Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 417  —  403. mál.




Beiðni um skýrslu


frá innviðaráðherra um kostnað foreldra við að brúa bilið frá fæðingarorlofi fram að dagvistun.


Frá Diljá Mist Einarsdóttur, Bryndísi Haraldsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni, Berglindi Hörpu Svavarsdóttur, Birgi Þórarinssyni, Teiti Birni Einarssyni, Óla Birni Kárasyni, Hildi Sverrisdóttur, Vilhjálmi Árnasyni, Ásmundi Friðrikssyni og Jóni Gunnarssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að innviðaráðherra flytji Alþingi skýrslu um kostnað foreldra við að brúa bilið frá fæðingarorlofi fram að dagvistun á leikskóla. Skýrslan verði unnin af óháðum sérfræðingum.
    Í skýrslunni verði fjallað um:
          Hver sé kostnaður foreldra við að brúa bilið frá því að fæðingarorlofsréttur foreldra er á enda og þar til barn hefur dagvistun á leikskóla.
          Hvert sé hlutfall þeirra foreldra sem geta ekki snúið aftur á vinnumarkað að loknu fæðingarorlofi vegna skorts á dagvistunarúrræðum.
          Áhrif bils milli fæðingarorlofsréttar foreldra og þar til barni býðst dagvistun á leikskóla á jafnrétti.
          Hversu þungt staðan leggist á heimili með tilliti til hjúskaparstöðu, félagslegrar stöðu og tekjutíundar.
    Framangreindir liðir verði sundurliðaðir eftir sveitarfélögum.

Greinargerð.

    Það er krafa í nútímasamfélagi að ríki og sveitarfélög geri ráðstafanir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla – fyrsta skólastigsins í skólakerfinu eins og það er skilgreint í lögum. Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, eiga foreldrar samanlagt rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Eitt af meginmarkmiðum laganna er að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf og var það talinn liður í því að minnka bilið á milli fæðingarorlofsréttar foreldra og þar til barni býðst dagvistun á leikskóla. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að fæðingarorlofskerfið hafi átt sinn þátt í góðum árangri við að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, en mikilvægt sé að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Frumvarpið var lagt fram af félags- og barnamálaráðherra og því framlag stjórnvalda og löggjafans í þessum efnum. Framlag sveitarfélaga hefur hins vegar verið æði misjafnt.
    Staða barna á Íslandi er mjög misjöfn milli sveitarfélaga þegar kemur að því að hefja menntun á fyrsta skólastiginu. Ef bil er á milli þess tíma þegar fæðingarorlofsréttur foreldra endar og þar til barni býðst dagvistun á leikskóla, er ljóst að foreldrar þurfa að brúa bilið með kostnaðarsömum skammtímalausnum, eða snúa hreinlega ekki aftur á vinnumarkað að loknu fæðingarorlofi.
    Krafa fólks um að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað endurspeglar breytta atvinnu- og samfélagshætti, þar sem flestir foreldrar eru útivinnandi. Það er mat skýrslubeiðenda að nauðsynlegt sé að skoða kostnað foreldra við að brúa bilið frá fæðingarorlofi fram að dagvistun á leikskóla. Þá sé nauðsynlegt að skoða áhrif þessa á fólk eftir búsetu og aðrar breytur sömuleiðis.