Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 207  —  204. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.


Flm.: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Sigmar Guðmundsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Elva Dögg Sigurðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Við vinnuna verði leitað eftir samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina. Heimilt verði að skipta úttektinni í áfanga en henni skal að fullu lokið fyrir 1. júní 2025.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er flutt í fimmta sinn en var síðast lögð fram á 153. löggjafarþingi (131. mál). Við fyrri meðferðir hennar hafa borist jákvæðar umsagnir frá Félagi atvinnurekenda, Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráði Íslands. Hún er nú lögð fram að nýju óbreytt.
    Öflugt og gott samkeppnisumhverfi stuðlar að auknum hagvexti og aukinni framleiðni, lægra verði og betri lífskjörum almennt. Rekstrarumhverfi sem auðveldar nýjum fyrirtækjum að takast á við þau sem fyrir eru á markaði og skapar tækifæri til vaxtar fyrirtækja á grundvelli samkeppnishæfni þeirra er nauðsynlegt fyrir neytendur og fyrirtæki.
    Fjöldi rannsókna hefur sýnt að atvinnugreinar sem búa við meiri samkeppni uppskera meiri vöxt í framleiðni. Fyrirtæki sem búa við hátt samkeppnisstig leggja meiri áherslu á framleiðni og að halda aftur af kostnaðarhækkunum en fyrirtæki á fákeppnismörkuðum. Ástæðan er augljós, fyrirtæki á samkeppnismarkaði tekur verðmyndun af markaði og getur því ekki sjálfkrafa velt kostnaðarhækkunum út í verðlag. Þess í stað þarf að bregðast við með hagræðingaraðgerðum. Fyrirtæki á fákeppnismarkaði eða í einokun getur hins vegar auðveldlega velt slíkum kostnaðarhækkunum yfir á viðskiptavini sína sem eiga ekki val um að leita annað.
    Óþarflega íþyngjandi regluverk eða rekstrarumhverfi sem ýtir undir fákeppni eða einokun getur reynst skaðlegt fyrir hagvöxt. Þá sýna rannsóknir að aukin áhersla á samkeppni eflir nýsköpun. Fyrirtæki í virkri samkeppni fjárfesta frekar í rannsóknum og þróun en einokunarfyrirtæki. Markvissar aðgerðir stjórnvalda til að örva samkeppni auka því hagvöxt. 1
    Einnig má leiða líkur að því að aukin samkeppni hafi jákvæð áhrif á jöfnuð. Fákeppni eða einokun er á kostnað almennings í formi hærra vöruverðs en ávinningurinn rennur til fárra. Hinir fátækustu verða gjarnan verst úti ef skortur á samkeppni leiðir til hærra vöruverðs eða lakari gæða en ella. Að sama skapi sýna rannsóknir að þó svo að aukin samkeppni leiði oft af sér hagræðingu og fækkun starfa til skemmri tíma séu áhrifin til lengri tíma á atvinnustig ekki augljós. Að sama skapi leiði skortur á samkeppni og lágt framleiðnistig vegna þess oft til minni framleiðslu í hagkerfum og að sama skapi lægra atvinnustigs.
    Þrátt fyrir ávinning öflugrar samkeppni fyrir fólk og fyrirtæki er hér á landi enn að finna fjölda samkeppnishindrana í löggjöf og regluverki sem dregur úr samkeppni og skilvirkni í atvinnurekstri, hamlar nýliðun og leiðir á endanum til hærra verðlags fyrir neytendur. Ýmsir markaðir búa við nokkuð óhindraða samkeppni en fjölmargir eru þó enn bundnir verulegum samkeppnishömlum. Má þar til að mynda nefna orkumarkað, landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu af ýmsu tagi, heilbrigðis- og menntakerfi, fjármálamarkað og svo mætti vafalítið áfram telja.
    Skýrt er að verðþróun vöruflokka sem ætla má að nokkuð virk samkeppni ríki um, bæði á innlendri framleiðslu og innflutningi, hafi hækkað minna en vísitala neysluverðs á undanförnum tveimur áratugum. Til samanburðar hefur verðlag á liðum þar sem samkeppni er lítil sem engin hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs. Á árunum 1997–2018 hækkaði til dæmis verð á símaþjónustu og fötum og skóm aðeins um 15% samanborið við verð póstþjónustu sem hækkaði um 321%, þjónusta leigubifreiða um tæp 260% og heilbrigðisþjónusta um tæp 230%.
    Flutningsmenn telja að þetta gefi tilefni til að fram fari heildstæð úttekt á áhrifum laga og reglna á virka samkeppni. Mæla þeir með því að forsætisráðherra verði falin yfirumsjón með slíkri úttekt og að leitað verði samstarfs við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Úttektina megi vinna í áföngum en henni verði að fullu lokið fyrir 1. júní 2025. Nánari útfærsla verkefnisins verði í höndum ráðherra.

1     OECD: Factsheet on how competition policy affects macro economic outcomes. Október 2014: www.oecd.org/daf/competition/2014-competition-factsheet-iv-en.pdf