Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 143  —  143. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (réttur til sambúðar).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Maki eða sambúðarmaki heimilismanns á stofnun fyrir aldraða skal, án tillits til þess hvort hann hefur gengist undir færni- og heilsumat, eiga þess kost að dvelja á stofnun ásamt heimilismanni. Maki skal greiða sanngjarna leigu vegna veru sinnar og greiða þann kostnað sem af dvöl hans hlýst. Maki skal eftir atvikum hafa aðgang að þjónustu stofnunarinnar gegn gjaldi. Maki eða sambúðarmaki getur dvalið á öldrunarstofnuninni eftir fráfall heimilismanns og öðlast þá viðkomandi sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða ef hann kýs svo.
    Ráðherra setur reglugerð um dvöl maka og sambúðarmaka á öldrunarstofnunum þar sem m.a. skal tilgreina greiðslur, greiðslufyrirkomulag, réttindi, tryggingar og kostnaðarþátttöku ríkisins.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými eða dvalarrými án undangengins mats færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl nema maki eða sambúðarmaki heimilismanns skv. 14. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

4. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007:
     a.      2. málsl. 7. gr. c laganna orðast svo: Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými án undangengins mats færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl nema maki eða sambúðarmaki heimilismanns samkvæmt lögum um málefni aldraðra.
     b.      2. málsl. 7. gr. d laganna orðast svo: Enginn getur dvalið til langframa í dvalarrými án undangengins mats færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl nema maki eða sambúðarmaki heimilismanns samkvæmt lögum um málefni aldraðra.


Greinargerð.


    Öll viljum við fá að eldast með reisn. Við viljum njóta efri áranna í faðmi fjölskyldu okkar. Enda er það svo að friðhelgi fjölskyldunnar er varið í 71. gr. stjórnarskrárinnar. Því miður er fjölskyldusameining ekki tryggð í lögum um málefni eldra fólks. Réttur til dvalar á öldrunarstofnun er bundinn því skilyrði að viðkomandi hafi undirgengist færni- og heilsumat sem sýni fram á þörf hans fyrir dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými. Því gerist það iðulega þegar einstaklingur þarf heilsu sinnar vegna að leggjast inn á hjúkrunarheimili að hann verði viðskila við maka sinn. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra til að tryggja réttinn til sambúðar í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lögð til breyting á 14. gr. laga um málefni aldraðra. Í 1. mgr. er fjallað um rétt maka heimilismanns til sambúðar á stofnun, án þess að hafa undirgengist færni- og heilsumat. Í því felst að sjálfsögðu áskilnaður um að annar makinn hafi undirgengist færni- og heilsumat, en hinn makinn, sem ekki hefur undirgengist slíkt mat, fær að fylgja maka sínum inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Gerð er krafa um greiðsluþátttöku, með þeim fyrirvara að gjaldtaka þarf að vera sanngjörn. Lagt er til að veita maka heimilismanns aðgang að þjónustu stofnunarinnar gegn greiðslu, en sem dæmi um slíka þjónustu má nefna sjúkraþjálfun. Réttur til sambúðar, eðli málsins samkvæmt, nær ekki aðeins til dvalar á sömu stofnun, heldur veitir maka rétt til dvöl í sama rými. Þá þykir eðlilegt að maki heimilismanns fái að halda áfram dvöl á stofnun eftir fráfall heimilismanns ef hann kýs svo.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að útfæra nánar reglur um dvöl maka á stofnun. Lagt er til að í reglugerð ráðherra verði fjallað nánar um greiðslufyrirkomulag í slíkum tilvikum, um tryggingar og um kostnaðarþátttöku ríkisins. Það er afar mikilvægt að tryggja að úrræði sem þetta leiði ekki til skerðingar á framlögum ríkisins til hjúkrunarheimila.

Um 2. og 4. gr.

    Í 2. og 4. gr. eru lagðar til breytingar á lagaákvæðum sem fjalla um færni- og heilsumat til samræmis við 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem veitir maka heimilismanns undanþágu frá því skilyrði að þurfa að undirgangast færni- og heilsumat til þess að fá úthlutað dvalar- eða hjúkrunarrými.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.