almannavörnum. Sjúkrahúsið er skilgreint sem kennslusjúkrahús sem veitir bæði annars og þriðja stigs þjónustu. Þar hefur undanfarin ár verið lögð aukin áhersla á kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Þá hefur Sjúkrahúsið á Akureyri fengið alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni, fyrst heilbrigðisstofnana á Íslandi, vottunaraðilinn er alþjóðlega fyrirtækið DNV GL sem er eitt af stærstu fyrirtækjum á þessu sviði í heiminum. Auk þess hlaut Sjúkrahúsið á Akureyri vottun á allri sinni starfsemi samkvæmt ISO 9001:2015 staðlinum vorið 2019 og eftir endurnýjun síðla árs 2021 gildir sú vottun til fyrri parts árs 2025. Þá hefur sjúkrahúsið einnig hlotið vottun samkvæmt upplýsingaöryggisstaðlinum ISO 27001 sem veitt var upphaflega árið 2019 og var endurnýjuð á haustmánuðum 2021. Úttektaraðili er BSI (British Standards Institution) á Íslandi. Staðall þessi rammar inn alla vinnu er varðar stjórnun upplýsingaöryggis á sjúkrahúsinu. Þess utan hlaut sjúkrahúsið jafnlaunavottun ÍST 85:2012 í byrjun árs 2020 og gildir sú vottun í 3 ár en vottunaraðilinn er BSI (British Standards Institution) í Bretlandi.

Efla vísindi og menntun.
    Mönnun fagfólks í heilbrigðiskerfinu verður sífellt meira krefjandi og nauðsynlegt er að leita nýrra leiða við að mennta og þjálfa heilbrigðisstarfsfólk ásamt því að auka tækifæri til náms. Með auknum verkefnum, aukinni vísindastarfsemi og fleiri nemum er líklegra að það gangi betur að laða sérhæfða starfsmenn til Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og veita þannig betri heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Flutningsmenn telja að færa mætti aukin verkefni yfir á Sjúkrahúsið á Akureyri og leggja því til að skipaður verði starfshópur sem hafi það verkefni að móta stefnu og aðgerðaáætlun til þess að ná þeim markmiðum fram. Með aukinni samvinnu við Landspítala (LSH) og viðeigandi menntastofnanir má byggja enn frekar upp öflugt nám á sviði heilbrigðisvísinda á SAk.
    Í dag er í boði fjölbreytt nám í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri sem efla mætti frekar með auknu samstarfi við aðra háskóla. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er starfandi deild mennta og vísinda sem sér um skipulag, umsjón og eftirlit með því sem lýtur að menntun og vísindum þvert á allar starfseiningar sjúkrahússins. Meðal verkefna deildarinnar er að skipuleggja starfsnám háskólanema og framhaldsskólanema í heilbrigðisgreinum auk þess að hafa umsjón með skipulagi sérnámsgrunnslækna, sérnámslækna og annarra nema í sérnámsstöðum. SAk hefur um langt árabil annast starfsnám (klínískt nám) háskólanema í grunnnámi við HA, HÍ og við erlenda háskóla. En auk þess annast það sérnám heilbrigðisstétta að fenginni háskólagráðu í heilbrigðisvísindum. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er mögulegt að ljúka öllum sjúkrahúsmánuðum sérnámsgrunnsársins. Sérnámslæknar í heimilislækningum og meistaranemar í geðhjúkrun geta einnig lokið sjúkrahúshlutanum á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Annað sérnám er skipulagt í samstarfi við LSH. Vísindastarf fer vaxandi og ákveðnir starfsmenn sjúkrahússins, sem uppfylla hæfnikröfur háskóla, gegna störfum prófessora, dósenta og lektora við HA og HÍ. Enn fremur er virkt vísindasamstarf við erlenda háskóla og háskólasjúkrahús.
    Það að efla enn frekar hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri þegar kemur að menntun heilbrigðisstarfsmanna er í samræmi við stjórnarsáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem kynntur var 26. nóvember 2021 en þar segir m.a. í kaflanum um menntamál: „Meta þarf mönnunarþörf til lengri tíma í heilbrigðis- og menntakerfinu og skoða í því samhengi hvort breyta þurfi starfsumhverfi og fyrirkomulagi grunnmenntunar til að mæta „vaxandi þörf til framtíðar, m.a. með hliðsjón af aðstæðum í dreifðum byggðum.“ Þá segir í heilbrigðisstefnu til 2030 að styrkja þurfi hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri til þess að efla hlutverk þess sem kennslusjúkrahús ásamt því að auka samvinnu við Háskólann á Akureyri. „Séríslenskar aðstæður gera það að verkum að leita þarf nýrra leiða við menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks svo unnt sé að manna heilbrigðisþjónustuna út um land. Þær geta meðal annars falið í sér að menntun og þjálfun heilbrigðisstétta verði í auknum mæli flutt til menntastofnana á landsbyggðinni.“

