Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 244  —  241. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023–2027.


Frá mennta- og barnamálaráðherra.



    Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023–2027 þar sem lögð verði áhersla á að framkvæmdir í málefnum barna miði að því að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun.

A. Heildarendurskoðun á barnaverndarlögum.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar starfi áfram þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna, með stuðningi og í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna, til að ljúka heildarendurskoðun barnaverndarlaga og eftir atvikum annarra laga sem breyta þarf samhliða til að fá heildarsýn í málefni barna hér á landi og þjónustu við þau.
     Markmið: Að tekin verði þverpólitísk afstaða til breytinga á skipulagi og verklagi barnaverndarstarfs og eftir atvikum einnig annarra stjórnvalda með það í huga að tryggja gæði þjónustu og jöfnuð í barnaverndarstarfi á landsvísu.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Önnur ráðuneyti, Barna- og fjölskyldustofa, Samband íslenskra sveitarfélaga og eftir atvikum fleiri stofnanir og aðilar.
     Mælikvarði: Að frumvarp til nýrra laga um barnavernd, og eftir atvikum frumvarp til laga um breytingu á öðrum lögum, verði lagt fram á Alþingi á 154. löggjafarþingi Setning og endurskoðun reglugerða á grundvelli nýrra barnaverndarlaga verði lokið árið 2025. Innleiðing breytinga verði komin vel áleiðis árið 2027.

B. Meðferðarúrræði utan meðferðarheimila.
1. Hagnýt fjölskyldumeðferð í barnavernd.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði skoðað að innleiða hagnýta fjölskyldumeðferð í barnavernd sem nýtist börnum að 18 ára aldri. Hagnýt fjölskyldumeðferð í barnavernd verði notuð í meðferðarvinnu í tengslum við mismunandi vanda, t.d. uppeldislegan vanda, heimilisofbeldi, tilfinningarstjórnun, þunglyndi, áföll, kvíða og fíknivanda. Inngrip beinst að börnum, foreldrum, fjölskyldunni eða nærsamfélagi barnsins.
     Markmið: Að aukið verði framboð árangursríkra meðferðarúrræða fyrir börn og fjölskyldur.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarþjónustur sveitarfélaga og mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Að einu teymi í fjölkerfameðferð verði breytt í teymi sem veitir hagnýta fjölskyldumeðferð í barnavernd sem þjónusti 32–48 fjölskyldur hverju sinni.

2. Samþætt hugræn atferlismeðferð við ofbeldi gegn börnum.
    Samþætt hugræn atferlismeðferð við ofbeldi gegn börnum verði úrræði fyrir fjölskyldur sem hafa þurft að þola líkamlegt ofbeldi og nýtist í þeim tilfellum þar sem foreldrar og börn geti átt áfram samskipti.
     Markmið: Að stutt verði við foreldra í foreldrahlutverkinu og komið í veg fyrir að vandi verði svo alvarlegur að grípa þurfi til íþyngjandi vistunarúrræða.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarþjónustur sveitarfélaga og mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Innleiðing verði á samþættri hugrænni atferlismeðferð ásamt því að veita meðferð fyrir þau börn sem þurfa á meðferðinni að halda. Tvö teymi sem vinna saman með foreldra og barn.

C. Meðferðarfóstur.
    Á tímabili þessarar framkvæmdaáætlunar verði aukin handleiðsla við fósturforeldra og forsjáraðilar verði studdir betur þegar það á við. Þjónusta við fósturforeldra verði bætt með handleiðslu.
     Markmið: Að aukinn verði stuðningur við börn í fóstri og fósturforeldra og komið í veg fyrir fósturrof.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Að handleiðsla verði veitt í 30 fósturmálum hverju sinni auk þess að þróa þekkingu sem nýtist öllum fósturforeldrum.

D. Að efla og bæta verklag í barnaverndarþjónustu.
1. Verklag í barnavernd – öryggismerki.
    Skapaðar verði forsendur til að auka stuðning og handleiðslu Barna- og fjölskyldustofu við starfsmenn barnaverndarþjónustu varðandi könnun mála, gerð meðferðaráætlana og mat á meðferðar- og stuðningsþörfum barna og foreldra þeirra. Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði heildræn innleiðing á verklagi og hugmyndafræði öryggismerkis í vinnulagi félagsráðgjafa og annarra fagstétta í barnavernd og félagsþjónustu.
     Markmið: Að verklag og áhættumat um viðbrögð á sviði barnaverndar verði innleitt og samræmt. Að stuðningur og ráðgjöf verði efld við starfsmenn barnaverndarþjónustu svo að mál barna verði unnin með kerfisbundnari og markvissari hætti.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Mennta- og barnamálaráðuneytið og barnaverndarþjónustur sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Að innleitt verði öryggismerki í barnaverndarþjónustu sveitarfélaga. Námskeið verði haldin fyrir starfsfólk barnaverndarþjónustu og handleiðsla við innleiðingu kerfis öryggismerkis í barnaverndarþjónustu.

