Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 253  —  250. mál.




Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um kaup á vopnum og varnarbúnaði í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins.

Frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur.


     1.      Hver var fjöldi skotvopna í eigu lögreglunnar áður en undirbúningur hófst vegna öryggisgæslu á leiðtogafundi Evrópuráðsins? Svar óskast sundurliðað eftir gerð og tegund vopna, framleiðanda og magni.
     2.      Hvaða skotvopn voru keypt af hálfu íslenskra stjórnvalda í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins dagana 16. og 17. maí 2023? Svar óskast sundurliðað eftir gerð og tegund vopna, framleiðanda, magni og verði.
     3.      Hvaða önnur vopn og varnarbúnaður, þ.m.t. handvopn (t.d. kylfur), rafvarnarvopn, skotfæri, gúmmíkúlur, brynjur og búnaður til að aftra óeirðum, voru keypt af hálfu íslenskra stjórnvalda í aðdraganda leiðtogafundarins? Svar óskast sundurliðað eftir gerð og tegund búnaðar, framleiðanda, magni og verði.
     4.      Hvaða aðili tók ákvörðun um fjölda og tegund skotvopna sem keypt voru og á hvaða forsendum?
     5.      Hvaða lögregluembætti fer með yfirráð þessara vopna og búnaðar?
     6.      Hvaðan voru vopnin keypt? Óskað er eftir upplýsingum um söluaðila og upprunaland.
     7.      Hvenær fór kostnaðarmat fram vegna öryggisgæslu á leiðtogafundinum, hver sá um matið og á hvaða grundvelli? Hverjar voru forsendur matsins?
     8.      Reyndist kostnaður vegna öryggisgæslu á leiðtogafundinum í samræmi við kostnaðarmatið?


Skriflegt svar óskast.