Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
2. uppprentun.

Þingskjal 89  —  89. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fána á byggingum).

Flm.: Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Diljá Mist Einarsdóttir, Óli Björn Kárason, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
Eyjólfur Ármannsson.


1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Tjúgufáninn skal dreginn á stöng alla daga ársins á Alþingishúsinu og Stjórnarráðshúsinu kl. 8 að morgni og vera við hún til kl. 21 að kvöldi. Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. desember 2023.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 148. löggjafarþingi ( 459. mál), 149. löggjafarþingi (31. mál) og 150. löggjafarþingi (325. mál). Í fyrri útgáfum frumvarpsins var einnig kveðið á um að flaggað skyldi með sama hætti við byggingu Hæstaréttar Íslands, embættisbústað forseta Íslands og skrifstofu hans í Reykjavík en gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu með tilliti til athugasemda sem bárust. Með frumvarpinu er lagt til að flaggað verði alla daga ársins frá kl. 8 að morgni til kl. 21 að kvöldi á Alþingishúsinu og Stjórnarráðshúsinu og að fáninn verði lýstur upp í skammdeginu.