Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 307  —  303. mál.




Beiðni um skýrslu


frá utanríkisráðherra um kosti og galla hugsanlegrar aðildar Íslands að tollabandalagi Evrópusambandsins.


Frá Eyjólfi Ármannssyni, Andrési Inga Jónssyni, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Ingu Sæland, Jakobi Frímanni Magnússyni og Tómasi A. Tómassyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um kosti og galla hugsanlegrar aðildar Íslands að tollabandalagi Evrópusambandsins.
    Metin verði efnahagsleg áhrif aðildar Íslands að tollabandalagi Evrópusambandsins án aðildar að sambandinu, kostnaðaráhrif á innflutning og útflutning til sambandsins og áhrif á kaupmátt almennings. Jafnframt verði metin áhrif á viðskipti við önnur ríki utan tollabandalagsins og sparnaður fyrirtækja og ríkisins af umfangsminni tollskýrslugerð o.fl.

Greinargerð.

    Beiðni þessi var áður flutt á 153. löggjafarþingi (857. mál).
    Fríverslunarsamningar og frjáls verslun milli landa hafa skilað íslensku samfélagi bættum lífskjörum. Ísland gekk í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) árið 1970 og í kjölfarið urðu viðskipti og vöruflutningar milli aðildarlanda mun hagfelldari en áður. Þetta hafði í för með sér aukinn kaupmátt neytenda og bætta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
    Með aðild að EES-samningnum hefur Ísland aðgang að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Innri markaðurinn grundvallast á fjórfrelsinu svokallaða. Í því felst að innan Evrópska efnahagssvæðisins er frjálst flæði á vörum, fólki, þjónustu og fjármagni. Aðildarríki verða því að tryggja að lög og reglur hindri ekki viðskipti á svæðinu. Fjórfrelsið kemur þó ekki í veg fyrir ákveðnar hindranir í viðskiptum milli Íslands og Evrópska efnahagssvæðisins.
    Með þessari skýrslubeiðni er ekki verið að hvetja til inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Markmiðið er að kanna hvort bæta megi hag íslenskra neytenda og fyrirtækja með auknu frelsi í viðskiptum.
    Grundvallaratriði hér er að innganga í ESB er ekki skilyrði fyrir þátttöku í tollabandalaginu. Nokkur Evrópuríki eru aðilar að tollabandalaginu en standa utan Evrópusambandsins. Þar ber helst að nefna Tyrkland, en einnig eru Mónakó, Andorra, San Marínó og fleiri smáríki þátttakendur í tollabandalaginu. Sérreglur, settar í kjölfar Brexit, gera það að verkum að sömu reglur gilda um Norður-Írland og aðrar bandalagsþjóðir en þess í stað eru tollhindranir milli Norður-Írlands og Bretlands.
    Mikilvægt er að íslenskt efnahagslíf og fyrirtæki fái notið hlutfallslegra yfirburða sinna í frjálsum viðskiptum. Viðskiptahindranir sem felast í inn- og útflutningstollum og óþarfa tollskýrslugerð draga úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðavísu. Því telja flutningsmenn mikilvægt að kanna hvort hægt sé að ná betri árangri með inngöngu í tollabandalagið.
    Þrátt fyrir að flestar vörur séu tollfríar við flutning milli Íslands og ESB-ríkja þarf eigi að síður að tollafgreiða þær með tilheyrandi töfum og kostnaði. Þá eru tollar lagðir á ýmsar íslenskar sjávarútvegsafurðir og landbúnaðarafurðir. Þetta er vegna þess að Ísland er ekki aðili að tollabandalagi ESB-ríkjanna.
    Æskilegt er því að kortlagning á áhrifum á viðskipti Íslands og ríkja innan tollabandalagsins og viðskipti Íslands við önnur ríki liggi fyrir. Mikilvægt er að fyrir liggi mat á því hver yrði ábati íslenskra neytenda og íslenskra fyrirtækja af aðild Íslands að tollabandalaginu og hvort aðild kynni að hafa í för með sér neikvæðar afleiðingar. Í ljósi þess að fordæmi eru fyrir því að ríki utan ESB eigi aðild að tollabandalaginu er mikilvægt að íslensk stjórnvöld kanni kosti og galla slíkrar aðildar.