Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 126  —  126. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.


Flm.: Bjarni Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Jódís Skúladóttir.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að efla félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins með aukinni hlutdeild í heildarafla og með endurskoðun á skiptingu aflamagns innan kerfisins og á hlutverki hverrar aðgerðar innan þess.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er nú lögð fram öðru sinni en hún var fyrst lögð fram á 153. löggjafarþingi (10. mál). Tillagan var rædd við eina umræðu og gekk til atvinnuveganefndar sem bárust sjö umsagnir. Tillagan er nú lögð fram efnislega óbreytt.
    Í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um auðlindir hafs og stranda er skýrt kveðið á um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins. Þessari tillögu til þingsályktunar er ætlað að undirstrika þá stefnu og er lagt til að stækka í áföngum félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins með það fyrir augum að hlutdeild þess verði 8,3% af heildarafla í stað 5,3%. Þá er lagt til að endurskoðuð verði skipting aflamagns milli aðgerða innan kerfisins. Sömuleiðis leggja flutningsmenn áherslu á að endurskoða hlutverk hverrar aðgerðar um sig og hvort breytingar megi gera þar á.
    Félagslegar veiðar eru mikilvæg byggðaráðstöfun. Þær efla atvinnu og auka fjárfestingu á sviði sjávarútvegs, ekki síst þar sem aflamarki og krókaaflamarki er ekki til að dreifa í minni og brothættari byggðum. Viðvarandi stækkun félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins til lengri tíma eykur svo um munar fyrirsjáanleika í greininni, minnkar sveiflur vegna kvótaskerðingar og styrkir stöðu félagslegra veiða innan heildarkerfisins. Þá eru ótalin áhrif félagslegra veiða, sér í lagi strandveiða, á nýliðun í sjávarútvegi og mikilvægi þeirra sem mótvægi við aukna fákeppni og samþjöppun í sjávarútvegi. Strandveiðar eru dæmi um vel heppnaða aðgerð innan kerfisins og hefur þeim vaxið ásmegin á undanförnum árum. Strandveiðisumarið 2022 var aflaverðmæti handfæraveiða um 4,8 milljarðar kr. Heildarþorskafli var 10.948 tonn og 1.472 tonn í ufsa. Fiskverð var í sögulegu hámarki en meðalverð á þorski var 406 kr. á kg. Á nýliðnu sumri voru gefin út 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af karfa. Meðalverð á þorski á strandveiðitímabilinu var gott en lækkaði í samanburði við metárið 2022. Langstærstur hluti þessa afla er seldur á fiskmarkað sem styður við fiskvinnslu án tengsla við útgerð sem skilar hærra meðalverði enda eftirspurn eftir fiski oft með besta móti yfir sumartímann.
    Strandveiðar voru heimilaðar með lögum nr. 66/2009, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og hófust þær 28. júní 2009. Við upphaf strandveiða var meðal markmiða að auka aðgengi að fiskveiðum í atvinnuskyni og opna á takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki eru handhafar aflamarks eða krókaaflamarks. Sömuleiðis voru þær liður í aukinni atvinnustarfsemi, ekki síst í smærri byggðum og byggðarlögum og á svæðum sem hafa farið illa út úr samþjöppun aflaheimilda á fáa staði og hendur. Grunnhugmyndin fólst í því að setja á fót frjálsar handfæraveiðar meðfram ströndinni. Þessi nýi flokkur veiða hlaut heitið „strandveiðar“. Hann var hugsaður sem frjálsar en ábyrgar og sjálfbærar veiðar sem myndu greiða fyrir nýliðun í sjávarútvegi en jafnframt efla atvinnu og líf í sjávarbyggðum landsins. Þau markmið hafa að mörgu leyti gengið eftir. Einn þýðingarmesti ávinningur strandveiða er sá að fleiri en þeir sem eiga kvóta geta nú stundað veiðar í atvinnuskyni, líkt og nýliðið strandveiðisumar sýndi glöggt. Strandveiðar skipta nú sköpum fyrir fjölda fjölskyldna vítt og breitt um landið og stuðla að byggðafestu. Það er álit þeirra sem standa að þessari tillögu til þingsályktunar að mikilvægt sé að efla strandveiðar enn frekar með traustum aflaheimildum og réttlátri skiptingu aflamagns milli aðgerða félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins. Þannig fá þær best þjónað því hlutverki sínu að efla nýliðun og að samfélagsleg og hagræn áhrif veiðanna á dreifðar sjávarbyggðir landsins séu treyst.
    Þá felast tækifæri varðandi orkuskipti í strandveiðum. Hér má líta til nýtingar rafknúinna veiðarfæra og minnkandi olíunotkunar sem styður við markmið um vistvænar veiðar og kolefnishlutleysi. Þau veiðarfæri sem notast er við eru vistvæn og raska ekki sjávarbotni á grunnslóð og fara vel með hráefni. Hægt er að gera enn betur og efla frekar umhverfishvata í útgerð innan félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.
    Ástæða er til að endurskoða úthlutun og meðhöndlun aðgerða innan kerfisins, með tilliti til þess hvernig þær veiðiheimildir nýtist sem best smærri byggðarlögum sem þær eiga að þjóna, og færa stærri hluta þeirra til smærri útgerða og inn í strandveiðikerfið. Þá þarf að koma í veg fyrir að stór hluti þeirra endi hjá stærstu útgerðarfélögum landsins sem nú þegar halda á stærstum hluta allra veiðiheimilda við Íslandsstrendur.