Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 125  —  125. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.


Flm.: Bjarni Jónsson, Bergþór Ólason.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að hlutast til um að gerð verði fjölþætt hagkvæmnisathugun á uppbyggingu þess hluta stofnvegar nr. 54 sem kallast Skógarstrandarvegur og er á norðanverðu Snæfellsnesi, milli Búðardals og Stykkishólms, sem heilsársvegar. Mikilvægt er að athugunin taki til byggðasjónarmiða og samfélagslegra áhrifa þess að efla samgöngur á milli byggðarlaga á norðanverðu Snæfellsnesi, um Dali, í Reykhólasveit, sunnanverða Vestfirði og norður á Strandir. Sérstaklega skal litið til styrkingar svæðisins sem eins atvinnu- og þjónustusvæðis, sem og áhrifa á uppbyggingu ferðaþjónustu og vegaöryggis. Ráðherra leggi niðurstöður hagkvæmnisathugunarinnar fyrir Alþingi ásamt kostnaðaráætlun vegna uppbyggingarinnar í síðasta lagi 15. júlí 2024.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga var upphaflega flutt af fyrsta flutningsmanni á 148. löggjafarþingi (169. mál) en varð ekki afgreidd. Þá var hún lögð fram á 150. og 151. löggjafarþingi (259. mál) og var Sigurður Páll Jónsson fyrsti flutningsmaður í bæði skiptin. Þá flutti Bjarni Jónsson tillöguna að nýju á 152. þingi og á 153. þingi (84. mál). Málið fór í gegnum fyrri umræðu og bárust tvær umsagnir við málið, frá Dalabyggð og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Umsagnaraðilar ítreka fyrri afstöðu sína en þau sjónarmið sem þar koma fram eru tíunduð í þessari greinargerð. Mikilvægi vegarkaflans er undirstrikað í samgönguáætlun Vesturlands sem samþykkt var af öllum sveitarfélögum í landshlutanum árið 2021, en þar er lögð rík áhersla á uppbyggingu vegarins um Skógarströnd eins og fram kemur í umsögn SSV. Þá er vert að minnast á umsögn Háskólans á Bifröst frá 152. þingi en þar er bent á mikilvægi Skógarstrandarvegar sem umferðaræðar á milli háskólans og Snæfellsness. Í umsögninni segir m.a. að fjarnám og endurmenntun styðjist við staðarlotur þar sem nemendur koma á Bifröst að vetrarlagi og brýnt að vegasamgöngur séu með besta móti. Þá er vísað til þess að hótelrekstur er á Bifröst og myndi malbikaður vegur styðja við þá starfsemi, um Snæfellsnes, inn í dali og yfir í Borgarfjörð.
    Mál þetta hefur hingað til ekki hlotið afgreiðslu og þar sem ástand á stórum hluta Skógarstrandarvegar er enn áþekkt því sem var er það var fyrst flutt og áætlanir gera ekki ráð fyrir endurbótum í bráð er tillagan endurflutt nú óbreytt, enda má ætla að sú hagkvæmnisathugun sem lögð er til verði til þess að treysta forsendur ákvörðunar um skjótari aðgerðir við uppbyggingu Skógarstrandarvegar en nú eru áformaðar.
    Skógarstrandarvegur er einn fárra stofnvega á landinu sem ekki hefur verið lagður bundnu slitlagi og sýna gögn að slysatíðni á veginum sé í senn há og vaxandi. Rannsókn sem gerð var á slysatíðni á vegum á árunum 2007–2010 undir stjórn Þórodds Bjarnasonar leiddi í ljós að Skógarstrandarvegur var einn þriggja hættulegustu vegarkafla landsins. Í umsögn SSV segir frá úttekt sem Ólafur Guðmundsson ráðgjafi í umferðaröryggismálum vann fyrir samtökin á árinu 2019 en þar kom m.a. fram að umferð um Snæfellsnesveg 54 hefur aukist verulega. Frá 2013 til 2018 jókst umferð yfir sumartímann úr 1654 bifreiðum í 2566 á dag og má leiða að því líkur að umferðaraukning á Skógarströnd sé hlutfallslega sú sama. Slysatíðni hefur einnig hækkað umtalsvert, en flest slysa á Skógarstrandarvegi hafa haft í för með sér eignatjón en minna er um alvarleg slys sem valda miklum skaða á fólki. Ekki er ástæða til að ætla að þetta hafi breyst til batnaðar þar sem fréttir af umferðaróhöppum á þessum vegi eru tíðar, enda ástand hans bágborið og ljóst að hann stendur engan veginn undir þeirri umferð sem um hann fer né þjónar hann því hlutverki sínu að mynda greið tengsl milli byggðra bóla þar sem hann liggur.
