Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 120  —  120. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins.


Flm.: Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Ásmundur Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Eyjólfur Ármannsson.


Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta framtíðarstefnu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfs Íslendinga.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi (958. mál) og er lagt fram óbreytt.
    Verndun og varðveisla skipa og báta er hluti af alþýðumenningu og atvinnusögu Íslendinga. Um er að ræða gríðarlegt magn ómetanlegra menningarverðmæta úr sjávarútvegi og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld. Markmið þessarar tillögu er að komið verði reiðu á varðveislu og björgun þessa menningararfs. Fjöldi þingmannamála og fyrirspurna síðustu ár bendir til þess að áhugi sé á málaflokknum enda um fágætar menningarminjar að ræða sem víða liggja undir skemmdum en fjölda þeirra hefur þegar verið fargað. Þrátt fyrir brýnt erindi og áhuga hefur lítið áunnist í málaflokknum og víst að svo verði á meðan ekki kemur til skýr stefnumörkun, heildarsýn og raunhæf markmið stjórnvalda.
    Um málaflokkinn gilda lög um menningarminjar, nr. 80/2012. Skv. 2. mgr. 1. gr. laganna teljast skip og bátar menningarminjar. Í 3. mgr. sömu greinar segir að tryggja eigi eftir föngum varðveislu menningarminja. Skv. 3. gr. laganna teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 til forngripa og skipsflök og hlutar þeirra til fornleifa. Þá hefur fornminjasjóður heimild til þess að „veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja“ skv. 42. gr. Þá njóta skip og bátar byggðir fyrir 1950 friðunar. Þrátt fyrir gildandi lög hefur verið óljóst hver ber ábyrgð á varðveislu þessara minja. Jafnframt hefur lítið af fjármunum runnið til verkefna þar að lútandi en frá gildistöku laganna hafa á bilinu eitt til þrjú verkefni sem snúa að varðveislu skipa og báta hlotið styrki úr fornminjasjóði sem skipa- og bátaarfurinn heyrir undir. Úthlutunarfjárhæðir til slíkra verkefna hafa verið rúm 4% af heildarúthlutunum hvers árs. Sjóðurinn er annar tveggja sjóða Minjastofnunar og veitir meginþorra styrkja sinna til verkefna tengdra fornleifarannsóknum og varðveislu jarðfundinna gripa og rannsókna. Á árinu 2022 veitti fornminjasjóður 33 styrki upp á samtals 66.750.000 kr. Hlutu fjögur verkefni vegna uppgerðar skipa og báta styrki, voru það verkefnin Endurbyggjum Bryndísi, 2,5 millj. kr., Viðgerð og uppgerð Sumarliða, 1,67 millj. kr., Vigurbreiður, 1,35 millj. kr., og Eljan frá Nesi, 900.000 kr. Til samanburðar veitti hinn sjóður Minjastofnunar, húsafriðunarsjóður, 242 styrki upp á samtals 300.000.000 kr. Mikilvægt er að standa vel að skráningu menningarminja almennt. Fornminjasjóður gegnir þar veigamiklu hlutverki enda fornleifarannsóknir lykilþáttur í að efla þekkingu þjóðarinnar á dýrmætri menningararfleifð sinni til sjávar og sveita. Það eru því aðeins 10 ár frá því að ákvæði um fjárveitingar til skipaverndar rötuðu í íslensk lög með tilkomu laga nr. 80/2012 og tilurð fornminjasjóðs.
