Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 341  —  334. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (heimild til viðbótarálags).

Flm.: Indriði Ingi Stefánsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen.


1. gr.

    Við a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sveitarfélögum er heimilt að ákvarða sérstakt viðbótarálag, allt að 0,5%, á húsnæði í þéttbýli þar sem enginn hefur skráð lögheimili. Kjósi sveitarfélag að ákvarða slíkt viðbótarálag er því heimilt við álagningu þess að undanskilja fasteignir í eigu starfsmannafélaga eða stéttarfélaga að hluta eða öllu leyti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Mikilvægt er að grípa til aðgerða til að auka framboð á leiguhúsnæði til einstaklinga.
    Frumvarpi þessu er ætlað að skapa fjárhagslegan hvata fyrir eigendur fasteigna til að leigja þær einstaklingum frekar en til skammtímaleigu eða að eignir standi auðar.
    Með frumvarpi þessu er gætt meðalhófs með tilliti til almannahagsmuna sem ber að veita meira vægi en þeim sérhagsmunum sem eru í húfi. Jafnframt er vert að nefna að hér er eingöngu um að ræða heimild sveitarfélaga til þess að leggja á viðbótarálag en ekki skyldu. Verði frumvarpið að lögum yrði ákvæði þess til að skapa auknar tekjur fyrir sveitarfélög. Álagið kæmi til móts við skertar útsvarstekjur vegna tómra íbúða, íbúða í útleigu til ferðamanna eða orlofsíbúða.
    Þegar íbúðarhúsnæði er skipulagt eru innviðir í nágrenni eins og skólar og leikskólar byggðir í samræmi við fjölda íbúða. Ef fjöldi íbúða er í skammtímaleigu til ferðamanna er hætt við að innviðir í nágrenninu samræmist síður áætlaðri notkun. Íbúðir í skammtímaleigu til ferðamanna valda oft ónæði á öllum tímum sólarhrings. Hvati til fækkunar þeirra gæti því orðið til góðs fyrir bæði sveitarfélög og íbúa þeirra.