    Í þingsályktun nr. 41/150 um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 kemur fram að áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir á Skógarstrandarvegi á gildistíma áætlunarinnar sé 4 milljarðar kr. Er gert ráð fyrir því að á fyrsta tímabili (2020–2024) fari 100 millj. kr. í framkvæmdir við veginn, 850 millj. kr. á 2. tímabili áætlunarinnar (2025–2029) og á 3. tímabili (2030–2034) 3,1 milljarður kr. Ekki liggur fyrir hvenær áætlað er að verkinu verði lokið en samgönguáætlunin ber það með sér að það verður í það minnsta ekki á næstu 15 árum. Svo löng bið eftir nauðsynlegum úrbótum á veginum er ótæk og mikilvægt að fjármögnun framkvæmdarinnar verði tryggð fyrr.
    Að vonum vöktu hlutaðeigandi sveitarfélög athygli á því í umsögnum sínum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2020–2034 (435. mál á 150. löggjafarþingi), sem aðgengilegar eru á vef Alþingis, hve afleitt það er að mikilvægur stofnvegur sem Skógarstrandarvegur skuli mæta afgangi við úthlutun fjár til vegaframkvæmda á næstu árum, má þar nefna umsögn Dalabyggðar frá 10. janúar 2020, umsögn Stykkishólmsbæjar 12. desember 2019 og umsögn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi frá 9. janúar 2020. Skal heils hugar tekið undir þessar ábendingar forvígismanna sveitarfélaganna.
    Brýnt er að hrinda áformum um uppbyggingu Skógarstrandarvegar í framkvæmd eins fljótt og nokkur kostur er á svo hann verði ekki lengur slysagildra og fái gegnt samgönguhlutverki sínu. Sporin hræða þegar horft er til staðreynda undanfarinna ára hvað varðar eftirfylgni á samþykktum samgönguáætlunum. Með eflingu samgangna um norðanvert Snæfellsnes og innanverðan Breiðafjörð opnast nýir möguleikar til margvíslegs samstarfs og bættrar þjónustu, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum. Eins og staðan er nú þurfa íbúar þessara byggðarlaga sem tengd verða saman með uppbyggðum heilsársvegi um Skógarströnd oftast að ferðast um langan veg til að komast á milli svæða, þótt vissulega sé hægt að komast um illfæran veginn hluta ársins.
    Þessar byggðir eiga sumar hverjar í vök að verjast í atvinnu- og byggðarlegu tilliti. Þegar horft er til aukinnar ferðaþjónustu er svæðið auðugt af fjölbreyttum náttúrufyrirbrigðum, sögu og menningarhefðum sem gætu staðið undir uppbyggingu ferðaþjónustu ef greiðar samgöngur væru fyrir hendi. Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að stuðla að uppbyggingu þessa mikilvæga samgöngumannvirkis eins fljótt og unnt er. Það gerist ekki síst með því að skoða gaumgæfilega og sýna fram á hve mikla þýðingu slíkar samgöngubætur hafa og draga fram sterkari forsendur fyrir því að hraða uppbyggingu þessara vega. Í umsögn Dalabyggðar er vakin athygli á verkefninu „Vestfjarðaleið“ þar sem Dalabyggð er hluti af nýrri ferðaleið. Í samtölum ferðaþjónustu- og fólksflutningafyrirtækja kemur reglulega fram að ástand Skógarstrandarvegar komi í veg fyrir akstur um svæðið vegna slæmra áhrifa á bifreiðar og eru dæmi um að einstaka ferðaþjónustuaðilar hafi bannað fararstjórum og/eða bílstjórum að aka með hópa um Skógarstrandarveg nú í sumar.
    Skógarstrandarvegur er stofnvegur en þeir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni, en þar segir m.a. um stofnvegi „til stofnvega teljast vegir sem tengja saman byggðir landsins. Við það vegakerfi sem þannig fæst skal tengja þéttbýlisstaði með um það bil 100 íbúa eða fleiri.“ Þessar áherslur koma heim og saman við sýn flutningsmanna og umsagnaraðila nú sem áður.