Háskólasjúkrahús?
    Flutningsmenn telja mikilvægt að styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahúss og skoða hvort forsendur séu til staðar til að skilgreina það og viðurkenna hlutverk þess sem háskólasjúkrahúss. Greina þarf hvort aðstaða og innviðir séu til staðar á sjúkrahúsinu til þess að ráðast í aukin verkefni á þessu sviði og hvernig samstarfi við aðrar stofnanir yrði háttað. Á sama tíma stendur íslenskt heilbrigðiskerfi frammi fyrir alvarlegum mönnunarvanda en fyrirséð er að fjölga þurfi verulega starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Á meðan erfitt er að taka á móti fleiri nemum á LSH getur Sjúkrahúsið á Akureyri tekið að sér fleiri nema og stærri verkefni, en svo að það sé mögulegt verður að veita aukið fjármagn til verkefnisins.
    Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er fjallað um í kaflanum „Hugsað til framtíðar“ hvort gera megi breytingar á fyrirkomulagi grunnmenntunar heilbrigðisstarfsfólks til að mæta betur þörfum íslensks heilbrigðiskerfis og skipulagi þjónustunnar um allt land, t.d. með því að taka betur tillit til aðstæðna í dreifðum byggðum. Þar er tekið dæmi um svæðissjúkrahúsið í Tromsö í Noregi sem fékk stöðu háskólasjúkrahúss eftir að háskólinn á svæðinu var settur á fót á grundvelli byggðasjónarmiða. Í skilgreiningu á þriðja stigs heilbrigðisþjónustu segir m.a. að starfsemi háskólasjúkrahúss sé ekki bundin við hús eða byggingar, heldur geti hún farið fram á mörgum stöðum og á fleiri en einni stofnun að uppfylltum þeim skilyrðum sem þarf um háskólasjúkrahús. Flutningsmenn telja mikilvægt að skoðuð verði af fullum þunga öll þau verkefni sem SAk gæti tekið að sér sem falla undir skilgreiningu háskólasjúkrahúss og létt um leið álaginu á LSH. Flutningsmenn eru meðvitaðir um að oft sé verið að vinna með færri sjúklinga á Sjúkrahúsinu á Akureyri en alþjóðaviðmið segja til um varðandi stærð háskólasjúkrahúsa en það eigi einnig við annars staðar á Íslandi þar sem þjóðin er fámenn og umhverfisaðstæður oft óhagstæðar. Í dag eru allar helstu sérgreinar og meðferðir í tengslum við þær á Sjúkrahúsinu á Akureyri, auk þess sem Sjúkrahúsið á Akureyri sinnir meðferðum í flestum undirsérgreinum viðkomandi sérgreina. Nú þegar er til staðar góð samvinna við LSH með þeim hætti að ýmsir sérfræðingar koma að vinnu á Sjúkrahúsinu á Akureyri með tilheyrandi sparnaði á ferðakostnaði fyrir bæði sjúklinga sem og Sjúkratryggingar Íslands. Í því samhengi má einnig nefna að nýlega er hafin starfsemi blóðskilunar sem unnin er í samstarfi við LSH sem sparar bæði fjármagn og ferðalög fyrir sjúklinga.

Styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
    Öflug starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri sem háskólasjúkrahúss leiðir til þess að heilbrigðisþjónusta á Norður- og Austurlandi verður betri en í heilbrigðisstefnu til 2030 er lögð áhersla á bætta þjónustu. Sérfræðingar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fara nú þegar og hitta sjúklinga innan annarra starfsstöðva heilbrigðisstofnana á svæðinu (HSN og HSA) og gæti sú þjónusta aukist enn frekar. Góð og metnaðarfull heilbrigðisþjónusta eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hefur möguleika á að veita í auknum mæli ef rétt er gefið bætir búsetuskilyrði og heilbrigðisþjónustu á svæðum sem sum eiga undir högg að sækja. Flutningsmenn telja ákaflega mikilvægt að styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri til þess að efla starfsemina. Með því að efla og styrkja Sjúkrahúsið á Akureyri er verið að styrkja heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi og með því jafna búsetutækifæri á landsbyggðinni. Ein ástæða þess að fólk flytur úr dreifbýli er að það getur ekki sótt menntun í heimabyggð. Önnur ástæða er að starfstækifæri vantar í heimabyggð. Flutningsmenn telja að með því að auka starfstækifæri í tengslum við styrkingu Sjúkrahússins á Akureyri og efla tækifæri til menntunar og vísinda við Háskólann á Akureyri megi bæði halda fólki á svæðinu sem og laða aðra að. Er þetta í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir m.a. í kaflanum „Við ætlum að fjárfesta í fólki“: „Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Við leggjum því áherslu á að styðja við frjótt umhverfi um allt land, þannig að grónar atvinnugreinar geti dafnað og nýskapandi hugsun laðað fram ný tækifæri. Jafnframt viljum við tryggja að jafnræði ríki í aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntunartækifærum og nýta til þess fjarþjónustu þar sem við á.“ Auk þess segir í kaflanum „Heilbrigðismál“: „Aðgengi allra landsmanna að sérfræðiþjónustu verður bætt í samráði við heilbrigðisstofnanir í öllum umdæmum.“

Kostnaðargreining.
    Hér er um að ræða umfangsmikið verkefni sem telja má við fyrstu sýn að geti aðeins falið í sér verulega kostnaðaraukningu fyrir ríkið. Flutningsmenn telja mikilvægt að við kostnaðargreiningu á þessari vinnu verði ekki einungis litið til fjárhagslegs kostnaðar, heldur einnig til þess sem sparast hjá m.a. Sjúkratryggingum vegna minni ferðakostnaðar. Þá þarf einnig að líta til fleiri þátta líkt og aukinna möguleika til náms, fjölgunar heilbrigðisstarfsmanna, ávinnings af samvinnu, samfélagslegs ávinnings, aukinnar hagkvæmni, betri þjónustu við sjúklinga, aukinna afkasta o.s.frv.