    Þrátt fyrir að bátar teljist menningarminjar, forngripir og fornminjar í augum laganna hefur ekki tekist að koma á fyrirkomulagi sem tryggir vernd þeirra og björgun. Viðhald og björgun bátaarfsins hefur af þeim sökum verið í höndum einstaklinga og áhugasamtaka. Þá hefur borið á því að einstaka verkefni hljóti styrki fyrir tilstilli slíkra félaga og ötullar baráttu einstaklinga í þágu þeirra. Nýlegt dæmi um slíkt eru fjármunir sem úthlutað var vegna uppgerðar Maríu Júlíu, fyrsta varð- og hafrannsóknaskips Íslendinga. Sömuleiðis má benda á að eini kútterinn sem ber nafn með rentu, kútter Sigurfari, ber helst merki þeirrar stöðu sem uppi er í málaflokknum en fátt annað kemur til álita en að farga þessu fornfræga flaggskipi endurgerðar á Íslandi. Í Færeyjum eru þrjú skip á pari við kútter Sigurfara uppgerð og á floti og það fjórða í endurgerð. Í samanburði sést að við, fiskveiðiþjóðin Ísland, verðum að bera meiri virðingu fyrir þessum menningararfi og hlúa að honum svo sómi sé að. Telja má víst að án aðkomu þeirra sem hafa látið sig skipa- og bátaarfinn varða hefði mun fleiri skipum og bátum verið eytt. Dæmi um starf í þágu þessa mikla menningararfs er fornbátaskrá 1 Sambands íslenskra sjóminjasafna. Þar er að finna skilmerkilega skráningu rúmlega 190 fornbáta ásamt leiðarvísi um mat á varðveislugildi þeirra. Vert að taka fram að fornbátaskrá nær einvörðungu til báta í eigu safna, setra og sýninga, sem og skipa á skipaskrá sem eru smíðuð fyrir 1950, en talsverður fjöldi skipa og báta var ekki skráður. Á það til að mynda við um súðbyrðinga og önnur minni fley í eigu einstaklinga og áhugafélaga. Æskilegt væri að gera sambærilega úttekt vegna menningarminja sem sæta slíku eignarhaldi.
    Árið 2021 komst handverk sem notað er við gerð súðbyrðinga á heimsminjaskrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Bæði bátasmíði og handverk eru talin í hættu, en bæði hefur bátum fækkað og handverksmönnum. Súðbyrðingar eru norræn gerð báta sem nýttir hafa verið til sjósóknar á Norðurlöndum í rúm 2000 ár. Viðurkenning UNESCO er þýðingarmikil og minnir á að menningararf beri að varðveita fyrir ókomnar kynslóðir. Ábyrgð okkar sem þjóðar er því ekki aðeins gagnvart eigin sögu og komandi kynslóðum heldur heimsbyggðinni allri. Undir þetta hafa íslensk stjórnvöld skrifað og knýr það enn frekar á um að mótuð verði fjármögnuð framtíðarstefna fyrir málaflokkinn.

Fjármögnun varðveislu og endurgerðar skipa og báta á Norðurlöndum.
    Margt er sammerkt með menningararfi Íslands og annarra Norðurlanda og mikilvægt að hafa í huga hvernig fyrirkomulag fjármögnunar varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfs er í nágrannalöndum okkar.
    Í Noregi er skipa- og bátavernd á verksviði þjóðminjavarðar 2 Noregs og ákvæði um þetta verksvið minjaverndar eru í norskum lögum um menningarminjar 3 og enn fremur í reglugerð 4 um fjárveitingar til verndar friðuðum skipum og bátum. Skv. 3. gr. reglugerðarinnar má veita fé til verndar, viðhalds og endurbyggingar friðaðra báta og skipa í eigu einstaklinga, samtaka og félaga. Það er skilyrði fyrir fjárveitingu að fyrir liggi ástandsúttekt og áætlun um viðhalds- og endurbyggingaraðgerðirnar sem ætlunin er að ráðast í. Þessi áætlun þarf að hljóta samþykki stjórnsýslustofnunar um vernd menningarumhverfis. 5 Nýjustu upplýsingar á heimasíðu þjóðminjavarðar Noregs 6 um fjárveitingar til skipa- og bátaverndar eru frá 2020 en það ár var úthlutað rúmum 63 milljónum norskra króna, á bilinu 800–850 millj. kr., til slíkra verkefna. Voru það um 23% af því fé sem sótt var um í heildina.
    Sjóður til verndar menningarminjum 7 fær árlega fjárveitingu á fjárlögum norska ríkisins og úthlutar því fé einkum til verndar og viðhalds menningarminja í eigu einstaklinga sem enn eru notaðar, svo sem húsa sem enn er búið í eða notuð eru undir einhverja starfsemi. Sjóðurinn veitir fé til viðhalds báta og skipa, en í fremur litlum mæli, og einkum til verkefna af því tagi sem þjóðminjavörður getur ekki úthlutað fé til. Hann veitir hins vegar oft fé til viðhalds og endurbyggingar á norskum naustum og sjóhúsum sem eru einkennandi fyrir landið. Þá veita ýmis sveitarfélög og fylki einnig fé til viðhalds skipa og báta og setja þá eigin reglur um þær fjárveitingar.
