Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 434  —  414. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015 (atvinnusjúkdómar).

Flm.: Birgir Þórarinsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Gísli Rafn Ólafsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Elva Dögg Sigurðardóttir , Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 2. mgr. 5. gr. a laganna bætist: þ.m.t. hvaða gerðir krabbameina skulu teljast bótaskyldir atvinnusjúkdómar hjá slökkviliðsmönnum.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Sambærileg tillaga var flutt sem breytingartillaga við stjórnarfrumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga á 151. löggjafarþingi (424. mál). Breytingar á lögunum voru samþykktar á Alþingi í júní 2021 án þess að tekið væri tillit til breytingartillögunnar. Með lagabreytingunni 2021 var kveðið á um að tryggingavernd laganna næði einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma ásamt því að skilgreint var í lögunum hvað felst í atvinnusjúkdómi, en það er sjúkdómur „sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi“. Við meðferð málsins á Alþingi sendi Landssamband slökkviliðsmanna velferðarnefnd þingsins umsögn um málið þar sem óskað var eftir því að krabbamein hjá slökkviliðsmönnum yrði skilgreint sem atvinnusjúkdómur.
    Á grundvelli laganna setti heilbrigðisráðherra reglugerð um atvinnusjúkdóma nr. 390/2023 sem ætlað er að tryggja slysatryggðum bætur frá almannatryggingum vegna atvinnusjúkdóma sem þeir hafa greinst með. Í umræddri reglugerð er ekkert fjallað um hvort og þá hvaða starfsstéttir geti hugsanlega verið útsettari fyrir því að greinast með sjúkdóma vegna atvinnu og starfsumhverfis. Landssamband slökkviliðsmanna skilaði umsögn um drög að reglugerð heilbrigðisráðherra þar sem sambandið telur ekki gengið nægilega langt til að tryggja rétt þeirra stétta sem eru útsettari fyrir atvinnusjúkdómum og að kerfið sé of þungt fyrir einstaklinga sem greinast með atvinnusjúkdóma líkt og krabbamein meðal slökkviliðsmanna.
    Í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu hefur verið sett löggjöf sem tryggir slökkviliðsmönnum rétt vegna atvinnusjúkdóma sem á grundvelli vísindalegra upplýsinga er hægt að tengja beint við starf og starfsumhverfi slökkviliðsmanna. Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að heilbrigðisráðherra tiltaki í reglugerð sinni, sem sett er á grundvelli 5. gr. a laganna, sérstaklega þær tegundir krabbameina sem algengar eru á meðal slökkviliðsmanna og hvergi er minnst á í reglugerð nr. 390/2023.
    Störf slökkviliðsmanna hafa frá og með 1. júlí 2022 verið skilgreind sem krabbameinsvaldandi af hálfu undirdeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (IARC). Í kjölfarið af breyttri hættuflokkun starfa slökkviliðsmanna úr flokki 2B (hugsanlega krabbameinsvaldandi) yfir í flokk 1 (staðfest krabbameinsvaldandi) var haft eftir Magnúsi Smára Smárasyni, þáverandi formanni Landssambands slökkviliðsmanna, að mikilvægt væri að löggjöf skilgreini krabbamein tengd starfi slökkviliðsmanna sem atvinnusjúkdóm og tryggi réttindi þeirra sem hafa greinst eða munu greinast með starfstengd krabbamein. Þeir sem sinna slökkvistörfum eru útsettir fyrir starfsumhverfi sem eykur líkur á heilsubresti og þá sérstaklega ákveðnum gerðum krabbameina. Slökkviliðsmenn eru allt að tvöfalt líklegri til að fá ákveðnar tegundir krabbameina, m.a. í fleiðru og þvagblöðru, sem flutningsmönnum frumvarps þessa finnst eðlilegt að séu sérstaklega tilgreindar í reglugerð heilbrigðisráðherra sem sett er á grundvelli 5. gr. a laga um slysatryggingar almannatrygginga. Þá eru einnig sterkar vísbendingar um hugsanleg tengsl slökkvistarfa við önnur mein eins og krabbamein í ristli, blöðruhálskirtli, eistum og húð. Telja flutningsmenn frumvarps þessa að Alþingi beri skylda til að tryggja betur rétt slökkviliðsmanna sem hafa greinst eða munu greinast með starfstengd krabbamein til bóta, enda um að ræða starfsstétt sem hættir lífi sínu í þágu öryggis og heilsu Íslendinga.