2. Að auka fræðslu fyrir börn um hlutverk barnaverndarþjónustu.
    Traust milli barna og barnaverndar verði aukið og tryggt að börn séu upplýst um hlutverk barnaverndar og réttindi barna til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu. Börn verði frædd um réttindi þeirra með barnvænum hætti með tilliti til þarfa þeirra hverju sinni. Tryggt verði að umfjöllun um barnavernd og réttindi barna til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu verði hluti af fræðsluáætlun um barnvænt Ísland. Með aðgerð þessari verði leitast við að auka þekkingu barna á barnaverndarþjónustu til að auka aðgengi barna að þjónustunni.
     Markmið: Að tryggt verði að börn séu upplýst um hlutverk barnaverndar og réttindi þeirra til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna, Samband íslenskra sveitarfélaga, Mennta- og skólaþjónustustofa og embætti umboðsmanns barna.
     Mælikvarði: Að hlutverk barnaverndar og réttindi barna til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu verði hluti af fræðsluáætlun um barnvænt Ísland.

E. Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.
1. Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði unnið að gerð og útgáfu gæðaviðmiða í barnaverndarþjónustu í víðtæku samráði við viðeigandi hagsmunaaðila í málaflokknum.
     Markmið: Að aukin verði gæði og öryggi í þjónustu barnaverndar og hún verði samræmd um allt land.
     Ábyrgð: Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
     Samstarfsaðilar: Mennta- og barnamálaráðuneytið, Barna- og fjölskyldustofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félagsráðgjafafélag Íslands og eftir atvikum fleiri stofnanir og aðilar.
     Mælikvarði: Að gefin verði út gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu á tímabili framkvæmdaáætlunar.

2. Málavogin innleidd til þess að meta álag á barnaverndarstarfsmenn.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði Málavogin innleidd til að stuðla að gæðum í starfi barnaverndarstarfsmanna með því að fylgjast með álagi og veita starfsmönnum nauðsynlegt svigrúm til að sinna verkefnum sínum.
     Markmið: Að Málavogin verði innleidd til þess að meta álag í barnavernd á landsvísu í samráði við barnaverndarþjónustu sveitarfélaga og aðra viðeigandi aðila.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Að Málavogin verði notuð til að mæla álag í barnaverndarþjónustu á landsvísu. Að árlegar kannanir verði gerðar á því hvernig brugðist hafi verið við niðurstöðum Málavogarinnar.

F. Endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði verklag vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn endurskoðað. Auk þess veiti Barna- og fjölskyldustofa barnaverndarþjónustu sveitarfélaga áfram stuðning og ráðgjöf. Lagt er til að Barna- og fjölskyldustofu verði tryggt stöðugildi á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar.
     Markmið: Að barnaverndarþjónusta víðs vegar um landið komi til móts við fylgdarlaus börn svo að tryggja megi öryggi þeirra og velferð.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Mennta- og barnamálaráðuneytið, Útlendingastofnun, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Rauði krossinn á Íslandi og önnur félagasamtök.
     Mælikvarði: Að endurskoðað verklag verði gefið út og ráðgjöf og fræðsla veitt starfsmönnum barnaverndarþjónustu vegna móttöku fylgdarlausra barna.

G. Könnun alvarlegra atvika tengd börnum.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar skipi ráðherra þverfaglegan starfshóp sem skoði með hvaða hætti best væri að koma á sjálfstætt starfandi viðbragðshóp sem hefði það hlutverk að kanna alvarleg atvik tengd börnum þvert á aðila sem koma að þjónustu barna.
     Markmið: Að ráðherra skipi starfshóp þvert á ráðuneyti til þess að kanna betur með hvaða hætti væri best að koma á sjálfstætt starfandi viðbragðshóp sem hafi það hlutverk að kanna alvarleg atvik tengd börnum og miðla lærdómi vegna þeirra.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barna- og fjölskyldustofa, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, ríkislögreglustjóri, heilbrigðisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Að starfshópur skili tillögum að sjálfstætt starfandi viðbragðshópi sem hafi það hlutverk að gera athugun á alvarlegum málum tengdum börnum.

H. Rannsóknir á sviði barnaverndar.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði bætt við stöðugildi hjá Barna- og fjölskyldustofu fyrir verkefnastjóra rannsókna sem hafi það hlutverk að leiða rannsóknir á sviði barnaverndar á vegum stofnunarinnar og sé tengiliður við íslenskt háskólasamfélag og aðrar rannsóknarstofnanir. Auk þess komi verkefnastjórinn að þróun og innleiðingu gagnreyndra úrræða í samvinnu við önnur svið Barna- og fjölskyldustofu og miðli upplýsingum, svo sem haldi málstofur, greini fyrirliggjandi gögn, skrifi greinar og kynni niðurstöður á ráðstefnum.
     Markmið: Að aukin verði þekking á sviði barnaverndar og þekkingin nýtt til þess að þróa barnaverndarstarf á landinu og móta stefnu í málaflokknum.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Árlegar rannsóknir og kannanir á sviði barnaverndar. Árlegar kynningar og útgáfa á niðurstöðum rannsókna og kannana á sviði barnaverndar.

I. Húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.
1. Miðstöð fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.
    Á tímabili þessarar áætlunar verði unnið að því að finna húsnæði fyrir starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Mennta- og skólaþjónustustofu þar sem stofnanirnar samnýti nútímalega aðstöðu með hagræði og samlegð að leiðarljósi í svokallaðri deiglu, sbr. stefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um áherslur og viðmið í húsnæðismálum stofnana.
     Markmið: Að starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Mennta- og skólaþjónustustofu verði í sama húsnæði auk þess sem úrræðum Barna- og fjölskyldustofu samkvæmt framkvæmdaáætlun þessari verði fundið viðeigandi húsnæði.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barna- og fjölskyldustofa, Ráðgjafar- og greiningarstöð og Mennta- og skólaþjónustustofa.
     Mælikvarði: Að fundið verði húsnæði sem er vel til þess fallið að hýsa starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Mennta- og skólaþjónustustofu.

2. Meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda, eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma.
    Á tímabilinu verði áfram unnið að stofnun meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda, eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma, sbr. lið E.4 í þingsályktun um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019–2022, nr. 39/149.
     Markmið: Að börnum verði tryggð nauðsynleg meðferðarúrræði og að aukið verði vægi gagnreyndra aðferða í meðferð barna í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barna- og fjölskyldustofa.
     Mælikvarði: Að byggingu meðferðarheimilisins verði lokið á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar.

J. Eftirfylgni og innleiðing verkefna.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar þessarar verði skipaður hópur með fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu sem fylgi eftir verkefnum áætlunarinnar. Hópurinn taki saman stöðu verkefnanna og upplýsi stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefnd um málefni barna um stöðuna.
     Markmið: Að tryggt verði að áætlun þessari verði fylgt eftir og að verkefnin komist til framkvæmda.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Barna- og fjölskyldustofa.
     Mælikvarði: Að hópurinn hittist tvisvar á ári og fari yfir stöðu verkefna. Í það minnsta skal árlega kynna stöðu aðgerða fyrir stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefnd um málefni barna.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Mennta- og barnamálaráðuneytið ber ábyrgð á barnavernd, sbr. forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum, sbr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Sú framkvæmdaáætlun sem hér er lögð fram mun því gilda frá samþykkt til ársins 2027 þegar ný framkvæmdaáætlun í barnavernd skal lögð fram. Framkvæmdaáætlun þessi byggist á meginmarkmiðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum. Við gerð þessarar áætlunarinnar var haft virkt og víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna.
    Hinn 26. janúar 2023 skipaði mennta- og barnamálaráðherra starfshóp til að semja nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Í starfshópnum sátu Þorsteinn Hjartarson formaður, skipaður af ráðherra án tilnefningar, Hlín Sæþórsdóttir, skipuð af ráðherra án tilnefningar, Theódóra Sigurðardóttir, skipuð af ráðherra án tilnefningar, Páll Ólafsson, tilnefndur af Barna- og fjölskyldustofu, Helga Jóna Sveinsdóttir, tilnefnd af Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, María Ingibjörg Kristjánsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Steinunn Jóhanna Bergmann, tilnefnd af Félagsráðgjafafélagi Íslands, Sigurður Örn Magnússon, tilnefndur af velferðarsviði Reykjavíkurborgar, og Vilborg Þórarinsdóttir, tilnefnd af velferðarsviði Akureyrarbæjar. Fyrsti fundur starfshópsins fór fram 3. febrúar 2023 en alls hélt starfshópurinn fimm fundi í febrúar 2023.
    Einnig skipaði mennta- og barnamálaráðherra ráðgjafarhóp til að starfa með nefndinni til að tryggja aðkomu og samráð við hagsmunaaðila. Ráðgjafarhópinn skipuðu eftirtaldir: Marta Kristín Hreiðarsdóttir, tilnefnd af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Hilmar Jón Stefánsson, tilnefndur af Samtökum félagsmálastjóra á Íslandi, Linda Hrönn Þórisdóttir, tilnefnd af Barnaheillum, Guðríður Bolladóttir, tilnefnd af umboðsmanni barna, Ásdís Eckardt, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Alda Ingibergsdóttir, tilnefnd af Sálfræðingafélagi Íslands, Jóhanna Lilja Ólafsdóttir, tilnefnd af Þroskaþjálfafélagi Íslands, Sigurður Sigurðsson, tilnefndur af Heimili og skóla, Berglind Gunnarsdóttir Strandberg, tilnefnd af Vímulausri æsku, Guðlaugur Kristmundsson, tilnefndur af Félagi fósturforeldra, og Eva Bjarnadóttir, tilnefnd af UNICEF. Alls voru haldnir tveir fundir með ráðgjafarhópnum. Í fyrsta sinn var haft samráð við börn við gerð framkvæmdaáætlunar í barnavernd. Rætt var við fimm börn sem voru vistuð á meðferðarheimili sem rekið er af Barna- og fjölskyldustofu.
    Tillagan var sett í samráðsgátt og var hægt að senda inn umsögn á tímabilinu 24. apríl – 8. maí 2023. Alls bárust fjórar umsagnir og voru þær frá Barnavernd Reykjavíkur, Öryrkjabandalagi Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands og Barnaheillum. Almennt voru umsagnirnar jákvæðar og voru einnig nokkrar ábendingar. Öryrkjabandalag Íslands lagði til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði hafður að leiðarljósi við gerð framkvæmdaáætlunar á sviði barnaverndar og að sérstaklega yrði litið til stöðu fatlaðra barna. Barnaheill benti einna helst á að hugtakið „hegðunarvandi“ er neikvætt hlaðið og því hætta á ákveðinni stimplun við notkun þess. Barnavernd Reykjavíkur kom með góðar ábendingar varðandi heildarendurskoðun barnaverndarlaga, meðferðarúrræði utan meðferðarheimila, eflingu þjónustu í barnavernd og bætt verklag, og endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu fylgdarlausra barna. Ábendingarnar snúa helst að þáttum er varða innleiðingu og framkvæmd aðgerða. Félagsráðgjafafélag Íslands lagði einna helst áherslu á að lokið yrði við uppbyggingu meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- eða vímuefnavanda eða afplána fangelsisdóma. Félagið lagði jafnframt áherslu á að tryggð yrði eftirfylgni við innleiðingu verkefna sem fjallað er um í framkvæmdaáætluninni. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur farið yfir ábendingarnar og mun taka tillit til þeirra við innleiðingu og framkvæmd aðgerðanna.
    Mennta- og barnamálaráðuneytið mun hafa yfirumsjón með framkvæmd áætlunar þessarar en ráðuneytið ber einnig ábyrgð á tilteknum aðgerðum. Þá er Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála einnig falin ábyrgð á tilteknum aðgerðum eins og nánar er tilgreint við hverja og eina aðgerð í framkvæmdaáætluninni. Við innleiðingu og framkvæmd aðgerða skal taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að.
    Allar aðgerðir sem settar eru fram hafa verið kostnaðarmetnar. Heildarkostnaður vegna þeirra á tímabili framkvæmdaáætlunar er 841.500.000 kr. og rúmast innan fjárheimilda. Eftirfylgni með áætluninni er útfærð í aðgerð þar sem lagt er til að hópur verði stofnaður til að leggja mat á aðgerðir í samræmi við þá mælikvarða sem eru tilgreindir við hverja aðgerð. Víðtækt samstarf verður haft við fag- og hagsmunaaðila um framkvæmd áætlunarinnar til að þekking og reynsla nýtist sem best.

2. Markmið og áherslur.
    Meginmarkmið barnaverndarlaga er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði og að veita börnum sem búa við óviðunandi aðstæður og börnum sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu nauðsynlega aðstoð. Framkvæmdaáætlun þessi er á sviði barnaverndar og því afmarkast verkefnin samkvæmt skilgreiningu barnaverndarlaga. Við gerð áætlunarinnar var sérstaklega horft til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og gildissviðs þeirra. Verkefnum í þessari áætlun er því ekki ætlað leysa af hólmi verkefni sem snúa að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna heldur eru þau viðbót til þess að tryggja vernd barna sem standa hvað verst í samfélaginu. Við framkvæmd þessarar áætlunar skal vinna heildstætt út frá málefnum barna.
    Lögð er áhersla á mannréttindi og samfélagsþátttöku barna og skal hver og ein aðgerð í áætluninni taka mið af öllum börnum óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Framkvæmdaáætluninni er ætlað að styðja þróun þjónustu við börn og meðferðarúrræði barnaverndar. Samkvæmt framangreindu verður lögð áhersla á eftirfarandi aðgerðir:
     a.      Heildarendurskoðun á barnaverndarlögum.
     b.      Meðferðarúrræði utan meðferðarheimila.
     c.      Meðferðarfóstur.
     d.      Að efla og bæta verklag í barnaverndarþjónustu.
     e.      Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.
     f.      Endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.
     g.      Könnun alvarlegra atvika í tengslum við börn.
     h.      Rannsóknir á sviði barnaverndar.
     i.      Húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.
     j.      Eftirfylgni og innleiðing verkefna.

Um einstakar aðgerðir framkvæmdaáætlunarinnar.

Um a-lið: Heildarendurskoðun á barnaverndarlögum.

    Frá vori 2018 hefur staðið yfir umfangsmikil vinna við breytingar í þágu farsældar barna sem meðal annars hefur falist í víðtækri heildarendurskoðun lagaumhverfis í málaflokknum. Á vorþingi 151. löggjafarþings, veturinn 2020–2021, lagði þáverandi félags- og barnamálaráðherra fram fimm frumvörp þessu tengd og voru þau öll samþykkt sem lög frá Alþingi í júní 2021. Um er að ræða lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og lög um Barna- og fjölskyldustofu, lög um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og lög um breytingar á barnaverndarlögum. Upphaflega var stefnt að því að leggja fram frumvarp til nýrra barnaverndarlaga. Við undirbúning málsins varð ljóst að verkefnið reyndist of umfangsmikið til að unnt væri að ljúka því fyrir lok kjörtímabilsins. Var því ákveðið að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 107/2021, um breytingar á barnaverndarlögum, kemur fram að um sé að ræða fyrri hluta yfirstandi heildarendurskoðunar barnaverndarlaga. Breytingarnar sem þegar hafa verið samþykktar snúa einkum að þeim stofnunum sem koma að barnavernd, niðurlagningu barnaverndarnefnda með tilkomu barnaverndarþjónustu og umdæmisráðum barnaverndar og samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Eftir standa því nokkur veigamikil atriði sem ætlunin er að taka til endurskoðunar með frumvarpi til nýrra laga um barnavernd og eftir atvikum breytingar á öðrum lögum sem áformað er að leggja fyrir Alþingi á 154. löggjafarþingi. Stefnt er að því að setning og endurskoðun á reglugerðum á grundvelli nýrra barnaverndarlaga verði lokið árið 2025 og innleiðing breytinga komin vel áleiðis árið 2027.

Um b-lið: Meðferðarúrræði utan meðferðarheimila.

