Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 135  —  135. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðkomu öryrkja og ellilífeyrisþega að kjaraviðræðum.


Flm.: Eyjólfur Ármannsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja aðkomu heildarsamtaka öryrkja og ellilífeyrisþega að viðræðum ríkisstjórnarinnar og fulltrúa vinnuveitenda og launþega um komandi kjarasamninga og tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í viðræðunum ásamt því að ríkisstjórnin taki rökstudda afstöðu til þeirra sjónarmiða áður en viðræðunum lýkur.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. og 153. löggjafarþingi (334. mál) en náði ekki fram að ganga. Tvær umsagnir bárust um málið á 153. löggjafarþingi, frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Báðir aðilar lýstu yfir stuðningi við tillöguna og tóku undir þau sjónarmið sem að baki henni búa.
    Brátt hefja fulltrúar vinnuveitenda og launþega að nýju viðræður um gerð kjarasamninga. Í þeim viðræðum sem fram fóru síðasta vetur náðist almennt ekki samkomulag milli stéttarfélaga og vinnuveitenda um lengri samninga. Kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins við þrjú af stærstu verkalýðsfélögum landsins, VR, Eflingu og Starfsgreinasambandið, renna út 31. janúar 2024 og kjarasamningar BSRB og BHM við ríki og sveitarfélög renna út í lok mars sama ár.
    Fjölmörg fordæmi eru fyrir því að ríkisstjórnin hafi aðkomu að kjaraviðræðum þegar um er að ræða víðfeðma samninga milli fjölda samtaka, bæði launþega og vinnuveitenda. Aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð lífskjarasamninganna árið 2019 er aðeins eitt dæmi af mörgum. Þá gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að ráðist yrði í ýmsar aðgerðir, að upphæð 80 milljarðar kr. á gildistíma lífskjarasamninganna, til að styðja við markmið samninganna um stöðugleika og bætt kjör launafólks. Síðasta vetur gaf ríkisstjórnin einnig út að ráðist yrði í tilteknar aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga sem lutu að húsnæðismálum, barnabótakerfinu og neytendamálum.
    Nauðsynlegt er að fulltrúar öryrkja og ellilífeyrisþega eigi sæti við borðið í samningaviðræðum milli ríkis, launþega og vinnuveitenda um kaup og kjör í landinu. Sagan sýnir að í slíkum viðræðum eru iðulega teknar veigamiklar ákvarðanir um ráðstöfun opinberra fjármuna sem varða hagsmuni allra landsmanna og því ber ríkinu að tryggja það að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
    Í 62. gr. laga um almannatryggingar segir að bætur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þrátt fyrir þau skýru lagafyrirmæli hafa fjárhæðir almannatrygginga ekki fylgt launaþróun undanfarin ár og nú mælist uppsöfnuð kjaragliðnun í tugum prósenta.
    Öryrkjar og ellilífeyrisþegar geta ekki nýtt sér verkfallsrétt til að krefjast kjarabóta. Það hefur tvímælalaust áhrif á þróun kjara þeirra, enda hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn virt mannréttindi þeirra svo gott sem að vettugi.
    Það er afar mikilvægt að sátt náist, ekki aðeins milli fulltrúa vinnumarkaðarins og ríkisins, heldur einnig lífeyrisþega. Slík sátt myndi skapa grundvöll fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu.