Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
2. uppprentun.

Þingskjal 334  —  327. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.


Flm.: Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bjarni Jónsson, Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland, Ingibjörg Isaksen, Jakob Frímann Magnússon, Jódís Skúladóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Logi Einarsson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að Landhelgisgæslan komi upp fastri starfsstöð fyrir eina af þyrlum sínum á Akureyri í samstarfi við hagaðila á Akureyri.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar hafi starfsstöð á Akureyri allt árið um kring. Auk þess sem Akureyri er miðsvæðis á landinu, er augljós tenging við sjúkraflugið í landinu sem er staðsett á Akureyri. Þar geta læknar á Akureyri mannað hluta þyrluáhafnar eins og nú er reyndin í tengslum við sjúkraflugið. Í þessu samhengi er rétt að benda á að í fjölmiðlum hefur komið fram að tveir af sex þyrluflugstjórum gæslunnar búa fyrir norðan. Talið er að árlegur rekstrarkostnaður þyrlu á Akureyri sé um 500 millj. kr. og að uppbygging flugskýlis á Akureyrarflugvelli kosti 200–300 millj. kr. Nú þegar eru til staðar flugvirkjar sem geta sinnt viðhaldi auk þess sem starfsmenn í heilbrigðisstofnunum, slökkviliði og fleiri sem geta nýst starfseminni.
    Hlutfall þyrluflugs hefur verið um 15% af heildarsjúkraflugi í landinu. Mýflug hefur sinnt um 85% af sjúkrafluginu með sínum tveimur flugvélum. Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig sjúkraflugið dreifðist um landið árið 2015 og hvert þyrlur gæslunnar sóttu sjúklinga. Það sem myndin sýnir er hversu slæma eða lélega þjónustu hægt er að veita á austurhluta landsins þegar sjúkraflugi með þyrlum er einungis sinnt frá Reykjavíkurflugvelli.
    Fjarlægðirnar eru miklar og veðuraðstæður með þeim hætti að til að sinna sjúkraflutningum á austurhluta landsins með sjúkraþyrlum, í þeim tilfellum þar sem erfitt er að koma sjúkraflugi við, yrði nauðsynlegt að staðsetja þyrlu á svæðinu. Það er ekki langt síðan að sjöttu þyrluáhöfninni var bætt við hjá Landhelgisgæslunni sem þýðir að það eru tvær áhafnir á vakt um tvo þriðju hluta ársins. Með því að bæta við sjöundu þyrluáhöfninni væru tvær áhafnir til reiðu 95% af árinu. Það er mikilvægt skref sem nauðsynlegt er að stíga til þess að efla björgunargetu þyrluflugsveitar Landhelgisgæslunnar.

Áhættudreifing.
    Það er ekki skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni þegar kemur að eldsvoða, vatnstjónum og öðrum mögulegum skakkaföllum. Að hafa allar þyrlurnar fastar á sama veðurfarssvæðinu er óskynsamlegt. Að hafa þyrlur eingöngu staðsettar í Reykjavík dreifir illa þjónustu, sérstaklega er það afleitt fyrir Norðausturland og Austurland og hafsvæði þar út af eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Með þyrlu í Reykjavík og á Akureyri mætti ná til allra landshluta á þyrlu á innan við 90 mínútum á venjulegum degi og myndi björgunarviðbragð á norður- og austurmiðum styrkjast verulega.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skýrslur, ályktanir og umræðan.
    Þau sjónarmið að hafa þyrlu á Akureyri hafa einnig komið fram í ýmsum skýrslum. Vinnuhópur um skipulag sjúkraflutninga og bráðaþjónustu utan spítala á Norðurlandi benti árið 2009 á þann veikleika sem felst í að allar björgunarþyrlur þjóðarinnar séu staðsettar í Reykjavík. Annar verkefnahópur um endurskipulagningu sjúkraflutninga taldi árið 2012 að stefna ætti að því að sjúkraflug með þyrlum og flugvélum yrði bæði á Akureyri og í Reykjavík.
    Þegar byggja átti upp þyrluflota Landhelgisgæslunnar við brottför varnarliðsins ályktuðu ýmis samtök og stofnanir um að skynsamlegt væri að hafa fleiri en eina starfsstöð á landinu fyrir björgunarþyrlurnar til að stytta björgunartíma. Landspítalinn í Reykjavík benti á að í ljósi mikilvægis jöfnunar á heilbrigðisþjónustu landsmanna skyldi þyrla vera staðsett á Akureyri. Félag skipstjórnarmanna og Sjómannasamband Íslands tóku meðal annars undir það. Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar hvatti einnig til þess að tryggja staðsetningu björgunarþyrlu annars staðar en á suðvesturhorninu. Samtök útgerðarmanna vildu þyrlu á landsbyggðinni til að auka öryggi og margfalda þjónustugetu. Segja má að rökin að baki þessum ályktunum gildi enn þann dag í dag.
    Undanfarið hafa aðalvarðstjóri lögreglunnar á Akureyri og forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri tjáð sig um mikilvægi þess að þyrla Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri, eftir að þyrla var staðsett á Akureyri um verslunarmannahelgina. Það geti jafnframt valdið jákvæðum ytri áhrifum, svo sem betri hreyfanleika sérsveitar og myndi styðja við sjúkralið og lögreglu á svæðinu.