     Um 1. kafla: Hagnýt fjölskyldumeðferð í barnavernd.
    Barna- og fjölskyldustofa mun á tímabili framkvæmdaáætlunar skoða þann möguleika að breyta einu af þremur teymum fjölkerfameðferðar (e. Multisystemic Therapy) í hagnýta fjölskyldumeðferð í barnavernd (e. Functional family therapy - Child Welfare).
    Hagnýt fjölskyldumeðferð í barnavernd nær til barna frá fæðingu til 18 ára sem búa á ótryggum heimilum auk þess sem meðferðin tekur á hegðunarvanda barna. Mikilvægt er að hafa í huga að hegðunarvandi barns getur verið birtingarmynd áfalla eða erfiðleika sem barnið hefur upplifað og það hefur ekki fengið viðeigandi aðstoð við að vinna úr reynslunni af. Hagnýt fjölskyldumeðferð í barnavernd nýtist í meðferðarvinnu í tengslum við ólíkan vanda, t.d. uppeldislegan vanda, heimilisofbeldi, tilfinningarstjórnun, þunglyndi, áföll, kvíða og fíknivanda. Inngrip getur beinst að börnum, foreldrum, fjölskyldu eða nærsamfélagi barnsins. Slíkt úrræði væri ákjósanlegur kostur í ljósi þess að tölfræðiniðurstöður sérfræðingateymisins sem starfar hjá Barna- og fjölskyldustofu gefa til kynna að mörg börn sem teymið hefur fjallað um hafa upplifað ofbeldi á heimilum sínum. Með hagnýtri fjölskyldumeðferð í barnavernd væri hægt að grípa fyrr inn í slík mál. Verði einu teymi fjölkerfameðferðar breytt í teymi sem veitir hagnýta fjölskyldumeðferð í barnavernd væri hægt að þjónusta um 32–48 börn hverju sinni.
     Um 2. kafla: Samþætt hugræn atferlismeðferð við ofbeldi gegn börnum.
    Samþætt hugræn atferlismeðferð við ofbeldi gegn börnum (e. Combined Parent-Child Cognitive Behavioral Therapy) er meðferð sem fyrst var þróað í Bandaríkjunum en hefur einnig reynst vel í barnavernd í Svíþjóð og er fyrsta sérhæfða meðferðarúrræðið þar í landi sem er sérstaklega hugsað fyrir börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi foreldris. Um er að ræða meðferð fyrir börn og foreldra sem hafa beitt börnin sín líkamlegu eða andlegu ofbeldi.
    Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á það að börn sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi þurfa sérhæfða og faglega aðstoð til þess vinna úr þeirri reynslu. Börn sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi sýna yfirleitt ýmis einkenni, svo sem streituviðbrögð, áfallastreituröskun, kvíða, svefnleysi, þunglyndi og árásargirni. Mikilvægt er að bæta þessari meðferð við þá þjónustu sem nú þegar er veitt í Barnahúsi. Með þeim hætti væri hægt að veita þjónustu til fleiri barna og fjölskyldna.
    Til boða stendur að fá sænska sérfræðinga til landsins til þess að kenna sérfræðingum hérlendis meðferðina. Mikilvægt er að bæta þessari meðferð við þá þjónustu sem nú þegar er veitt í Barnahúsi.

Um c-lið: Meðferðarfóstur.

    Í 3. mgr. 65. gr. a barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er Barna- og fjölskyldustofu gert að veita fósturforeldrum fræðslu og faglegan stuðning. Ljóst er að rík þörf er fyrir frekari fræðslu og handleiðslu við fósturforeldra með það að markmiði meðal annars að koma í veg fyrir fósturrof en fósturrof í varanlegu og tímabundnu fóstri eru um 25 tilfelli á ári. Fjöldinn er meiri ef styrkt fóstur er talið með en um það bil 35 börn á ári eru í styrktu fóstri. Fósturrof er sérlega slæmt fyrir fósturbörn og getur haft varanlegar afleiðingar á þroska og vellíðan fósturbarna. Auk þess bera fósturrof aukinn kostnað í för með sér bæði fyrir ríkissjóð og sveitarfélög.
    Mikilvægt er að fara af stað með tilraunaverkefni sem gengur út á aukna handleiðslu við fósturforeldra og stuðning við forsjáraðila í þeim tilfellum sem það á við. Barna- og fjölskyldustofa hefur unnið að því að útfæra þessa tillögu frekar. Markmið meðferðarfósturs er að börn öðlist stöðugleika þar sem þau eru í fóstri og greina hvaða þjónustu þau þurfa til þess að geta snúið aftur heim eða farið í varanlega búsetu.

Um d-lið: Að efla og bæta verklag í barnaverndarþjónustu.

