Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 384  —  373. mál.




Beiðni um skýrslu


frá menningar- og viðskiptaráðherra um grænþvott.


Frá Orra Páli Jóhannssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Jódísi Skúladóttur, Bjarna Jónssyni, Steinunni Þóru Árnadóttur, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Elvu Dögg Sigurðardóttur, Jakobi Frímanni Magnússyni, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Andrési Inga Jónssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að menningar- og viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um grænþvott. Í skýrslunni verði fjallað um:
     a.      Stöðu og umfang grænþvottar á Íslandi.
     b.      Leiðbeiningar Neytendastofu um umhverfisfullyrðingar og heimildir til að takast á við grænþvott.
     c.      Gögn sem þurfa að liggja fyrir svo að eftirlitsaðili geti rannsakað álitamál sem tengjast grænþvotti.
     d.      Þróun lagaramma og eftirlits með grænþvotti annars staðar á Norðurlöndum (og í öðrum samanburðarlöndum) með tilliti til tillagna að lagabreytingum til eflingar eftirliti.
     e.      Hag neytenda af öruggu eftirliti með grænþvotti.
     f.      Leiðbeiningar til fyrirtækja sem vilja starfa á „grænan“ hátt.

Greinargerð.

    Samhljóða beiðni var leyfð á 152. og 153. löggjafarþingi (737. mál). Með grænþvotti er átt við markaðssetningu þar sem settar eru fram misvísandi eða rangar upplýsingar um umhverfiságæti vöru. Samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, teljast viðskiptahættir villandi ef þeir eru líklegir til að blekkja neytendur eða settar eru fram rangar staðhæfingar. Skýrslubeiðni þessi er lögð fram svo að greina megi umfang grænþvottar á Íslandi til hagsbóta fyrir neytendur, framleiðendur og umhverfi í senn.
    Á undanförnum árum hefur svokölluð græn markaðssetning aukist til muna og mikilvægt er að lög og reglur styðji við þá þróun svo að neytendur geti treyst á grænar merkingar. Starfsemi fyrirtækja þróast í takt við tímann og það að haga rekstri í takt við áherslur samfélagsins nú á dögum felur óhjákvæmilega í sér að starfsemin taki mið af loftslagsbreytingum, þróun sem er alla jafna jákvæð og styður við breyttar áherslur samfélagsins. Þessi þáttur er ekki síst mikilvægur að því er snertir samkeppni. Til þess að vera samkeppnishæf verða fyrirtæki því að stunda „græna“ markaðssetningu og miðla þannig til neytenda að um sé að ræða rekstur sem taki að fullu mið af framangreindum samfélagsbreytingum. Þegar slíkar fullyrðingar eru hafðar uppi í markaðssetningu er það hlutverk eftirlitsaðila að líta til innistæðu og ábyrgðar orða þeirra með tilliti til grænþvottar. Þannig getur grænþvottur verið brot á lögum, og Neytendastofa hefur sótt mál sem snúa að honum samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.
    Í árslok 2021 var eftirlit með grænþvotti eflt í Danmörku. Neytendastofa Danmerkur (d. Forbrugerombudsmanden) gaf þá út nokkrar grundvallarreglur sem lúta að háttsemi fyrirtækja í grænu markaðsumhverfi. Þær eru m.a.:
     *      Græn markaðssetning þarf að vera skýr, skilmerkileg og rétt, orðaval má ekki vera villandi (svo að neytendur hafi réttar upplýsingar) og ekki má halda mikilvægum upplýsingum leyndum.
     *      Fyrirtækjum ber að færa sönnur á fullyrðingar sínar með aðkomu fagaðila.
     *      Lífsferilsgreining skal liggja fyrir til stuðnings fullyrðingum sem tengjast grænni markaðssetningu.
    Þó að þessi atriði séu ekki tæmandi glöggva þau myndina og auka þungann í þeim leiðbeiningum sem neytendastofa Danmerkur hefur lagt til grundvallar grænni markaðssetningu. Einnig var lagður fram ítarlegur listi yfir skilyrði sem uppfylla þarf fyrir græna markaðssetningu, fyrirtækjum til stuðnings.
    Þá liggja fyrir Evrópuþinginu drög að breytingum á regluverki um grænþvott, en þar er kveðið á um strangari kröfur til fyrirtækja varðandi grænþvott. Samkvæmt drögunum verður gert refsivert að setja fram villandi grænar fullyrðingar. Áætlað er að nýja regluverkið taki gildi 2024–2025.
    Skýrslubeiðendur telja tilefni beiðni þessarar ærið því að varpa þarf ljósi á stöðu og umfang grænþvottar hér á landi og hvort til séu fullnægjandi heimildir til að takast á við hann. Ekki er síður mikilvægt að móta skýrar leikreglur um græna markaðssetningu, fyrirtækjum og neytendum til hagsbóta.