Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 137  —  137. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995 (vísitala neysluverðs án húsnæðis).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal taka tillit til húsnæðiskostnaðar við útreikning vísitölu neysluverðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 152. og 153. löggjafarþingi (20. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt.
    Frá því í desember árið 2021 hefur verðbólga mælst yfir 5% á ársgrundvelli. Frá miðju síðasta ári og þar til nýverið mældist verðbólga í kringum 10%, samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hækkandi húsnæðisverð hafði töluverð áhrif á þessa þróun, en vísitala neysluverðs án húsnæðis mældist iðulega 2–3 prósentustigum lægri á sama tímabili. Vegna þess að vísitala neysluverðs hefur mikil áhrif á lánakjör, bæði hvað varðar greiðslubyrði óverðtryggðra lána og höfuðstól verðtryggðra lána, myndast keðjuverkandi áhrif sem leiða til enn frekari hækkana á húsnæðisverði. Þessi þróun hefur leitt til aukinnar greiðslubyrði heimilanna og verulegra höfuðstólshækkana á verðtryggðum lánum. Það verður að koma í veg fyrir þann tvíverknað sem felst í því að hækkandi húsnæðisverð hafi áhrif á vísitölu neysluverðs sem í kjölfarið leiðir til enn hærra húsnæðisverðs. Allir muna hvaða skelfilegu afleiðingar verðbólgan hafði á verðtryggð lán fjölskyldna landsins í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þar tvöfölduðust skuldir heimilanna á einni nóttu og hátt í 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín í kjölfarið. Þetta má aldrei gerast aftur.
    Til að sporna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar á heimilin er lagt til að húsnæðisliðurinn verði felldur út úr vísitölu neysluverðs. Með slíkri breytingu má draga verulega úr mældri verðbólgu og þar með hörðustu áhrifum vísitöluhækkana á fjárhag fjölskyldufólks, sérstaklega þeirra sem sitja fastir í viðjum verðtryggðra húsnæðisskuldbindinga.
    Því hefur verið haldið fram að það grafi undan trúverðugleika verðbólgumælinga að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs. Það er einfaldlega ekki rétt. Hagstofan heldur þegar til haga vísitölubreytingum án húsnæðis og því ætti stofnunin að geta breytt framkvæmdinni til samræmis við frumvarp þetta án mikillar fyrirhafnar. Áfram verður hægt að birta opinberlega vísitölu neysluverðs með húsnæðisliðnum, en sú vísitala verður ekki lögð til grundvallar við útreikning verðtryggðra húsnæðislána. Um þetta segir í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarp þetta á 152. löggjafarþingi: „Hagstofan birtir nefnilega vísitölu neysluverðs bæði með og án húsnæðis svo langt aftur sem mælingar ná og greiningaraðilar gætu því eftir sem áður stuðst við hvora þeirra sem þeir vilja frekar nota. Jafnframt myndi breytingin hafa þau raunverulegu áhrif að árshækkun verðtryggðra skuldbindinga myndi strax lækka … .“