     Um 1. kafla: Verklag í barnavernd – öryggismerki.
    Öryggismerki (e. Signs of Safety) er styrkleikamiðuð nálgun í barnaverndarstarfi sem miðar að því að leggja mat á áhættuþætti og verndandi þætti í lífi barns. Öryggismerki er nálgun til þess að vinna í samvinnu og samráði við börn og fjölskyldur þeirra. Öryggismerki var upprunalega þróað í Ástralíu en hefur einnig haslað sér völl víða í Evrópu síðustu ár, meðal annars á Írlandi, í Hollandi, Danmörku, Svíþjóð og á Englandi. Þetta er nálgun sem gengur út á samvinnu kerfa, samvinnu við foreldra og samvinnu við börn í enn frekari mæli en almennt hefur verið gert innan barnaverndar og félagsþjónustu.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar á að ljúka heildrænni innleiðingu öryggismerkisins. Með heildrænni innleiðingu er átt við innleiðingu á svokölluðum fjórum meginstólpum öryggismerkisins, þ.e. þjálfun, stjórnun, framkvæmd og eftirfylgni. Í aðdraganda innleiðingar er mikilvægt að góður undirbúningur eigi sér stað.
     Um 2. kafla: Að auka fræðslu fyrir börn um hlutverk barnaverndarþjónustu.
    Mikilvægt er að tryggja fræðslu fyrir börn um hlutverk barnaverndar og réttindi barna til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu með það að markmiði að þau þekki réttindi sín og geti þá leitað til barnaverndar þegar þess gerist þörf. Aðgerðin fellur vel að aðgerð 2.1 í þingsályktun um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, nr. 28/151, og er gert ráð fyrir að þessi aðgerð fléttist inn á hana. Fræðsluáætlunin skal, samkvæmt þingsályktuninni, unnin í nánu samstarfi við börn, umboðsmann barna, Menntamálastofnun, frjáls félagasamtök og sérfræðinga í málefnum barna um fræðslu og þróun fræðsluefnis með það að markmiði að tryggja reglulega fræðslu og útgáfu fræðsluefnis sem sniðið er að ólíkum aldri og þörfum barna. Auk þess mun mennta- og barnamálaráðuneytið vera í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna, Samband íslenskra sveitarfélaga og Mennta- og skólaþjónustustofu um framkvæmd þessarar aðgerðar.

Um e-lið: Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.

     Um 1. kafla: Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.
    Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sinnir eftirliti með gæðum barnaverndarþjónustu sem veitt er samkvæmt lögum um barnavernd eins og fram kemur í 1. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Í lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er stofnuninni enn fremur falið að þróa gæðaviðmið fyrir þá þjónustu sem stofnunin sinnir eftirliti með. Með viðmiðum er átt við leiðbeiningar til þeirra sem lúta eftirliti stofnunarinnar um að sinna þjónustu með ákveðnum hætti. Gæðaviðmið skulu hafa það að markmiði að stuðla að auknum gæðum í þjónustu. Þá eru gæðaviðmið fyrir barnavernd mikilvæg til þess að tryggja gæði þjónustu og stuðla að því að samræma þjónustu, verklag, ferli og kerfi auk þess að skýra þær kröfur sem gerðar eru til þjónustunnar.
    Forveri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, gaf út gæðaviðmið fyrir félagslega þjónustu í ágúst 2020. Þau viðmið voru unnin í náinni samvinnu við helstu hagsmunaaðila í málaflokknum, þ.e. fulltrúa frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Landssamtökunum Þroskahjálp, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum félagsmálastjóra, velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Öryrkjabandalagi Íslands. Gera má ráð fyrir að vinna að gerð gæðaviðmiða á sviði barnaverndar krefjist náinnar samvinnu við viðeigandi hagsmunaaðila í málaflokknum.
     Um 2. kafla: Málavogin innleidd til þess að meta álag á barnaverndarstarfsmenn.
    Gæði þjónustu í barnavernd eru meðal annars háð getu og sveigjanleika barnaverndarstarfsmanna til þess að veita þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Málavogin var tekin í notkun hér á landi að sænskri fyrirmynd en þar hafði þessi aðferð við mat á vinnuálagi í barnavernd verið í þróun frá árinu 2013 og þótti gefa góða raun. Þáverandi Barnaverndarstofa lét þýða og staðfæra Málavogina með aðstoð sænskra sérfræðinga og í samvinnu við barnaverndarnefndir.
    Málavogin skráir vinnuálag hjá hverjum starfsmanni fyrir sig þannig að yfirmenn fái betri yfirsýn yfir stöðuna á vinnustaðnum og á breytingum á ákveðnu tímabili. Málavogin sem slík er ekki mælikvarði á gæði þeirrar vinnu sem starfsfólk í barnavernd sinnir. Barnaverndarmál geta verið afar ólík að umfangi og innihaldi og því erfitt að meta vinnuálag starfsfólks með því einu að horfa á fjölda mála sem hver um sig þarf að sinna.
    Málavogin var síðast endurskoðuð hér á landi árið 2018 og í raun er íslenska Málavogin mun ítarlegri og yfirgripsmeiri en fyrirmyndin. Nýjasta útgáfa Málavogarinnar var í kjölfar endurskoðunar gefin út 2019 eftir samtal og samvinnu við fulltrúa barnaverndarnefnda til að koma til móts við upplifun þeirra sem höfðu nýtt hana.
    Árið 2020 fór fram könnun á notkun Málavogarinnar og árið 2022 var gerð úttekt á áreiðanleika, uppbyggingu og notkunarmöguleikum. Í niðurstöðum úttektarinnar kom meðal annars fram að vista þurfti verkefnið innan stjórnkerfisins, þ.e. umsjón, viðhald, hönnun kerfa og breytingar. Þá kom í ljós að hér á landi vantaði samræmdar upplýsingar um einstök atriði Málavogarinnar, svo sem málafjölda, álag og þróun álags frá ári til árs.

Um f-lið: Endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.

