Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 118  —  118. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993 (launaþróun).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Fjárhæðir bóta, sem greindar eru í 3. gr., 4. gr., 3. og 4. mgr. 7. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 13. gr., breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á launavísitölu frá gildistöku laganna.

2. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við launavísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (131,3) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á 151., 152. og 153. löggjafarþingi (58. mál) og er nú lagt fram að nýju. Efni þess á rætur að rekja til frumvarps sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi (430. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Ein umsögn barst um frumvarpið á 153. löggjafarþingi, frá Alþýðusambandi Íslands, sem lýsti yfir stuðningi við frumvarpið og sagði það stuðla að því meginmarkmiði skaðabótalaga að gera tjónþola eins setta og þeir voru fyrir tjón. Efni frumvarpsins er að mestu óbreytt, en þó er gerð breyting á 1. gr. frumvarpsins, þar sem nú er lagt til að í 15. gr. skaðabótalaga verði vísað til 4. mgr. 7. gr. sömu laga, til viðbótar við þær greinar sem hún fjallar þegar um, sbr. umfjöllun hér að neðan.
    Bótafjárhæðir skaðabótalaga breytast í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu en sú vísitala er lítið notuð við útreikning á verðlagi. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í verðlagsmælingum verður að teljast brýn þörf á að lögum um skaðabætur verði breytt svo að fjárhæðir þeirra taki breytingum í hlutfalli við breytingar á þeim mælikvörðum sem almennt eru notaðir við mat á verðlagi. Þar koma helst tveir mælikvarðar til skoðunar, annars vegar vísitala neysluverðs og hins vegar launavísitala. Tilgangur skaðabóta er að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og miða skaðabótalögin við árslaun í því sambandi, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. laganna. Þegar örorka tjónþola er metin til frambúðar er aðallega horft til þess hvaða áhrif örorka hefur á getu hans til að afla tekna. Því er ástæða til að miða við launavísitölu þegar fjárhæðir skaðabóta eru ákvarðaðar til frambúðar. Þegar er miðað við launavísitölu þegar árslaun eru ákvörðuð almennt, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en lágmarkslaun þróast til samræmis við lánskjaravísitölu og ekki er tiltekið í 15. gr. skaðabótalaga hvort hámarkslaun skuli taka breytingum til samræmis við verðlagsþróun. Þess ber að geta að í apríl 1995 var hætt að nota lánskjaravísitölu til þess að verðtryggja nýjar fjárskuldbindingar og vísitala neysluverðs notuð þess í stað til verðtryggingar.
    Lánskjaravísitalan stóð í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga, árið 1993, en stóð í 11.760 stigum í ágúst 2023. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 258% frá gildistöku þeirra. Í dag er lágmarksviðmið árslauna fyrir 66 ára og yngri 4.300.000 kr. og 1.433.500 kr. fyrir 74 ára og eldri, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. Þær fjárhæðir eru talsvert lægri en lægstu launakjör á almennum vinnumarkaði. Launavísitalan stóð í 131,3 stigum við gildistöku skaðabótalaga en stóð í 949,7 stigum í júní 2023 og hefur því hækkað um 623%, talsvert meira en lánskjaravísitalan á sama tímabili. Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita fólki sem verður fyrir líkamstjóni og hefur ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru m.a. ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar.
    Þessir hópar njóta því ekki sömu verndar og skaðabótalögin tryggðu fólki við gildistöku. Ef fjárhæðir laganna eru uppfærðar til samræmis við launavísitölu hækkar lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna fyrir 66 ára og yngri úr 4.300.000 kr. í 8.679.500 kr. Fyrir 74 ára og eldri myndi lágmarksviðmið hækka úr 1.433.500 kr. í 2.893.000 kr. Þessar tölur sýna að lágmarksvernd laganna hefur minnkað verulega undanfarna áratugi með tilliti til launaþróunar og að lögin bæta ekki skert aflahæfi tjónþola að fullu þegar lágmarksviðmiðin endurspegla ekki launaþróun í samfélaginu. Ef markmiðið er að bæta upp skert aflahæfi tjónþola verður að tengja fjárhæðir laganna við launaþróun.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna þess efnis að framvegis muni fjárhæðir þeirra lagaákvæða sem þar eru tilgreind þróast til samræmis við breytingar á launavísitölu. Jafnframt er lagt til að árétta að hámarksviðmið árslauna skuli einnig taka breytingum til samræmis við launaþróun, en sú málsgrein laganna sem fjallar um hámarksviðmið árslauna er ekki tiltekin í 15. gr. að því er virðist fyrir mistök við lagabreytingar árið 1999. Í 2. gr. frumvarpsins er áréttað að fjárhæðir laganna skuli breytast til samræmis við launavísitölu eins og hún var ákvörðuð við gildistöku skaðabótalaganna, og er því um að ræða sama viðmið, hvað dagsetningu varðar, og í gildandi lögum.
    Verði frumvarp þetta samþykkt yrðu ákvæði skaðabótalaga til þess fallin að veita þeim sem hafa lágar tekjur sambærilega vernd og þau gerðu við gildistöku laganna.