Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 97  —  97. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skráningu menningarminja.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Bjarni Jónsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að gera stórátak í skráningu menningarminja, annars vegar minja sem eru í hættu vegna loftslagsbreytinga eða annarrar náttúruvár, svo sem vegna landbrots, og hins vegar menningarminja almennt.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi (218. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Fjórar umsagnir bárust um tillöguna, frá Félagi fornleifafræðinga, Minjastofnun Íslands, Samtökum iðnaðarins og Þjóðminjasafni Íslands.
    Minjavernd er hverju samfélagi mikilvæg. Ísland geymir miklar menningar- og náttúruminjar sem brýnt er að rannsaka og skrá með faglegum hætti. Á vef Minjastofnunar kemur fram að menningarminjar teljist ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, sögustaðir, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Minjastofnun fer með málefni menningarminja, en þó einungis takmarkað í tilfelli gripa (sem eru að mestu leyti á ábyrgð Þjóðminjasafns Íslands), skjala og mynda (sem eru að mestu leyti á ábyrgð Þjóðminjasafns Íslands og/eða Þjóðskjalasafns Íslands).
    Mikilvægt er að efla og auka skráningu á fornleifum og menningarminjum og efla alla minjavernd, ekki síst þar sem merkar minjar eru í hættu, t.d. vegna loftslagsbreytinga eða náttúruvár, svo sem landbrots. Mikill fjöldi minja um allt land er í stórhættu vegna sjávarrofs. Þær minjar sem ekki síst eru í hættu eru minjar um sjávarútveg og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld. Um er að ræða gríðarlegt magn ómetanlegra menningarverðmæta sem eru nær órannsökuð og munu að óbreyttu hverfa í sjóinn vegna ágangs náttúruaflanna. Landbrot er víða mikið og fer vaxandi vegna loftslagsbreytinga.
    Einnig er nauðsynlegt að efla skráningu menningarminja almennt. Fornminjasjóður gegnir þar mikilvægu hlutverki. Fornleifarannsóknir eru stór þáttur í því að efla þekkingu þjóðarinnar á dýrmætri menningararfleifð. Mikil tækifæri felast í minjavernd; tækifæri sem eru í senn mikilvæg fyrir menningar- og náttúrusögu landsins. Svæði með menningarminjum geta orðið að eftirsóknarverðum áfangastöðum um land allt eins og dæmi á friðlýstum svæðum sanna.
    Í 21. gr. laga nr. 80/2012, um menningarminjar, kemur skýrt fram að enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, megi breyta, hylja, granda, spilla, laga eða aflaga, né flytja úr stað fornleifar nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Þá segir þar einnig að ef nauðsyn krefur láti Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.
    Forsenda þess að geta verndað fornleifar og koma í veg fyrir að framkvæmdaraðilar brjóti óafvitandi lög með því að skemma fornleifar er að hafa vitneskju um staðsetningu og tilvist fornleifanna. Til að svo verði er nauðsynlegt að auka rannsóknir á menningarminjum og vitneskju um þær.
    Með þingsályktunartillögu þessari er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra falið að sjá til þess að stórátak verði gert í skráningu menningarminja.
    Líkt og áður segir bárust fjórar umsagnir um málið. Í umsögn frá Samtökum iðnaðarins kemur fram að samtökin leggist ekki gegn tillögunni en þau benda á að dæmi þess að ferli við varðveislu menningarminja geti gert fyrirtæki í mannvirkjagerð erfitt fyrir með tilliti til tafa sem hafi í för með sér aukinn kostnað við framkvæmd verkefna. Samtökin telja efni þingsályktunartillögunnar þó heilt yfir jákvætt en ítreka mikilvægi þess að vandað sé til verka.
    Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun Íslands og Félag fornleifafræðinga fagna tillögunni. Minjastofnun Íslands bendir á að rík ástæða sé til þess að skráning menningarminja nái einnig til mannvirkja og húsa, auk þess sem fram kemur að hún telur að verkefnið eigi best heima hjá stofnuninni því að þar sé til staðar mikil reynsla af bæði fornleifaskráningu og húsa- og mannvirkjaskráningu auk þekkingar á því hvaða svæði og hvaða tegundir minja ættu að njóta forgangs með tilliti til náttúruvár.
    Félag fornleifafræðinga bendir á að vísindaleg fornleifafræði sé ung grein á Íslandi og hér skorti grunnrannsóknir og gögn sem aðrar þjóðir eigi til. Þá bendir félagið á að samkvæmt tillögunni sé ekki ljóst hvernig umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eigi að úthluta fjármagni því sem stórátak í skráningu menningarminja myndi fela í sér. Félagið leggur áherslu á að skýra verði þann hluta tillögunnar til að tryggja sem mest gæði gagna sem aflað er á vettvangi, það styðji við markmið tillögunnar. Flutningsmenn telja einboðið að með stórátaki í skráningu menningarminja sem samþykkt þingsályktunartillögunnar felur í sér vinni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti á faglegum forsendum.