Ferill 401. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 415  —  401. mál.




Frumvarp til laga


um brottfall laga um gæðamat á æðardúni, nr. 52/2005.

Flm.: Óli Björn Kárason, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Teitur Björn Einarsson, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Lög um gæðamat á æðardúni, nr. 52/2005, falla úr gildi. Jafnframt falla úr gildi stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið á grundvelli laganna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt lögum um gæðamat á æðardúni, nr. 52/2005, skal allur æðardúnn metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun og áður en kemur til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings skal liggja fyrir gæðamat dúnmatsmanns með vottorði. Markmið laganna var að tryggja lágmarksgæði og þannig hærra afurðaverð fyrir útfluttan æðardún. Í reglugerð nr. 350/5011, um gæðamat á æðardúni, er kveðið nánar á um framkvæmd matsins, starfsskyldur dúnmatsmanna og sjálft gæðamatið. Lögskipaðir dúnmatsmenn á árunum 2021–2026 eru 13 talsins en hið lögbundna mat gengur út á að fullhreinsa æðardún og að hann innihaldi hvorki ryk né aðskotahluti.
    Æðardúnn er vara sem býr yfir einstökum eiginlegum en um leið byggjast nytjar hans á fornum verkunaraðferðum, dýravernd og afar sérstöku sambandi manns og náttúru. Nauðsynlegt þykir að líta svo á að ekki sé einungis um að ræða hrávöru til útflutnings sem þurfi að tryggja að uppfylli tilteknar lágmarkskröfur. Árið 2013 kom út norsk skýrsla um framleiðslu æðardúns í Noregi, Færeyjum, á Íslandi og Grænlandi sem byggðist á sex ára samstarfsverkefni fulltrúa framangreindra ríkja. Í skýrslunni kemur m.a. fram að raunveruleg gæði æðardúns lúta ekki að hreinsun hans (ryki og aðskotahlutum) heldur þáttum eins og einangrunargildi, viðloðun (e. cohesion) og fyllingu (e. resilience). Í skýrslunni er jafnframt gerð grein fyrir mikilvægi mælanleika þessara þátta og vísbendingum í þá veru að mismunandi verkunaraðferðir hafi áhrif á gæðaeiginleika. Með vísan til framangreinds er talið mikilvægt að fylgja þessum vísbendingum eftir, þróa verkunaraðferðir með tilliti til þeirra og meta þýðingu þeirra fyrir vöruþróun og notkun æðardúns.
    Gæðavottun laganna er í stórum dráttum sniðin að 40–50 ára gömlum viðskiptaháttum sem setur starfseminni óeðlilegar skorður. Atvinnugreinin hefur verið í sókn undanfarin ár og hefur áhugi á að taka þátt í fullvinnslu æðardúns farið vaxandi enda hafa æ fleiri gert sér grein fyrir mikilvægi dúntekju fyrir náttúruvernd, ferðaþjónustu og þjóðlífið almennt. Samtímis er mikilvægt og eftirsóknarvert að stjórnvöld búi atvinnugreininni nútímalegt starfsumhverfi sem gerir henni kleift að vaxa og dafna.
    Með vísan til framangreinds er talið rétt að fella brott lögbundið kerfi um gæðamat á æðardúni. Breytingarnar eru til þess fallnar að létta álögum af atvinnugreininni og skapa aukin tækifæri til framþróunar. Með breytingunum verður mat dúnmatsmanna aflagt en Matvælastofnun mun hins vegar áfram annast útgáfu heilbrigðisvottorða, sbr. lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993. Breytingarnar eru því einnig gerðar í því skyni að auka skilvirkni í stjórnsýslu í þágu atvinnulífs og almennings. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun ábyrgð á gæðum æðardúns verða í höndum framleiðenda sjálfra líkt og almennt viðgengst í atvinnulífinu. Til skoðunar kann að koma að framleiðendur setji gæðastaðal fyrir æðardún á grundvelli mælanlegra eiginleika með það að markmiði að framleiðendur eða aðilar á þeirra vegum annist gæðamat og vottun á æðardúni. Í nokkur ár hafa aðilar í atvinnugreininni verið að útbúa staðal fyrir íslenskan æðardún í samvinnu við IDFL, sem er einn stærsti vottunaraðili á sviði dúns og textíls í heiminum. Verði frumvarp þetta samþykkt falla einnig úr gildi reglugerð nr. 350/2011 um gæðamat á æðardúni og gjaldskrá nr. 1064/2017 fyrir gæðamat á æðardúni.