Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 312  —  308. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um útboð á rekstri heilsugæslustöðvar á Akureyri.


Flm.: Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Hildur Sverrisdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Jón Gunnarsson, Teitur Björn Einarsson.


    Alþingi ályktar að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að bjóða út rekstur heilsugæslu á Akureyri.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er flutt í þriðja sinn en var síðast lögð fram á 153. löggjafarþingi (42. mál) en hlaut ekki afgreiðslu.
    Samkvæmt ákvörðun þáverandi heilbrigðisráðherra frá 7. nóvember 2019 verða opnaðar tvær nýjar starfsstöðvar heilsugæslu á Akureyri. Með því að bjóða út rekstur annarrar heilsugæslustöðvarinnar er tryggt að heimilislæknum standi einnig til boða að reka eigin þjónustu eins og aðrir sérfræðilæknar hafa kost á. Leiða má líkur að því að auknir valmöguleikar hvað varðar rekstrarform hafi í för með sér að auðveldara verði að fá heimilislækna til starfa á Akureyri, en oft á tíðum hefur reynst erfitt að fá sérfræðinga, hvort sem er á sviði læknisfræðinnar eða annarra sérfræðigreina, til starfa á landsbyggðinni og því mikilvægt að gera starfsumhverfi þeirra eins fjölbreytt og aðlaðandi og unnt er.
    Reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum hefur verið góð og njóta þær almennt meira trausts en aðrar heilsugæslustöðvar, sbr. þjónustukönnun Maskínu fyrir allar 19 heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019. Þar kom fram allar fjórar einkareknu heilsugæslur höfuðborgarsvæðisins voru ofarlega á lista yfir þær heilsugæslustöðvar sem nutu mest trausts. Í sömu könnun var spurt um ánægju viðskiptavina með þá þjónustu sem heilsugæslustöðvarnar buðu upp á og var niðurstaðan aftur afgerandi, en einkareknu heilsugæslustöðvarnar fjórar röðuðu sér í fjögur efstu sætin.
    Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva eru ótvíræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki einungis upp á þann kost á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig tryggja landsbyggðinni möguleika á að nýta sér þjónustu þeirra. Hinn 4. júlí 2022 auglýstu Sjúkratryggingar Íslands eftir rekstraraðila til að reka nýja heilsugæslustöð í Reykjanesbæ. Því er kjörið tækifæri að halda þessari þróun áfram í átt að öflugri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.