    Hugtakið fylgdarlaust barn er skilgreint í 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Átt er við barn sem komið hefur inn á yfirráðasvæði ríkis án forsjáraðila. Hafi barn verið skilið eftir án fylgdar eftir að það kemur á yfirráðasvæði ríkisins telst það jafnframt fylgdarlaust. Barn er einnig fylgdarlaust ef það kemur til landsins í fylgd annarra en forsjáraðila ef viðkomandi er ekki með tilskilda heimild til að ferðast með barnið.
    Málefni fylgdarlausra barna eru oftar en ekki flókin og börnin yfirleitt í þörf fyrir mikla þjónustu og stuðning til þess að geta fótað sig svo vel sé í íslensku samfélagi. Auk þess eru fylgdarlaus börn talin vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu þar sem þau eru meðal annars útsett fyrir mansali og annars konar misbeitingu sé öryggi þeirra ekki tryggt. Því er brýnt að verklag við móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn sé endurskoðað og bætt til þess að endurspegla núverandi stöðu í málaflokknum.
    Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025, nr. 29/152, snúa aðgerðir 5.5.1 og 5.5.2 að endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.
    Vegna mikils fjölda fylgdarlausra barna sem hafa komið til landsins síðastliðið ár hefur þörf sveitarfélaganna fyrir ráðgjöf Barna- og fjölskyldustofu aukist til muna. Ljóst er að þörf er fyrir áframhaldandi ráðgjöf Barna- og fjölskyldustofu í málaflokknum til næstu fjögurra ára. Auk þess er mikilvægt að veita starfsfólki barnaverndarþjónustu almenna fræðslu um málefnið og leiðbeinandi verklag til þess að styðjast við. Mikilvægt er að rannsóknir og greiningar sem liggja fyrir verði nýttar til að gera nauðsynlegar úrbætur.

Um g-lið: Könnun alvarlegra atvika.

    Ár hvert býr hópur barna við aðstæður þar sem þau upplifa ýmiss konar ofbeldi eða vanrækslu og verða sum þeirra fyrir alvarlegum skaða af þeim sökum. Í alvarlegustu tilfellunum geta slíkar aðstæður kostað þau lífið. Til þessa hefur ekki verið samræmd skráning yfir tíðni mála þar sem börn skaddast alvarlega eða láta lífið vegna ofbeldis eða vanrækslu. Engum er falið lögum samkvæmt að kanna heildstætt mál barns sem deyr eða hefur hlotið alvarlegan skaða vegna ofbeldis eða vanrækslu. Í slíkum tilvikum er þörf á gerð heildstæðrar könnunar þvert á þau þjónustukerfi sem hafa afskipti af málefnum barna.
    Viðbragðsteymi vegna dauðsfalla barna (e. Child Death Review Teams eða Multi-disciplinary child death review team) var fyrst sett á laggirnar í Bandaríkjunum í kjölfar fjölgunar dauðsfalla barna vegna ofbeldis eða vanrækslu. Á undanförnum árum hafa fleiri ríki sett á laggirnar sambærileg viðbragðsteymi, t.d. England, Ástralía og Nýja-Sjáland. Í slíkum teymum eru fulltrúar dóms-, heilbrigðis- og barnaverndarkerfis og hafa það markmið að varpa ljósi á dauðsföll barna og koma með ábendingar um hvernig megi fækka þeim. Lögð er áhersla á að þróa aðferðir til að bæta heilsu og öryggi barna, bæta samskipti milli stofnana, greina orsakir og viðbrögð við dauðsfalli og safna og birta upplýsingar um öll dauðsföll barna.
    Auk þess hafa England, Írland, Skotland og Wales rýnt alvarleg atvik þar sem barn hefur dáið eða orðið fyrir alvarlegum skaða vegna ofbeldis eða vanrækslu. Á Englandi hefur til að mynda starfað óháð nefnd (e. Child Safeguarding Practice Review Panel) sem hefur það lögbundna hlutverk að kanna alvarleg barnaverndarmál óháð því hvort mál er á borði barnaverndaryfirvalda. Markmið nefndarinnar er að hafa öflugt yfirlit þvert á þjónustukerfin sem hafa afskipti af málefnum barna og vera leiðandi í þekkingu á sviði barnaverndar, meðal annars með því að efla barnvæna nálgun í barnaverndarstarfi og taka mið af sjónarmiðum barna, fjölskyldna þeirra og samfélagsins varðandi umbætur og stefnumótun í barnavernd og til að auka þekkingu. Einnig með því að notast við gögn og niðurstöður mála sem hafa verið rýnd til þess að knýja fram umbætur í barnaverndarkerfinu. Skilgreining alvarlegra atvika í fyrrgreindum löndum: Ofbeldi eða vanræksla er staðfest eða grunur um slíkt og barnið lést eða hlaut alvarlegan skaða.
    Mikilvægt er að koma á fót sjálfstætt starfandi viðbragðshóp sem er falið að gera athugun á alvarlegum atvikum tengdum börnum, sem myndu t.d. falla undir tilkynningarskyldu barnaverndarlaga, óháð því hvort mál er opið. Slíkur viðbragðshópur þarf að starfa þvert á stofnanir svo að unnt sé að rýna ferli máls þvert á þau þjónustukerfi sem hafa afskipti af málefnum barna. Huga þarf að því með hvaða hætti t.d. þjónustuaðilar eða sveitarfélög geti vísað alvarlegum atvikum til hópsins og að hópurinn hafi allar þær heimildir sem þörf er á til þess að ná markmiðum könnunar alvarlegra atvika.

Um h-lið: Rannsóknir á sviði barnaverndar.

