Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 354  —  347. mál.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um hlut fyrirtækja í hagnaðardrifinni verðbólgu.


Frá Indriða Inga Stefánssyni, Halldóru Mogensen, Birni Leví Gunnarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Gísla Rafni Ólafssyni, Ingu Sæland, Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Tómasi A. Tómassyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um hversu hagnaðardrifin verðbólga síðustu tveggja ára er og hver hlutur stórra og millistórra fyrirtækja, sem hafa veltu yfir 500 millj. kr. og hafa skilað ársreikningum til Skattsins, er í þeirri verðbólgu. Skýrslan taki tillit til flokkunar fyrirtækja eftir því hvort um sé að ræða smásölu, heildsölu, framleiðslu, þjónustu eða annan rekstur, ásamt því að draga fram samhengi hækkana á verði sem tengjast starfsemi fyrirtækjanna við tiltekna verðbólguþætti.

Greinargerð.

    Mikilvægt er að greina orsakir verðbólgu. Vísbendingar eru um að hækkanir fyrirtækja á álagningu á vörum hafi stuðlað að hærri verðbólgu. Þeirri spurningu hefur verið velt upp hvort fyrirtæki hafi nýtt sér auknar verðbólguvæntingar og fákeppni til að hækka álagningu á vörum. Tilgangur skýrslunnar væri að draga fram hlutdeild launa og annars kostnaðar í hækkunum fyrirtækja á álagningu á vörur og þar með í hækkun verðbólgu. Vaxtahækkanir hafa verið miklar hér á landi síðustu misseri án þess að frumorsakir verðbólgunnar hafi verið greindar.
    Ekki er útilokað að vaxtahækkanir geti unnið á verðbólgu en ljóst er að með því að afla gagna sem auka skilning á því hverjar orsakir verðbólgunnar eru væri auðveldara að sjá hvaða verkfæri henta og hvort vaxtahækkanir væru líklegar til að vinna gegn hækkun hennar.