    Í Danmörku er starfandi skipaverndarsjóður 8 og hefur verið frá 1986. Að sjóðnum stendur Træskibs Sammenslutningen, 9 félagsskapur einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og annarra aðila sem vinna að varðveislu skipa og báta í Danmörku, Þjóðminjasafn Danmerkur og Sjóminjasafn Danmerkur. Sjóðurinn var stofnaður fyrir atbeina menningarmálaráðuneytis Danmerkur sem gegnir eftirlitshlutverki gagnvart störfum hans en á þó ekki fulltrúa í sjóðstjórn. Skipaverndarsjóðurinn er eini sjóður landsins sem ekki hefur annað hlutverk en að veita fé til viðhalds og verndunar gamalla skipa og sinnir samhliða og ráðgjafar- og eftirlitshlutverki vegna málaflokkins. Sjóðurinn leitar eftir framlögum einstaklinga og fyrirtækja og hefur einnig fengið fjárveitingar á fjárlögum, sem og fjármuni vegna tekna af getraunum 10 sem úthlutað er af menningarmálaráðuneyti Danmerkur. Tryggir það fé árlegan rekstur sjóðsins. Fjárveitingar á fjárlögum hafa verið misháar milli ára sem haft hefur áhrif á starf sjóðsins, en þess er getið í ársskýrslum sjóðsins síðustu ár. Í skýrslu 11 skipaverndarsjóðsins fyrir starfsárið 2019–2020 er skorað á Fólksþingið, þjóðþing Dana, að styrkja enn frekar fjárhagslegan grundvöll sjóðsins. Samkvæmt því sem segir í ársskýrslu skipaverndarsjóðsins fyrir starfsárið 2020–2021 voru umsóknir um lán úr sjóðnum þá að upphæð 13.805.179 danskra króna en lánveitingar námu 3.505.470 danskra króna, eða um 70.000.000 íslenskra króna. Þá er rétt að geta þess að dönsku safnalögin 12 eiga við um varðveislu skipa- og bátaarfsins þar í landi.
    Í Færeyjum gilda lög um menningarsöguleg skip 13 og reglugerð 14 um vernd skipa- og bátaarfsins. Samkvæmt lögunum eru skip á stærðarbilinu 5–300 brúttólestir sem eru eldri en 50 ára og uppfylla tiltekin skilyrði talin hafa menningarsögulegt gildi. Þjóðminjasafn Færeyja metur hvort skip sé varðveisluvert og ef svo er skal gera fyrir það verndaráætlun sem lýsir því með hvaða hætti eigi að varðveita skipið, hversu mikill kostnaður við það er talinn verða og tímasetta áætlun um nauðsynlegar aðgerðir til að koma skipinu í stand. Er við það miðað að unnt sé að sjósetja og sigla skipum sem teljast hafa menningarsögulegt gildi. Í aðdraganda þess að lög um menningarsöguleg skip voru sett var árið 2011 gerð ítarleg skýrsla 15 fyrir færeyska menntamálaráðuneytið sem ber heitið „Álit um verndar- og stuðulsskipan til mentanarsøgulig skip.“ Þar er fjallað um varðveislu skipa í nágrannalöndum Færeyja eins og þeim málum var þá háttað, þó ekki á Íslandi, enda voru ekki ákvæði um fjárveitingar til skipaverndar í íslenskum lögum á þeim tíma. Félög, samtök og einkaaðilar geta átt menningarsögulega varðveisluverð skip og geta sótt um styrk til að halda þeim við og halda þeim úti hjá Þjóðminjasafni Færeyja. Mun meiri hluta árlegrar styrkupphæðar vera varið til skipareksturs. Í Færeyjum starfar félag um tréseglskip (f. Felagið Føroysk Træseglskip) sem stofnað var árið 2009. Félagið hefur hlotið fjárveitingu á fjárlögum undanfarin ár.