Samstarf við vinaþjóðir á norðurslóðum.
    Á undanförnum árum hefur Atlantshafsbandalagið (NATO) lagt meiri áherslu á viðveru af hálfu bandalagsins í norðanverðu Norður-Atlantshafi til að efla styrk bandalagsins á norðurslóðum.
    Að mati flutningsmanna sem leggja fram þessa þingsályktunartillögu er eðlilegt að líta til þess að á næstu árum efli íslenska ríkið getu sína til að sinna leit og björgun á hafsvæðinu í kringum Ísland. Nú þegar mikilvægi norðurslóða er að aukast er rétt að líta til þess hvernig hægt væri að styrkja þessa starfsemi hér á landi og þá jafnvel í samstarfi við vinaþjóðir innan Atlantshafsbandalagsins. Hér er rétt að líta til þess að Danir hyggjast í þessu skyni verja 1,5 milljörðum danskra króna eða um 30 milljörðum íslenskra króna. Þar er m.a. horft til þess að endurnýja þau fjögur varðskip sem þeir hafa haldið úti á Norður-Atlantshafi.
    Í skýrslu forsætisráðherra um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum sem kom út á síðasta ári kom fram að nauðsynlegt væri að leggja mat á viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar og gera ráðstafanir til þess að tryggja betur vöktun.
    Svæðið sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á spannar 1,9 milljónir ferkílómetra, svæðið er nítján sinnum stærra en Ísland.

Byggja á upp aukna björgunargetu.
    Flutningsmenn telja skynsamlegt að efla leitar- og björgunargetu á norðausturhluta landsins með því að staðsetja varanlega björgunarþyrlu á Akureyri, líkt og þekkist á höfuðborgarsvæðinu.
    Freyja með heimahöfn á Siglufirði var stórt skref í að efla björgunargetu Landhelgisgæslunnar og þá sérstaklega á hafsvæðunum norðan og austan við Ísland. Nú er rétt að líta til þess að staðsetja varanlega þyrlu á Akureyri og byggja upp öfluga starfsstöð á Norðurlandi.
    Þegar varnarliðið yfirgaf Ísland árið 2006 dró verulega úr björgunargetu hér á landi með þyrlum, á sínum tíma voru fimm þyrlur staðsettar á Keflavíkurflugvelli. Það hefur verið mikil vinna lögð í að styrkja þetta viðbragð. Flutningsmenn telja skynsamlegt að efla björgunargetu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á Norður- og Austurlandi og á hafsvæðunum þar út af með því að staðsetja björgunarþyrlu varanlega á Akureyri í góðri samvinnu við vinaþjóðir okkar.
    Skynsamlegt væri og í anda opinberrar stefnumörkunar og byggðafestu að byggja upp leitar- og björgunargetu á norðurslóðum við Eyjafjörð. Þar ætti að staðsetja sjúkra- og björgunarþyrlu.