Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 91  —  91. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.
1. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tilraun til starfa.

    Örorkulífeyrisþegum og örorkustyrkþegum er heimilt að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær teljist til tekna samkvæmt þessum kafla. Réttur til að starfa án skerðinga vegna atvinnutekna stofnast við tilkynningu einstaklings til Tryggingastofnunar um að hann hyggist nýta þá heimild eða á síðari dagsetningu sem viðkomandi tilgreinir sérstaklega í tilkynningu sinni. Um tilkynningu fer skv. 55. gr.
    Séu heildartekjur einstaklings sem aflar sér tekna, skv. 1. mgr., hærri en meðallaun í viðkomandi starfsstétt skal telja mismuninn til tekna skv. 30. gr. Notast skal við nýjustu upplýsingar frá Hagstofu Íslands við mat á meðallaunum starfsstétta hverju sinni.
    Óheimilt er að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu örorkulífeyrisþega á því tímabili þegar hann nýtir sér heimild til að afla sér atvinnutekna án skerðinga skv. 1. mgr. Við endurmat örorku skal ekki litið til starfsgetu einstaklings á því tímabili sem hann aflar sér tekna, skv. 1. mgr.
    Hafi umsækjandi áður nýtt sér heimild til að afla atvinnutekna án skerðinga getur hann sótt aftur um þá heimild átta árum eftir að tveggja ára tímabili skv. 1. mgr. lauk.

II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
2. gr.

    Á eftir 4. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. skal ekki telja til tekna atvinnutekjur lífeyrisþega undir meðallaunum í viðkomandi starfsstétt á því tímabili þegar hann nýtir sér úrræði 1. mgr. 30. gr. a laga um almannatryggingar. Notast skal við nýjustu upplýsingar frá Hagstofu Íslands við mat á meðallaunum starfsstétta hverju sinni.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

Greinargerð.

    Frumvarpið var áður lagt fram á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi (68. mál) og er nú lagt fram að nýju lítillega breytt. Á fyrri þingum bárust umsagnir um málið frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Umsagnaraðilar lýstu almennt yfir ánægju með frumvarpið.
    Ákvæði gildandi laga um almannatryggingar eru torskilin og gjarnan reynist erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á framkvæmd laganna. Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris vita þó að þeir mega búast við ýmiss konar skerðingum afli þeir sér atvinnutekna. Þá er örorkumat gjarnan veitt tímabundið og margir óttast skerðingu bóta ef heilsu þeirra hrakar eftir að þeir hefja vinnu. Öryrkjar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til að hefja atvinnu á ný. Þvert á móti ættu þeir að eiga von á betri lífskjörum. Því er lagt til að öryrkjum verði veitt sérstök heimild sem þeir geta nýtt sér þegar þeir vilja reyna að hefja störf á ný eða auka starfsgetu sína. Fari svo að sú tilraun heppnist ekki þarf öryrki ekki að óttast frekari skerðingar lífeyrisgreiðslna eða endurmat örorku á grundvelli þeirrar tilraunar. Svipað úrræði skilaði góðum árangri í Svíþjóð. Þar sneru um 30% þátttakenda aftur út á vinnumarkaðinn eftir tilraun til starfa. Samfélagið hefur ríka hagsmuni af því að allir þegnar þess hafi hvata til vinnu og aukinn starfskraftur er samfélaginu til góðs. Ríkissjóður fær skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja og því koma skatttekjur að einhverju leyti á móti auknum greiðslum almannatrygginga. Andleg heilsa batnar gjarnan ef fólk getur tekið virkan þátt í samfélaginu og því er þessi tilhögun til þess fallin að bæta andlega líðan öryrkja og fjölskyldna þeirra.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að ný grein, 30. gr. a, bætist við lög um almannatryggingar sem heimili öryrkjum að sækja um undanþágu frá skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt í tvö ár. Þannig skerðast örorkulífeyrir, aldursviðbót, örorkustyrkur, tekjutrygging og uppbætur á lífeyri skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð ekki vegna atvinnutekna á því tímabili sem öryrki nýtir sér úrræðið. Eftir sem áður skerðast greiðslur vegna annarra tekna viðkomandi á tímabilinu. Ákveðin efri mörk eru þó á úrræðinu og miðast þau við meðallaun í viðkomandi starfsstétt. Ef atvinnutekjur öryrkja verða umfram meðallaun telst mismunurinn til tekna eftir þeim reglum sem fram koma í 30. gr. laganna. Svo að úrræðið hvetji til aukinnar atvinnuþátttöku er í 3. mgr. kveðið á um að ekki megi líta til atvinnuþátttöku á meðan öryrki nýtti sér úrræðið þegar örorka er metin að nýju og að jafnframt sé óheimilt að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu á því tímabili er öryrki nýtti sér úrræðið. Því þarf einstaklingur sem gerir tilraun til starfa ekki að hafa áhyggjur af því að tímabundið aukin atvinnuþátttaka kunni að leiða til réttindamissis ef honum hrakar og hann þarf að draga úr vinnu. Í 4. mgr. er kveðið á um hvenær megi nýta sér úrræðið aftur og er lagt til að slíkt verði heimilt að liðnum átta árum frá síðustu tilraun til starfa.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er lögð til breyting á 9. gr. laga um félagslega aðstoð til að tryggja að uppbætur á lífeyri skv. 9. gr. laganna skerðist ekki vegna atvinnutekna öryrkja sem gerir tilraun til starfa.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.