    Í Svíþjóð er sérstök ríkisstofnun 16 sem hefur umsjón með skipa- og bátavernd samkvæmt reglugerð 17 þar um sem byggist á sænskum lögum um minjavernd. Ár hvert er fé veitt úr ríkissjóði Svíþjóðar til viðhalds og varðveislu skipa og báta sem teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi. Sérstakur flokkur er í skipaskrá fyrir slík fley. Sjóminjasafnið í Stokkhólmi annast verkefnið samkvæmt reglugerð 18 um þessar úthlutanir, en styrkurinn er aðeins til viðhalds og varðveislu skipa og báta, ekki til rekstrar líkt og í Færeyjum. Þá veitir safnastofnun Finnlands á hverju ári fé til viðhalds og verndunar á farartækjum, bátum og skipum þar á meðal. Farartækið skal vera a.m.k. 50 ára og smíðað í Finnlandi eða hafa verið í notkun í Finnlandi í a.m.k. 50 ár. Safnastofnunin heldur skrá um skip sem teljast hafa varðveislugildi og mun hafa gert það frá 1994.

Lokaorð.
    Saga okkar skipar mikilvægan sess í sjálfsmynd þjóðarinnar. Skip og bátar sem minna á atvinnusögu og alþýðumenningu eru menningararfur með mikla sögu og aðdráttarafl. Mikil tækifæri felast í vernd slíkra minja. Skip og bátar geta öðlast nýtt hlutverk í samstarfi opinberra aðila og einkaaðila og geta prýtt söfn og hafnir og orðið að eftirsóknarverðum áfangastöðum um land allt. Þau geta nýst í ferðaþjónustu, til rannsókna og til að viðhalda þekkingu á handverki við gerð þeirra, ekki ólíkt því sem við á um uppgerð húsa. Það er ljóst að vandinn er uppsafnaður og margar árangurslausar tilraunir hafa verið gerðar á síðustu áratugum til þess að koma skipulagi á þessar menningarminjar. Mikilvægt er að komið verði á fyrirkomulagi sem tryggir að hið opinbera uppfylli lögbundnar skyldur sínar um verndun þessa mikilvæga menningararfs. Mikilvægt er að hið opinbera stígi inn af ábyrgð og myndarbrag. Með því að fela ríkisstjórninni að móta framtíðarstefnu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins er fyrsta skrefið stigið í átt að því að koma á fyrirkomulagi sem skipar mikilvægum menningararfi sinn sess.

1     batasmidi.is/files/
2     www.riksantikvaren.no/
3     lovdata.no/dokument/NL/lov/1978-06-09-50/KAPITTEL_4
4     lovdata.no/dokument/SF/forskrift/2021-08-13-2511
5     www.riksantikvaren.no/om-kulturminneforvaltningen/
6     www.riksantikvaren.no/siste-nytt/pressemeldinger/tilskot-til-fartoy-i-202
7     kulturminnefondet.no/
8     skibsbevaringsfonden.dk/om-fonden/formaal-og-vision/
9     www.ts-skib.dk/
10     www.udlodningsmidler.dk/index.php?id=24940
11     skibsbevaringsfonden.dk/wp-content/uploads/2020/12/SBF-Årsberetning-2019-20_web.pdf
12     www.retsinformation.dk/eli/lta/2014/358
13     www.logir.fo/Logtingslog/14-fra-28-02-2013-um-mentanarsogulig-skip
14     www.logir.fo/Kunngerd/107-fra-13-08-2013-um-atekning-og-studul-til-mentanarsogulig-skip
15     d3b1dqw2kzexi.cloudfront.net/media/2680/%C3%A1lit_mentanars%C3%B8gulig_skip-2.pdf
16     www.smtm.se/
17     www.riksdagen.se/sv/dokument-lagar/dokument/svensk-forfattningssamling/forordning-20071198-me d-instruktion-for_sfs-2007-1198
18     www.riksdagen.se/sv/dokument-lagar/dokument/svensk-forfattningssamling/forordning-20111565-om -statsbidrag-till_sfs-2011-1565