    Rannsóknir á sviði barnaverndar eru mikilvægar til þess að öðlast betri skilning á barnaverndarþjónustu á landinu og áhrifum ólíkra úrræða á líf barna og fjölskyldna þeirra. Mat á árangri barnaverndarúrræða er mikilvægt til þess að skilja með hvaða hætti megi bæta og þróa þjónustu auk þess sem rannsóknir gætu veitt greinargóðar upplýsingar um það sem betur mætti fara í barnaverndarstarfi. Slíkar upplýsingar eru einnig mikilvægar fyrir stefnumótun í málaflokknum.
    Í lögum um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, segir að eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar séu fræðilegar rannsóknir sem þjóni markmiðum laganna sem og stuðningur við þróunar- og rannsóknarstarf. Þá er einnig tekið fram að markmið stofnunarinnar sé að þróa og innleiða gagnreyndar aðferðir og úrræði í þágu barna auk almennrar og sérhæfðrar fræðslu.
    Í þessari framkvæmdaáætlun er lagt til að bætt verði við stöðugildi hjá Barna- og fjölskyldustofu vegna árlegra rannsókna og kannana á sviði barnaverndar og til að sjá um kynningar og útgáfu á niðurstöðum rannsókna og kannana á sviði barnaverndar ásamt því að vera tengiliður stofunnar við samstarfsverkefni Háskóla Íslands og mennta- og barnamálaráðuneytisins um farsæld barna.

Um i-lið: Húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.

     Um 1. kafla: Miðstöð fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.
    Ljóst er að þörf er fyrir stærra húsnæði fyrir helstu stofnanir sem hafa aðkomu að málefnum barna, þ.e. Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöð og Mennta- og skólaþjónustustofu, til þess að þær geti sinnt verkefnum sínum. Á tímabili þessarar áætlunar verði unnið að því að finna húsnæði fyrir starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Mennta- og skólaþjónustustofu þar sem stofnanirnar samnýti nútímalega aðstöðu með hagræði og samlegð að leiðarljósi í svokallaðri deiglu sem er brautryðjandi verkefni og fyrirmynd fyrir nýtingu húsnæðis hjá ríkinu hvað varðar nútímalegt og hagkvæmt vinnuumhverfi þvert á stofnanir, sbr. stefnu í húsnæðismálum ríkisins. Deigla er nýjung sem Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir hefur þróað og er stefnt á að opna nokkrar slíkar á komandi árum. Þar fá ríkisaðilar nútímalega aðstöðu þar sem fjölbreytt stoðrými eru samnýtt með öðrum stofnunum. Aðstaða verður fyrir störf án staðsetningar, fjarvinnu og tímabundin verkefni víða um landið. Þannig skapast mikið hagræði og samlegð auk þess sem aukin tækifæri skapast til þekkingarmiðlunar, samstarfs og nýsköpunar þvert á ríkisstofnanir.
    Sameining helstu stofnana sem hafa aðkomu að málefnum barna í eitt og sama húsnæðið myndi einnig auðvelda aðgengi að þjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda og fjölskyldur þeirra.
     Um 2. kafla: Meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda, eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma.
    Á tímabili síðustu framkvæmdaáætlunar var stefnt að því að ljúka öðrum áfanga um stofnun nýs meðferðarheimilis með áætlanagerð og ákvörðun um staðsetningu sem uppfyllti skilyrði frumathugunar, fullhönnunar mannvirkis og eftir atvikum breytinga á deili- og/eða aðalskipulagi. Framangreint er enn í vinnslu en mikilvægt er að fylgja því eftir enda mikil þörf fyrir slíkt úrræði. Meðferðarheimilið verður með 6–8 plássum í þremur aðskildum hlutum og er ætlað börnum sem þurfa sérhæfða meðferð á meðferðarheimili skv. 79. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, vegna alvarlegs hegðunar- og/eða vímuefnavanda. Þar munu unglingar á aldrinum 15–17 ára einnig geta afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma á forsendum meðferðarþarfar í stað fangelsis og eftir atvikum setið í gæsluvarðhaldi í lausagæslu. Áhersla verður lögð á meðferð áhættuþátta með þátttöku fjölskyldunnar, aðlögun að nærumhverfi, skóla eða vinnu og jákvæðar tómstundir.

Um j-lið: Eftirfylgni og innleiðing verkefna.

    Til þess að tryggt verði að þau verkefni sem lagt er upp með í þessari framkvæmdaáætlun geti orðið að veruleika er skipulögð eftirfylgni með innleiðingu þeirra mikilvæg. Slík eftirfylgni felur í sér að markmið hvers verkefnis sé skoðað út frá þeim mælikvarða sem hefur verið settur við hvert verkefni. Lagt er til að skipaður verði sérstakur eftirfylgnihópur með fulltrúum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu. Hópurinn hittist tvisvar á ári og fari yfir stöðu verkefna sem eru í framkvæmdaáætlun þessari. Árlega verði kynnt staða aðgerða fyrir stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefnd um málefni barna. Komi í ljós við eftirfylgni að ekki sé unnt að innleiða verkefni með þeim hætti sem lagt hefur verið til í framkvæmdaáætluninni skal eftirfylgnihópurinn koma með tillögur að leiðum að markmiðinu. Í þeim tilvikum skal eftirfylgnihópurinn kynna tillögurnar fyrir stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefnd um málefni barna.