Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 409  —  397. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um niðurgreiddar skólamáltíðir.


Flm.: Logi Einarsson, Kristrún Frostadóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að leggja til að skólamáltíðir framhaldsskólanema að 18 ára aldri verði niðurgreiddar, til samræmis við það sem víða tíðkast í grunnskólum. Ráðherra tryggi jafnframt fjármagn til að standa undir kostnaði við aðgerðina. Ráðherra leggi til breytingar á viðeigandi lögum eigi síðar en á vorþingi 2024.

Greinargerð.

    Engum ætti að dyljast mikilvægi þess að börn og ungmenni fái góða og næringarríka fæðu á löngum skóladögum. Til að tryggja það hafa flest ef ekki öll sveitarfélög boðið upp á niðurgreiddar skólamáltíðir fyrir nemendur sína en fyrirkomulag þess er þó með ýmsum hætti. Því má segja að öll skólabörn undir 18 ára aldri nema framhaldsskólanemar hafi aðgang að niðurgreiddum skólamáltíðum. Stór hluti framhaldsskólanema er undir 18 ára aldri og telst því vera börn samkvæmt lögum. Mikilvægt er að öllum börnum standi til boða niðurgreiddar máltíðir á skólatíma.
    Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tóku gildi 1. janúar 2022 felst að samfelld þjónusta skuli vera til staðar fyrir barn til 18 ára aldurs. Í skýrslu stýrihóps um eflingu framhaldsskóla segir: „Þar sem flest börn og ungmenni á aldrinum 16–18 ára verja deginum í framhaldsskólum landsins er mikilvægt að þar sé tryggt að kennsla, starfshættir og stuðningsúrræði veiti öllum jöfn tækifæri.“ Aðgangur að hollu og góðu fæði ætti ekki að vera undanskilinn.
    Niðurgreiddar skólamáltíðir eru sérstaklega mikilvægar börnum sem koma frá efnaminni heimilum og þeim sem þurfa að sækja framhaldsskóla langt frá heimili sínu, en þau börn eru oft í viðkvæmari stöðu en önnur.
    Forsætisráðherra vakti athygli á gjaldfrjálsum skólamáltíðum í óundirbúnum fyrirspurnartíma 16. október sl. Þar nefndi hún niðurgreiðslu skólamáltíða sérstaklega sem eitt þeirra mála sem mikilvæg gætu talist til að hlúa betur að börnum sem búa við fátækt og teldi hún ánægjulegt „að sjá sveitarfélögin taka þessi mál og setja á borðið sem sín stóru málefni.“
    Með samþykkt þingsályktunartillögunnar gæti ríkisvaldið einnig stigið mikilvægt skref og axlað sinn hluta ábyrgðar á niðurgreiddum skólamáltíðum barna og komið til móts við þá ábyrgð sem sveitarfélögin hafa að hluta til axlað.