Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 389  —  378. mál.
Flutningsmenn. Breyttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010 (hækkun bankaskatts).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Í stað „0,145%“ í 4. gr. laganna kemur: 0,838%.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Gjaldhlutfall 4. gr. skal endurskoðað þegar vextir húsnæðislána fara undir 5%.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að hækka gjaldhlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki, svo nefnds bankaskatts, í 0,838%. Miðað við frumvarp til fjárlaga ársins 2024 myndi aðgerðin auka tekjur ríkissjóðs um rúma 30 ma. kr. á ársgrundvelli. Forsögu þessa skatts má rekja til hrunsins árið 2008, en með frumvarpi um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki var leitast við að hvetja fjármálafyrirtæki til að fjármagna sig með öruggari hætti, þ.e. að vera með hátt eigið fé og tryggð innlán.
    Allt frá upphafi árs 2014 hélst gjaldhlutfallið óbreytt, en með lögum nr. 131/2019 var ákveðið að lækka bankaskattinn úr 0,376% í 0,145%. Vert er að taka fram að auk þess voru sett ákvæði til bráðabirgða um hærri bankaskatt á árunum 2020, 2021 og 2022, en gjaldhlutfallið átti að vera 0,318%, 0,261% og 0,203% á þessum þremur árum. Þessi bráðabirgðaákvæði voru þó felld niður 1. apríl 2020 og hefur bankaskatturinn því verið 0,145% á síðustu árum. Ástæða lækkunarinnar var sögð vera til að auðvelda bönkum að lækka vexti á útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og auka útlán þeirra.
    Stóru íslensku bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkun bankaskattsins og sagt að með henni myndi vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, dragast saman. Meðal annars hefði þetta átt að leiða til ódýrari lána til heimila og fyrirtækja. Það er þó ljóst að lækkun bankaskattsins hefur ekki skilað sér í minni vaxtamun, og er hann svipaður nú og hann var árið 2018. Vaxtamunurinn hjá íslenskum bönkum er auk þess hár í norrænum samanburði, en hann hefur lítið breyst frá því að „Hvítbók um framtíð fjármálakerfisins“ kom út árið 2018. Þess má geta að meðalvaxtamunur íslenskra banka var 2,7% árið 2022 en hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð var hann 1,6%, og enn minni hjá stórum norrænum bönkum þar sem hann nam 0,9%. Þessar upplýsingar komu m.a. fram í skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra, sem hafði það verkefni að greina tekjumyndun, þar á meðal þóknanir, þjónustu- og vaxtatekjur og vaxtamun, viðskiptabankanna þriggja í norrænum samanburði. Þess má geta að bæði miðstjórn Alþýðusambands Íslands ásamt formanni BSRB, hafa bæði gagnrýnt lækkun bankaskattsins.
    Stóru viðskiptabankarnir þrír skiluðu 66,9 ma. kr. hagnaði árið 2022. Tekjur ríkissjóðs af bankaskattinum voru aðeins 5,3 ma. kr. sama ár. Það liggur ljóst fyrir að bankarnir eru meira en aflögufærir og rúmlega það til að taka á sig hækkun á bankaskattinum. Á tímum sem þessum verða þeir að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Því er lagt til að bankaskattur verði hækkaður í 0,838%. Lagt er til að skatthlutfallið verði endurskoðað þegar vextir á húsnæðislánum fara undir 5%.