Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 421  —  405. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (lífeyrisþegar búsettir erlendis).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 2. mgr. 1. gr. skal greiða lífeyrisþega sem er búsettur erlendis heimilisuppbót, nema sýnt sé fram á að hann njóti sambærilegs stuðnings í því ríki sem hann flytur til.

2. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 2. mgr. 1. gr. skal greiða lífeyrisþega sem er búsettur erlendis sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu, nema sýnt sé fram á að hann njóti sambærilegs stuðnings í því ríki sem hann flytur til.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

Greinargerð.

    Þegar lífeyrisþegi flytur frá Íslandi til annars ríkis getur það haft áhrif á lífeyrisréttindi hans og önnur félagsleg réttindi. Búseta á Íslandi er skilyrði fyrir tryggingavernd, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar, en frá þeirri meginreglu eru undantekningar, svo sem ef annað leiðir af milliríkjasamningum. Ísland er aðili að nokkrum slíkum milliríkjasamningum. Ber þar helst að nefna EES-samninginn, en á grundvelli 29. gr. samningsins hefur verið innleidd reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa (reglugerð EB nr. 883/2004). Vegna þess geta Íslendingar flust til annarra EES-ríkja án þess að missa rétt til töku elli- eða örorkulífeyris.
    Öðru máli gegnir um félagsleg réttindi sem falla ekki undir lög um almannatryggingar, jafnvel þótt viðkomandi réttindaflokkar séu beintengdir lífeyri almannatrygginga. Búseta á Íslandi er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir þeim réttindum sem fjallað er um í lögum um félagslega aðstoð, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Heimilisuppbót og sérstaka framfærsluuppbótin falla því niður ef lífeyrisþegi flytur til útlanda þótt hann fái áfram greiddan örorku- eða ellilífeyri frá íslenska ríkinu. Heimilisuppbót er aðeins greidd til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, og sérstaka framfærsluuppbótin greiðist eingöngu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Örorkulífeyrisþegi, sem engar aðrar tekjur hefur, getur átt von á 37% tekjuskerðingu ef hann flytur til annars EES-ríkis. 1 Undanfarinn áratug hafa stjórnvöld sífellt valið þá leið að auka vægi heimilisuppbótar og sérstöku framfærsluuppbótarinnar með þeim afleiðingum að réttindaflokkarnir eru órjúfanlegur þáttur af nauðsynlegri framfærslu lífeyrisþega. Falli réttindin niður vegna flutnings til annars EES-ríkis felst í því mismunun á grundvelli búsetu.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um félagslega aðstoð sem miða að því að tryggja að þeir lífeyrisþegar sem kjósa að búa erlendis verði ekki fyrir tekjuskerðingu vegna þess að heimilisuppbót eða sérstök framfærsluuppbót fellur niður.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er skýrt kveðið á um að greiða skuli heimilisuppbót til lífeyrisþega án tillits til þess hvort hann eigi lögheimili á Íslandi, nema sýnt sé fram á að hann njóti sambærilegs stuðnings í því ríki sem hann flytur til. Áfram verður lífeyrisþegi að uppfylla þau skilyrði sem koma fram í 1.–3. mgr. 8. gr. Í því felst að þrátt fyrir að lífeyrisþegi sé búsettur erlendis getur hann ekki öðlast rétt til heimilisuppbótar nema hann búi einn og sé einn um heimilisrekstur. Þá er heimilisuppbót aðeins greidd til lífeyrisþega, þ.e. þeirra sem njóta tryggingaverndar samkvæmt lögum um almannatryggingar, og því fellur réttur til heimilisuppbótar niður ef réttur til töku lífeyris fellur niður, svo sem vegna flutnings til ríkis sem hefur ekki gert milliríkjasamning um samræmingu almannatrygginga við Ísland.

Um 2. gr.

    Hér er kveðið á um að greiða skuli sérstaka uppbót á lífeyri til lífeyrisþega án tillits til þess hvort hann eigi lögheimili á Íslandi, nema sýnt sé fram á að hann njóti sambærilegs stuðnings í því ríki sem hann flytur til. Vert er að taka fram að undanþágan tekur ekki til þeirra uppbóta sem fjallað er um í 1. mgr. 9. gr., en fjallað er um sérstaka uppbót á lífeyri í 2. mgr. 9. gr.

Um 3. gr.

    Lagt er til að miða gildistöku frumvarpsins við upphaf árs 2024. Það hendir reglulega að breytingar á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar sem taka gildi á miðju ári hafi í för með sér ófyrirséð áhrif á önnur fjárhagsleg réttindi. Til að auðvelda framkvæmd laganna og koma í veg fyrir slík óæskileg afleidd áhrif er lagt til að miða gildistöku við upphaf árs.
1     Miðað við fyrsta örorkumat 40 ára. Reiknivél TR: www.tr.is/reiknivel/