Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 445  —  424. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (veltumörk).

Flm.: Friðjón R. Friðjónsson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Teitur Björn Einarsson, Diljá Mist Einarsdóttir.


1. gr.

    Í stað „2.000.000 kr.“ í 3. tölul. 4. gr. laganna kemur: 3.000.000 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

Greinargerð.

    Í 3. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga er kveðið á um að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 2.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili, frá því að starfsemi hefst, séu undanþegnir skyldu til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Slíkir aðilar þurfa því ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni en geta á hinn bóginn ekki fengið frádreginn virðisaukaskatt vegna innkaupa sinna.
    Upphaflegur tilgangur undanþáguákvæðis 3. tölul. 4. gr. laganna var að undanþiggja skattskyldu mjög lítil fyrirtæki eða starfsemi sem eingöngu væri rekin í hjáverkum eða stöku sinnum. Undanþágan helgaðist fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum. Rétt er að geta þess að skráð fyrirtæki sem kaupa aðföng af óskráðum fyrirtækjum, sem þurfa ekki að skila skatti af sölu sinni, geta ekki fengið frádreginn neinn innskatt af þeim kaupum.
    Upphaflega námu veltumörk 3. tölul. 4. gr. laganna 100.000 kr. en hafa frá gildistöku virðisaukaskattslaga verið hækkuð fjórum sinnum, fyrst árið 1997 upp í 220.000 kr., aftur árið 2008 upp í 500.000 kr., í þriðja sinn árið 2011 upp í 1.000.000 kr. og að lokum árið 2016 með gildistöku 1. janúar 2017 upp í gildandi veltumörk, 2.000.000 kr. Eftirfarandi röksemdir hafa legið hækkunum til grundvallar:
     1.      Hagkvæmnisástæður. Einföldun rekstrarumhverfis þeirra aðila sem hafa lítil umsvif.
     2.      Samræmi við atvinnuskynsreglu 5. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaga. Reglan kveður á um að eigi skuli skrá aðila á virðisaukaskattsskrá ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
     3.      Raunlækkun veltumarka vegna verðlagsbreytinga.
     4.      Í samræmi við fjárhæðir veltumarka í helstu samanburðarlöndum.
    Veltumörkin eru ekki vísitölutengd og lækka því að raungildi með tíð og tíma. Ef veltumörk gildandi laga eru uppreiknuð miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá júní 2016 til september 2023 nema þau 2.750.065 kr. Með það fyrir augum að létta reglubyrði smærri aðila, bregðast við raunlækkun veltumarka vegna verðlagsbreytinga og létta álagi á skattyfirvöldum er lagt til að veltumörk 3. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga verði hækkuð úr 2 millj. kr. í 3 millj. kr.