Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 324  —  320. mál.




Fyrirspurn


til félags- og vinnumarkaðsráðherra um búsetuúrræði fatlaðs fólks.

Frá Bryndísi Haraldsdóttur.


     1.      Hvaða rök liggja að baki þeim ákvæðum í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 370/2016, að þar sem nokkrar íbúðir eru í sama fjölbýlishúsi skuli miða við að fjöldi samliggjandi íbúða á hæð eða stigagangi sé ekki fleiri en sex og að hámarki tíu í sama húsi, svo og að íbúðir skuli ekki vera fleiri en sjö ef um er að ræða heimili með sameiginlegri aðstöðu?
     2.      Hver hefur kostnaðaraukning hins opinbera, ríkis og/eða sveitarfélaga, vegna þjónustu við fatlaða í herbergjasambýli verið samanborið við þjónustu í íbúðakjarna í kjölfar breytinga á lögum nr. 38/2018 og reglugerð settri með stoð í lögunum sem miðuðu að sjálfstæðri búsetu?
     3.      Með hliðsjón af fyrrnefndum breytingum á búsetuúrræðum, hefur ráðherra kannað kosti þess að fatlaðir geti haft val um að búa í herbergjasambýli frekar en í íbúðakjarna?
     4.      Hvernig skilgreinir ráðuneytið herbergjasambýli annars vegar og íbúðakjarna fyrir fatlaða annars vegar?
     5.      Eru til leiðbeiningar eða viðmið um skipulag húsnæðis fyrir fatlaða, sambærilegar þeim sem hafa verið gefnar út varðandi skipulag hjúkrunarheimila?


Skriflegt svar óskast.