Ferill 304. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 308  —  304. mál.




Beiðni um skýrslu


frá dómsmálaráðherra um vændi á Íslandi.


Frá Brynhildi Björnsdóttur, Steinunni Þóru Árnadóttur, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Bjarna Jónssyni, Jódísi Skúladóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Dagbjörtu Hákonardóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Jóhanni Páli Jóhannssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Hildi Sverrisdóttur og Höllu Signýju Kristjánsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um vændi á Íslandi. Í skýrslunni verði fjallað um:
     a.      Áhrif laga nr. 54/2009, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, og reynslu af þeim.
     b.      Helstu tölur um dóma sem fallið hafa og refsingu sem ákveðin hefur verið eftir að nefndum lögum var breytt.
     c.      Móttöku brotaþola og meðferð vændismála hjá lögreglu.
     d.      Helstu lýðfræðileg gögn um fólk í vændi.
     e.      Gerendur vændis á Íslandi.
     f.      Þolendur vændis á Íslandi.
     g.      Farandvændi.
     h.      Miðlun og sölu á stafrænu vændi.
     i.      Afleiðingar vændis fyrir þolendur.
     j.      Samfélagsleg áhrif vændis.

Greinargerð.

    Umræða um vændi og kynlífsþjónustu hefur verið áberandi undanfarin ár enda hafa breytingar orðið á eðli þess og umfangi. Beiðni þessi er lögð fram til að skapa grundvöll fyrir upplýsta umræðu um málaflokkinn.
    Guðrún Ögmundsdóttir lagði fram beiðni um skýrslu um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl. á 126. löggjafarþingi (þskj. 625, 51. mál). Sama ár kynnti Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, áfangaskýrslu sem nefndist Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Skýrsluna er unnt að nálgast á vef Stjórnarráðsins. Síðan eru liðin fleiri en tuttugu ár. Meðfram örri fólksfjölgun, samfélagsbreytingum og tækniframförum er eðlilegt að rannsaka þennan mikilvæga málaflokk ofan í kjölinn á ný. Þá voru gerðar veigamiklar breytingar á almennum hegningarlögum árið 2009 þar sem vændiskaup voru gerð refsiverð en vændissala ekki. Rannsóknir hafa einnig sýnt að afleiðingar vændis eru alvarlegar, bæði fyrir brotaþola og samfélagið.
    Með því að taka saman skýrslu af þeim toga sem hér er farið fram á er hægt að vinna að endurbótum og frekari stefnumótun í málaflokknum. Þá getur skýrsla um vændi skipt sköpum fyrir þau sem vinna innan málaflokksins, hvort sem það er lögregla, heilbrigðisstarfsfólk eða félagasamtök.